Vilja SA & VÍ fylgja fordæmi eina Norðurlandsins sem er neðar en Ísland í PISA?

Samtök Atvinnulífsins og Viðskiptaráð hafa kynnt sínar áherslur í menntamálum í skýrslunni Stærsta efnahagsmálið: Sóknarfæri í menntun, sem kom út í síðasta mánuði. Helstu áherslurnar í skýrslunni virðast snúast fyrst og fremst um aukna aðkomu einkageirans að menntakerfinu og þá helst í formi einkarekinna skóla sem þó verða kostaðir af hinu opinbera. Það eru ansi margir veikir punktar í skýrslunni en ég ætla aðallega að tala hér um gröf sem kemur fram strax á bls. 9. Umfjöllunin hér er um meintan slakan árangur íslenskra nemenda á PISA og sérstaklega fundið að því að okkar nemendur skuli koma illa út í samanburði við önnur Norðurlönd þrátt fyrir það mikla fjármagn sem sett er í íslenska skólakerfið. Þessi mynd er svo birt til að sýna lesandanum hversu alvarlegur þessi mikli vandi er:

VI_SA_Menntun

Höfum nú í huga að skýrsluhöfundar halda því fram að íslenskir skólar kosta of mikið og ná ekki ásættanlegum árangri. Miðað við þessar forsendur og það sem kemur fram í myndinni fyrir ofan ættum við helst að fylgja fordæmi Finna. Þeir ná lang besta árangri miðað við fjárútlát. Um þetta verður ekki deilt. Þetta kemur mjög skýrt fram.

Höfum nú í huga hvað skýrsluhöfundar vilja að verði gert til að bjarga íslenska skólakerfinu, þ.e. að einkaaðilar fái opinbert fjármagn til að sjá um rekstur skóla. Það er aðeins eitt Norðurland sem hefur tekið upp slíkt fyrirkomulag að einhverju ráði. Það er Svíþjóð. Lítum nú aftur á myndina fyrir ofan. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að skýrsluhöfundar séu s.s. að leggja til að við fylgjum fordæmi eina Norðurlandsins sem er fyrir neðan Ísland í PISA!!!


Hvað hefur fræðasamfélagið um málefni framhaldsskóla að segja?

HvitbokÁ vef MenntaMiðju birtist í dag brot úr umræðu fræðimanna um Hvítbók um umbætur í menntun og málefni framhaldsskóla sem hefur farið fram innan Menntavísindasviðs HÍ síðustu vikur. Þetta er mjög áhugavert og þarft innlegg í þessa umræðu. Meðal þess sem þar kemur fram:

Gestur Guðmundsson: "Á bak við stefnumiðið um 'fleiri námslok á tilsettum tíma' búa vissulega réttmætar áhyggjur af þeim fjölmörgu íslensku framhaldsskólanemum sem 'finna sig ekki' í náminu, og hvítbókin tekur réttilega undir ábendingar um aðgerðir sem greina slíkan vanda snemma og taka á honum. En oft eru réttustu aðgerðirnar að nemendur taki sér hlé frá námi og endurheimti áhuga og námshvata við annað en venjulegt framhaldsskólanám."

Helgi Skúli Kjartansson: "Úr því svona margir ljúka stúdentsprófi, þá er minni sérhæfing fólgin í þess háttar námi, minna val eða ákvörðun að leggja út í það og markmið þess óhjákvæmilega almennari. Þess vegna er eðlilegt að stytta námið svo að nemendur fái á eðlilegum aldri að taka raunverulegar ákvarðanir um markmið sín í námi og framtíðarstarfi."

Atli Harðarson: "Gestur bendir réttilega á (í grein á bls. 23 í Fréttablaðinu 3. júlí 2014) að munurinn á skólagöngu ungmenna hér á landi og í Danmörku er mun minni en ætla mætti af yfirlýsingum þeirra sem hafa stór orð uppi um brottfallið hér á landi. Veruleikinn er sá (skv. Education at a Glance 2014, bls. 313) að hér á landi var fremur hátt hlutfall fólks á aldrinum 15 til 19 ára í skóla árið 2012 eða 88%. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 86% til 87% og meðaltalið fyrir OECD var 84%. Þessar nýjustu samanburðartölur um skólasókn benda því ekki til að íslensk ungmenni flýji framhaldsskólana í meira mæli en gerist og gengur í öðrum OECD löndum.
Ekki er nóg með að skólasókn hér sé með meira móti heldur var útskriftarhlutfall líka hátt árið 2012 eða 95% (Education at a Glance 2014, bls. 67). Á hinum Norðurlöndunum var það á bilinu 77% til 93% og meðaltalið fyrir OECD var 84%."

Greinin í heild er hér


mbl.is 17 ára með ráðstefnu í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgstu með framtíðinni - við vitum meira en margir halda

kettering_tomorrow
Á ráðstefnu Heimilis & skóla síðasta föstudag var sagt í einu erindi um upplýsingatækni í skólastarfi að við vitum ekki hvaða tæknibreytingar eru framundan. Reyndar er það svo að við vitum töluvert um framtíðina og hvernig tækni mun þróast á næstu 5-10 árum og jafnvel lengur. Sjálfakandi bílar munu koma á markað á næstu 5 árum eða svo og hafa töluverð áhrif á samfélagmynstur. Reiknigeta tölvutækni mun stóraukast á næstu árum. Snjalltæki verða sífellt ósýnilegri - fyrst með tilkomu íklæðanlegrar tækni á borð við snjallúr og snjallgleraugu og til lengri tíma litið má gera ráð fyrir að tækni verði jafnvel ígrædd. Vélmenni af ýmsum gerðum munu í auknu mæli sinna störfum sem nú eru í höndum okkar mannana og verða jafnvel sjálfsögð hjálpartæki í námsumhverfi.

Hvernig vitum við þetta? Það er sérstaklega þrennt sem gefur sterkar vísbendingar um hvers sé að vænta í framtíðinni:
  1. Áherslur aðila sem veita styrki til tækniþróunar og verkefni sem tæknifyrirtæki, verkfræðingar og tölvufræðingar eru að fást við hverju sinni.
  2. Neysluvenjur og vilji neytenda.
  3. Skapandi hugmyndir um mögulega tækniþróun sem birtist í myndlist, kvikmyndum, skáldsögum og þess háttar.
Framtíðarfræðingar nota ýmsar misflóknar aðferðir til að meta upplýsingar sem þessar á kerfisbundinn hátt og gera sér grein fyrir líklegri þróun til langs tíma. Flestar eru þessar aðferðir mjög sérhæfðar og niðurstöður ekki endilega á þannig formi að þær gagnast hinum almenna tækninotanda. Hins vegar geta þeir sem hafa áhuga nálgast töluvert af aðgengilegum upplýsingum sem gefa nokkuð raunhæfa mynd af því sem er að vænta. Má t.d. nefna:
  • Kurzweilai.net: Þetta er vefur Ray Kurzweil sem er líklega með þekktustu framtíðarfræðingum heims um þessar mundir. Kurzweil er með öflugt lið sem fæst við að greina upplýsingar um tækniþróun og eru margar niðurstöður settar fram á aðgengilegu formi á þessum vef.
  • Sutura.io: Þetta er tiltölulega nýr vefur þar sem hægt er að nálgast vikuleg yfirlit yfir fréttnæma viðburði úr heimi tækni, vísinda og fleira. Ég er ekki viss hver stendur á bak við þennan vef en held að það sé einn Alex Klokus, frumkvöðull sem starfar í New York borg. Þessi vikulegu yfirlit hófu að birtast fyrir nokkru á Futurology þræðinum á samfélagsvefnum Reddit en auðveldara er að nálgast ný og eldri yfirlit á þessum vef.
  • TED: Þennan vef þekkja líklega margir. TED stendur fyrir “Technology, Entertainment, Design” en efni sem kynnt er á margfrægum TED ráðstefnum nær yfir töluvert breiðara svið en titillinn gefur til kynna. Mörg TED erindi fjalla um það nýjasta sem er að gerast í heimi vísinda og tækni og hvaða áhrif tækni- og vísindaleg þróun getur haft á samfélag og umhverfi til skemmri og lengri tíma litið.
  • Omni Reboot: Omni Reboot er tilraun til að endurlífga hið merka tímarit Omni sem var gefið út á árunum 1978-1995. Tímaritið þótti sérstakt fyrir áhugaverða blöndu efnis úr heimi vísinda og vísindaskáldskapar. Framtíðarmiðaður vísindaskáldskapur er ekki síður gagnleg upplýsingaauðlind fyrir framtíðarfræðinga en vísindin sjálf vegna þess að þar eru oft settar fram hugmyndir um mögulega framtíð á áhrifaríkan og lifandi hátt. Mörg dæmi eru um það að tækninýjung eigi rætur að rekja til þess að einhver með tækniþekkingu heillaðist af möguleikum sem lýstir voru í vísindaskáldsögu eða kvikmynd. Fyrsti farsíminn er eitt þekktasta dæmið um slíkt. Martin Cooper, sem stýrði þróun farsímans, hefur margoft sagt frá því að hann sótti innblástur í upphaflegu Star Trek þáttaröðina.

Það eru til ótal fleiri vefir og upplýsingaveitur þar sem hægt er að kynna sér hvernig tækni mun líklega þróast í framtíðinni og ég vona að sumir leiti þá uppi eftir að hafa fengið smá nasasjón af því sem er í boði. Auðvitað er alltaf möguleiki að hlutirnar fara á annan veg en við höldum en þrátt fyrir það er sumt svo örugglega fyrirsjáanlegt að vert er að taka tillit til þess strax. Hvað eru t.d. margir skólar sem hafa þegar hugað að því hvaða áhrif snjallúr (sem ég hef heyrt að séu þegar farin að sjást í íslenskum skólum) og snjallgleraugu munu hafa á skólastarf? Hvað eru margir skólar sem nota vélmennatækni í námsumhverfinu, þó ekki væri nema að hafa Roomba ryksugu á staðnum? Þeir sem hafa kynnt sér tækniþróun vita að þetta eru allt tækninýjungar sem eru aðgengilegar núþegar og munu hafa áhrif á nám og kennslu í nálægri framtíð. Hvenær er rétti tíminn til að huga að þeim fyrir alvöru?


Nei ráðherra, Bandarísk yfirvöld áætla ekki fangelsisrými út frá einkunnum 4. bekkinga í læsi

kids_jail
Í gær mætti ég ásamt fjölmörgum á ráðstefnu Heimilis & skóla, Allir snjallir, á Grand Hótel. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, var þar mættur til að opna ráðstefnuna. Í lok ræðu sinnar upplýsti ráðherra okkur um að hann hefði eitthvað svo mikilvægt að segja okkur að hann ætlaði að leyfa sér að vera svolítið seinn á ríkisstjórnarfund sem hann ætti nú að vera drífa sig á. Það sem var svo merkilegt að ríkisstjórnin öll var sett í biðstöðu var að hann hefði heyrt það að í Bandaríkjunum áætla fangelsismálayfirvöld þörf fyrir fangelsisrými í framtíðinni út frá einkunnum 4. bekkjar nemenda í læsi. Þetta er ósönn mýta sem virðist byggð á mjög svo skapandi túlkun á margvíslegum rannsóknum og gögnum. Með þessu vildi ráðherra sýna okkur hversu mikilvægt læsi er í raun og veru. Mér skilst að þetta sé partur af rökfærslu sem hann hefur notað á fundum sínum víða um land undanfarið.

Ráðherra tók fram að þessi “staðreynd” væri “ótrúleg” en sýnir okkur hversu mikilvægt læsi er í námi barna. Ég held að allir geti verið sammála um mikilvægi læsis en mér var kennt að partur af því að vera “læs” er ekki bara að geta nýtt mér upplýsingar, en líka að vera gagnrýnin á þær upplýsingar sem ég fæ í hendurnar. Hér gildir gullna reglan að ef eitthvað virðist vera “ótrúlegt” þá eru miklar líkur á að svo sé raunin. Þetta köllum við í menntageiranum "upplýsingalæsi" og því miður fær ráðherra ekki háa einkunn frá mér í þessum fræðum miðað við þessa frammistöðu.

Það tók mig innan við eina mínútu að komast að því að þessi fullyrðing er ósönn, og ég hef ekki einu sinni aðstoðarmann mér til fulltingis eins og sumir.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband