Illa upplýstar fréttir um tæknimál eru óþarflega villandi

nfc_paybox-1
Eitt af því sem ég geri í mínu starfi er að hvetja fólk til að fylgjast með tækniþróun og reyna að vera meðvitað um möguleika tækni nú og í framtíðinni. Það hjálpar ekki þegar fjölmiðlar birta fréttir um tækniþróun sem virðast byggðar á vanþekkingu og nánast fullkomnum misskilningi. Í þessari frétt er gefið í skyn að Apple muni kynna byltingarkennda tækni sem býður upp á allt aðra möguleika en eru nú fyrir hendi, sérstaklega notkun NFC (near field communications - eða síma "bömp" e.o. sumir krakkar kalla það) til að greiða fyrir vörur og þjónustu á afgreiðslustað. Raunin er að það felst engin tækninýjung í því sem búist er við frá Apple í dag. Þeir ætla bara loksins að setja NFC í iPhone símana. NFC hefur verið í símum frá öðrum framleiðendum í töluverðan tíma og er víða boðið upp á að nota NFC síma sem greiðslukort. Þegar ég var búsettur í Bandaríkjunum þar til fyrir rúmu ári var þá þegar hægt að greiða fyrir vöru með NFC síma í flestum stórum matvöruverslunum, bensínstöðvum, stórmörkuðum og fl. Hins vegar má nefna að Apple verði með einhverja nýjung sem tengist öryggi greiðslukerfisins, en það er allt annað mál og ekki það sem mér sýnist vera til umræðu í þessari frétt.

Til að skilja hver styrkur Apple er í þessu tilliti þarf að vita hvernig farsímamarkaður funkerar í Bandaríkjunum. Söluaðilar símtækja eru oftast þjónustuaðilar og símarnir sem þeir selja eru sérstaklega framleiddir fyrir þá og merktir viðkomandi fyrirtæki. Það gerir það að verkum að tiltekinn sími frá tilteknum framleiðanda er ekki endilega með sömu fítusa hjá öllum endursöluaðilum. T.d. keypti kona mín LG síma hér á landi, sem er merktur LG, sem er með innbyggðu NFC. Sama LG módel frá T-Mobile í Bandaríkjunum er eins að flestu leyti, nema hann er ekki með innbyggðu NFC. Sama LG módel frá Verizon í Bandaríkjunum er hins vegar með innbyggðu NFC. Þetta skapar mikla óvissu fyrir þá sem vilja nýta nýjustu tæknimöguleika þar sem þeir geta ekki gert ráð fyrir að næilegur fjöldi neytandi hafi aðgang að nauðsynlegri tækni.

Styrkur Apple er að iPhone síminn er afar vinsæll og símafyrirtækin hafa ekki fengið að ráða því hvaða fítusar eru í iPhone símum sem þeir selja. Vegna mikillar útbreiðslu iPhone síma, sem allir bjóða upp á sömu tæknilega möguleika, geta þeir sem vilja nýta tækni fyrir nýja þjónustu gengið að því vísu að stór hópur neytenda geti notfært sér þá tækni, sama frá hvaða þjónustuaðila síminn er keyptur. Ennfremur, vegna þess hve mikil yfirráð Apple hefur yfir iPhone símanna (og í raun merkilegt að þeir hafa náð að halda því), getur fyrirtækið gert samninga um tiltekna þjónustu sem nýtist öllum notendum, sama hjá hvaða þjónustuaðila þeir eru.

Byltingin felst því ekki í tækninýjungum heldur í því að gera má ráð fyrir að NFC tækni og notkun hennar sem greiðslukerfi nái meiri útbreiðslu í Bandaríkjunum en hefur verið.

Ég vona að fólk treysti almennt ekki á fjölmiðla e.o. mbl.is (og fleiri íslenska fjölmiðla ef út í það er farið), sem eiga það til að leggja litla vinnu í gerð frétta um tæknimál, til að upplýsa sig um stöðu tækniþróunnar. Það eru til mun betri upplýsingaveitur. En fréttir í þessum fjölmiðlum eru oft þær fyrstu sem almenningur sér og geta þar af leiðandi haft verulega mótandi áhrif á væntingar sem eru gerðar til tækninnar.

mbl.is iPhone gæti komið í stað greiðslukorta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband