Eru það nemendur 7. & 10. bekkjar sem setja Ísaksskóla í sérflokk?

standardized-testsUm daginn stoppaði ég við á kaffihúsi í bænum á leið minni á fund. Þar fann ég nýjasta tölublað DV þar sem var heil opnugrein um hvað nemendur Ísaksskóla brillera á samræmdum prófum undir yfirskriftinni „Ísaksskóli í sérflokki”, hvorki meira né minna. Stór orð sem þessi verðskulda nánari rannsókn. Ég komst að tveimur niðurstöðum:
1. Ég veit ekki um Ísaksskóla en greinarhöfundur er örugglega í sérflokki hvað varðar skapandi túlkun tölfræðigagna!
2. Það virðast vera nemendur 7. & 10. bekkjar sem setja Ísaksskóla í sérflokk.

Skoðum þetta nánar
Í greininni segir í hnotskurn að þegar reiknað er meðaltal af öllum samræmdum prófum, þ.e. fyrir 4., 7. og 10. bekk, fyrir alla skóla landsins skarar Ísaksskóli lang fram úr öllum öðrum. Reiknuðu meðaltölin styðja þetta enda er reiknað meðaltal Ísaksskóla yfir 40 stig og næsti skóli þar á eftir vel innan við 40.

En nú vakna ýmsar spurningar enda reikniaðferðirnar svolítið sérstakar. Ég ætla að skoða hér tvær:
1. Hvað segir það okkur að reikna meðaltal af útkomum úr samræmdum prófum mismunandi árganga?
2. Hvernig er útkoman ef við reiknum þetta á annan hátt?

1. Það er stórfurðulegt og vægast sagt dúbíus að reikna meðaleinkunn fyrir hvern skóla til að gera samanburð eins og er gerður í greininni. Í fyrsta lagi, þá eru próf ekki lögð fyrir alla árganga í þessum skólum. Eina samræmda prófið sem er lagt fyrir í Ísaksskóla er í 4. bekk. Þannig að það er verið að bera saman meðaltal úr sumum skólum sem byggist á prófum í 4., 7. og 10. bekk við útkomur skóla sem er bara með 4. bekk eða (annað tilfelli sem er fjallað um í greininni) bara 4. og 7. bekk. Til að slíkur samanburður gangi upp þyrfti að sýna fram á ýmislegt - sérstaklega að niðurstaða í samræmdu prófi í 4. bekk í Ísaksskóla gefi áreiðanlega til kynna hvernig nemendum muni ganga á samræmdum prófum í 7. og 10. bekk, hvar svo sem þeir eru í skóla á þeim árum. Ég kannast ekki við að þetta hafi verið gert og ef svo er þá er allavega ekki vísað í neitt í greininni. Þannig að þetta er mjög hæpinn samanburður.

2. Eðlilegast er að bera niðurstöður nemenda í Ísaksskóla við niðurstöður 4. bekkjar í öðrum skólum. Ef við gerum þetta þá kemur í ljós að Ísaksskóli er ekki algjörlega í sérflokki. Reyndar er hann næstum hnífjafn við nemendur Njarðvíkurskóla. Ennfremur er ekki eins mikill munur á Ísaksskóla og öðrum skólum sem eru að ná góðum árangri.

Niðurstaðan virðist því vera þessi: Ef Ísaksskóli er í sérflokki þá virðist það vera vegna nemenda í 7. og 10. bekkjum. En Ísaksskóli er, eins og allir vita, hvorki með 7. né 10. bekk.


HÍ meðal bestu háskóla í heimi? Fer eftir því hvernig þú skilgreinir "bestur"...

first_placeEinar Steingrímsson segir í frétt á Vísi.is að staða Háskóla Íslands í alþjóðlegu samhengi sé ekki nærri eins góð og Kristín Ingólfsdóttir, rektor, vill meina. Kristín hafði bent á að HÍ væri meðal 300 bestu háskóla í heimi. Þetta er rétt samkvæmt lista Times Higher Education (THE) en Einar bendir á að það eru aðrir listar þar sem HÍ nær ekki hátt á eða jafnvel ekki neitt. "Villandi málflutningur af þessu tagi, þar sem valin eru gögn sem henta málstað manns, eru óboðleg fyrir forystu háskóla með sjálfsvirðingu.”, segir Einar. Hann lætur þó ósagt hver munurinn á þessum listum er og má segja að það sé ekki síður villandi málflutningur en hann sakar rektor um. Listarnir sem Einar bendir á eru:
 - US News & World Report
 - Shanghai listinn, sem heitir nú ARWU
 - QS, sem heitir nú CWUR

Fyrst er að útiloka það sem hreinlega á ekki við. Ísland er ekki með í US News & World Report könnuninni. Að nefna hann er eins og að dæmi mig hæfileikalausan vegna þess að ég vann ekki Ísland got talent. Ég var ekki skráður í keppnina þannig að við munum aldrei vita í hvaða sæti ég hefði lent. Sama á við um stöðu HÍ á US News & World Report listanum.

Shanghai listinn er oft sagður vera mjög virtur og marktækur. Raunin er að hann er mjög dúbíus - svo mikið svo að staðið hefur til að endurskipuleggja hann frá grunni í mörg ár en það hefur af einhverjum ástæðum ekki gerst. Persónulega held ég að eina ástæðan fyrir því að hann hefur verið notaður er að hann var lengi vel sá eini sem hægt var að komast í á netinu án þess að greiða fyrir. Einn helsti þátturinn í Shanghai mælingunum er fjöldi Nóbels og Fields verðlaunahafa meðal fyrrum nemenda og prófessora. Hvað það á að segja mér um gæði háskóla veit ég ekki en er kannski heillandi fyrir suma tilvonandi nemendur. Engin tilraun er gerð til að meta gæði kennslu í viðkomandi háskólum.

QS listinn er mjög svipaður Shanghai listanum. Þar er líka lögð mikil áhersla á fjölda verðlauna sem fólk tengt skólum hefur unnið til. Eins og Shanghai listinn er engin tilraun gerð til að meta gæði kennslu. Eitt matsatriðið, sem vegur ekki minna en 25%, er fjöldi fyrrum nemenda sem hafa stýrt stóru alþjóðlegu fyrirtæki. Ætli fangarnir á Kvíabryggju styrki stöðu HÍ á listanum? Hvað þetta hefur með gæði háskóla að gera veit ég ekki. Eitt sem QS gerir sem gerir hann sérstakan er að kanna viðhorf vinnuveitenda til háskóla, sem er kannski áhugavert fyrir tilvonandi nemendur en segir lítið um gæði út af fyrir sig.

THE listinn er sá eini af þessum sem eru nefndir sem raunverulega reynir að meta gæði kennslu og náms. Námsumhverfi vegur 30% og er reiknað út frá fjölbreyttum gögnum sem er aflað með ýmsum hætti - meðal annars könnun sem nær til um 10.000 fræðimanna um allan heim.

Háskólar eru margslungnar stofnanir sem er ætlað að vera margt í senn: námsvettvangar, rannsóknarmiðstöðvar, miðstöðvar þekkingarmiðlunar, og margt fleira. Það er ekki lítið mál að meta gæði þeirra og sennilega engin kvarði sem nær yfir allt. En þegar verið er að meta stöðu tiltekinna stofnana út frá þeim listum sem eru til er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvað er verið að mæla. Í stefnumótun HÍ 2006, þar sem meðal annars var stefnt að því að stofnunin yrði meðal 100 bestu háskóla í heimi, var lögð mikil áhersla á hlutverk stofnunarinnar gagnvart íslensku samfélagi. Fræðsluhlutverk stofnunarinnar var haft að leiðarljósi og því er eðlilegast að meta árangur í samræmi við það. THE listinn er sá eini af þeim sem nefndir eru sem er marktækur á því sviði. Að draga hina inn í umræðuna er frekar villandi.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband