Android snjallúrið mitt er æði! En ég get ekki mælt með því fyrir aðra.

androidwearÉg á snjallúr. Mjög fínt Android Wear LG G Watch R, sem ég nota mikið og hefur haft töluverð áhrif á hvernig ég nýti mér upplýsingatækni almennt. Ég er oft spurður „Á ég að fá mér svona?” Því miður er svarið mitt í flestum tilvikum nei. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ef viðkomandi veit ekki hvað það er að „róta” (e. root) símann sinn (og þar með ógilda ábyrgðina) og er smeykt við að krukka í kerfisskjölum þá er það að fá meingallaða vöru. Það er eiginlega eins og að kaupa íbúð á fullu verði en fá ekki lyklana að dyrunum - þú getur kíkt inn um gluggan en þú getur ekki gert neitt. Google (sem n.b. rekur fyrirtæki hér á landi) hefur nefnilega kosið að gera Google Now, sem er sú eining Android fartæknikerfisins sem framtíðarþróun þess byggist á, óvirkt á Íslandi. Án Google Now eru Android úrin lítið meira en dýrt skraut. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá að vita af hverju þetta er hef ég ekki fengið nein svör. Þar með talið eru m.a.s. samskipti sem ég átti við verkefnisstjóra Google Now hjá Google. Ég held að hún hafi ekki einu sinni áttað sig á því að Google Now væri óvirkt í sumum löndum.

googlenownotavailEn hvað er Google Now? Líklega eru margir Íslendingar sem þekkja þetta aðeins sem óvirkan valmöguleika í snjalltækjum sínum sem er „Not available in your country”. Google Now er gervigreindarbúnaðurinn í Android tækjum og af mörgum talinn töluvert betri en Siri, gervigreindin í snjalltækjum Apple. Google Now getur fylgst með staðsetningu notandans, hvað hann er að gera, hver áhugamál hans eru og fleira og fært honum upplýsingar eftir því. Til dæmis:

  • Google Now veit að ég fylgist með ákveðnum vefsvæðum þar sem fjallað er um framtíðarfræði og menntamál og lætur mig vita þegar nýtt efni birtist þar.
  • Google Now notar skynjara í snjalltækjum mínum til að átta sig á þegar ég er að ganga, hjóla eða stunda aðra hreyfingu og tekur upplýsingarnar saman til að ég viti hversu latur eða duglegur ég er búinn að vera.
  • Google Now veit hvar ég á heima og notar staðsetningu mína til að láta vita hversu löng heimferðin verður og hver sé besta leiðin eftir því hvaða ferðamáta ég nota.
  • Google Now les dagatalið mitt og veit hvenær og hvar ég þarf að vera mættur á fund og lætur mig vita í tæka tíð svo ég hafi tíma til að koma mér á staðinn.
  • Google Now veit af bókuðum flugferðum o.þ.h. og passar að ég sé vel undirbúinn þegar þar að kemur.

Þetta allt gerir Google Now án þess að ég gefi nokkrar skipanir þar um. Ég hef sett upp mínar upplýsingaþjónustur þannig að Google Now hefur aðgang að þeim og gervigreindarbúnaðurinn sér um afganginn. En Google Now býður líka upp á margt fleira. Til dæmis eru fjölmargar raddskipanir í Android kerfinu tengd Google Now. Íslendingar þekkja það vel að hægt er að framkvæma leit með raddskipunum og er það íslenska talhermi Google að þakka, sem er sagður vera fullkomnasti íslenski talhermir sem til er í dag. Með Google Now verða ýmsar raddskipanir virkar sem eru það ekki annars. Þá get ég til dæmis með röddinni einni:

  • Beðið snjalltækið um að minna mig á að gera eitthvað þegar ég er kominn á tiltekinn stað - t.d. að kaupa mjólk næst þegar ég er í matvörubúð eða að setja í þvottavél þegar ég kem heim.
  • Ræst tiltekið smáforrit í snjalltækinu.
  • Samið og sent smáskilaboð eða tölvupóst.
  • Hringt í einhvern úr símaskránni.
  • Fengið eða látið þýða einstaka orð eða frasa á ótal tungumál.
  • Fengið lausn á stærðfræði dæmi.
  • Látið spila tónlist sem ég vil úr eigin safni eða smáforriti eins og Spotify.
  • … og margt fleira.

En ef Google Now er ekki virkt þá er flest af þessu ekki í boði.

Snjallúrið er sítengt símanum og með hljóðinntak til að taka á móti raddskipunum og skjá til að birta upplýsingar (og klukku auðvitað). Þannig get ég beðið úrið um að segja mér hvernig ég segi „ég hjólaði út í búð” á dönsku eða hvað (55*372)/3 er (svarið er 6820) án þess að þurfa að taka upp símann. En allt þetta get ég bara út af því að ég er hæfilega mikill nörd að ég treysti mér til að hakka símann minn. Hefði ég ekki verið búinn að ganga úr skugga um að ég gæti hakkað símann til að virkja Google Now hefði ég aldrei keypt mér Android snjallúr. Það skal viðurkennast að Google Now þegar það er virkt hér á Íslandi gerir ekki nærri jafn margt og það gerir í Bandaríkjunum en nóg að mínu mati til að réttlæta vesenið sem það kostar.


uridnavMér finnst ægilega gaman að sýna kennurum hvað ég get gert með úrinu mínu - spyrja það spurninga, gefa því skipanir, láta það þýða fyrir mig og svo framvegis. Flestir verða mjög hissa því þeir hafa ekki áttað sig á þessum möguleikum snjallúranna og gera sér því litla grein fyrir því hvað það hefur að segja að nemendur allt niður í grunnskóla eru byrjuð að mæta með slík tæki í skóla (ég hef heyrt um fjölmörg dæmi þess). En því miður þá er þessi tækni enn óaðgengileg fyrir flesta íslenska notendur. Og það sem er verst er að margir átta sig ekki á þessu fyrr en þeir eru búnir að spreða á tækjakaupin. Google er nefnilega ekki að láta vita að notkun þessarar tækni er mjög takmörkuð í löndum eins og Ísland þar sem lokað er á Google Now. Það er meira að segja þannig að notendur Android hér á landi (alla vega þeir sem eru með Lollipop stýrikerfið 5.*) eru sífellt hvattir til að virkja Google Now til að fá alla frábæru fítusana. Þegar þeir reyna að gera það kemur í ljós að það er ekki hægt - en þeir fá samt áfram ábendingarnar um hversu mikilvægt er að virkja það.

Að lokum skora ég á þá aðila hér á landi sem selja Android vörur að upplýsa okkur neytendur um það af hverju einn helsti kerfishluti Androids er gerður óvirkur og hvenær megi vænta þess að það breytist.


Að eiga við menntakerfið

Nýlega hef ég átt í samræðu við fólk á netinu sem gagnrýnir menntakerfið m.a. fyrir það að það “verji sig sjálft” gagnvart breytingum til að halda sér gangandi, sem leiðir til stöðnunar, ofvaxtar og eflaust margt fleira. Gagnrýni sem þessi á eflaust rétt á sér að einhverju leyti en undirstrikar um leið hversu brýnt er að skilja hvernig kerfi virka almennt ef gagnrýni og aðgerðir eiga að hafa áhrif. Þar kemur að gagni s.k. kerfiskenning (sem mér finnst frekar afleit tilraun til að þýða “systems theory” en ég má ekki vera að því að láta mér detta eitthvað betra í hug núna). Kerfiskenning hjálpar til við að greina aðstæður í hvers kyns kerfi út frá heildrænum áhrifum umhverfis, innviða og virkni. Skv. kerfiskenningu eru ákveðin lögmál sem eru að verki í öllum kerfum og skiptir þá engu hvort við erum að tala um menntakerfi, leikkerfi landsliðsins í handbolta eða vél í bíl. Í öllum tilvikum er kerfi í gangi sem tekur við innleggi, umbreytir því og sendir frá sér sem afurð. Kerfiskenning (eða kerfisnálgun, e. systems thinking) segir okkur að þegar við erum að fást við slík kerfi þurfum við að horfa heildrænt á þau og skilja hvernig allir partarnir virka saman ef við ætlum að geta haft áhrif á þau. Kerfiskenning hefur orðið nokkuð algengt greiningartæki til að skoða menntakerfi, sérstaklega eftir að Peter Senge og félagar gáfu út bókina Schools That Learn: A Fifth Discipline Fieldbook for Educators, Parents, and Everyone Who Cares About Education árið 2000.

Þegar við erum að fást við kerfi eða að reyna að breyta kerfi þá er mikilvægt að við skiljum hvernig kerfi virka og hvað hefur áhrif á þau. Hér eru nokkur grundvallaratriði sem öll kerfi eiga sameiginlegt sama hvers eðlis þau eru. Sumt kann að virðast nokkuð mótsagnarkennt.

  1. Eðli kerfa er að leita jafnvægis. Í kerfiskenningu er þetta jafnvægi kallað homeostasis. Það er algengt að fólk telji eðli kerfa vera að halda sér gangandi því þannig vinna þau verk sín og það hlýtur þá að vera grunneðlið. Svo er ekki. Kerfi getur fórnað ganginum til að halda jafnvægi en það fórnar síður jafnvæginu til að halda sér gangandi. Til dæmis, ef olían á bílvél klárast heldur vélin áfram að ganga þangað til vélarhlutir eru svo illa farnir að hún nær ekki lengur að stilla jafnvægi milli bensíninntaks og þess að knýja bílinn áfram og vélin hættir að ganga. Það gerir lítið gagn að reyna að gangsetja bílinn á ný. Við þurfum að gera breytingar inni í vélinni þannig að kerfið geti aftur farið að stilla sjálft til jafnvægis eftir þörfum. Það er eins með menntakerfið - það leitar sífellt jafnvægis til að halda sér gangandi. 5LhxCIpEf það getur ekki lengur stillt jafnvægi (t.d. vegna fjárskorts) þá hættir það að ganga, en ekki fyrr en það hefur reynt til þrautar að vinna tilætlað verk með þeim aðföngum sem það hefur hverju sinni. Sjá meðfylgjandi mynd sem útskýrir homeostasis á einfaldan hátt. 
  2. Þar sem kerfi er sífellt að leita jafnvægis þá er það sífellt að breytast. Það er oft sagt um menntakerfið að það breytist ekkert en þá er yfirleitt verið að tala um að það breytist ekki eins og tiltekinn aðili vill. Menntakerfið, eins og öll kerfi, bregst við innri og ytri áreitum með því að breyta sér á hagkvæmasta hátt sem kostur er á og aðföng leyfa. T.d. þegar notkun samfélagsmiðla var að breiðast meðal ungmenna þá voru viðbrögð skóla að banna slíka miðla innan veggja þeirra og gera ýmislegt til að koma í veg fyrir að nemendur hefðu aðgang að þeim. Þetta er breyting. Þetta er kannski ekki sú breyting sem mörg okkar hefðu viljað sjá en er breyting samt sem áður. Þarna voru búnar til reglur sem breyta getu kerfisins til að leita jafnvægis í ljósi nýrra aðstæðna og er í fullkomnu samræmi við það sem við er að búast af kerfi.
  3. Margir vilja að menntakerfið verði opnara fyrir nýjungum og verði meira skapandi en þeir telja það vera og halda að til þess að það gangi þurfi að einfalda og minnka kerfið. Hins vegar er það svo að einföld og lítil kerfi leiða síður til nýsköpunar en flókin kerfi þar sem ríkir hæfileg óreiða, það sem stundum er kallað “chaordia” (sem mætti þýða sem “skipulagt kaos”). Óreiða er afl sem verkar stöðugt á jafnvægispunkt kerfisins þannig að hann er alltaf að færast til. Kerfið bregst við með að leita jafnvægis og þegar óreiðan er hæfilega mikil þá dugir ekki að fara hagkvæmustu eða auðveldustu leið og nýsköpun á sér þá stað. Hins vegar er mjög erfitt að átta sig á hver hæfilega hlutföll óreiðu og skipulags þurfa að vera til að láta þetta ganga upp. En, ef ætlunin er að stuðla að nýsköpun þá er einfalt og lítið kerfi sennilega ekki rétta leiðin.
  4. Kerfi mótast ekki síður af umhverfinu en innviðum. Til að átta okkur á kerfi og hvað það er sem hefur áhrif á kerfi þurfum við að hugsa heildrænt. Kerfi afmarkast ekki af gangverkinu einu. Um leið og einhver aðili er farinn að skipta sér af kerfinu í orði eða verki þá er sá orðinn hluti af því og hefur áhrif á það. Það má t.d. líta á vél í bíl sem eitt heildstætt kerfi. En um leið og ökumaður stígur á bensíninngjöfina þá er sá orðinn hluti af kerfinu. Þeir sem tala um menntakerfið opinberlega, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt, eru um leið að gera sjálfa sig að parti af kerfinu.

 

Ég hef því miður ekki tíma til að skrifa meira um þetta þessa stundina þar sem ég þarf að koma mér út á flugvöll. En skilaboðin eru þessi: ef við erum að fást við kerfi og viljum breyta því kerfi þá þurfum við að skilja hvernig kerfi virka. Tilraunir til að breyta kerfi án þess að skilja þau leiða til óútreiknanlegra útkoma sem verða til þegar kerfið leitar jafnvægis. Ef við skiljum hvernig kerfi virka þá sjáum við fljótt að leiðin til að breyta þeim er að huga að jafnvægispunktinum. Hvernig truflum við jafnvægispunktinn á þann hátt að kerfið leiti jafnvægis í þá átt sem við viljum að það leiti? Ef þetta tekst þá breytir kerfið sig sjálft eins og við viljum að það breytist.


Hvaðan kemur orðið "hönnun"?

Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar

frumhonnudirOrðið hönnun er tiltölulega nýtt í íslenskri tungu, sem kemur á óvart því það er eitthvað svo íslenskt við það. Ég er búinn að vera að kanna uppruna þess undanfarið í tengslum við undirbúning erindis sem ég verð með í Minneapolis í næstu viku á þingi íslendingafélaga Norður Ameríku. Ég leitaði víða og hafði samband við ýmsa aðila sem eru fróðari en ég bæði um hönnun og íslenska tungu en fékk frekar óljós svör um óstaðfestar tilvísanir í fornrit, dvergasögur og fleira. Nú í morgun höfum við hjónin (Hlín er safnafræðingur þannig að hún hefur ekki síður áhuga á þessu) verið að skoða þetta og teljum okkur vera nokkurn veginn búin að rekja þessa áhugaverða sögu um tilurð orðsins hönnun.

Fyrsta dæmið um orðið hönnun sem ég finn á prenti er í Þjóðviljanum 23. október, 1957 þar sem sagt er frá nýútkomnu 4. tbl. Iðnaðarmáls.* Meðal greina er ein sem ber titilinn Vöruval og hönnun (af enska orðinu design).** Það að tekið er fram að orðið sé þýðing á enska orðinu design gefur til kynna að hér sé um nýyrði að ræða. Seinna er orðið hönnun notað víða í alfræðibókum AB útgáfunnar sem komu út snemma og um miðjan 7da áratuginn. Á 8da áratugnum er orðið komið í almenna notkun og í þeirri merkingu sem það hefur í dag.

Þetta er allt mjög fróðlegt en segir mér ekkert um orðsifjarnar sem ég var sérstaklega forvitinn um. Ég spurði móður mína út í orðið (hún er fædd 1939). Hún sagði, „Þegar við töluðum um hönnun þá vorum við alltaf að tala um eitthvað danskt.” En íslenska orðið hönnun á ekkert skylt við dönsku orðin design eða formgivning, sem Snara.is segir mér að sé rétt þýðing á orðinu. Þetta sagði mér því ekki neitt.

Ég hafði samband við Íslenska málstöð. Þau gátu ekki sagt mér meira en ég vissi þegar um hvenær orðið birtist fyrst á prenti.

Fólk á Hönnunarsafninu hélt því fram að orðið væri skylt hannarr sem hafði birst í einhverju íslensku fornriti, en hafði annars ekki miklu við að bæta.

Ég fór þá að kanna þessa tengingu við fornritin og leitaði hátt og látt að orðinu hannarr. Hér er það sem ég fann.

Vestur-Íslendingurinn Páll Bjarnason skrifaði grein í Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 1929 þar sem hann gagnrýnir ýmsar rangfærslur í orðakveri sem Finnur Jónsson, prófessor, hafði ritað (sjá áhugaverða umfjöllun um Pál hér). Þar leiðréttir hann m.a. eftirfarandi fullyrðingu Finns um orðið hannyrðir (sjá bls. 92):
„hannyrðir, líklegt er að hann sé stofn orðsins hannarr um menn, er voru listamenn (-konur) til vinnu”
Páll bendir á að orðið hannarr er lýsingarorð en ekki nafnorð eins og Finnur heldur fram. Af lýsingarorðinu er myndað nafnorðið hannerð. Þetta ummyndast svo í orðið sem við þekkjum í dag, hannyrð.

Í fylgiriti með Árbók Háskóla Íslands 1922-23 er texti Völuspár birtur eins og hann er í Konungsbók. Með fylgja skýringar og segir um 11. vísu:
„Hanarr = hannarr, hagur (smbr. sjónhannarr, hannerð, hannyrð), bendir til smíðaíþróttar dverga”

Í Heimskringu segir m.a. um Ólaf Haraldsson Noregskonung:
„Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar, hvort sem hann gerði eða aðrir menn.”

Og þetta virðist vera elsta íslenska heimildin í þessari sögu um tilurð orðsins hönnun ef frá eru taldar sögur um dverga, dvergleikni, og dverganöfn sem orðið er endanlega rakið til (sbr. dverganafnið Hanarr).

Þarna er þetta þá komið. Orðið hönnun kemur af lýsingarorðinu hannar(r), sem merkir sá sem er duglegur eða listfengur. Þetta er nokkuð áhugavert því þarna virðist vera að áður en orðið hönnun verður til er ekkert orð á íslensku yfir þetta ferli sem hönnun er skv. okkar skilningi í dag. Góð hönnun var því ekki ferli sem við gátum lýst en þú þekktir hana þegar þú sást hana, þ.e. ef þú varst nægilega sjónhannarr.

*(viðbætt: 11.05.2015) Hilmar Þór Björnsson, arkitekt fékk leyfi til að endurbirta þessa grein á vefnum Arkitektúr, skipulag og staðarprýði. Í umræðum þar bendir Sigurður St. Arnalds á grein sem birtist í DV 24. september, 1994, á bls. 16 undir yfirskriftinni Sögur af nýyrðum: Að hanna. Þar er staðfest að fyrirmynd að orðinu "hönnun" megi rekja til rótar orðsins "hannarr" en nefnt annað samróta sem ég hef ekki rekist á, "hanþón", sem ég kíki kannski betur á við tækifæri.

**(viðbætt: 11.05.2015) Ég hef nú lesið umrædda grein. Þar er mjög augljóst að verið er að kynna nýyrði til sögunnar - gerð ítarlega grein fyrir merkingu hugtaksins og hliðstæðu í ensku. Hins vegar er ekkert sagt um hvernig hugtakið hefur verið búið til. Líklega er eins og Anna Rögnvaldsdóttir segir í ummælum fyrir neðan að orðið hafi verið búið til af íðorða- eða nýyrðanefnd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband