Einhver hjá Viðskiptablaðinu segir kennara fá falleinkunn

Pisa-StudieHér fyrir neðan eru ummæli sem ég skrifaði við innlegg frá félaga mínum á Facebook. Hann benti á grein í Viðskiptablaðinu þar sem "Óðinn", ónafngreindur aðili sem skrifar reglulega um allt milli himins og jarðar, gagnrýnir kennara og launakröfur þeirra með tilvísan í nýlegar PISA niðurstöður. Mér finnst þessi skrif "Óðins" svo einstaklega hallærisleg að ég hef ákveðið að birta þetta hér líka. Þetta birtist óbreytt og er á einstaka stað vísað í umræðurnar sem voru á Facebooksíðu félaga míns en ég held að þetta ætti samt að skiljast.

"Ég ætla að leyfa mér að koma með svolítið langt innlegg í þessa umræðu þótt seint sé vegna þess að ég er sammála ****a að þessi grein er eiginlega skammarleg og hálfótrúlegt að svona illa upplýst og innrætt blaður sé birt á prenti.

Fyrir það fyrsta: P
ISA er ætlað að meta menntakerfi en ekki árangur nemenda. Réttari fyrirsögn á greininni væri (sama á við um flest sem skrifað er um PISA) "Menntakerfið fellur á prófinu". Eins er rangt að tala um að íslenskum skólabörnum fari aftur, frekar að íslenska menntakerfinu fer aftur.

Menntakerfi er flókið fyrirbæri. Það mótast af því sem fram fer innan skólanna, aðgerðum stjórnvalda og ytri þrýstingi hvort sem hann kemur frá foreldrum, fulltrúum atvinnulífsins eða almenningi. Um leið og þessir aðilar fara að skipta sér af menntamálum og reyna að hafa áhrif þar á, hvort sem er í ræðu eða verki, þá eru þeir orðnir partur af kerfinu. Það er því erfitt, ef ekki ógerlegt, að skella skuldinni fyrir slæmt gengi á einhvern einn hóp eða þátt innan kerfisins. Umfjöllun eins og þessi, þar sem er markvisst verið að gera lítið úr kennurum, hafa áhrif á kerfið og það má því alveg eins benda á hana og þá sem henni stýra sem hluta vandans, eins og kennarana.

Hvað varðar rök greinarhöfundar þá eru þau í raun engin. Höfundurinn notar gögn sem hann annaðhvort kann ekki að lesa úr eða notar gagngert á misvísandi hátt. Það eru fjölmörg dæmi um frábært skólastarf í íslenskum skólum sem hefur skilað góðum árangri sem höfundur kýs að horfa framhjá. T.d. má nefna kennslu barna með annað móðurmál en íslensku, samtengingu náms og samfélags til að "mennta ekki burt" nemendur eins og hefur verið vandi víða á landsbyggðinni, eflingu sköpunnar í námi, betri tengingar við tæknilegan veruleika ungs fólks og svo margt fleira. Þessa þætti mælir PISA ekki og ekki heldur aðrar samræmdar mælingar sem eru gerðar. Samt eru þetta þættir sem skipta miklu máli fyrir framtíð nemenda og íslenskrar þjóðar. Samt kýs höfundur að líta framhjá þessu öllu og dæma kerfið allt út frá illa upplýstum lestri sínum á PISA gögnum.

Svo gerir höfundurinn lítið úr því að PISA gögnin sýni að mikill jöfnuður ríkir innan íslenska menntakerfisins. Þetta er sá partur af PISA sem flestir við sem komum að rannsóknum og þróun á skólastarfi horfum helst til. Jöfnuður í menntakerfinu er mikilvægur, ekki vegna þess að við viljum hafa alla eins (e.o. greinarhöfundur ýjar að), heldur að við viljum tryggja að samfélagið njóti ávaxta þeirra hæfustu á meðal okkar sama hvaðan þeir koma. Við vitum ekki fyrirfram hvort næsti Össur h/f kemur úr Garðabænum eða Breiðholtinu.

Eins gagnrýnin og greinarhöfundur er á íslenska kennarastétt, vekur furðu að hann virðist hafa fátt út á PISA að setja. En PISA er alls ekki hafið yfir gagnrýni og þá er ég ekki að tala um þessa smávægilegu hluti eins og þýðingar á könnunartækjum, sem hefur verið áberandi í umræðu undanfarna daga. Upphaflegur tilgangur PISA var að hjálpa stefnumótendum að sjá hvar væri verið að gera góða hluti til að geta lært af reynslu annarra. Síðan PISA hófst hefur þróunin verið þannig að ákveðin lönd hafa verið að raða sér á topp árangurslistanna og eru það fyrst og fremst austurlönd eins og S. Kórea, Singapúr og Sjanghæ í Kína. Í þessum löndum er menntakerfið mjög prófmiðað þannig að framtíð nemenda er nánast að öllu leyti háð árangri á stöðluðum prófum. Þar af leiðandi gengur kennsla að miklu leyti út á það að kenna nemendum að taka próf. Pressan er svo mikil að til hefur orðið það sem kallað er "skugga-menntakerfi" (e. shadow education system) sem er almennt álitið til vandræða. Nemendur eru í skóla nánast frá því að þeir vakna þangað til seint að kvöldi, bæði í opinberum og einkaskólum; skuggakerfið sýgur til sín alla hæfustu kennara þannig að opinberir skólar eru illa mannaðir; og árangur í skóla (og þar með lífinu) er háður því hver getur borgað mest. Í okkar heimshluta er takmarkaður áhugi fyrir því að taka upp slíkt kerfi. Meira að segja hafa yfirvöld í austurlöndunum sjálfum reynt að sporna gegn þessari þróun, en án árangurs. Þá er spurning - hvaða gagn er af PISA ef það eina sem það getur vísað okkur á til að ná árangri er eitthvað sem enginn vill?

Samt sem áður, er það svo að útkoma íslenska menntakerfisins í PISA er, og ætti að vera, umhugsunarefni. Hins vegar er hæpið að þær tillögur til úrbóta sem hafa verið nefndar hér í þessari umræðu (sem ég er kannski svolítið að hijack-a frá Magga með þessari langloku minni) séu líklegar til að snúa málunum við. Við verðum að hafa í huga að það menntakerfi sem hefur verið byggt upp hér og í nágrannalöndum er að miklu leyti andsvar við fyrri kerfi sem voru ýmist einkarekin, aðeins fyrir útvalda eða öðruvísi misskipt. Þeir sem agentera fyrir svona skólarekstri í dag þurfa að mínu mati að gera grein fyrir því af hverju þeir halda að þau skili betri árangri nú en þau gerðu fyrir 100 árum. Ég get ekki sagt að ég sé bjartsýnt. Þetta hefur allt verið reynt: einkarekstur, einkaskólar, úttektarreikningar (voucher schools) og þar fram eftir götunum. Ekkert af þessu skilar betri árangri fyrir samfélagið í heild en opið opinberlega rekið menntakerfi og flest er sannanlega verra.

Það sem hefur verið sýnt að skili árangri í samfélagi eins og okkar er þegar kennurum er sýnd virðing og þeim treyst fyrir því starfi sem þeir vinna. Íslenskir kennarar hafa því miður ekki fengið að njóta slíks trausts né virðingar. Getiði ímyndað ykkur hvernig er að vera hámenntaðir sérfræðingar á ykkar sviði og þurfa að þola ummæli eins og "Markmiðið … er … ekki að tryggja kennurum þægilega innivinnu á launum sem eru langt yfir meðallaunum í landinu." Þetta er skammarlegt og það sem gerir þetta enn verra er að Viðskiptablaðið skuli leyfa sér að birta svona blaður nafnlaust. Launakröfur íslenskra kennara eru ekki fáranlegar miðað við kröfurnar sem eru gerðar til þeirra. Þær eru heldur ekki óviðráðanlegar ef okkur er alvara um að vilja tryggja að okkar unga fólk fái þá menntun sem þarf til að verða virkir, glaðir og konstrúktívir þátttakendur í okkar samfélagi.

Það kostar okkur líklega meira á endanum að reyna að nískast með menntakerfið eins og hefur verið gert. Þetta er eins og að kaupa farsíma í dag - Þú getur keypt einn fyrir kr. 40.000 sem endist í eitt ár eða fyrir kr. 70.000 sem endist í þrjú ár. Hvor er betri díllinn?"


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband