Það verður ekki kennaraskortur í framtíðinni. En verðum við sátt við kennara framtíðarinnar?

1963-jetsons-schoolÍ fréttum í morgun (30. maí) hefur verið sagt frá erindi sem Stefán Hrafn Jónsson flutti nýlega á ráðstefnu um íslenska þjóðfélagsfræði á Akureyri. Í erindinu sagði Stefán Hrafn frá könnun sem hann hefur gert á samsetningu kennarastéttar í nútíð og framtíð. Niðurstaða hans er að mikil fækkun verði í kennarastétt á næstu 15 árum, eða allt að 60%. Þetta er vissulega áhyggjuefni ef rétt reynist. Hins vegar er eitt og annað að athuga við umfjöllunina sem hefur spunnist um þessa könnun Stefáns Hrafns. Sýnist mér það vera aðallega vegna óvissu um hvað megi lesa í gögn og upplýsingar um framtíð. Vert er að taka fram að ég hlýddi ekki á erindi Stefáns Hrafns og hef ekki fundið neinar ítarlegar upplýsingar um könnunina á netinu. Ég reiði mig því alfarið á umfjöllun fjölmiðla og ágripið sem birtist í ráðstefnuritinu.

Það fyrsta sem þarf að hafa í huga er að frá nútímanum séð er engin ein framtíð heldur ótal mögulegar framtíðir. Þetta er grundvallaratriði í framtíðafræðum. Möguleikinn er alltaf fyrir hendi að eitthvað ófyrirséð geti gerst á næstu 15 árum sem gjörbreytir framtíðarsýninni sem sett er fram (og ég geri ráð fyrir að í þessu tilviki sé einmitt vonin að svo verði). Fullyrðingar um framtíðina eru ætlaðar að varpa ljósi á aðstæður og aðgerðir sem leiða til tiltekinnar framtíðarsýnar en ekki endilega að lýsa staðreyndum um óorðna hluti. Það er einfaldlega ekki hægt, meðal annars vegna þess, eins og kollegi minn John Moravec er vanur að segja, "We cannot know the future because none of us has been there." Þess vegna setja framtíðafræðingar oftast fram margar mögulegar framtíðasýnir saman til að benda á og undirstrika þá möguleika sem eru fyrir hendi.

Ég get ekki séð betur en að Stefán Hrafn hafi sett fram aðeins eina mögulega framtíð og að hún byggist að mestu á aðstæðum eins og þær eru í dag. Það er að segja að niðurstaða hans er lýsing á ástandi sem gæti skapast verði ekkert gert til að breyta núverandi ástandi. Líkurnar á að þetta verði að veruleika eru mjög litlar af þeirri einföldu ástæðu að við getum ekki verið án þess starfsafls sem kennarar eru. Við munum finna leið til að koma í veg fyrir kennaraskort. Hvernig það verður gert… Það er stóra spurningin.

Eitt sem þarf að hafa í huga þegar hugsað er um framtíð kennara er að starfið er mjög breytilegt og hefur alltaf verið það. Kennari dagsins í dag er ekki sami starfskraftur og kennari var fyrir 20-30 árum. Námskröfur hafa breyst, hæfniskröfur hafa breyst, reglukerfi hefur breyst, og margt fleira. Það er því fyrirsjáanlegt að starfið sem við titlum "kennari" eftir 15 ár verði nokkuð ólíkt því sem er í dag. Hvernig sem starfið þróast þá tel ég nokkuð öruggt að við verðum með þá kennara sem þarf til að manna þær stöður sem þarf. Það er hins vegar óljósara hvað þessir "kennarar" verða. Í versta falli verður búið að lækka menntunar- og hæfniskröfur til að gera þá að kennurum sem hefðu ekki fullréttindi í dag. Ég vona að við veljum ekki að fara þá leið því þetta er okkar val.

Kannanir eins og sú sem Stefán Hrafn hefur gert eru mjög gagnlegar. Þær hjálpa okkur að átta okkur á því ástandi sem er til staðar og hvað það getur leitt af sér þegar til lengri tíma er litið. Því lengra sem við horfum fram í tímann þeim mun meira svigrúm gefum við okkur til að vinna markvisst að því að skapa þá framtíð sem við viljum. Ég held að flestir geti verið sammála um að við viljum hafa vel menntaða og hugmyndaríka kennara í skólum okkar eftir 20 ár. Það eru til margar leiðir til að tryggja að svo verði. Sumar eru vel þekktar og sannreyndar. Sumar eru tiltölulega auðveldar en flestar líklega nokkuð erfiðar. Nú er spurningin, hvað erum við tilbúin að leggja í þetta verkefni og hvað teljum við vera ásættanlega útkomu? Höfum líka í huga að tíminn flýgur hratt. Þessir kennarar framtíðarinnar sem við erum að tala um voru að hefja sína skólagöngu og við hljótum að gera ráð fyrir að hugmyndir þeirra um framtíðina mótast að einhverju leyti af fenginni reynslu. Ef svo fer að við klúðrum okkar málum þá eru merki um þau klúður sennilega greinanleg nú þegar.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband