Af hverju þurfum við þráðlaus net í skólum?

- Að fórna öllu því góða sem fylgir aukinni notkun upplýsingatækni í skólastarfi á grundvelli veikra raka örlítils hóps manna, sem virðist staðráðinn að sýna fram á skaðsemi þess þvert á meirihlutaálit vísindasamfélagsins, væri glapræði. -

TinFoilHatAreaOnlyNýlega hélt Félag foreldra leikskólabarna í Reykjavík ráðstefnu undir yfirskriftinni Börn, skjátími og þráðlaus örbylgjugeislun. Fjórir af sjö fyrirlesurum á ráðstefnunni fluttu erindi um skaðsemi örbylgjugeislunar sem eru í hrópandi ósamræmi við ráðleggingar eftirlitsstofnana og meirihluta vísindasamfélags.

Þessi fámenni hópur heldur því fram að efasemdir um mat vísindasamfélagsins og eftirlitsaðila, sem eru mest þeirra eigin, sýna fram á vafa sem nægir til að krefjast algjörs banns á notkun þráðlausra neta í skólum. Á ráðstefnunni var engin fyrirlesari sem útskýrði eða studdi málstað vísindasamfélags né eftirlitsaðila þótt af mörgum væri hægt að velja. Ég held því að óhæft sé að kalla þetta ráðstefnu, í vísindalegum skilningi. Þetta hljómar meira eins og predíkun - og heyrist það hafa verið raunin af fréttaflutningi (tek það fram að ég mætti ekki).

Burt séð frá því hvort við eigum að kalla þetta vísindalega ráðstefnu eða eitthvað annað þá held ég að ráðstefnuhaldarar hafi gert mikil mistök með því að blanda saman umræður um skjátíma og örbylgjugeislun. Eða kannski var það með ráðum gert til að rugla umræðuna. En þetta tvennt er gjörólíkt - ekki bara efnislega heldur líka í hugum fólks. Ég hef t.d. séð ummæli frá fólki sem sótti ráðstefnuna sem heldur því fram að ráðstefnan var fyrst og fremst um skjátíma. Það virðist hafa misst af þessum 4 af 7 fyrirlesurum sem gerðu örbylgjugeislun að sínu aðalumræðuefni.

En það er ekki ætlun mín að ræða hér um örbylgjugeislun né skjátíma þótt þar sé af nógu að taka. Ragnar Þór Pétursson hefur skrifað ágæta grein um málið og ég skrifaði fyrir nokkru stuttan pistil um það sama.

Það sem ég vil fjalla um hér varðar kröfu sumra um að "leyfa börnum að njóta vafans" (ef einhver er) og banna þráðlaus net í skólum landsins. Þetta er augljóslega markmið ráðstefnuhaldara og það sem fyrirlesarar hafa kallað eftir.

Í umræðum á samfélagsmiðlum eftir þessa ráðstefnu sést að lítill hópur hefur tekið upp málstað ráðstefnuhaldara og fyrirlesara. Þeir eru ekki allir sammála hversu langt eigi að ganga. Sumir vilja banna þráðlaus net, sumir öll snjalltæki, sumir virðast ekki sjá nokkurn tilgang í því að nota upplýsingatækni í skólum yfir höfuð (allavega ekki í yngri bekkjum og leikskólum). En öll eiga þau það sameiginlegt að vilja takmarka mjög notkun upplýsingatækni í skólum miðað við það sem nú er og stefnt er að. Rökin er tvenns konar. Annars vegar að forða börnum frá örbylgjugeislun (sem er e.o. ég hef sagt ekki það sem ég vil ræða hér) og hins vegar að upplýsingatækni, og þá sér í lagi far- og snjalltækni, gerir lítið sem ekkert gagn í skólum. Það er þetta síðara sem ég vil ræða.

Í einum Facebook hópi sagði einn viðmælandi, "Engar vísindalegar sannanir eru fyrir því að börn á leikskólaaldri þroskist betur með snjalltæki eða fái aukin lífsgæði með þráðlausu neti." Þetta virðist vera í samræmi við það sem margir sem vilja úthýsa upplýsingatækni úr skólastarfi eru að hugsa. En í þessum ummælum felst mikill misskilningur á bæði menntavísindum og skólastarfi almennt.

Það er sennilega rétt að það eru engar "vísindalegar sannanir" fyrir því að börn læri betur eða meira með snjalltækni. Við höfum heldur ekki óyggjandi vísindalegar sannanir fyrir því að nemendur læri stærðfræði af stærðfræðikennurum. Hins vegar eru mjög sterkar vísbendingar að eitthvað samband er þar á milli. Og þetta á við um öll menntavísindi.

Í menntavísindum, ef við ætlum að sanna að einhver tækni eða kennsluaðferð hafi tiltekin áhrif á nám, þurfum við að sýna fram á beint orsakasamband milli orsakavaldans og afleiðingarinnar. Við þurfum þá að útiloka að aðrir þættir í umhverfinu hafi áhrif á breyturnar sem við teljum okkur vera að mæla. Þetta getum við ekki í menntavísindum.

Nám fer fram í umhverfi þar sem eru fjölbreyttir og margþættir kraftar að verki: nemendur eru ólíkir, kennarar eru ólíkir, áreiti í umhverfinu virka misjafnt á fólk, o.fl. Við getum ekki einangrað þær breytur sem við viljum mæla frá öllu hinu og getum þess vegna aldrei sýnt fram á beint orsakasamband. Möguleikinn er alltaf fyrir hendi að útkoma úr tilraunum sé vegna einhvers annars, eða samspils við eitthvað annað, en þess sem við erum að reyna að mæla. Það er því óraunhæft að krefjast vísindalegra sannana á áhrifum tækni á námsárangur.

Þótt við höfum ekki vísindalegar sannanir til að styðja við varðandi notkun upplýsingatækni í skólastarfi, þá höfum við þó nokkra reynslu sem gefur okkur ástæðu til að ætla að hægt sé að bæta skólastarf með þessari tækni. Eins og ég sagði áður þá fer nám fram í flóknu umhverfi og að sýna fram á kosti eða galla er ekki eins og að leggja saman 1+1 og fá 2. Raunin er að innleiðsla tækni eins og þráðlaus net, spjaldtölvur eða snjallsíma þar sem það á við, gerir okkur kleift að gera ýmsa hluti sem samræmast námskenningum en var ekki hagkvæmt að gera án tækninnar. Til dæmis:

  • Einstaklingsmiðað nám: Þetta er frábær leið til að mæta þörfum nemenda en nánast óframkvæmanleg þegar þú ert með einn kennara í skólastofu með 20 nemendum. Þegar hver og einn einstaklingur getur verið að vinna með eigið tæki verður þetta hins vega mun raunhæfara.
  • Verkefnamiðað nám: Með fartækni geta nemendur unnið margþætt verkefni sem reynir á og þjálfar alls kyns hæfni. Þar sem þau eru ekki bundið við einn stað geta þau nýtt sér umhverfið í tilraunir, myndatökur og fleira.
  • Skemmtilegt nám: Börn geta lært margt af leikjum og þeim finnst það oft skemmtilegra og þeir halda betur athygli þeirra en margar aðrar aðferðir.
  • Nám með öðrum: Með tækni er hægt að tengja nemendur á ýmsan hátt svo þau læri með og af öðrum, jafnvel nemendum í öðrum löndum.
  • Samsvörun skóla og samfélags: Hlutverk skóla okkar er að undirbúa nemendur fyrir fullgilda þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Til að ná þessu markmiði þarf skóli að endurspeglar samfélagið sem hann þjónar og horfa til framtíðar nemenda. Far- og snjalltæki og möguleikarnir sem þau bjóða upp á eru þau öfl sem eiga eftir að móta framtíðina, þ.e. framtíð nemenda okkar.

Með áframhaldandi tækniþróun bætast við enn fleiri möguleikar. Nú eru nemendur í íslenskum skólum að kynnast alls konar áhugaverðum stöðum og aðstæðum í gegnum sýndarveruleika. Þau stunda lausnamiðað nám sem þjálfar rök- og algóritmíska hugsun með því að forrita vélmenni. Þetta eru hlutir sem gera nám áhugaverðara og skemmtilegra þannig að börn eru ekki bara viljug til að læra heldur eru þau spennt fyrir því. Þetta eru hlutir sem væri ekki hægt að gera án fartækni og þráðlausra neta.

En það er ekki bara tækjanotkun nemendana sjálfra sem bætir nám - líka notkun kennara. Með fartækni og þráðlausum netum hafa kennarar aðgang að margvíslegu kennsluefni sem þeir geta deilt með nemendum. Þeir geta safnað gögnum um nám og árangur nemenda á nýjan hátt og fengið þá betri innsýn í hvað nemendur eru að læra og hvernig er best að aðstoða þá.

Þegar við ákveðum að úthýsa tiltekna tækni úr skólum þá þurfum við að hugsa það dæmi til enda og hafa í huga allt sem hverfur með þeirri tækni. Tökum t.d. skriffæri. Segjum sem svo að við ákveðum að banna skriffæri vegna þess að börn geta stungið sig á þeim og þau trufla skólastarf þar sem nemendur eru að nota þau til að teikna skopmyndir af kennurum og senda skilaboð sín á milli. Hvaða áhrif hefði slíkt bann á skólastarf? Það væri ekki bara að nemendur geta ekki lengur skrifað glósur. Við þyrftum t.d. líka að hætta með skrifleg próf. Þá væri eini möguleikinn að vera með munnleg próf. Heill bekkur nemenda getur ekki tekið munnlegt próf samtímis þannig að þá raskast allar tímaáætlanir vegna þess mikla tíma sem fer í prófin. Og svo framvegis.

Að banna þráðlaus net í skólum í dag myndi takmarka svo mjög notkunarmöguleika upplýsingatækni í skólastarfi að ég leyfi mér að fullyrða að það myndi setja skólaþróun aftur um minnst tvo áratugi. Flest af því sem ég nefni fyrir ofan væri ógerlegt og annað ill framkvæmanlegt. En sumir segja að það er einhver vafi varðandi skaðsemi örbylgjugeislunnar og að börn verði að fá að njóta vafans. Ég held að það fólk skilji illa vafann. Það er innbyggt í eftirlitsstaðla að við fáum að njóta vafans, ef einhver er.

Sumir virðast halda að viðmiðunarmörk sem eftirlitsaðilar styðja við séu hættumörk. Þau eru það ekki. Hæstu leyfilegu viðmiðunarmörk eru aðeins 2% af þeim mörkum sem talið er að geislunin geti mögulega haft skaðleg áhrif. Í skólum í dag þar sem er þráðlaust net og far- og snjalltæki í notkun er geislunin vel innan viðmiðunarmarka.

Raunin er að það mætti líklega lækka viðmiðunarmörk töluvert án þess að það gæfi ástæðu til að banna notkun þráðlausra neta í skólum. En við stillum ekki viðmið út frá því sem við viljum hverju sinni. Við stillum þau í samræmi við viðurkenndar vísindalegar niðurstöður rannsókna og prófanna. Þeir aðilar sem fluttu fyrirlestra um örbylgjugeislun á ráðstefnu Foreldrafélags leikskólabarna í Reykjavík eru á skjön við vísindasamfélagið. Vísindasamfélagið og eftirlitsstofnanir um allan heim hafa ályktað að okkur stafar ekki hætta af þráðlausum netum sem eru í notkun í dag né af þeim tækjum okkar sem tengjast þeim.

Að fórna öllu því góða sem fylgir aukinni notkun upplýsingatækni í skólastarfi á grundvelli veikra raka örlítils hóps manna, sem virðist staðráðinn að sýna fram á skaðsemi þeirra þvert á meirihlutaálit vísindasamfélagsins, væri glapræði.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband