Færsluflokkur: Bloggar

Mála sér ímyndaðan heim með upplýsingatækni

Í árdaga upplýsingatæknibyltingarinnar var því haldið fram að tæknin ætti að veita óheftan aðgang að upplýsingum og þannig að leiða af sér betur upplýstann almenning. Raunin er hins vegar allt önnur. Aukinn aðgangur að upplýsingum hefur fært þeim sem vilja hafa áhrif á skoðanir annarra næstum óendanlegt litaspjald af upplýsingamolum sem þeir blanda saman af eigin geðþótta til að mála ímyndaðan veruleika sem best hentar þeirra málstað hverju sinni. Þetta hefur ekkert með "betur upplýstan almenning" að gera.

Á netinu spretta upp samfélög þar sem deilt er um hin ýmsu mál sem einhverjum finnst skipta máli hverju sinni hvort sem er um pólitík, stök fræði, eða nýjustu tölvuleiki. Oftar en ekki eru þessi samfélög mörkuð af tiltekinni skoðun á málinu sem um er rætt. Það virðist sjaldan vera mikil blöndun mismunandi skoðanahópa. T.d. hér í Bandaríkjunum halda íhaldssamir sér á vefjum Fox News og "framfarasinnaðir" á vefjum CNN. Skoðanahópar geta gengið að því vísu að umræðan sem fer fram á hvorum staðnum fyrir sig endurspeglar fullkomlega þann veruleika sem þeir hafa ákveðið að sé til staðar. Í þau fáu skipti sem einhver dirfist að rengja ríkjandi heimsmynd á tilteknu vefsvæði eru þau ummæli fljótlega kaffærð í kommenta-flóði um óþolandi heimsku og veruleikafirringu viðkomandi. Ef það nægir ekki til að losna við aðskotamanninn er litaspjaldið dregið upp og heimsmyndin máluð á ný með tilvísunum í ótal heimildir sem móta svo skýrar línur að jafnvel hýperrealísku málarar 20. aldarinnar eru sem viðvaningar í samanburði.

Við íslendingar höfum verið fljót að tileinka okkur þessa nýju listgrein sem veruleika-myndgerðin er. Á hinum ýmsu vefsvæðum hafa myndast samfélög málara þar sem heimsmyndin er orðin svo skýr að ekki er um hana að efast. Hér á blog.is, eða "moggablogginu" e.o. það er svo oft kallað, eru nokkrir færustu málararnir. Milli þeirra hefur tekist mjög náin samvinna. Samtvinning verka þeirra hefur orðið til þess að við fáum ekki bara glefsur af heimsmyndinni heldur er líka gegnum gangandi söguþráður þannig að myndgerðin hreinlega lifnar við. Sagan segir sig sjálf og þeir sem dirfast að leggja fram efasemdir eru bara vorkunnsöm blind grey.

Nýlega lenti ég inn á bloggi eins forsprakka málara-elítu moggabloggsins, Jóns Vals Jenssonar, þar sem Jón Valur og félagar voru að móta öflugt nýtt verk um það hvort lönd sem höfðu gengið í ESB gætu sagt sig úr því
. Nýja verkið er auðvitað í takt við ríkjandi heimsmynd þar á bæ, sem segir að ESB er alvald sem gleypir í sig allar þjóðir sem þar knýja á dyr. Auðvitað er ekki hægt að segja sig úr ESB, nema að framkvæmdastjórnin og hvert einasta annað land samþykkir úrsögnina. Eins og við vitum öll sem höfum virt fyrir okkur meistaraverk moggabloggs-málarana er ESB á höttunum eftir aðeins einu - þ.e. þessar miklu auðlindir okkar litla lands. Þegar þeir hafa náð að festa í okkur klærnar verður engin undankomuleið - þeir myndu aldrei samþykkja úrsögn! Það væri eins og að gefa frá sér pott af gulli.

Þó svo að Lissabon Sáttmálin, sem var samþykktur 2009, tók loks af skarið varðandi úrsögn landa úr ESB, er í heimsmynd þessara moggabloggara auðvitað óvefengjanleg staðreynd að það er nánast ómögulegt að segja sig úr ESB. Þessi nýja myndsmíð sýnir í raun hversu hæfileikaríkur hópur þetta er. Á litaspjaldinu þeirra eru bara þrír litir: samhengislausir úrdrættir úr Lissabon Sáttmálanum sjálfum, úrelt vefsíða hjá Danska þinginu, og örstutt samantekt um skýrslu "einhvers grísks embættismanns í seðlabanka ESB". Í Lissabon Sáttmálanum segir að samþykki vegins meirihluta aðildarríkja þarf til að samþykkja samninga. Í meðferð heimsmyndamálarana verður þetta ákvæði um að samþykki allra aðildarríkja þurfi til að einstakt land geti sagt sig úr sambandinu. Vefsíðan hjá Danska þinginu er mjög greinilega dagsett 25.07.2008, rúmu ári áður en Lissabon Sáttmálin var samþykktur. Í skýrslu gríska embættismansins segir ítrekað að með samþykki Lissabon Sáttmálans er ekki nokkur vafi að ESB lönd geta tekið einhliða ákvörðun um úrsögn sína. En þessi atriði skipta ekki nokkru máli. Þau eru ekki á litaspjaldi málarameistaranna heldur bara þessar stakar setningar sem vísað er í:

Lissabon Sáttmálinn: "A qualified majority shall be defined in accordance with Article 238(3)(b) of the Treaty on the Functioning of the European Union."
Danska þingið: "A country can indeed leave the EU, but in principle this requires the consent of all Member States."
gríski embættismaðurinn: "that unilateral withdrawal would undoubtedly be legally controversial"

Með sömu aðferð gæti ég hæglega málað heimsmynd þar sem bækurnar "Sjálfstætt fólk" er um fugla og "Kristnihald undir jökli" er um tertur. Gæti verið skemmtilegt en, satt að segja, sé ég ekki tilganginn í því.

Við höfum tilhneigingu til að ídealiséra upplýsingatækni, að gefa okkur að fólk sé betur upplýst með tilkomu upplýsingatækninnar. Raunin er að upplýsingatækni gerir fólki einstaklega auðvelt að einangra sig í sínum skoðanaheimi. Þegar fólk hafði lítið val um hvaða upplýsingum var miðlað til þess var nánast ógert að verða ekki fyrir ólíkum skoðunum. Nú má hæglega ganga í gegnum lífið nánast án þess að vita af ólíkum skoðunum.

Af hverju bloggar fólk og hverjum kemur það við?

Ég lenti í því um daginn að athugasemd sem ég setti inn á blogg var eydd. Þetta kom mér mjög á óvart vegna þess að athugasemdin mín var, að mér fannst, málefnaleg, benti á ýmsar mótsagnir í máli bloggarans, og bloggfærslan þess eðlis að hún bauð upp á málefnalega umræðu - áleitnar spurningar o.þ.h. Ég komst fljótlega að því að það var ekki nóg með að blogghöfundurinn hafði eytt athugasemdinni minni heldur var líka búið að útiloka mig frá allri umræðu á þessu bloggi. Ég verð að viðurkenna að mér fannst þetta svolítið óréttlátt og það eiginlega fauk svolítið í mig og ég var ekki alveg tilbúinn að sætta mig við þessa meðferð. Þannig að ég sendi aftur inn athugasemd, ekki innskráður á mínu notandanafni (ég gaf þó alltaf upp rétt tölvupóstfang og vefsíðu þannig að það fór ekki milli mála að það var ég sem sendi inn þessi skilaboð), og spurði hvað hafði orðið um fyrri athugasemdina. Mér var þá tjáð að ég hafði verið bannfærður vegna þess að ég hafði sakað blogghöfund um eitt og annað, sem ég kannast ekki við. Þessi seinni athugasemd fékk að vera inni en IP tala tölvu minnar sett á bannlista. Nú var ég verulega gáttaður og kominn upp svolítill púki í mér. Þar sem ég er ekki IP tala fór ég bara inn á annarri IP tölu og hélt umræðunni áfram - mjög málefnalegt og allt það. Sumt fékk að haldast inni og annað ekki og að lokum sagðist höfundurinn ekki hafa tíma til að standa í þessu og ritskoðar nú allar athugasemdir sem sendar eru inn á bloggið hans.

Eftir þetta hef ég verið að hugsa um hvers vegna fólk bloggar. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að fólk hefur ýmsar ástæður og stundum hentar ekki að leyfa hverjum sem er að skrá inn athugasemdir. Verandi svolítill akademíker leitaði ég beint í literatúrinn til að sjá hvort þetta hefur verið rannsakað. Það er ekki mikið en þó eitthvað (sjá t.d. Leave a Reply: An Analysis of Weblog Comments og Why We Blog). Rannsóknir sem hafa verið gerðar koma ekki verulega á óvart - sumir blogga fyrir félagsskap eða skapa umræðu um samfélagsmál eða til að auðga sína þekkingu og taka athugasemdum fagnandi meðan aðrir blogga um persónuleg mál og finnst athugasemdir jafnvel vera eins og óþægileg afskiptasemi.

Miðað við þessar greiningar er ljóst að bloggið sem ég er núna bannaður á (mér skilst að ég er ekki sá eini sem nýtur þess vafasama heiðurs) er af fyrri gerðinni - færslur eru nær allar um samfélagsleg málefni líðandi stundar sem snerta alla og settar þannig fram að þær hvetja til umræðu. Umræður eru líka oft töluverðar og nokkuð líflegar. Hvernig eigum við þá að taka þessum bannfæringum?

Þetta er eigið blogg bloggarans og honum auðvitað frjálst að gera eins og honum sýnist. En, vegna efnisvalsins og að það er boðið upp á að almenningur sendi inn athugasemdir er bloggarinn í raun að gefa í skyn að þetta sé opinn umræðu vettvangur (ekki í neinum lagalegum skilningi samt). Þar af leiðandi, þegar hann eyðir athugasemdum bara út af því að þær samræmast ekki hans skoðunum er hann að gefa í skyn að það er engin teljanleg andstaða við hans málstað. Það má þó nefna að sumir hafa tekið eftir því að athugasemdir eiga það til að hverfa á þessu bloggi og má lesa umræðu um það á blogginu sjálfu. Þeir sem skanna svolítið bloggið eiga því að geta áttað sig á þessu. En, þeir hafa enga leið að vita hvað var í þessum athugasemdum sem búið er að eyða eða hvers vegna þeim var eytt. Þannig að mér finnst eiginlega ekki hægt að kalla þetta annað en ritskoðun (aftur - ekki í neinum lagalegum skilningi).

Það sem mér finnst svo merkilegt við blogg er að þegar vel tekst til og líflegar umræður skapast er hægt að fá í fljótu bragði yfirsýn yfir ýmsar hliðar á málum. En þegar bloggarar velja og hafna á óskrifuðum forsendum hvað fer inn á blogg sem er annars aðgengilegt almenningi skekkist þessi mynd verulega. Rannsóknir hafa sýnt að stór hluti netnotenda á það til að leita eins skammt og mögulegt er af upplýsingum á netinu (sjá t.d. þessa rannsókn). Blogg eru ört vaxandi partur af upplýsingaflæðinu á netinu og eru oft meðal fremstu leitarniðurstaða. Eiga bloggarar að taka þetta til sín og setja sér siðferðilegar skyldur gagnvart sínum lesendum? Ég held að það væri ekki slæm hugmynd. web metrics

Upplýsingatækni og menntun - hvort kemur á undan, hænan eða eggið?

Það er áhugaverð umræða að skapast í tengslum við upplýsingatækni og menntun í þróunarlöndum. Eins og eflaust margir vita hefur hópur við MIT háskólann í Bandaríkjunum undir stjórn Nicholas Negroponte lofað að setja á markað hræódýra ferðatölvu fyrir námsfólk. Tölvan verður ekki seld á almennum markaði heldur verður leitast við að gera samninga við yfirvöld, fyrst og fremst í þróunarlöndum, um magnkaup á tölvum fyrir stóra hópa nemenda, sem hver fengi þá að eiga eigin tölvu. Alls ekki galin hugmynd sem hefur vakið mikla athygli.

En undanfarið hafa fleiri verið að hugsa um upplýsingatækni fyrir þróunarlönd. Microsoft hefur gagnrýnt Negroponte og sína félaga harðlega fyrir það að vera að þróa annars flokks tölvu fyrir þróunarlönd. Þeir vilja frekar ýta undir notkun farsíma í þróunarlöndum og þá sérstaklega öfluga farsíma sem þeir vilja meina að gætu gert flest það sem ferðatölvur Negroponte gera - með Windows stýrikerfi auðvitað.

Núna nýlega hefur svo annar stór aðili blandað sér í málið. Intel hefur núna sett á fót World Ahead verkefnið sitt. Ætlun Intel manna er fyrst og fremst að auka kennaramenntun í notkun upplýsingatæknis í þróunarlöndum.

Hér eru þá komnar tvær andstæðar hugmyndir um hvernig skal koma upplýsingatækni inn í skólastarf í þróunarlöndum. Annars vegar er að láta nemendur tæknina í hendur og hins vegar að láta kennara leiða og ráða ferðinni.

Ég er ekki tilbúinn að taka afstöðu í þessu máli. Reyndar finnst mér báðir aðilar hafa eitthvað til síns máls. En ég spyr ykkur góðir lesendur hvort kemur á undan, hænan eða eggið - nemendurnir eða kennarar?


Nýtt blogg - Þróun og menntamál

Ég (hver er "ég"???) hef verið að blogga í nokkra mánuði á ensku á ICTs and leapfrogging development. Ég er u.þ.b. að klára MA nám í menntun og þróun og má segja að enska bloggið er einskonar vinnubók fyrir lokaritgerðina. Þar er ég mest að skrifa um upplýsingatækni í þróunarstarfi, þá helst tengda menntun. En það fer að styttast í heimkomu og því ekki vitlaust að fara að segja eitthvað um þessi mál á íslensku. Ég lofa samt engu því það gæti farið svo að ég hafi lítinn tíma á næstunni til að halda úti tveimur bloggum, en við sjáum til hvernig gengur.

En til að byrja með eru hér nokkrir linkar á síður sem ég fylgist með:
Development Gateway
United Nations Information and Communication Technologies Task Force
InfoDev: The Information for Development Program
Andy Carvin's Waste of Bandwidth
John Daly's Thoughts About Knowledge for Development


Segjum þetta gott í bili.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband