Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Vilja SA & VÍ fylgja fordæmi eina Norðurlandsins sem er neðar en Ísland í PISA?

Samtök Atvinnulífsins og Viðskiptaráð hafa kynnt sínar áherslur í menntamálum í skýrslunni Stærsta efnahagsmálið: Sóknarfæri í menntun, sem kom út í síðasta mánuði. Helstu áherslurnar í skýrslunni virðast snúast fyrst og fremst um aukna aðkomu einkageirans að menntakerfinu og þá helst í formi einkarekinna skóla sem þó verða kostaðir af hinu opinbera. Það eru ansi margir veikir punktar í skýrslunni en ég ætla aðallega að tala hér um gröf sem kemur fram strax á bls. 9. Umfjöllunin hér er um meintan slakan árangur íslenskra nemenda á PISA og sérstaklega fundið að því að okkar nemendur skuli koma illa út í samanburði við önnur Norðurlönd þrátt fyrir það mikla fjármagn sem sett er í íslenska skólakerfið. Þessi mynd er svo birt til að sýna lesandanum hversu alvarlegur þessi mikli vandi er:

VI_SA_Menntun

Höfum nú í huga að skýrsluhöfundar halda því fram að íslenskir skólar kosta of mikið og ná ekki ásættanlegum árangri. Miðað við þessar forsendur og það sem kemur fram í myndinni fyrir ofan ættum við helst að fylgja fordæmi Finna. Þeir ná lang besta árangri miðað við fjárútlát. Um þetta verður ekki deilt. Þetta kemur mjög skýrt fram.

Höfum nú í huga hvað skýrsluhöfundar vilja að verði gert til að bjarga íslenska skólakerfinu, þ.e. að einkaaðilar fái opinbert fjármagn til að sjá um rekstur skóla. Það er aðeins eitt Norðurland sem hefur tekið upp slíkt fyrirkomulag að einhverju ráði. Það er Svíþjóð. Lítum nú aftur á myndina fyrir ofan. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að skýrsluhöfundar séu s.s. að leggja til að við fylgjum fordæmi eina Norðurlandsins sem er fyrir neðan Ísland í PISA!!!


Hvað hefur fræðasamfélagið um málefni framhaldsskóla að segja?

HvitbokÁ vef MenntaMiðju birtist í dag brot úr umræðu fræðimanna um Hvítbók um umbætur í menntun og málefni framhaldsskóla sem hefur farið fram innan Menntavísindasviðs HÍ síðustu vikur. Þetta er mjög áhugavert og þarft innlegg í þessa umræðu. Meðal þess sem þar kemur fram:

Gestur Guðmundsson: "Á bak við stefnumiðið um 'fleiri námslok á tilsettum tíma' búa vissulega réttmætar áhyggjur af þeim fjölmörgu íslensku framhaldsskólanemum sem 'finna sig ekki' í náminu, og hvítbókin tekur réttilega undir ábendingar um aðgerðir sem greina slíkan vanda snemma og taka á honum. En oft eru réttustu aðgerðirnar að nemendur taki sér hlé frá námi og endurheimti áhuga og námshvata við annað en venjulegt framhaldsskólanám."

Helgi Skúli Kjartansson: "Úr því svona margir ljúka stúdentsprófi, þá er minni sérhæfing fólgin í þess háttar námi, minna val eða ákvörðun að leggja út í það og markmið þess óhjákvæmilega almennari. Þess vegna er eðlilegt að stytta námið svo að nemendur fái á eðlilegum aldri að taka raunverulegar ákvarðanir um markmið sín í námi og framtíðarstarfi."

Atli Harðarson: "Gestur bendir réttilega á (í grein á bls. 23 í Fréttablaðinu 3. júlí 2014) að munurinn á skólagöngu ungmenna hér á landi og í Danmörku er mun minni en ætla mætti af yfirlýsingum þeirra sem hafa stór orð uppi um brottfallið hér á landi. Veruleikinn er sá (skv. Education at a Glance 2014, bls. 313) að hér á landi var fremur hátt hlutfall fólks á aldrinum 15 til 19 ára í skóla árið 2012 eða 88%. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 86% til 87% og meðaltalið fyrir OECD var 84%. Þessar nýjustu samanburðartölur um skólasókn benda því ekki til að íslensk ungmenni flýji framhaldsskólana í meira mæli en gerist og gengur í öðrum OECD löndum.
Ekki er nóg með að skólasókn hér sé með meira móti heldur var útskriftarhlutfall líka hátt árið 2012 eða 95% (Education at a Glance 2014, bls. 67). Á hinum Norðurlöndunum var það á bilinu 77% til 93% og meðaltalið fyrir OECD var 84%."

Greinin í heild er hér


mbl.is 17 ára með ráðstefnu í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei ráðherra, Bandarísk yfirvöld áætla ekki fangelsisrými út frá einkunnum 4. bekkinga í læsi

kids_jail
Í gær mætti ég ásamt fjölmörgum á ráðstefnu Heimilis & skóla, Allir snjallir, á Grand Hótel. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, var þar mættur til að opna ráðstefnuna. Í lok ræðu sinnar upplýsti ráðherra okkur um að hann hefði eitthvað svo mikilvægt að segja okkur að hann ætlaði að leyfa sér að vera svolítið seinn á ríkisstjórnarfund sem hann ætti nú að vera drífa sig á. Það sem var svo merkilegt að ríkisstjórnin öll var sett í biðstöðu var að hann hefði heyrt það að í Bandaríkjunum áætla fangelsismálayfirvöld þörf fyrir fangelsisrými í framtíðinni út frá einkunnum 4. bekkjar nemenda í læsi. Þetta er ósönn mýta sem virðist byggð á mjög svo skapandi túlkun á margvíslegum rannsóknum og gögnum. Með þessu vildi ráðherra sýna okkur hversu mikilvægt læsi er í raun og veru. Mér skilst að þetta sé partur af rökfærslu sem hann hefur notað á fundum sínum víða um land undanfarið.

Ráðherra tók fram að þessi “staðreynd” væri “ótrúleg” en sýnir okkur hversu mikilvægt læsi er í námi barna. Ég held að allir geti verið sammála um mikilvægi læsis en mér var kennt að partur af því að vera “læs” er ekki bara að geta nýtt mér upplýsingar, en líka að vera gagnrýnin á þær upplýsingar sem ég fæ í hendurnar. Hér gildir gullna reglan að ef eitthvað virðist vera “ótrúlegt” þá eru miklar líkur á að svo sé raunin. Þetta köllum við í menntageiranum "upplýsingalæsi" og því miður fær ráðherra ekki háa einkunn frá mér í þessum fræðum miðað við þessa frammistöðu.

Það tók mig innan við eina mínútu að komast að því að þessi fullyrðing er ósönn, og ég hef ekki einu sinni aðstoðarmann mér til fulltingis eins og sumir.

Er þetta sniðugt? Um PISA niðurstöður einstakra skóla

Af þessum ástæðum er mjög varhugavert að draga ályktanir út frá PISA niðurstöðum einstakra skóla. PISA könnunin gerir ráð fyrir að gögn eru skoðuð í víðu samhengi, og er það meira að segja svo að það er grunnforsenda fyrir því að niðurstöður geti talist áreiðanlegar.  
 

Pisa_OECD_tower

PISA könnunin er gerð til að meta stöðu menntakerfis, ekki einstakra skóla eða einstakra nemenda. Mikill tími, vinna og prófanir hafa farið í að tryggja að könnunin mæli það sem henni er ætlað að mæla. PISA könnunin er því mjög sérhæft mælitæki sem er ætlað að skila nákvæmum niðurstöðum um eitthvað tiltekið. Þegar við notum mælitæki sem ætluð eru í eitt til að álykta um annað, jafnvel eitthvað sem okkur finnst vera náskylt, verða útkomur ónákvæmar, og í versta falli fullkomlega ómarktækar.
 
Tökum dæmi sem flestir ættu að kannast við: segjum að við séum að hengja mynd á vegg og okkur er mikið í mun að hafa hana mjög beina. Við getum notað ýmsar aðferðir til að miða út hvernig best er að hengja hana. Við gætum t.d. notað málband til að mæla út tvo punkta frá gólfi eða lofti til að nota til viðmiðunar. En þegar við stillum myndina af samkvæmt mælingum okkar kemur í ljós að hún virkar skökk. Mælitækið sem við höfum notað tekur ekki tillit til þess að loft eða gólf eru kannski örlítið skökk. Skekkjan hefur áhrif á myndina þannig að þessi smávægilegi halli, sem við tökum yfirleitt ekki eftir, verður óbærilega truflandi. Hins vegar ef við notum hallamál, verkfæri sem er sérhannað til þessa verks, þá erum við laus við skekkjuna. Það er eins með að nota PISA niðurstöður í eitthvað annað en þeim er ætlað - hætta er á að smávægilegar skekkjur verði svo ýktar að útkoman verði með öllu ómarktæk.
 
Áreiðanleiki PISA könnunarinnar felst í aðferðafræðinni sem hún byggist á, sem hefur verið mjög vandlega þróuð til að tryggja að niðurstöður eru í samræmi við markmið könnunarinnar. Hönnuðir könnunarinnar þurfa að hafa ýmislegt í huga, en sérstaklega að mælitækin sem þeir eru að búa til samræmast ekki endilega námi þátttakenda. Þegar nemendur taka hefðbundin próf þá hafa þeir venjulega farið saman í gegnum um nám þar sem efnið hefur verið kynnt og kennt á tiltekinn hátt. Þá má gera ráð fyrir að hægt sé að spyrja spurninga í samræmi við kennsluna sem allir nemendur skilja og átta sig á hvað er verið að spyrja og hvernig eigi að leysa verkefnið.
 
Í PISA er fjöldi nemenda frá ólíkum skólum og löndum sem hafa fengið ólíka kennslu sem eiga að taka þátt í staðlaðri könnun sem skilar samanburðarhæfum niðurstöðum. Ef prófað væri með hefðbundnum hætti í PISA könnuninni væri nánast ógerlegt að semja spurningar sem væru svo almennar að allir þátttakendur, sama hvers konar kennslu þeir hafa fengið eða hver þeirra námsreynsla er, standi jafnt að vígi. Þá væru skekkjurnar það verulegar vegna óskyldra þátta að niðurstöður væru ómarktækar.
 
Til að minnka áhrif fyrirsjáanlegra skekkja í PISA er notast við 13 ólík prófhefti sem eru dreifð handahófskennt á þátttakendur. Þá má gera ráð fyrir að þegar niðurstöður stórra hópa eru skoðaðar þá dreifast smávægilegar skekkjur á fjölda þátttakenda og verða fyrir vikið óverulegar (byggist á tölfræði lögmálinu the law of large numbers). Hins vegar ef niðurstöður lítilla hópa eru skoðaðar geta skekkjur orðið mjög ýktar.
 
Segjum að í einum íslenskum skóla voru 15 nemendur sem tóku þátt í PISA. Tilviljun réði því að helmingur nemendana fengu sama prófhefti og að þetta tiltekna prófhefti reyndist mjög erfitt fyrir íslensku nemendurna að skilja. Þeir voru ekki vissir hvert verkefnið var sem þeir áttu að leysa vegna þess að orðalagið var framandi af einhverjum ástæðum (þetta er ýkt dæmi og ekki líklegt að slíkt gerist í raun). Þegar niðurstöður frá þessum tiltekna skóla væru skoðaðar gæti útkoman verið mjög slök. Það er ekki vegna þess að nemendurnir kunnu ekki að leysa verkefnin sem voru lögð fyrir, heldur að stór hluti þeirra skildu ekki spurningarnar. Hins vegar, ef við skoðum landið í heild þá verða þessir 7,5 nemendur sem fengu óskiljanlegt próf svo lítill hluti af heildinni að þeir hafa ekki teljandi áhrif á lokaniðurstöður.
 
Það er mjög varhugavert að draga ályktanir út frá PISA niðurstöðum einstakra skóla. PISA könnunin gerir ráð fyrir að gögn séu skoðuð í víðu samhengi, og er það meira að segja svo að það er grunnforsenda fyrir því að niðurstöður geti talist áreiðanlegar. Þetta er ekki lagalegt mál, ekki pólitískt eða einfalt álitamál sem stofnanir samfélagsins geta skorið úr um - þetta er aðferðafræðilegt mál og úrskurður dóms breytir því ekki að það er aðferðafræðilega varhugavert að birta PISA niðurstöður með þeim hætti sem Reykjavíkurborg hefur verið gert að gera.

mbl.is Borgaskóli stóð sig best í PISA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný gjaldskrá Símans = aukinn kostnaður fyrir kennara og nemendur

too-damn-high
Eins og flestir vita hefur Síminn kynnt nýja gjaldskrá fyrir nettengingar. Helsta breytingin er að nú verður rukkað jafnt fyrir bæði innlendun og erlendan gagnaflutning. Það er ýmislegt sem hægt er að segja um þessa breytingu en mig langar sérstaklega að vekja athygli á kostnaðaraukningu sem þetta hefur í för með sér fyrir notkun upplýsingatækni í skólastarfi.

Í nýjum námskrám er gert ráð fyrir að netið nýtist í námi og kennslu bæði til upplýsingaöflunnar og miðlun kennsluefnis. Sérstaklega er lögð áhersla á notkun fjölbreyttra miðla, s.s. myndrænt- og hljóðrænt efni. Það er allt gott og vel og margir kennarar að gera góða hluti með þau markmið. Hins vegar, hefur skortur á aðgengilegri hýsingu innanlands fyrir slíkt námsefni verið nefnt sem hindrun. Vandinn er að notkun hýsingarmöguleika erlendis, s.s. YouTube o.fl., fylgir aukinn kostnaður fyrir kennara og nemendur vegna gjaldtöku samskiptafyrirtækja fyrir erlent niðurhal. Þannig verður nemendum og kennurum mögulega mismunað þar sem aðgengi þeirra að kennsluefni sem er þannig hýst ræðst að einhverju leyti af getu þeirra til að greiða fyrir niðurhalið. Sérstaklega á þetta við um margmiðlunarefni sem getur verið þungt og kostað heilmikið niðurhal.

Síðustu ár hefur verið töluverð umræða um þörf fyrir aðgengilega og hagkvæma hýsingarkosti hér á landi til að gera námsefni aðgengilegt á netinu án þess að það feli í sér aukinn kostnað fyrir þá sem þurfa að nota það. Eitthvað hefur miðast í þessum málum, t.d. með tilkomu vefsins Vendikennsla.is þar sem kennarar geta gert margmiðlunarefni aðgengilegt fyrir nemendur. Vistun efnis er ókeypis fyrir kennara og allt efni er hýst á innlendum þjónum þannig að niðurhal hefur verið ókeypis fyrir nemendur.

Ný gjaldskrá Símans gerir þessar framfarir að engu. Viðskiptavinir þurfa að greiða fyrir niðurhal á efni frá innlendum hýsingaraðilum eins og Vendikennsla.is sem þeir gerðu ekki áður. Ennfremur get ég ekki séð að það séu neinir möguleikar til að koma til móts við þá sem eru efnaminni eins og nýja gjaldskráin er sett upp. Ný gjaldskrá Símans gerir það að verkum að aukin notkun stafrænna miðla í námi og kennslu -eins og hvatt er til í nýjum námskrám- mun fela í sér aukinn kostnað fyrir bæði kennara og nemendur.

mbl.is Síminn hyggst rukka fyrir alla notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okkur vantar framtíðarflokk í íslensk stjórnmál

keep-calm-and-let-s-make-our-future
Ég skipti mér ekki mikið af pólitík hér á Upplýsandi tæki en var að detta í hug: okkur vantar framtíðarflokk í íslensk stjórnmál. Hlutverk framtíðarflokksins er einfalt - hann sér til þess að pólitískar ákvarðanir miðast við væntanlega og æskilega tæknilega og samfélagslega þróun til lengri tíma. Framtíðarflokkurinn sér til þess að stjórnvöld vinni út frá raunhæfri og heillavænlegri framtíðarsýn sem byggir á stöðugu mati á breytingaröflum og áhrifavöldum. Þegar einn flokkur segir “Það kemur ekki til greina að ganga í ESB.”, segir Framtíðarflokkurinn “Hvernig lítur Ísland utan ESB út eftir 20-30 ár?” Þegar einn flokkur segir “Það þarf að stytta skólagönguna.”, segir Framtíðarflokkurinn “Hvernig lítur samþjappaðra skólakerfi út eftir 20-30 ár?”, og svo framvegis.

Framtíðarflokkurinn myndi sjá til þess að framtíðarsýn og viðmið mótast af hlutlausri og vísindalegri umræðu um breytingaröfl sem kunna að hafa áhrif á íslenskt samfélag. Flokkurinn sjálfur er ekkert sérstaklega til hægri, vinstri eða þar á milli, en er meðvitaður um að slíkar hugmyndafræðilegar tiktúrur hafa óneitanlega áhrif á þróun mála til lengri tíma. Þannig yrði tekið tillit til pólitískra strauma og stefna í mótun langtímasýnar eins og aðra þætti sem kunna að hafa áhrif.
 
Virðist vera til vísir af svona stjórnmálaflokki í Ástrálíu (kemur s.s. ekki á óvart - margir merkustu framtíðarfræðingar í dag eru frá Ástralíu).
 
Er ekki einhver sem er meira pólitískt þenkjandi en ég til í að taka við og gera eitthvað úr þessu?

Kunnum við nógu vel á framtíðina?

believablefuture
Í Kanada taka stefnumótendur framtíðina alvarlega. Þar hefur verið starfrækt síðan 2011 opinber stofnun, Policy Horizons Canada, sem hefur það hlutverk að afla og miðla upplýsingum um tækni- og samfélagslega þróun framtíðar fyrir opinbera aðila, stefnumótendur, og almenning. Þannig er unnið markvisst að því að yfirvöld, atvinnulíf, stefnumótendur og aðrir hafi þær upplýsingar sem þeir þurfa til að miða aðgerðir að langtímaþörfum samfélagsins. Stofnunin gefur út ótal rit á ári en ein helsta afurðin er MetaScan ritröðin, en MetaScan3 kom út nýverið þar sem er farið yfir helstu tækninýjungar sem munu líta dagsins ljós á næstu 10-15 árum.

Það er minn draumur að til verði framtíðarstofa af þessu tagi hér á Íslandi (alla vega fyrir menntasamfélagið) sem hefði það hlutverk að safna og miðla upplýsingum um framtíðina, en líka að þjálfa þá sem koma að mótun skóla- og menntastarfs í því að vinna kerfisbundið með slíkar upplýsingar og miða ákvarðanatöku við langtímaþarfir samfélagsins.

Á síðustu rúmlega 5 árum hef ég unnið með ýmsum hópum skólafólks, bæði hér á Íslandi og erlendis, við að vinna úr upplýsingum um framtíðina og nýta til stefnumótunnar. Það er ýmislegt sem maður lærir af svonalöguðu, t.d.:

Okkur (mannkynið) er tamt að hugsa um framtíðina - við ímyndum okkur framtíð, gerum fyrirætlanir og miðum oft okkar athafnir við tiltekna framtíðarsýn. Maðurinn er framtíðarmiðuð skepna!

Þrátt fyrir að vera framtíðarmiðuð að eðlisfari er ekki sjálfgefið að við séum sérstaklega klár þegar kemur að því að hugsa um framtíðina.
  • Flestum reynist erfitt að hugsa lengra en 5 ár fram í tímann nema þá í rótgrónum staðalmyndum.
  • Framtíðarsýn byggir oftar en ekki á ímynduðum stöðugleika, það er að segja að jafnvel þegar við hugsum 5 ár fram í tímann eða lengra endurspeglar sýnin nútímann án nægilegs tillits til fyrirsjáanlegra breytinga.
  • Tiltölulega fáir meðal sérfræðinga, stefnumótenda eða almennings fylgjast nægilega með því sem er að gerast í tækni- og samfélagsþróun hverju sinni til að geta sett fram raunhæfar áætlanir um hvers er að vænta 10-15 ár fram í tímann.

Allt þetta verður til þess að jafnvel þegar við tökum okkur til og ætlum okkur að móta framtíðarsýn til langs tíma fyrir íslenskt samfélag misheppnast það og framtíðarsýnin verður úrelt á örfáum árum - ef hún var þá einhverntíma gild.

Ef við hér á Íslandi ætlum okkur að taka framtíðinni alvarlega, eins og Kanadamenn eru að gera, þurfum við fyrst og fremst að gera tvennt:
  • Huga að því hvernig við ætlum að afla upplýsinga, vinna úr þeim og miðla til þeirra sem þurfa,
  • og byggja markvisst upp hæfni þeirra sem koma að, eða hafa áhrif á, ákvarðanatöku til að móta raunhæfa framtíðarsýn sem hægt er að fylgja til lengri tíma.
Þetta er verðugt verkefni sem enginn, sem ég veit um, er að vinna að um þessar mundir. 
 
Og hérna er svo vandinn við þetta allt saman: við höfum ekki svigrúm til að eyða miklum tíma í þetta! Tækniþróun verður sífellt örari og er jafnvel orðin slík nú þegar að meðal manneskjan getur ekki lengur fylgst með öllum þeim breytingum sem eru að eiga sér stað hverju sinni, jafnvel á sviðum sem hver og einn þykist hafa sérþekkingu.

Hver ætlar að vera memm’ í þessu?
 
Að lokum - Með skýrslunni MetaScan3 hefur Policy Horizons Canada látið gera þessa mjög fínu "infographic" til að lýsa tækniþróun komandi ára. Hér er flott uppsettning sem gott er að skoða á tölvuskjá.

Verða hlynntir fleiri en andvígir fyrir lok þessa kjörtímabils?

ThumbupwithEUflag-large
Í könnunum sem þessum þar sem viðhorf er kannað með nokkuð reglulegu millibili er mesta upplýsingagildið í breytingum yfir lengri tíma. Við sjáum á þessari gröf að breytingar milli kannana segja okkur afskaplega lítið. Þar hoppar allt upp og niður og líklegt að þessar smávægilegu breytingar endurspegli frekar umræðu hverju sinni frekar en almennt álit landsmanna. Eins er munurinn milli andvígra og hlynntra hverju sinni lítið áhugaverður þar sem hver slíkur punktur er út af fyrir sig aðeins svipmynd af stöðunni á tilteknum tíma og skortir víðara samhengi. Ferlið frá upphafi tímabilsins sem sýnt er í gröfinni og til dagsins í dag er því aðal fréttin hér og hún er nokkuð áhugaverð. Það er mjög skýrt að fjöldi þeirra sem segjast vera andvígir aðild fer minnkandi meðan fjöldi þeirra sem segjast vera hlynntir fer vaxandi.


Raunin er að á rúmlega 2 árum hefur fjöldi andvígra fækkað um næstum 10% meðan fjöldi hlynntra hefur aukist um ca. 5%.

Ef þessi þróun heldur áfram gætu hlynntir orðið fleiri en andvígir á þessu kjörtímabili.

mbl.is Fleiri hlynntir inngöngu í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mýtan um samkeppni í menntamálum

TOW_students
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlits, vill koma á samkeppni í menntamálum eftir fyrirmynd Svía. Hann segir meðal annars að samkeppni leiði til betri þjónustu og að hún snúist fyrst og fremst um gæði. Hvað eru "gæði" í menntamálum? Það er væntanlega að skólar skili betri árangri í formi námsárangurs nemenda. Páll bendir svo á reynslu Svía sem dæmi um að þetta sé hægt og að það gangi upp. Hann segir það ekki berum orðum en ýjar að því -og eiginlega ekki hægt að skilja hann öðruvísi- að aukin samkeppni í menntamálum muni leiða til betri námsárangurs nemenda. Gallinn er að rannsóknir á námsárangri sænskra nemenda eftir að tekið var upp núverandi kerfi sem leyfir opinberu fjármagni að renna til einkarekinna skóla sem eru í samkeppni við opinbera skóla styðja ekki hans fullyrðingar.

Áhrif samkeppnisvæðingar menntamála í Svíþjóð hafa verið rannsökuð nánast í þaula allt frá því að nýja kerfið var tekið upp. Fyrst voru það rannsóknir Martin Carnoy á 10. áratug síðustu aldar. Síðan hafa fylgt ótal rannsóknir og kannanir Svía og annarra sem sýna nánast allar það sama. Val eykst, ójöfnuður eykst og breytingar á námsárangri eru nánast engar. Þrátt fyrir að mikill meirihluti rannsókna sýni að samkeppnisvæðingin í Svíþjóð hafi ekki haft teljandi áhrif á námsárangur eru alltaf einhverjir sem halda hinu gagnstæða fram. Nánast allir sem það gera styðjast við tvær rannsóknir:



Báðar þessar rannsóknir eru sagðar sýna að námsárangur hafi aukist, einkum í stærðfræði, eftir samkeppnisvæðingu menntamála í Svíþjóð. Rannsóknirnar nota svipaða nálgun en Ahlin notar ítarlegri gögn og þykir Ahlin því styrkja niðurstöðurnar sem Sandström & Bergström fengu áður.

Björklund, Edin, Fredriksson & Krueger segja frá endurskoðun þeirra á gögnum og greiningu Ahlin í skýrslu frá 2004. Niðurstöður þeirra benda til þess að Ahlin hafi ofmetið breytingu á námsárangri í stærðfræði. Endanleg niðurstaða þeirra er að það eru einhverjar vísbendingar um bættan námsárangur, en "more often than not there is no relationship between student performance and private school attendance and school competition respectively." (bls. 119).

Niðurstaðan er því eins og ég sagði áður - nánast allar rannsóknir á samkeppnisvæðingu menntamála í Svíþjóð sýna að hún hefur haft óveruleg áhrif á námsárangur og ójöfnuður jókst. Það sem meira er þá er þetta í samræmi við rannsóknir á svipuðum kerfisbreytingum í öðrum löndum, t.d. Bandaríkjunum, Chile og Nýja Sjálandi. Það getur verið að samkeppnisvæðing menntamála hafi einhverja kosti í för með sér, en það er hæpið að fullyrða að hún bæti "gæði" (hvað sem er meint með því) og þjónustu.

Mér er því spurn - af hverju heldur Páll Gunnar að samkeppnisvæðing í menntamálum auki gæði og þjónustu?

mbl.is Vill aukna samkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um tillögur hagræðingahóps

Loks eru birtar tillögur hagræðingahópsins sem allir hafa beðið eftir með mikilli eftirvæntingu. Þvílíkt spennufall! Þvílíkt svekkelsi. Kemur í ljós að tillögurnar eru ekkert annað en samansafn af flestum þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram af hinum og þessum aðilum síðustu 5-6 árin. Meira segja er það svo að margar tillögurnar eru þegar í vinnslu. Hópsfólk gerði okkur þann greiða að merkja þær sérstaklega í listanum með rauðri stjörnu. Mér er spurn - hvernig getur eitthvað sem er þegar í vinnslu orðið að tillögu að nýbreytni?

En hvað um það - það eru smáatriðið. Stóra málið er, e.o. hópurinn segir:
Tillögur sem svipar til tillagna hagræðingarhópsins hafa í mörgum tilfellum verið lagðar fram áður. Það er hins vegar ekki nægilegt að leggja fram góðar tillögur og hugmyndir, það þarf að koma þeim til framkvæmda.

Ekki vitlaus ráð. H.v. áður en kemur til framkvæmda þarf að ganga úr skugga um að raunhæft sé að áætla að breytingar sem mælt er með munu hafa tilætluð áhrif. Já, það þarf að gera kostnaðaráætlanir, kanna viðhorf hagsmunaaðila, gera innleiðingaráætlanir, o.s.frv. Ég horfi helst til þeirra tillagna sem varða skóla- og menntamál, e.o. vanalega. Ég get ekki séð að neitt slíkt hafi verið gert. Ég er t.d. enn að bíða eftir því að fá skýringu frá einhverjum, mér er eiginlega sama hver það er, hvernig stytting skólagöngu eigi að leiða til þeirrar hagræðingar sem haldið hefur verið fram. Hefur lengd skólagöngu virkilega það mikil áhrif á kostnað skólakerfisins að við þurfum að einblína á það frekar en t.d. að auka notkun rafræns námsefnis, meta kostnað og gagnsemi kostnaðarsamra samræmdra prófa og annað sem hefur augljós tengsl við kostnað. Þannig að, já, e.o. hópurinn segir, nú þarf framkvæmdir - en það er víst ekki í verkahring þessa hóps að koma að þeirra vinnu sem þarf til að það verði hægt.

Hvað hefur þá þessi hagræðingarhópur skilað okkur? Ég sé ekki betur en að það sem þessi hagræðingarhópur hefur gert er að safna saman alls kyns tillögum sem settar hafa verið fram á undanförnum árum (sérstaklega tillögur vinnuhóps um aukna "hagsæld", sem eru í raun meira um hagræðingu en ekki hagsæld) og telja þær. Tillögurnar eru víst 111. Þetta er í það minnsta efni í verðuga Trivial Pursuit spurningu.

mbl.is 41 tillaga þegar í úrvinnslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband