Færsluflokkur: Vefurinn

Pínlegt að sjá fjölmiðla falla fyrir augljósu plati

Uppfært aftur: Það er loksins búið að breyta fréttinni og allt um grínistana á @Riverblufdental fjarlægt. En það má sjá brot af því sem stóð upphaflega (og í rúmar 12 klst. þar á eftir) á skjáskotinu fyrir neðan. E.o. víti til varnaðar - vinna rannsóknarvinnuna fyrst og svo birta. Ekki öfugt.

Uppfært: Þessi frétt er núna sú mest lesna á vef mbl.is og enn ekki leiðrétt eftir 12 klst. á netinu. Þetta er áhugavert dæmi um s.k. síubólu held ég.

@Riverblufdental, Twitter notandinn sem vísað er í í fréttinni, byrjaði að tísta nokkrum dögum eftir að tannlæknirinn sem rekur stofuna, Walter Palmer, komst í fréttir fyrir að hafa drepið ljónið Cecil. Alla tíð síðan hefur @Riverblufdental verið að ögra fólki með myndum af köttum, ljónum og ýmsum öðrum dýrum ásamt tístum um tannheilsu og það sem umsjónarmönnum finnst vera óþarfa æsingur vegna frétta um veiði Palmers. Stundum fyndið, stundum ekki, en allt í plati. Þeir trúgjörnustu hefðu allavega mátt taka eftir því að gríntístarinn skrifar "River Bluff Dental" rangt (@Riverblufdental: bara eitt 'f'), sem er algeng taktík til að plata fólk í netheimum.

Ég geri ráð fyrir að blaðamenn mbl.is leiðrétti þetta fyrr eða síðar þannig að ég tók skjáskot til að varðveita mómentið:

riverbluFdental


mbl.is Ljónadráparinn snýr úr felum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta geirvörtur breytt heiminum?

miles-davis-san-francisco-ca-1971-jim-marshall

Miles Davis og geirvörtur hans um það leyti sem hann var að breyta heiminum.

Um fátt annað hefur verið rætt eins mikið síðustu daga en brjóst og geirvörtur. Margir furða sig á þessu nýjasta uppátæki íslenskra ungmenna sem tóku sig til og flössuðu geirvörtum sínum fyrir hverjum sem vildu sjá, sem og þeim sem ekki vildu. „Ég bara skil þetta ekki!”, segja sumir. Biggi lögga heldur því fram að þátttakendur munu sjá eftir því síðar meir. Sumir ganga svo langt að kalla þátttakendur „plebba". Sérfræðingur í kynjafræðum velti fyrir sér í fréttum RÚV hvort átakið „tali inn í það samhengi” sem skapast hefur í kringum ríkjandi orðræðu um jöfnuð og réttindi kynja. En þá spyr ég: af hverju ætti unga fólkið að vera að tala inn í það samhengi? Sú orðræða hefur augljóslega ekki skilað því sem það vill. Skilaboð unga fólksins eru skýr fyrir mér: nú skal hafna gömlu gagnslausu orðræðunni og taka upp nýja, sem verður á forsendum nýrrar kynslóðar. Það er því ekki að furða að aðgerðirnar „tala ekki inn í” gamla samhengið. Það er þveröfugt við markmiðið. Þeir sem ætla að taka þátt í nýju orðræðunni verða að tala inn í hana - aðrir munu aldrei heyra né skilja það sem unga fólkið er að segja.

Það sem unga fólkið er að gera nú minnir um margt á það sem Miles Davis gerði í djasstónlistinni á 7da áratug síðustu aldar. Mörgum fannst djassinn þá vera orðinn einsleitur og þreyttur - búinn að hjakka í sama farinu í áratugi. Þegar Miles Davis gaf svo út plötuna Bitches Brew voru margir sem höfnuðu henni og sögðu Davis vera algjörlega genginn af göflunum að vera senda frá sér þvílíkan hávaða og kalla „djass”. Í dag er Bitches Brew auðvitað talin eitt mesta meistaraverk tónlistarsögu 20. aldar. Hún markaði upphaf byltingar í tónlist, sem breytti ekki aðeins hvernig tónlist er samin og spiluð heldur líka hvernig við hlustum á og heyrum tónlist. Davis tók sér það bessaleyfi að gjörbreyta tónlistarorðræðunni og hann gerði það ekki með því að tala inn í það sem samhengi sem var til staðar. Hann bauð tónlistarmönnum og unnendum að taka þátt í að móta nýja orðræðu, sem þeir og gerðu. Hvort sem hlustað er í dag á djass, rock, R&B, klassík eða hvað annað, er öruggt að greina má áhrif Bitches Brew í einhverju formi.

Þeir vita það vel sem hafa fengist við nýsköpun og/eða breytingastjórnun að oft er besta, og jafnvel eina leiðin til að ná árangri að skapa nýja orðræðu. Ef sú gamla er orðin svo rótgróin að engin man t.d. hver ákvað að konur mega ekki sýna geirvörtur sínar né hvers vegna, en samt er staðið fast á því að það megi alls ekki, þá er líklega kominn tími til að taka málið upp á nýjum forsendum. Það er það sem unga fólkið er að gera nú og ég fagna því. Ég er kannski ekki alveg tilbúinn að hella mér í þá umræðu en ég ætla að leggja mig fram við að hlusta á það sem unga fólkið er að segja og reyna að skilja þeirra mál svo ég geti talað inn í þeirra samhengi - þeirra sem munu líta skammarlaust til baka þegar þau benda á myndir sem þau póstuðu og segja „Þetta er þegar ég byrjaði að breyta heiminum.


Áður en allir fara að segja upp Facebook...

scaryfacebookSíðustu daga hefur verið nokkur umræða um meðferð Facebook á persónulegum gögnum. Umræðan virðist eiga rætur að rekja (að þessu sinni - er alls ekki ný af nálinni) til erindis sem Ævar Einarsson, ráðgjafi hjá Deloitte, flutti á einhverri samkomu nýverið. Fréttir RÚV um málið gefa til kynna að miklar breytingar hafi átt sér stað um áramótin sem fela í sér stóraukið aðgengi Facebook að persónulegum gögnum sem hafa ekkert með notkun á miðlinum að gera. Skilaboðin eru nokkuð skýr, “Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú notar Facebook!”, eða eins og Ævar segir,

“Ef þú vilt vera alveg viss að þessar upplýsingar leki ekki til þriðja aðila og að myndirnar þínar séu ekki notaðar, þá verðurðu náttúrulega bara að hætta að nota Facebook…”

En Facebook hefur reynst mjög gagnleg fyrir marga notendur (sjá t.d. öll starfssamfélög skólafólks sem nota fésbók í markvissa starfsþróun). Er það sem hér er verið að ræða næg ástæða til að fórna því öllu? Ég held ekki. Í þessari umræðu sem hefur átt sér stað síðustu daga er farið heldur frjálslega með sumar staðreyndir, byggt á vanþekkingu á heimildakerfum í nútímatækjum, sök varpað á ranga aðila og alið á ótta sem ég tel að eigi ekki rétt á sér.

Ég ætla taka hvert atriði í þeirri röð sem birtist hér að ofan:

1. Hefur einhver stórtæk breyting átt sér stað nýlega sem gerir meðferð Facebook á persónulegum gögnum meira áhyggjuefni en var áður?
Það er ekki að sjá að svo sé. Þær heimildir sem Facebook-öpp (Facebook Messenger þar með talin) láta notendur samþykkja eru nokkurn veginn þær sömu í dag og þær voru síðasta haust þegar spjall-möguleikar voru endanlega færðir í sér app á snjall- og fartækjum. Ég hef ekki skoðað heimildirnar lengra aftur í tímann en leyfi mér að giska að þær hafi lítið breyst í nokkurn tíma. Ástæðan skýrist þegar ég segi aðeins frá því hvernig þessar heimildir virka í snjall- og fartækjum. Annars má áætla að margar smávægilegar breytingar hafi verið gerðar af og til enda breytast þarfir með virkni hugbúnaðar og Facebook öppin eru í stöðugri þróun.

2. Af hverju eru Facebook öppin að láta samþykkja mjög víðtækar heimildir?
Umsýsla og skipulagning heimilda í snjall- og fartækni er furðu vanþróuð og vantar mikið upp á gagnsæi í þeim málum. Í mjög einföldu máli þá virkar þetta þannig að öpp fara fram á að fá þær heimildir sem þau þurfa til að gera það sem þeim er ætlað að gera. Gallinn er að notendur eru ekki alltaf með á hreinu hvað öppunum er ætlað að gera og hvernig þau gera það. Þar við bætist að heimildir í snjall- og fartækjum eru yfirleitt bara samþykktar einu sinni, þ.e. þegar appið er sett upp. Þar af leiðandi þarf appið að fara fram á að fá heimildir fyrir fítusa sem viðkomandi ætlar sér kannski ekki að nota í upphafi til þess að þeir verði til staðar síðar.

Samfélagsmiðlar e.o. Facebook hafa þróast mjög hratt á undanförnum árum þannig að fólk notar þá núorðið til ansi margs (skoðið heimildirnar fyrir önnur slík öpp, t.d. Google+ eða Twitter - öll þessi öpp eru með mjög víðtækar heimildir). Fólk er að deila myndum, spjalla, skiptast á skjölum, láta vita af sér (og kannski hvar maður er) og margt fleira. Hugbúnaðarframleiðendur eru ekki í því að sérsníða öpp fyrir hvern notanda þannig að appið þarf að geta gert allt sem Facebook býður upp á. Ef heimildirnar sem Facebook appið fer fram á eru skoðaðar þá sést greinilega hvað er þarna í gangi, t.d.:
- Appið þarf að geta notað myndavélina vegna þess að sumir vilja deila myndum.
- Appið þarf aðgang að sms vegna þess að sumir notendur vilja fá tilkynningar um virkni eða þjónustu (t.d. vegna glataðs leyniorðs) í sms.
- Appið þarf aðgang að símaskrá vegna þess að sumir vilja geta hringt í vini beint úr appinu eða tengt saman vinaskrá og símaskrá.
- Appið þarf aðgang að skráningum fyrir ýmsar þjónustur vegna þess að sumir vilja geta skráð sig inn í þjónustur með Facebook aðganginum.
- Appið þarf aðgang að upplýsingum um vefnotkun vegna þess að sumir vilja deila vefsíðum.
- o.s.frv.
Þannig að Facebook appið fer fram á þær heimildir sem þarf til að gera það sem fólk vill nota appið til að gera. Það breytir því ekki að möguleiki á misnotkun er fyrir hendi en það er ekki Facebook (né öðrum hugbúnaðarframleiðendum) að kenna, eins og ég útskýri í næsta lið.

3. Af hverju get ég ekki slökkt á heimildum sem fylgja fítusum sem ég nota ekki?
Það fer reyndar eftir því hvaða stýrikerfi þú ert að nota. Í IOS kerfi Apple er hægt að stjórna heimildum að einhverju leyti. Í “privacy” stillingunum er hægt að slökkva og kveikja á tilteknum heimildum fyrir einstök öpp (það sést þar líka hvaða öpp hafa nýtt sér heimildir og á iPadnum mínum er notkun Facebook og annarra þekktra samfélagsmiðla í fullkomnu samræmi við það sem ég myndi búast við - ekkert spúkí í gangi). Í Android kerfi Google var um tíma hægt að breyta heimildum fyrir einstök öpp. Til þess að gera það þurfti að setja inn app sem gerði falinn fítus sýnilegan. Þetta hvarf með kerfisútgáfu 4.4 og engin leið er að vita hvort né hvenær það ratar aftur inn. Þannig að sökin hvað þetta varðar (ef einhver er) liggur ekki hjá Facebook eða öðrum sem framleiða öpp heldur hjá aðilanum sem býr til stýrikerfið, sem er auðvitað í flestum tilvikum Apple eða Google. Apple hefur staðið sig betur hvað þetta varðar.

4. Þarf ég þá ekkert að óttast?
Ég held að óttinn sem maður verður stundum var við er frekar yfirdrifinn. Ef okkur finnst ástæða til að óttast þá er líklegast fátt í stöðunni annað en að endurhugsa hvernig við notum samfélagsmiðla og netið yfirleitt. Betra er að reyna að vera meðvituð um það sem við gerum með tækni, skilja hvernig tæknin virkar og beita heilbrigðri skynsemi í okkar samskiptum í stafræna veruleikanum. Eins og öll önnur samskipti og viðskipti þá byggist þetta allt á trausti og ef við treystum ekki aðilanum sem við erum að díla við þá þurfum við að hafa það í huga þegar við notum þjónustuna hans eða hreinlega að nota hana ekki. Ég veit ekki til þess að Facebook eða aðrir samfélagsmiðlar hafi orðið uppvísir að því að misnota aðstöðu sína gagnvart notendum með saknæmum hætti og ég treysti þeim þess vegna. Það breytir því samt ekki að ég fer mjög varlega á netinu og í mínum rafrænu samskiptum almennt. Þar að auki verð ég líklega með þeim fyrstu til að breyta heimildum appa samfélagsmiðla í Android símanum mínum þegar það verður hægt. Það er einfaldlega vegna þess að það eru heimildir í gangi sem tengjast þjónustum sem ég nota ekki og því ástæðulaust að þær séu opnar.

Það verður hver og einn að ákveða fyrir sig hvort og hvernig þeir vilja nota samfélagsmiðla. En ekki láta ákvörðunina ráðast af svona æsifréttamennsku sem hefur verið í gangi hér á landi síðustu daga. Kynntu þér málið - hver er raunverulega hættan, hverjir eru kostirnir, hverjir eru gallarnir? Umfram allt beittu heilbrigðri skynsemi. Af hverju ætti aðili eins og Facebook að fórna stöðu sinni sem stærsti og helsti samfélagsmiðill í heiminum með því að laumast í sms skilaboð sem hafa ekkert með hann að gera? Þetta er bara frekar asnaleg pæling. Ef þú hefur virkilega áhyggjur af þessu þá hefurðu ýmsa valkosti: Fáðu þér iPhone, hakkaðu Android símann þinn til að geta stýrt heimildum (það eru ýmsar leiðir til þess), eða hreinlega hættu að nota samfélagsmiðla. En umfram allt vertu með á hreinu af hverju þú kýst þá leið sem þú ferð og hvað hún felur í sér. Mín ráð eru, slappaðu af, láttu ekki stjórnast af æsifréttamennsku og kynntu þér málin.


Samfélagsmiðlar og nám

Glærur úr málstofu sem ég samstýrði með Arthur Harkins í Háskólanum í Minnesóta 2010 og hef oft notað í kennslu síðan. Vaxandi umræða er um notkun samfélagsmiðla í námi og kennslu. Það sem ég vil sérstaklega benda á hér er að hugtakið "samfélagsmiðlar" e.o. við notum það er nokkuð margþætt. Við notum það gjarnan til að vísa til samfélagsmiðla, samfélagsvefja, samfélagstóla o.s.frv.

 


Augmented reality = gagnaukinn veruleiki: Tillaga að nýrri þýðingu

Sú tækni sem líklegust er til að hafa teljandi áhrif á því hvernig við notum upplýsingatækni á komandi árum hefur verið nefnd á ensku "augmented reality" (AR) (sjá t.d. um tæknina hér, hér og hér. Ég á enn eftir að sjá góða íslenskun á þessu hugtaki. Sumir hafa þýtt hugtakið beint sem "viðbættur raunveruleiki" en þetta hugtak er bæði óþjált og lýsir illa því sem er átt við. Ég hef stungið upp á að þetta verði þýtt sem "gagnaukinn veruleiki" sem ég tel að virki vel á íslenskri tungu og lýsir tækninni einstaklega vel, jafnvel betur en enska hugtakið. Fyrst ætla ég að útskýra hvað gagnaukinn veruleiki (GV) er og svo rökstyð ég þessa þýðingu mína.

GV byggir á notkun gagna og tækni sem eru til í nútímatölvum og snjallsímum í dag, s.s. myndavél, staðsetningartækni, þráðlaust net. Þessi tækni hefur töluverð áhrif á samskipti okkar við umhverfið - bæði hvernig við skynjum umhverfið okkar og hvernig við skilgreinum og mótum umhverfið. Í vissum skilningi má segja að tæknin gerir umhverfinu kleift að upplýsa okkur um sig sjálft - t.d. getum við beint snjallsímanum að tilteknu fjalli og fengið að vita hvað það heitir, hvað það er hátt, o.s.frv. Við getum líka notað þessa tækni til að koma fyrirbærum fyrir í umhverfinu sem eru ekki annars til staðar - t.d. er eitt snjallsímaforrit sem gerir fólki kleift að fara í boltaleik án þess að nota raunverulegan bolta. Sennilega er Google Maps mest notaða GV tæknin í dag. Google Maps víkkar út okkar skynjaða umhverfi til muna. Ég get staðið á götuhorni í framandi borg í leit að kaffihúsi og vitað um öll kaffihús í göngufæri við mína staðsetningu en ekki bara þau kaffihús sem ég sé með eigin augum. GV tæknin þróast mjög ört og það er aðeins hugmyndaflugið sem takmarkar hvað við getum gert með henni. Nokkrir möguleikar: Af hverju ekki að þýða AR sem "viðbættur raunveruleiki"?
Í fyrsta lagi, GV bætir ekki endilega neinu við umhverfið okkar. Þegar við notum GV til að upplýsa okkur um fjall þá er ekki um neina viðbót við umhverfið okkar að ræða. Í vissum skilningi mætti segja að tæknin eykur merking fjallsins fyrir okkur. Fjallið sjálft breytist ekki á nokkurn hátt. Raunin er að "viðbætt" er ekki einu sinni rétt þýðing á enska orðinu "augmented" nema í einstökum tilfellum. Enska orðið "augmented" þýðir í raun að eitthvað sé aukið umfram það sem það er venjulega. T.d. þegar við notum Google Maps þá eykst skilningur okkar á umhverfinu umfram það sem skynfærin okkar myndu venjulega færa okkur. Umhverfið er samt algjörlega óbreytt.

Í öðru lagi, tæknin snýst ekki beint um "raunveruleikann" sem slíkan. Minn skilningur á "raunveruleika" er að hann er bara það sem hann er og við bætum ekki neinu við hann né tökum frá honum. "Veruleikinn" er hins vegar sú sýn á raunverukeikanum sem mótast af skynjun okkar á raunveruleikanum og skilgreiningum á því sem í honum er. Við höfum því miklu meira vald yfir "veruleikanum" heldur en raunveruleikanum. Ég gæti farið út í ítarlegar heimspekilegar verufræði pælingar hér en ég held ég láti það vera að sinni. Ég læt nægja að segja að GV tækni hefur þannig áhrif á tilvist hluta í umhverfinu okkar að þeir öðlast dýpri merkingu, meira notagildi eða að þeir eru hreinlega skapaðir úr engu.

Af hverju að þýða AR sem "gagnaukinn veruleiki"?
Það eru tvær ástæður fyrir því að ég kýs að nota forskeytið "gagn" í hugtakinu mínu.
Í fyrsta lagi, GV byggir fyrst og fremst á samspil gagna við umhverfið okkar. Veruleikinn er "aukinn" með notkun tölvugagna sem miðlast með upplýsingatækni. Fyrri tækni hefur ekki boðið upp á þetta nána samspil umhverfis og gagna. Gögn annars vegar og það sem þau lýsa hins vegar hafa ekki haft möguleika á að vinna saman í sama skynjaða rými. Gögn hafa átt sinn stað í tölvum eða á pappírum og yfirfærsla á umhverfið aðeins verið hægt með því að nota ímyndunaraflið til að fylla inn í eyður. Með tilkomu GV eru gögn færð inn í skynjunarrýmið þannig að skynjunin mótast af gögnunum og því sem er skynjað í sama ferlinu.

Í öðru lagi eykst gagnsemi umhverfisins með notkun GV. Þeim mun meira sem við vitum um umhverfið þeim mun betri ákvarðanir getum við tekið varðandi samskipti okkar og þess. Segjum sem svo að ég nota GV til að fræðast um hvað tiltekið fjall er hátt og hversu langan tíma tekur að ganga upp á það. Þá er ég betur stæður til að ákveða hvort aðstæður henta til fjallgöngu á tilteknu fjalli eða ekki.

Þannig að ég legg til að enska hugtakið "augmented reality" verði þýtt sem "gagnaukinn veruleiki" vegna þess að það er þjálla en "viðbættur raunveruleiki" og það lýsir betur notagildi, áhrifum og möguleikum tækninnar sem um ræðir.

Er þetta hálfvitalegasta grein sem hefur verið skrifuð um fjárhagsvanda Íslands?

Ég hef s.s. fátt um þetta að segja annað en að konan býr greinilega í einhverjum undarlegum ímynduðum heimi.

Iceland’s On-Going Revolution

og endurbirt hér á Daily Kos (sem fréttamiðlar hér í USA vísa oft í):

Daily Kos: Iceland’s On-Going Revolution


Mála sér ímyndaðan heim með upplýsingatækni

Í árdaga upplýsingatæknibyltingarinnar var því haldið fram að tæknin ætti að veita óheftan aðgang að upplýsingum og þannig að leiða af sér betur upplýstann almenning. Raunin er hins vegar allt önnur. Aukinn aðgangur að upplýsingum hefur fært þeim sem vilja hafa áhrif á skoðanir annarra næstum óendanlegt litaspjald af upplýsingamolum sem þeir blanda saman af eigin geðþótta til að mála ímyndaðan veruleika sem best hentar þeirra málstað hverju sinni. Þetta hefur ekkert með "betur upplýstan almenning" að gera.

Á netinu spretta upp samfélög þar sem deilt er um hin ýmsu mál sem einhverjum finnst skipta máli hverju sinni hvort sem er um pólitík, stök fræði, eða nýjustu tölvuleiki. Oftar en ekki eru þessi samfélög mörkuð af tiltekinni skoðun á málinu sem um er rætt. Það virðist sjaldan vera mikil blöndun mismunandi skoðanahópa. T.d. hér í Bandaríkjunum halda íhaldssamir sér á vefjum Fox News og "framfarasinnaðir" á vefjum CNN. Skoðanahópar geta gengið að því vísu að umræðan sem fer fram á hvorum staðnum fyrir sig endurspeglar fullkomlega þann veruleika sem þeir hafa ákveðið að sé til staðar. Í þau fáu skipti sem einhver dirfist að rengja ríkjandi heimsmynd á tilteknu vefsvæði eru þau ummæli fljótlega kaffærð í kommenta-flóði um óþolandi heimsku og veruleikafirringu viðkomandi. Ef það nægir ekki til að losna við aðskotamanninn er litaspjaldið dregið upp og heimsmyndin máluð á ný með tilvísunum í ótal heimildir sem móta svo skýrar línur að jafnvel hýperrealísku málarar 20. aldarinnar eru sem viðvaningar í samanburði.

Við íslendingar höfum verið fljót að tileinka okkur þessa nýju listgrein sem veruleika-myndgerðin er. Á hinum ýmsu vefsvæðum hafa myndast samfélög málara þar sem heimsmyndin er orðin svo skýr að ekki er um hana að efast. Hér á blog.is, eða "moggablogginu" e.o. það er svo oft kallað, eru nokkrir færustu málararnir. Milli þeirra hefur tekist mjög náin samvinna. Samtvinning verka þeirra hefur orðið til þess að við fáum ekki bara glefsur af heimsmyndinni heldur er líka gegnum gangandi söguþráður þannig að myndgerðin hreinlega lifnar við. Sagan segir sig sjálf og þeir sem dirfast að leggja fram efasemdir eru bara vorkunnsöm blind grey.

Nýlega lenti ég inn á bloggi eins forsprakka málara-elítu moggabloggsins, Jóns Vals Jenssonar, þar sem Jón Valur og félagar voru að móta öflugt nýtt verk um það hvort lönd sem höfðu gengið í ESB gætu sagt sig úr því
. Nýja verkið er auðvitað í takt við ríkjandi heimsmynd þar á bæ, sem segir að ESB er alvald sem gleypir í sig allar þjóðir sem þar knýja á dyr. Auðvitað er ekki hægt að segja sig úr ESB, nema að framkvæmdastjórnin og hvert einasta annað land samþykkir úrsögnina. Eins og við vitum öll sem höfum virt fyrir okkur meistaraverk moggabloggs-málarana er ESB á höttunum eftir aðeins einu - þ.e. þessar miklu auðlindir okkar litla lands. Þegar þeir hafa náð að festa í okkur klærnar verður engin undankomuleið - þeir myndu aldrei samþykkja úrsögn! Það væri eins og að gefa frá sér pott af gulli.

Þó svo að Lissabon Sáttmálin, sem var samþykktur 2009, tók loks af skarið varðandi úrsögn landa úr ESB, er í heimsmynd þessara moggabloggara auðvitað óvefengjanleg staðreynd að það er nánast ómögulegt að segja sig úr ESB. Þessi nýja myndsmíð sýnir í raun hversu hæfileikaríkur hópur þetta er. Á litaspjaldinu þeirra eru bara þrír litir: samhengislausir úrdrættir úr Lissabon Sáttmálanum sjálfum, úrelt vefsíða hjá Danska þinginu, og örstutt samantekt um skýrslu "einhvers grísks embættismanns í seðlabanka ESB". Í Lissabon Sáttmálanum segir að samþykki vegins meirihluta aðildarríkja þarf til að samþykkja samninga. Í meðferð heimsmyndamálarana verður þetta ákvæði um að samþykki allra aðildarríkja þurfi til að einstakt land geti sagt sig úr sambandinu. Vefsíðan hjá Danska þinginu er mjög greinilega dagsett 25.07.2008, rúmu ári áður en Lissabon Sáttmálin var samþykktur. Í skýrslu gríska embættismansins segir ítrekað að með samþykki Lissabon Sáttmálans er ekki nokkur vafi að ESB lönd geta tekið einhliða ákvörðun um úrsögn sína. En þessi atriði skipta ekki nokkru máli. Þau eru ekki á litaspjaldi málarameistaranna heldur bara þessar stakar setningar sem vísað er í:

Lissabon Sáttmálinn: "A qualified majority shall be defined in accordance with Article 238(3)(b) of the Treaty on the Functioning of the European Union."
Danska þingið: "A country can indeed leave the EU, but in principle this requires the consent of all Member States."
gríski embættismaðurinn: "that unilateral withdrawal would undoubtedly be legally controversial"

Með sömu aðferð gæti ég hæglega málað heimsmynd þar sem bækurnar "Sjálfstætt fólk" er um fugla og "Kristnihald undir jökli" er um tertur. Gæti verið skemmtilegt en, satt að segja, sé ég ekki tilganginn í því.

Við höfum tilhneigingu til að ídealiséra upplýsingatækni, að gefa okkur að fólk sé betur upplýst með tilkomu upplýsingatækninnar. Raunin er að upplýsingatækni gerir fólki einstaklega auðvelt að einangra sig í sínum skoðanaheimi. Þegar fólk hafði lítið val um hvaða upplýsingum var miðlað til þess var nánast ógert að verða ekki fyrir ólíkum skoðunum. Nú má hæglega ganga í gegnum lífið nánast án þess að vita af ólíkum skoðunum.

Upplýsingatækni í menntun - þörf fyrir forsýn og langtíma áætlanagerð

Sjá fjölda greina um upplýsingatækni, forsýn og langtíma áætlanagerð fyrir menntun á enska blogginu mínu.

Sóknaráætlun 20/20 er ætlað að veita stefnumótendum innsýn í væntanlega framtíðarþróun, eða þá æskilega þróun, sem hefur áhrif á langtíma áætlanagerð. Slíkar áætlanir hafa verið kallaðar forsýn (e. foresight), eða tæknileg forsýn (e. technology foresight) þar sem áhersla er á tæknilega þróun. Slík verkefni hafa notið vaxandi vinsælda víða um heim, þó sérstaklega í Evrópu. Á tíunda áratug síðustu aldar var meira um tæknilega forsýn þar sem áhersla var lögð á mótun stefnu varðandi ráðstöfun opinbers fjár fyrir rannsóknir og nýsköpun. Á síðustu 10 árum hefur aðferðin verið notuð í auknu mæli fyrir langtíma áætlanagerð á ýmsum stefnumótunarsviðum, ekki síst í menntun. Vaxandi áhugi á forsýn í Evrópu undanfarið er mest vegna hvatningar ýmissa stofnana ESB og annarra alþjóðlegra stofnana til að auka langtíma áætlangerð. Hjá ESB er sérstaklega að nefna fjölmörg verkefni á vegum Joint Research Centre - Institute for Prospective Technological Studies (JRC-IPTS) sem miða að því að kynna forsýn og auka hæfni stefnumótenda til að beita aðferðum sem stuðla að langtíma áætlanagerð.

Í menntun hefur forsýn fyrst og fremst verið notuð í tengslum við stefnumótun fyrir háskóla vegna tengsla háskóla við rannsóknaumhverfinu sem forsýn er sprottin úr. Notkun forsýnar fyrir almenna mótun menntastefnu hefur þó farið vaxandi undanfarin áratug. Má sérstaklega nefna verkefni OECD "Schooling for Tomorrow", sem fjöldi landa hefur tekið þátt í (því miður er Ísland ekki meðal þeirra).

Undanfarið hef ég skrifað fjölda greina á enska blogginu mínu um tæknilega forsýn og mótun menntastefnu, enda snýst doktorsverkefnið mitt um það. Ég vildi gjarnan skrifa meira hér á þessu bloggi um forsýn en því miður sjaldan haft tíma til þess. En ég hvet þá sem hafa áhuga á forsýn og langtíma áætlanagerð fyrir menntun að kynna sér efnið sem þar er. Ég hef sérstaklega reynt að vera duglegur að setja inn tengla og tilvísanir á gagnlegt lesefni og rannsóknir.


Merkilegur viðburður í sögu tölvutækni að hefjast í kvöld

Í dag (og reyndar næstu tvo daga) verður einn merkasti viðburður í sögu tölvutækninnar og gervigreindar. Ný ofurtölva IBM, sem hefur fengið heitið "Watson", mun keppa í Bandaríska sjónvarpsspurningaleiknum Jeopardy. Tölvan keppir á móti tveimur sterkustu leikmönnum sem hafa tekið þátt í Jeopardy fyrr eða síðar.

Jeopardy er ekki auðveldur leikur. Spurningarnar geta verið mjög snúnar og fela gjarnan í sér orðaleiki og tvískinnung. Þær reyna því verulega á getu keppenda til að skilja óljósar spurningar og að geta kallað fljótt fram svör úr mjög breiðum þekkingargrunni. Watson hefur auðvitað mjög breiðan þekkingargrunn. Það er búið að mata hann af alls kyns upplýsingum um allan fjandann og hann getur farið mjög fljótt í gegnum þekkingargrunninn sinn til að finna upplýsingarnar sem hann þarf. Vandi tölvusmiðana er, hins vegar, að tölvur eru einstaklega lélegar þegar kemur að því að skilja mennskt mál. Tölvur eiga erfitt með að skilja samhengi í daglegu máli. Þetta háði Watson í byrjun og tölvusmiðir voru að því komnir að gefast upp á verkefninu á köflum út af því. En þeir virðast hafa náð að finna út úr því því Watson hefur gengið ótrúlega vel í æfingaleikjum undanfarna mánuði.

Þættirnir með Watson verða sjónvarpaðir á NBC sjónvarpsstöðum í Bandaríkjunum, þegar kl. er 17.30 á austurströndinni 14-16 febrúar (þ.e.a.s. í dag, á morgun og á miðvikudaginn). Ég veit s.s. ekki hvort íslendingar munu geta fylgst með keppninni. Ef ekki verður hægt að fylgjast með beint á netinu þá efast ég ekki um að leikirnir verða komnir á netið fljótlega þar á eftir.

Hér er vefur IBM um Watson. Þar er að finna áhugaverðar upplýsingar og myndskeið þar sem er m.a. sýnt frá æfingaleikjum Watsons.

Hér er vefur Jeopardy spurningaleiksins.

Tjáningafrelsi, upplýsingaflæði og ný stjórnarskrá

Aðgerðir stjórnvalda í Egyptalandi til að takmarka Internet notkun í landinu meðan óeirðir geysuðu í helstu borgum landsins vekja ýmsar spurningar varðandi fyrirhugað stjórnlagaþing og endurskoðun stjórnarskrár Íslands.

Egypsk yfirvöld beittu mjög óvanalegri aðferð til að loka á netsambandi Egyptalands við umheiminn
. Í stað þess að loka á ákveðin vefsvæði eða netþjónustur, eins og er t.d. gert í Kína og víðar, voru upplýsingar sem stýra umferð um egypsk netsvæði fjarlægðar af netinu (svokallaðar "Internet routing tables" sem eru notaðar fyrir BGP samskipti milli beina). Þetta gerir það að verkum að ef reynt er að komast í samband við egypska netið, hvort sem er með netnafni (domain name) eða IP tölu, eru engar upplýsingar um hvaða leið beiðni um upplýsingar á að fara. Eins og sumir hafa orðað það, þá hreinlega hvarf egypska netsvæðið af netinu.

Spurningin sem vakir fyrir mér er þessi: Myndu ákvæði í núgildandi stjórnarskrá um tjáningafrelsi ná til aðgerðar e.o. þeirrar sem egypsk stjórnvöld beittu? Og, ef ekki ættu þau að gera það?

Ég held að þetta sé ekki einföld spurning. Þetta er ekki bara spurning um tjáningafrelsi, heldur mætti líka spyrja t.d. hver á og/eða ræður yfir upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að tryggja upplýsingaflæði um netið?

Er þetta eitthvað sem ætti heima í nútíma stjórnarskrá?

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband