Fylgstu með framtíðinni - við vitum meira en margir halda

kettering_tomorrow
Á ráðstefnu Heimilis & skóla síðasta föstudag var sagt í einu erindi um upplýsingatækni í skólastarfi að við vitum ekki hvaða tæknibreytingar eru framundan. Reyndar er það svo að við vitum töluvert um framtíðina og hvernig tækni mun þróast á næstu 5-10 árum og jafnvel lengur. Sjálfakandi bílar munu koma á markað á næstu 5 árum eða svo og hafa töluverð áhrif á samfélagmynstur. Reiknigeta tölvutækni mun stóraukast á næstu árum. Snjalltæki verða sífellt ósýnilegri - fyrst með tilkomu íklæðanlegrar tækni á borð við snjallúr og snjallgleraugu og til lengri tíma litið má gera ráð fyrir að tækni verði jafnvel ígrædd. Vélmenni af ýmsum gerðum munu í auknu mæli sinna störfum sem nú eru í höndum okkar mannana og verða jafnvel sjálfsögð hjálpartæki í námsumhverfi.

Hvernig vitum við þetta? Það er sérstaklega þrennt sem gefur sterkar vísbendingar um hvers sé að vænta í framtíðinni:
  1. Áherslur aðila sem veita styrki til tækniþróunar og verkefni sem tæknifyrirtæki, verkfræðingar og tölvufræðingar eru að fást við hverju sinni.
  2. Neysluvenjur og vilji neytenda.
  3. Skapandi hugmyndir um mögulega tækniþróun sem birtist í myndlist, kvikmyndum, skáldsögum og þess háttar.
Framtíðarfræðingar nota ýmsar misflóknar aðferðir til að meta upplýsingar sem þessar á kerfisbundinn hátt og gera sér grein fyrir líklegri þróun til langs tíma. Flestar eru þessar aðferðir mjög sérhæfðar og niðurstöður ekki endilega á þannig formi að þær gagnast hinum almenna tækninotanda. Hins vegar geta þeir sem hafa áhuga nálgast töluvert af aðgengilegum upplýsingum sem gefa nokkuð raunhæfa mynd af því sem er að vænta. Má t.d. nefna:
  • Kurzweilai.net: Þetta er vefur Ray Kurzweil sem er líklega með þekktustu framtíðarfræðingum heims um þessar mundir. Kurzweil er með öflugt lið sem fæst við að greina upplýsingar um tækniþróun og eru margar niðurstöður settar fram á aðgengilegu formi á þessum vef.
  • Sutura.io: Þetta er tiltölulega nýr vefur þar sem hægt er að nálgast vikuleg yfirlit yfir fréttnæma viðburði úr heimi tækni, vísinda og fleira. Ég er ekki viss hver stendur á bak við þennan vef en held að það sé einn Alex Klokus, frumkvöðull sem starfar í New York borg. Þessi vikulegu yfirlit hófu að birtast fyrir nokkru á Futurology þræðinum á samfélagsvefnum Reddit en auðveldara er að nálgast ný og eldri yfirlit á þessum vef.
  • TED: Þennan vef þekkja líklega margir. TED stendur fyrir “Technology, Entertainment, Design” en efni sem kynnt er á margfrægum TED ráðstefnum nær yfir töluvert breiðara svið en titillinn gefur til kynna. Mörg TED erindi fjalla um það nýjasta sem er að gerast í heimi vísinda og tækni og hvaða áhrif tækni- og vísindaleg þróun getur haft á samfélag og umhverfi til skemmri og lengri tíma litið.
  • Omni Reboot: Omni Reboot er tilraun til að endurlífga hið merka tímarit Omni sem var gefið út á árunum 1978-1995. Tímaritið þótti sérstakt fyrir áhugaverða blöndu efnis úr heimi vísinda og vísindaskáldskapar. Framtíðarmiðaður vísindaskáldskapur er ekki síður gagnleg upplýsingaauðlind fyrir framtíðarfræðinga en vísindin sjálf vegna þess að þar eru oft settar fram hugmyndir um mögulega framtíð á áhrifaríkan og lifandi hátt. Mörg dæmi eru um það að tækninýjung eigi rætur að rekja til þess að einhver með tækniþekkingu heillaðist af möguleikum sem lýstir voru í vísindaskáldsögu eða kvikmynd. Fyrsti farsíminn er eitt þekktasta dæmið um slíkt. Martin Cooper, sem stýrði þróun farsímans, hefur margoft sagt frá því að hann sótti innblástur í upphaflegu Star Trek þáttaröðina.

Það eru til ótal fleiri vefir og upplýsingaveitur þar sem hægt er að kynna sér hvernig tækni mun líklega þróast í framtíðinni og ég vona að sumir leiti þá uppi eftir að hafa fengið smá nasasjón af því sem er í boði. Auðvitað er alltaf möguleiki að hlutirnar fara á annan veg en við höldum en þrátt fyrir það er sumt svo örugglega fyrirsjáanlegt að vert er að taka tillit til þess strax. Hvað eru t.d. margir skólar sem hafa þegar hugað að því hvaða áhrif snjallúr (sem ég hef heyrt að séu þegar farin að sjást í íslenskum skólum) og snjallgleraugu munu hafa á skólastarf? Hvað eru margir skólar sem nota vélmennatækni í námsumhverfinu, þó ekki væri nema að hafa Roomba ryksugu á staðnum? Þeir sem hafa kynnt sér tækniþróun vita að þetta eru allt tækninýjungar sem eru aðgengilegar núþegar og munu hafa áhrif á nám og kennslu í nálægri framtíð. Hvenær er rétti tíminn til að huga að þeim fyrir alvöru?


Bloggfærslur 3. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband