Ánægjulegt að sjá nýjar áherslur í þróunarsamstarfsmálum

Það er ánægjulegt að sjá áherslubreytingar í þróunaraðstoðarmálum Íslendinga sem birtast í tillögum utanríkisráðherra til þingsályktunar sem lögð hefur verið fyrir Alþingi. Með tillögunni fylgir Áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011–2014 þar sem áherslur í stefnumörkun og stefnumótun eru útlistaðar. Áberandi er að þar er gert mikið úr því að hagsmunir þróunarlanda og jafnréttissjónarmið eru höfð að leiðarsljósi í þróunarstarfi Íslendinga. Ég benti á það fyrir nokkrum árum í ráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur að Skýrsla utanríkisráðherra um fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands, sem þá var gefin út, gerði of mikið úr hagsmunum Íslands í tengslum við þróunarstarf. Í þeirri skýrslu var ekki sagt eitt einasta orð um hagsmuni þróunarlanda. H.v. var mikið fjallað um "tækifæri" fyrir íslensk fyrirtæki og aðra í tengslum við þróunarstarf. Í raun hljómaði sú skýrsla svolítið meira eins og viðskiptaáætlun heldur en þróunaráætlun.

Þegar skýrsla Valgerðar kom út var "nýfrjálshyggjustjórnin" við völd og skýrslan endurspeglaði áherslur hennar og þannig séð var í samræmi við nýfrjálshyggjustefnur í öðrum löndum. Það má segja að þetta var "zeitgeist" þess tíma. Það kom því ekki á óvart stuttu síðar þegar orkuútrásavíkingar urðu áberandi í þróunarstarfi Íslendinga, sérstaklega í tengslum við starfssemi ÞSSÍ í Níkaragva. Samsstarfi ÞSSÍ við Níkaragva var slitið eftir hrun fyrir utan eitt jarðvarmaverkefni sem er að mestu í höndum ÍSOR og er áætlað að ljúki á næsta ári.

Ég skrifaði grein í einhvern fjölmiðilinn (man ekki hvort það var Morgunblaðið eða Fréttablaðið) nokkrum dögum eftir að skýrsla Valgerðar kom út þar sem ég gagnrýndi m.a. það að svo mikil áhersla skyldi lögð á hagsmuni Íslendinga en ekki þróunarlanda í þróunarstarfi. Ég fékk engin viðbrögð, sem kom mér s.s. ekki mikið á óvart. En þá kom mér sérstaklega á óvart þegar rúmu hálfu ár síðar, Valgerður (sem þá var ekki einu sinni lengur ráðherra) var fljót að bregðast við skrifum Sölmundar Karls Pálssonar þar sem hann fór fögrum orðum um þessa sömu skýrslu sem ég hafði gagnrýnt. Þegar ég var við heimspekinám í HÍ sagði einn prófessorinn við mig að ef þú ert sammála öllu því sem einhver segir þá er til lítils að skrifa um það þar sem þú hefur í raun ekkert til málanna að leggja. Sölmundur Karl og Valgerður fengu greinilega aldrei þau skilaboð.

Mér þykir það því sérlega ánægjulegt að í þessari nýju skýrslu er talað sérstaklega um að þróunarstarf taki mið af hagsmunum þeirra þjóða sem þurfa á þróunaraðstoð að halda, jafnrétti kynja og mikilvægi menntunar í öllu þróunarsamstarfi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband