Tækninýjungar og framtíð menntunar

Aaron-Tech-Image-1-2
Á föstudaginn 5. apríl, 2013 var ég með innangserindi á ráðstefnunni "Í skýjunum", árleg ráðstefna 3F sem var haldin í Háskólanum í Reykjavík í samstarfi við HR og Upplýsingu-Félag bókasafns- og upplýsingafræða. Erindið kallaði ég "Gagnaukinn veruleiki og framtíð menntunar" (glærurnar má nálgast hér).

Markmiðið með erindinu var tvíþætt. Í fyrsta lagi að gera grein fyrir gagnauknum veruleika (GV - e. augmented reality) sem nýja tæknilega þróun sem skiptir máli fyrir menntun. Í öðru lagi að vekja ráðstefnugesti til umhugsunar um hvernig við, sem komum að menntun á Íslandi, eigum að bregðast við tækninýjungum meðan þær eru enn nýjar. Það er nefnilega svo með tækninýjungar sem hafa ekki náð mikilli útbreiðslu og eru enn í þróun að við vitum ekki alltaf hvaða áhrif þau munu, eða geta, haft. Þá þarf að hugsa heildrænt (möguleg áhrif á samfélagið í heild - ekki bara menntun), vera opin fyrir ýmis konar breytingum (hvað getur mögulega komið okkur að óvörum) og ekki síst að nota ímyndunaraflið - hvernig getum við notað tækninýjungar til að breyta því sem við viljum? Ég held að þetta hafi komist ágætlega til skila. Alla vega voru margir þeir sem ég ræddi við eftir erindið mjög spenntir fyrir að kanna möguleika GV og annarra tækninýjunga.

Í erindinu notaði ég GV sem lýsandi dæmi um tækni sem er í örri þróun og breiðist hratt út en hefur ekki ratað í umræðu um upplýsingatækni og menntun. T.d. fékk ég mjög fyrirsjáanleg viðbrögð þegar ég spurði ráðstefnugesti hversu margir höfðu nýtt sér GV þann daginn. Innan við 5 svöruðu játandi. Hins vegar, þegar ég spurði hversu margi höfðu nýtt sér Google Maps þann daginn svöruðu næstum allir játandi. Eins og kemur fram í glærunum sem ég vísa í hér að ofan, er Google Maps líklega útbreiddasta dæmið um notkun GV í samfélaginu í dag. Það að fáir ráðstefnugestir gerðu sér grein fyrir því segir mér að við erum ekki nægilega upplýst um þær breytingar sem GV hefur í för með sér og eigum því á hættu að missa af mikilvægum tækifærum til að nýta tæknina í menntun.
 
E.o. ég hef sagt notaði ég GV aðeins sem dæmi um tækninýjung sem hefur, eða gæti haft, mikla umbyltingu í för með sér fyrir skólastarf. Vissulega er fjöldi annarra tækninýjunga sem þyrfti líka að huga að. Ég ætla að lýsa hér stuttlega tveimur tækninýjungum (reyndar er önnur ekki svo ný) sem skólafólk ætti að vera farið að huga að:
Í fljótu bragði mætti velta fyrir sér hvað í ósköpunum þessar tækninýjungar hafa með menntun að gera? Raunin er sú að þær hafa báðar mikið með menntun að gera vegna þeirra samfélagslegra breytinga sem þeim fylgja - og forsjálir aðilar eru þegar að prófa sig áfram með þær í skólastarfi.
 
Þrívíð prentun 
Þrívíð prentun er tækni sem notar ýmis efni til þess að búa til þrívíðan hlut eftir tölvugerðu módeli. T.d. er hægt að teikna upp þrívítt módel af legókubb í þar til gerðu forriti (e.o. Blender, ókeypis opið forrit sem er mikið notað) og láta svo þrívíðan prentara búa til raunverulegan, meðhöndlanlegan og nothæfan legókubb. Ástæðan fyrir því að þessi tækni skiptir miklu máli eru margar. T.d.:
  • aukið aðgengi að alls kyns hlutum vegna þess að það þarf ekki að hugsa um hvernig eigi að koma framleiddum vörum á þá staði þar sem þær verða notaðar
  • fýsilegt að setja á markað vörur sem hefðu ekki svarað kostnaði þar sem ekki þarf að taka tillit til framleiðslukostnaðar á vörum sem er gert ráð fyrir að seljist í litlu upplagi
  • krefst annarrar hæfni í vöruþróun, sérstaklega þarf hæfni eða innsýn í hönnunarferli
  • þarf að huga að sjálfbærni og umhverfislegum þáttum til þess að tryggja að breyttar framleiðsluaðferðir (sem færist á neytandann) leiði ekki til sóunnar og ofnotkunar á takmörkuðum auðlindum
 
Vélmenni 
Okkur þykir gjarnan hugmyndin um vélmenni bæði heillandi og ógnandi í senn. Annars vegar njótum við góðs af vélmennavæðingu í ýmsum starfsgeirum sem heilla lítið, s.s. framleiðslu, einfaldri þjónustu o.þ.h., og hins vegar sjáum við fyrir okkur kuldaleg, ópersónuleg og óútreiknanleg mannslíki vísindaskáldskaparins. Ef einhver möguleg tengsl við menntun greinast er það helst að leyfa ungu fólki að spreyta sig við smíði einfaldra vélmenna á borð við fyrri kostinn e.o. gert er í First Lego League vélmennakeppninni sem íslendingar hafa tekið þátt í og árlegri hönnunarkeppni verkfræðinema í HÍ sem hefur verið sjónvarpað um árabil.

Í Austur-Asíu er litið vélmennavæðingu öðrum augum. Í löndum e.o. S-Kóreu og Japan er fólk opnara fyrir hugmyndum um vélmenni sem líkjast mönnum og að þau sinni ýmsum verkum sem fela í sér mikla nálægð og umgengni við fólk. Í S-Kóreu hafa yfirvöld sett sér þau markmið að frá og með árinu 2020 verði vélmenni á hverju heimili þar í landi og að þau sinni ýmsum störfum í samfélaginu, t.d. umönnun eldri borgara og framkvæmd skurðlækninga. Það kemur því varla á óvart að vélmenni skulu nú þegar vera búin að rata inn í skóla þar í landi. Þau eru helst notuð til að koma nemendum í samband við fjarstadda kennara. T.d. hafa vélmenni verið notuð við enskukennslu barna þar sem vélmennin eru fjarstýrð af kennurum í Filipseyjum og Ástralíu. Vélmennin eru sérstaklega hönnuð til að höfða til ungra nemenda og líta gjarnan út e.o. litrík og skemmtileg leikföng. Tilraunir með þessa kennsluhætti þykja hafa gengið framar vonum og eru ungir nemendur sérstaklega heillaðir af þessum nýju kennurum sínum.

Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um nýstárlega notkun vélmenna í skólum. Einnig má nefna vélrænann tvífara japanska prófessorsins Hiroshi Ishiguro sem sér um að sitja í kennslustofunni hans þegar hann kemst ekki á staðinn. Í Singapúr hafa yfirvöld tilkynnt um að á næstu árum verða gerðar tilraunir með notkun gervigreindarsamræðuvéla sem nemendur munu nota til að ræða um námsefni og fá þannig meira innsýn í það sem verið er að læra.

Þessi dæmi sýna okkur að hægt er að finna skemmtilega og nýstárlega möguleika fyrir notkun tækninýjunga í menntun svo lengi sem fólk er opið fyrir breytingum og óhrætt við að prófa sig áfram. En þá er ekki síður mikilvægt að hlutaðeigandi sé meðvitað um tækniþróun og geri sér grein fyrir þeim tækninýjungum sem eru að ryðja sér til rúms - eða jafnvel enn betra - að það geri sér grein fyrir þeim tækninýjungum sem er að vænta á næstu árum. Með slíkri forsýni getum við gripið fljótt tækifæri og haft áhrif á þróun tækninýjunga þannig að hún þjóni markmiðum um uppbyggingu menntunar fyrir 21stu öldina.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband