Mýtan um samkeppni í menntamálum

TOW_students
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlits, vill koma á samkeppni í menntamálum eftir fyrirmynd Svía. Hann segir meðal annars að samkeppni leiði til betri þjónustu og að hún snúist fyrst og fremst um gæði. Hvað eru "gæði" í menntamálum? Það er væntanlega að skólar skili betri árangri í formi námsárangurs nemenda. Páll bendir svo á reynslu Svía sem dæmi um að þetta sé hægt og að það gangi upp. Hann segir það ekki berum orðum en ýjar að því -og eiginlega ekki hægt að skilja hann öðruvísi- að aukin samkeppni í menntamálum muni leiða til betri námsárangurs nemenda. Gallinn er að rannsóknir á námsárangri sænskra nemenda eftir að tekið var upp núverandi kerfi sem leyfir opinberu fjármagni að renna til einkarekinna skóla sem eru í samkeppni við opinbera skóla styðja ekki hans fullyrðingar.

Áhrif samkeppnisvæðingar menntamála í Svíþjóð hafa verið rannsökuð nánast í þaula allt frá því að nýja kerfið var tekið upp. Fyrst voru það rannsóknir Martin Carnoy á 10. áratug síðustu aldar. Síðan hafa fylgt ótal rannsóknir og kannanir Svía og annarra sem sýna nánast allar það sama. Val eykst, ójöfnuður eykst og breytingar á námsárangri eru nánast engar. Þrátt fyrir að mikill meirihluti rannsókna sýni að samkeppnisvæðingin í Svíþjóð hafi ekki haft teljandi áhrif á námsárangur eru alltaf einhverjir sem halda hinu gagnstæða fram. Nánast allir sem það gera styðjast við tvær rannsóknir:



Báðar þessar rannsóknir eru sagðar sýna að námsárangur hafi aukist, einkum í stærðfræði, eftir samkeppnisvæðingu menntamála í Svíþjóð. Rannsóknirnar nota svipaða nálgun en Ahlin notar ítarlegri gögn og þykir Ahlin því styrkja niðurstöðurnar sem Sandström & Bergström fengu áður.

Björklund, Edin, Fredriksson & Krueger segja frá endurskoðun þeirra á gögnum og greiningu Ahlin í skýrslu frá 2004. Niðurstöður þeirra benda til þess að Ahlin hafi ofmetið breytingu á námsárangri í stærðfræði. Endanleg niðurstaða þeirra er að það eru einhverjar vísbendingar um bættan námsárangur, en "more often than not there is no relationship between student performance and private school attendance and school competition respectively." (bls. 119).

Niðurstaðan er því eins og ég sagði áður - nánast allar rannsóknir á samkeppnisvæðingu menntamála í Svíþjóð sýna að hún hefur haft óveruleg áhrif á námsárangur og ójöfnuður jókst. Það sem meira er þá er þetta í samræmi við rannsóknir á svipuðum kerfisbreytingum í öðrum löndum, t.d. Bandaríkjunum, Chile og Nýja Sjálandi. Það getur verið að samkeppnisvæðing menntamála hafi einhverja kosti í för með sér, en það er hæpið að fullyrða að hún bæti "gæði" (hvað sem er meint með því) og þjónustu.

Mér er því spurn - af hverju heldur Páll Gunnar að samkeppnisvæðing í menntamálum auki gæði og þjónustu?

mbl.is Vill aukna samkeppni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband