Íslenskir skólar sem "lærdómssamfélög" eða "lærdómssamfélög"?

priorities

Um helgina sótti ég vorráðstefnu Miðstöðvar skólaþróunar á Akureyri - Það verður hverjum að list sem hann leikur: Lifandi starfsþróun – árangursríkt skólastarf. Á ráðstefnunni var lögð áhersla á símenntun og starfsþróun skólafólks og fannst mér hugtakið “lærdómssamfélag” nokkuð áberandi. Allt gott með það - þetta er vissulega áhugaverð nálgun sem hefur vakið mikla athygli undanfarin ár. Það sem truflar mig hins vegar er að mér finnst ekki skýrt hvað er átt við nákvæmlega þegar hugtakið er notað í íslensku samhengi. Ég held að íslenska hugtakið “lærdómssamfélag” hefur verið notað til að þýða mörg skyld en ólík hugtök, e.o. learning society, learning organisation, organisational learning, professional learning community og margt fleira. En hvað af þessu á skólafólk á Íslandi við þegar það notar hugtakið “lærdómssamfélag”? Kannski er jafnvel verið að tala um eitthvað allt annað…
 
Mér finnst nokkuð augljóst að ef það á að gagnast okkur að vísa í “lærdómssamfélag” sem mögulega lausn á áskorunum sem íslenskir skólar standa fyrir, þá þarf meiri umræðu um hugtakið og sérstaklega hvað við viljum að það merki í íslensku samhengi.
 
Hér á eftir ætla ég að renna aðeins yfir nokkrar ólíkar útfærslur á því sem ég held að átt er við þegar íslenskt skólafólk talar um lærdómssamfélag. Með því vil ég undirstrika hversu fjölbreyttar leiðir er hægt að fara í þessum málum. Tilgangur minn með þessu er ekki að neyða okkur til að velja en frekar að reyna að leggja grunn að umræðu um hvað af þessu við skólafólk á Íslandi viljum nýta til að skilgreina hugtak þannig að það gagnist okkur.
 
1. Learning society: D. Schön, R. M. Hutchins, T. Husén. Rætur hugtaksins “learning society” eru af mörgum taldar liggja í umræðu sem náði hámarki um lok 7da og byrjun 8da áratugs síðustu aldar sem snerist fyrst og fremst um glímuna við íhaldssöm öfl innan stofnana, fyrirtækja, samfélaga og svo framvegis. Donald Schön var líklega með þeim áhrifamestu sem tóku þátt í þessari umræðu en hann lýsti vandanum þannig að stofnanir eru ekki bara íhaldssamar heldur “[they] fight like mad to remain the same.” Lausnin að mati Schön og hugsanabræðra hans, og það sem þeir meina með “learning society” í hnotskurn, fólst í því að auka vægi símenntunar. S.s. lærdómssamfélag er samfélag sem styður og hvetur til símenntunar (n.b. hér er ekki átt við símenntun sem endurmenntun heldur sem nám frá vöggu til grafar).
 
2. Organisational learning(a): Argyris & Schön. Schön þróaði hugmyndir sínar um lærdómssamfélagið frekar, sérstaklega í samstarfi við Chris Argyris, og varð þá til það sem þeir félagar kalla “organisational learning”. Hér er áherslan sérstaklega á það hvernig stofnanir, fyrirtæki, félög, o.s.frv. nýta sér reynslu af mistökum og sigrum. Argyris & Schön sýndu að þó svo að margar stofnanir og félög leggja sig fram við að draga lærdóm af mistökum sem eiga sér stað eru gerðar litlar sem engar raunverulegar breytingar í kjölfarið - sem þeir kalla “single-loop learning”. Þau eru því dæmd til að gera sömu mistökin aftur. Lausnin sem þeir tefla fram felst í því sem þeir kalla “double-loop learning” - þ.e. að mistök eru greind til að komast að því hvað fór úrskeiðis og svo breytingar gerðar á starfsemi eða skipulagi til að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig. Í þessum skilningi er þá “lærdómssamfélag” það samfélag sem lærir af sínum mistökum og breytir háttum sínum í samræmi við það.
 
3. Organisational learning(b): Cook & Yanow. Í mjög áhugaverðri grein Cook & Yanow frá 1993, Culture and organizational learning, lýsa höfundar tveimur ólíkum nálgunum við hugmyndina um “organisational learning”. Fyrst er sú sem þau kalla vitsmunalegu nálgunina sem felur í sér að vissum mannlegum eiginleikum er varpað á stofnanir og félög. Sérstaklega er að stofnanir og félög eru sögð “læra” á svipaðan hátt og einstaklingar gera. Þessi nálgun felur í sér kerfislæga hugsun þar sem litið er á einingar innan stofnunar eða félags sem sambærilegar skynfærum, taugum og öðrum líffærum sem koma við sögu þegar einstaklingar læra. Hver eining hefur sitt hlutverk en mynda saman heild og þekking er sögð tilheyra heildinni en ekki einstökum einingum. Cook & Yanow samþykkja það að hægt sé að segja að stofnanir og félög “læri” en hafna vitsmunalegu skýringunni. Þess í stað færa þau rök fyrir því að lærdómur stofnana og félaga birtist í menningu innan þeirra, t.d. í merkingu, smíðisgripum (e. artifacts), gildum og sameiginlegum athöfnum sem þjóna þeim tilgangi að viðhalda eða breyta ríkjandi menningu. Í þessum skilningi eru einkenni lærdómssamfélags að finna í menningarlegum gildum og viðhorfum sem er viðhaldið innan þess.
 
4. Learning organisation: P. Senge. Bók Senge’s, The Fifth Discipline, vakti mikla athygli þegar hún kom út 1990. Hann náði svo athygli skólafólks þegar hann og fleiri sendu frá sér bókina Schools That Learn árið 2000. Þar eru hugmyndirnar sem settar voru fram í Fifth Discipline sniðnar að stjórnun og rekstri skóla. Af þessum sökum er líklega oftast í dag átt við hugmyndir Senge’s um lærdómssamfélag þegar það er notað í tengslum við skóla.
Lærdómssamfélag Senge’s er nokkurs konar útópísk sýn á stofnunum og félögum sem byggist á því að nálgast þau sem flókin kerfi. Senge notar kerfiskenningu (e. systems theory) til að greina hvernig samfélög almennt virka með tilliti til lærdóms og dregur ákveðnar ályktanir af því um hvernig samfélög ættu að vera. Helstu lykilatriði í hugmynd Senge’s eru, í fyrsta lagi, að lærdómssamfélög laga sig ekki bara að aðstæðum heldur eru skapandi þannig að þau ganga enn lengra og reyna meðvitað að búa til heppilegar aðstæður. Í öðru horfa lærdómssamfélög til áhrifa breytinga yfir lengri tíma. Í þessum skilningi eru einkenni lærdómssamfélags að litið er á lærdóm sem skapandi athöfn einstaklinga sem tekur tillit til kerfisbundinna breytinga yfir lengri tíma.
 
5. Learning economy: B. Å. Lundvall & B. Johnson. Um miðjan 10da áratug síðustu aldar settu Lundvall & Johnson fram hugmynd sína um “lærdómshagkerfið” sem útfærslu á fyrri hugmyndum um lærdómssamfélög. Í hugtaki þeirra felast ekki sérstaklega flóknar vangaveltur um hvort eða hvernig lærdómur fer fram innan samfélaga heldur frekar hvernig lærdómur er metinn innan þeirra. Í lærdómshagkerfinu er lögð mikil áhersla á lærdóm almennt, hvar og hvenær sem hann kann að eiga sér stað, vegna þess að lærdómur, sem ferli, hefur mikið gildi út af fyrir sig. Í þessum skilningi er lærdómssamfélag það samfélag þar sem nám og lærdómur eru mikils metin og ákvarðanataka miðar að því að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður fyrir nám og lærdóm hverju sinni.
 
Það eru til fleiri útgáfur af lærdómssamfélögum en þær sem ég hef listað hér, en þetta sýnishorn gefur vísbendingu um hversu mikil hugmyndafræðileg fjölbreytnin er í þessum geira. Allar þessar hugmyndir hafa sína kosti og galla og hefur verið bent á þær í ýmsum ritum gegnum árin. T.d. skrifaði Robert Flood heila bók um Fifth Discipline Senge’s þar sem hann endurskoðar hugmyndina frá grunni með því að nota mun markvissara kerfiskenningarlegu nálgunina sem Senge byrjaði með.
 
Eins og ég sagði í upphafi er ekki ætlunin hjá mér að leggja til að við veljum sérstaklega úr þeim hugmyndum sem settar hafa verið fram. Frekar að ef við ætlum að nota þetta hugtak í íslensku samhengi þá þurfum við að ákveða hvernig við viljum skilgreina það þannig að það gagnist okkur, í íslensku skólasamfélagi, sem best. Nú er tími fyrir orðræðu…

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband