Kunnum við nógu vel á framtíðina?

believablefuture
Í Kanada taka stefnumótendur framtíðina alvarlega. Þar hefur verið starfrækt síðan 2011 opinber stofnun, Policy Horizons Canada, sem hefur það hlutverk að afla og miðla upplýsingum um tækni- og samfélagslega þróun framtíðar fyrir opinbera aðila, stefnumótendur, og almenning. Þannig er unnið markvisst að því að yfirvöld, atvinnulíf, stefnumótendur og aðrir hafi þær upplýsingar sem þeir þurfa til að miða aðgerðir að langtímaþörfum samfélagsins. Stofnunin gefur út ótal rit á ári en ein helsta afurðin er MetaScan ritröðin, en MetaScan3 kom út nýverið þar sem er farið yfir helstu tækninýjungar sem munu líta dagsins ljós á næstu 10-15 árum.

Það er minn draumur að til verði framtíðarstofa af þessu tagi hér á Íslandi (alla vega fyrir menntasamfélagið) sem hefði það hlutverk að safna og miðla upplýsingum um framtíðina, en líka að þjálfa þá sem koma að mótun skóla- og menntastarfs í því að vinna kerfisbundið með slíkar upplýsingar og miða ákvarðanatöku við langtímaþarfir samfélagsins.

Á síðustu rúmlega 5 árum hef ég unnið með ýmsum hópum skólafólks, bæði hér á Íslandi og erlendis, við að vinna úr upplýsingum um framtíðina og nýta til stefnumótunnar. Það er ýmislegt sem maður lærir af svonalöguðu, t.d.:

Okkur (mannkynið) er tamt að hugsa um framtíðina - við ímyndum okkur framtíð, gerum fyrirætlanir og miðum oft okkar athafnir við tiltekna framtíðarsýn. Maðurinn er framtíðarmiðuð skepna!

Þrátt fyrir að vera framtíðarmiðuð að eðlisfari er ekki sjálfgefið að við séum sérstaklega klár þegar kemur að því að hugsa um framtíðina.
  • Flestum reynist erfitt að hugsa lengra en 5 ár fram í tímann nema þá í rótgrónum staðalmyndum.
  • Framtíðarsýn byggir oftar en ekki á ímynduðum stöðugleika, það er að segja að jafnvel þegar við hugsum 5 ár fram í tímann eða lengra endurspeglar sýnin nútímann án nægilegs tillits til fyrirsjáanlegra breytinga.
  • Tiltölulega fáir meðal sérfræðinga, stefnumótenda eða almennings fylgjast nægilega með því sem er að gerast í tækni- og samfélagsþróun hverju sinni til að geta sett fram raunhæfar áætlanir um hvers er að vænta 10-15 ár fram í tímann.

Allt þetta verður til þess að jafnvel þegar við tökum okkur til og ætlum okkur að móta framtíðarsýn til langs tíma fyrir íslenskt samfélag misheppnast það og framtíðarsýnin verður úrelt á örfáum árum - ef hún var þá einhverntíma gild.

Ef við hér á Íslandi ætlum okkur að taka framtíðinni alvarlega, eins og Kanadamenn eru að gera, þurfum við fyrst og fremst að gera tvennt:
  • Huga að því hvernig við ætlum að afla upplýsinga, vinna úr þeim og miðla til þeirra sem þurfa,
  • og byggja markvisst upp hæfni þeirra sem koma að, eða hafa áhrif á, ákvarðanatöku til að móta raunhæfa framtíðarsýn sem hægt er að fylgja til lengri tíma.
Þetta er verðugt verkefni sem enginn, sem ég veit um, er að vinna að um þessar mundir. 
 
Og hérna er svo vandinn við þetta allt saman: við höfum ekki svigrúm til að eyða miklum tíma í þetta! Tækniþróun verður sífellt örari og er jafnvel orðin slík nú þegar að meðal manneskjan getur ekki lengur fylgst með öllum þeim breytingum sem eru að eiga sér stað hverju sinni, jafnvel á sviðum sem hver og einn þykist hafa sérþekkingu.

Hver ætlar að vera memm’ í þessu?
 
Að lokum - Með skýrslunni MetaScan3 hefur Policy Horizons Canada látið gera þessa mjög fínu "infographic" til að lýsa tækniþróun komandi ára. Hér er flott uppsettning sem gott er að skoða á tölvuskjá.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Tryggvi og þakkir fyrir framtíðarpælingarnar. Reyndar hafa íslensk stjórnvöld verið að burðast við að rýna í framtíðina með misjöfnum árangri.

Þannig gaf Stjórnarráðið út ritröð um Ísland árið 2000 á níunda áratugnum. Þetta er kostuleg lesning og ljóst að framtíðarvitið flæðir ekki af síðunum.

Þá má ekki gleyma tveimur gagnmerkum skýrslum; Veðurfarsbreytingar og afleiðingar þeirra - Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar, sem gefin var út árið 2000 á vegum umhverfisráðuneytis og svo Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi - Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem út kom í júlí 2008, einnig á vegum umhverfisráðuneytis.

Í þessum skýrslum reyna frómir fræðimenn að skyggnast fyrir um ætlaðar veðurfarsbreytingar á Íslandi út 21. öldina(!)

Í stuttu máli var blekið varla þornað á skýrslunni 2008 þegar náttúran gaf spámönnunum puttann :)

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 16.4.2014 kl. 11:47

2 Smámynd: Tryggvi Thayer

Hilmar - hvað sérðu athugavert nákvæmlega við þann hluta 2008 skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar sem snýr að framtíðinni?

Tryggvi Thayer, 16.4.2014 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband