Áhugaverð heimsókn í eTwinning móðurskipið

Atomium

Ekki móðurskipið okkar heldur annað þekkt móðurskip í Brussel.

Í lok október mætti ég á ráðstefnu eTwinning áætlunarinnar í Brussel ásamt hundruðum kennara, skólastjórnenda og annarra sem koma að skólastarfi víðsvegar að úr Evrópu. Mér leið svolítið eins og ég væri meðal ótal geimkönnuða að koma í móðurskipið til skýrslutöku um landkannanir og ávinninga í óravíddum síbreytilegra tækniveruleika. Allir höfðu spennandi sögur að segja. Helst vildi ég heyra þær allar en til þess hefði þurft meira en þessa þrjá daga sem ég hafði.

Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom í móðurskipið, eða "ráðstefnuhótelið" eins og sumir myndu kalla það, var að rjúka í skráningarlistana til að tryggja mér sæti í spennandi málstofum. Sætafjöldi var takmarkaður og af mörgu spennandi að velja. Við vorum líklega með þeim síðustu sem lögðu að móðurskipinu því allt það sem þótti mest spennandi var óðum að fyllast. Í boði voru málstofur um tölvur og leiki, forritun, samfélagsmiðla, reynslu kennara af samstarfi á neti og ótal margt fleira. Ég náði að skrá mig í málstofur um forritun, tækni í vísindakennslu og sýndarveruleika svo eitthvað sé nefnt. Það átti þó eftir að koma í ljós að skráningin hafði lítið að segja. Margir virðast hafa ákveðið að mæta í þær vinnustofur sem þeir vildu hvort sem þeir voru skráðir eða ekki. Fyrir vikið kom fyrir að engin laus sæti voru í sumum málstofum fyrir þá sem höfðu skráð sig. Í sumum tilvikum reyndist þetta þó lán í óláni því ég datt þá inn á vinnustofur sem ég ætlaði mér ekki að sækja en sem reyndust svo afar áhugaverðar.

Ein slík vinnustofa bar þann frekar litlausa titil “Teacher exchange workshop I”, sem er ekki mjög lokkandi yfirskrift miðað við t.d. “Learning to game, gaming to learn”, sem ég ætlaði að vera í þá stundina. Í málstofunni sem ég lenti í fékk ég meðal annars að heyra um verkefni Grískra og Slóvenskra kennara sem voru að nota MOOC (Massive Online Open Courses) til að kenna framhaldsskólanemum ensku. Nemendur skráði sig í námskeið á Coursera ásamt fjölda annarra í samstarfsskólunum, sem og annarra þátttakenda í MOOC-inu. Nemendurnir unnu verkefni í samræmi við kröfur Coursera námskeiðsins, tóku þátt í umræðum þar og unnu verkefni en voru líka í samskiptum sín á milli og við sína kennara í skólastofum og á netinu. Þetta þótti mér mjög skemmtileg notkun á möguleikum MOOC námskeiða til að auðga námsumhverfi nemendana sem tóku þátt.

Mér tókst að koma mér inn á málstofu um forritun sem ég hafði skráð mig í með því að mæta mjög snemma og tryggja mér sæti. Áhugaverðast á málstofunni fannst mér leiðir sem voru kynntar til að kenna grunnatriði í forritun án þess að kenna kóðun, eða ritun skipana á forritunarmálum. Notaður var leikur sem heitir Cody & Roby þar sem þátttakendur búa til leiðakerfi fyrir vélmenni með pílum og öðrum táknum sem vísa vélmenninu réttu leið að settu marki. Þetta passaði mjög við mínar eigin vangaveltur um það hvers vegna vaxandi áhugi er á því að kenna forritun og hvernig best er að fara að til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. moogwerkstattÉg nýtti mér það sem ég lærði í þessari vinnustofu nýlega þegar ég kynnti nýstárlegt tæki frá hljóðgervlaframleiðandanum Moog, Moog Werkstatt, á menntabúðum UT-torgs og Menntamiðju. Með Moog Werkstatt framleiðir notandinn margskonar hljóð með því að senda rafstraum í gegnum ýmis svokölluð módúl sem umbreyta merkinu. Í grundvallaratriðum er þetta eins og forritun þar sem gögn eru send í gegnum ýmsar rútínur sem umbreyta þeim, nema án flókins forritunarmáls. Eins og forritun, getur tækni eins og Moog Werkstatt nýst í þjálfun algóriþmískrar hugsunar, það er að segja sköpun ferla til að umbreyta gögnum og fá þannig út afurð sem gagnast okkur.

etwinning_10yÞetta er aðeins lítið brot af því sem ég kynntist áður en allir yfirgáfu móðurskipið uppfullir af nýjum reynslusögum og hugmyndum eftir áhugaverðar málstofur og umræður. Á heildina litið var ég mjög heillaður af því hvað kennarar sem ég hitti á ráðstefnunni eru skapandi og áhugasamir um notkun tækni í námi og kennslu. Einnig sýna viðburðir eins og þessi hvers virði Evrópusamstarfið í skólamálum er mikilvægt fyrir okkur. Viljinn til að vinna saman og leita nýrra leiða til að gera nám gagnlegra og áhugaverðara fyrir nemendur á öllum aldri sem ég varð var við er einstaklega aðdáunarverður. Kostir áætlunar eins og eTwinning eru greinilega miklir og margþættir. Ég vona að íslenskir kennarar verði áfram duglegir að nýta sér þau tækifæri sem þær veita til samstarfs um nýja landvinninga í ört breytileikum heimi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband