Könnun Vísinda- & tækniráðs um áskoranir framtíðarinnar

samfelagslegar_askoranirVísinda- & tækniráð vill vita hvað þér finnst vera helstu áskoranir framtíðarinnar en ég held að það þurfi að fara öðruvísi að.

Vísinda- og tækniráð Íslands (VTRÍ) opnaði nýlega fyrir könnun um helstu áskoranir Íslands í framtíðinni. Ég er ekki viss um að þessi könnun geri mikið gagn - allavega ekki á þessum tímapunkti. Mikið af minni vinnu og nánast öll mín rannsóknarvinna snýst um framtíðina og sérstaklega hvernig fólk myndar sér hugmyndir um framtíðina og hvernig það notar upplýsingar og gögn sem það hefur um framtíðina. Vandinn með opna könnun, eins og þessa sem VTRÍ er að framkvæma, er að fólk er almennt illa undir það búið að taka þátt í uppbyggilegri orðræðu um framtíðina (og þá er ég að tala um minnst 15-20 ár fram í tímann). Þekking á breytingaröflum er fremur lítil og jafnvel þegar breytingaröflin eru þekkt þá skortir hæfni til að vinna markvisst með og úr slíkum upplýsingum.

Undanfarin 6-8 ár hef ég farið víða um hér á landi og erlendis og unnið með fólki, mest skólafólki (það er sá vettvangur sem ég kýs helst að starfa á vegna þess að það að mennta fólk er eitt mesta framtíðamiðaða verk sem við tökum okkur fyrir hendur sem samfélag), að framtíðamiðaðri og langtíma stefnumótun. Þegar ég var að byrja átti ég til að gefa mér að fólk kynni almennt að hugsa um og vinna með framtíðina. Það er ekki svo fjarstætt enda gerum við mannfólkið það öll og nánast á öllum stundum, að hugsa um og plana framtíðina. Við ákveðum á morgnana hvaða leið og hvernig við ætlum að komast í vinnuna. Við reynum að sjá fyrir okkur hvernig líf okkar verður langt fram í tímann og gerum áætlanir í samræmi við það, t.d. að plana menntun okkar, gera ráðstafanir um myndun fjölskyldu, stofnum fyrirtæki, og svo framvegis. Ef eitthvað er þá mætti jafnvel segja að þessi geta okkar, og tilhneiging, til að hugsa um ókominn tíma er eitt af því sem gerir mannkynið sérstakt í lífríki jarðar.

Hins vegar, er himin og haf milli þess að huga að persónulegri framtíð í tengslum við eigið daglegt líf og þess að gera langtíma áætlanir sem eru ætlaðar að stuðla að farsælli samfélagsþróun. Munurinn er helst sá að þegar við erum að gera áætlanir fyrir okkur sjálf getum við bruðgist við breyttum forsendum nær samstundis án þess að verða sérstaklega vör við allar breytingarnar sem við gerum. Segjum t.d. að ég hafi ákveðið að labba í vinnuna þennan dag. Þegar ég lít út um gluggan sé ég að það er grenjandi rigning og ákveð að taka strætó í staðinn. Þetta er töluverð breyting á áætlunum mínum en ég verð lítið var við smáatriðin vegna þess að ég hef oft tekið strætó í vinnuna og reynslan segir mér að ég get fylgt áætlun sem ég hef notað áður. Það er annað þegar verið er að gera samgönguáætlun fyrir 120.000 manna borg til næstu 10 ára. Þá þarf að hafa í huga hvernig fleiri þættir gætu þróast, t.d.:

  • Hvaða breytingar verða á mannfjölda?
  • Hvernig þróast dreifing byggðar?
  • Hvaða breytingar verða á samgöngutækni?

Þessir þættir eru allir að einhverju leyti háðir ytri áhrifavöldum sem þarf þá líka að huga að, t.d.:

  • Gerist eitthvað fyrir utan landið sem hefur áhrif á mannfjölda á Íslandi?
  • Eru einhverjar fyrirsjáanlegar tæknilegar breytingar sem munu hafa áhrif á byggðarþróun?
  • Eru einhverjir aðilar út í heimi að þróa tækni sem mun leiða til byltingar í samgöngutækni?

Undirliggjandi í allri framtíðahugsun er kerfisleg hugsun (systems thinking, systems theory), það er (í mjög svo stuttu máli), ef eitt breytist, þá veldur það breytingu annarsstaðar í kerfinu, sem veldur annarri breytingu, og svo framvegis. Munurinn á því að vinna með eigin framtíð og framtíð annarra er að með eigin framtíð erum við mest að vinna með innri kerfi, þ.e. að við stjórnum breytum og ferlum í kerfinu að mestu sjálf. Þess vegna getum við brugðist hratt við þegar forsendur breytast - við ráðum ferðinni. Þegar við erum að gera áætlanir sem varða framtíð annarra eru það flókin ytri kerfi sem hafa mest áhrif. Oftar en ekki eru þetta kerfi sem viðkomandi, þ.e. þeir sem eru að gera áætlanirnar eða að móta framtíðarsýn, geta haft lítil eða engin áhrif á. Viðkomandi þarf því að hafa skilning á því hvernig þessi ytri kerfi bregðast við þegar breytingar verða til að geta gert raunhæfar áætlanir (slíkar áætlanir gætu hugsanlega falið í sér að valda kerfisbreytingu sem kallar þá á enn meiri innsýn í virkni kerfisins - en það er önnur umræða).

Ég er þeirrar skoðunar að framtíðamiðuð starfsemi á alltaf að byggjast á samstarfi. Það er einfaldlega óraunhæft að ætla að einstaklingur, eða jafnvel tiltölulega þröngur hópur einstaklinga, geti haft yfirsýn yfir alla þá þætti sem geta mögulega haft áhrif á framtíðina. Hins vegar þarf að tryggja að þeir sem koma að verkefninu skilji hvað það felur í sér. Þar liggur vandi VTRÍ, sérstaklega þegar almenningi er boðið að koma að verkefninu án undirbúnings. Það er lítil ef nokkur áhersla á framtíðar- eða kerfislega hugsun í skólakerfi okkar. Allavega er hún ekki næg til að geta gert ráð fyrir að almenningur hafi þá þekkingu sem þarf til að koma að þessu verkefni. Mín reynsla, sem er orðin töluverð að ég tel, segir mér að eins og þessi könnun VTRÍ er framkvæmd, á hún ekki eftir að varpa ljósi á áskoranir framtíðarinnar, heldur mun hún í besta falli undirstrika hverjar eru áskoranir nútímans (það er í dag og næstu ca. 5 árin). Það er ekki vegna þess að ég tel almenning skorta framtíðarsýn, heldur vegna þess að almenningur hefur ekki fengið nægilega þjálfun í kerfislegri hugsun, sem er forsenda þess að verkefni eins og þetta skili gagnlegum niðurstöðum.

Ég fagna því að VTRÍ bjóði almenningi að koma að þessu mikilvæga verkefni og hlakka mjög til að sjá hverjar niðurstöður verkefnisins verða. Hins vegar, held ég að þessi könnun sé ekki rétta leið til að fá innlegg almennings. Áður en almenningur er spurður um áskoranir framtíðarinnar þá þarf að fara fram samtal um hver raunveruleg staða tækniþróunar er í dag (fæstir vita t.d. á hvað stigi þróun gervigreindar og vélmenna er) og hvernig áhrif slík þróun hefur. Ég hef t.d. oft spurt þá sem hafa verið á námskeiðum eða í vinnustofum hjá mér hvaða áhrif þeir telja að sjálfakandi bílar munu hafa á menntun. Svörin eru nokkuð fyrirsjáanleg: ferðir í og úr skóla verða einfaldari, tími sem fer í samgöngur nýtist betur, og svo framvegis. Sjaldnast (held ég aldrei) hugar fólk að þeirri tækni sem þarf að þróa til að sjálfakandi bílar verði að veruleika og áhrif hennar, sem mætti segja að eru óbein áhrif sjálfakandi bíla. Þar má t.d. nefna gervigreind, rýmisskynjun (-vitund) tækni, rafgeyma, netsamskipti milli tækja, og margt fleira. Ef við lítum bara á gervigreindina, þá er ljóst að gervigreind sem verður þróuð til að gera sjálfakandi bíla að veruleika nýtist ekki bara í samgöngur. Hún kemur til með að dreifast um samfélagið og nýtast í allt mögulegt, þar á meðal í menntun. Til að koma auga á þessa möguleika þarf meira innsýn í tækniþróun og breytingarferla en flestir hafa.

(Upphafleg drög að greininni voru miklu lengri og ítarlegri. Ég skar verulega niður til að gera þetta aðgengilegra (og svo að fólk nenni að lesa þetta...). Ég er meira en til í frekari umræðu um þetta í kommentum...)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband