Eru það nemendur 7. & 10. bekkjar sem setja Ísaksskóla í sérflokk?

standardized-testsUm daginn stoppaði ég við á kaffihúsi í bænum á leið minni á fund. Þar fann ég nýjasta tölublað DV þar sem var heil opnugrein um hvað nemendur Ísaksskóla brillera á samræmdum prófum undir yfirskriftinni „Ísaksskóli í sérflokki”, hvorki meira né minna. Stór orð sem þessi verðskulda nánari rannsókn. Ég komst að tveimur niðurstöðum:
1. Ég veit ekki um Ísaksskóla en greinarhöfundur er örugglega í sérflokki hvað varðar skapandi túlkun tölfræðigagna!
2. Það virðast vera nemendur 7. & 10. bekkjar sem setja Ísaksskóla í sérflokk.

Skoðum þetta nánar
Í greininni segir í hnotskurn að þegar reiknað er meðaltal af öllum samræmdum prófum, þ.e. fyrir 4., 7. og 10. bekk, fyrir alla skóla landsins skarar Ísaksskóli lang fram úr öllum öðrum. Reiknuðu meðaltölin styðja þetta enda er reiknað meðaltal Ísaksskóla yfir 40 stig og næsti skóli þar á eftir vel innan við 40.

En nú vakna ýmsar spurningar enda reikniaðferðirnar svolítið sérstakar. Ég ætla að skoða hér tvær:
1. Hvað segir það okkur að reikna meðaltal af útkomum úr samræmdum prófum mismunandi árganga?
2. Hvernig er útkoman ef við reiknum þetta á annan hátt?

1. Það er stórfurðulegt og vægast sagt dúbíus að reikna meðaleinkunn fyrir hvern skóla til að gera samanburð eins og er gerður í greininni. Í fyrsta lagi, þá eru próf ekki lögð fyrir alla árganga í þessum skólum. Eina samræmda prófið sem er lagt fyrir í Ísaksskóla er í 4. bekk. Þannig að það er verið að bera saman meðaltal úr sumum skólum sem byggist á prófum í 4., 7. og 10. bekk við útkomur skóla sem er bara með 4. bekk eða (annað tilfelli sem er fjallað um í greininni) bara 4. og 7. bekk. Til að slíkur samanburður gangi upp þyrfti að sýna fram á ýmislegt - sérstaklega að niðurstaða í samræmdu prófi í 4. bekk í Ísaksskóla gefi áreiðanlega til kynna hvernig nemendum muni ganga á samræmdum prófum í 7. og 10. bekk, hvar svo sem þeir eru í skóla á þeim árum. Ég kannast ekki við að þetta hafi verið gert og ef svo er þá er allavega ekki vísað í neitt í greininni. Þannig að þetta er mjög hæpinn samanburður.

2. Eðlilegast er að bera niðurstöður nemenda í Ísaksskóla við niðurstöður 4. bekkjar í öðrum skólum. Ef við gerum þetta þá kemur í ljós að Ísaksskóli er ekki algjörlega í sérflokki. Reyndar er hann næstum hnífjafn við nemendur Njarðvíkurskóla. Ennfremur er ekki eins mikill munur á Ísaksskóla og öðrum skólum sem eru að ná góðum árangri.

Niðurstaðan virðist því vera þessi: Ef Ísaksskóli er í sérflokki þá virðist það vera vegna nemenda í 7. og 10. bekkjum. En Ísaksskóli er, eins og allir vita, hvorki með 7. né 10. bekk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband