Færsluflokkur: Dægurmál
24.1.2016 | 08:54
Listamannalaun og gildi óheftrar sköpunar
Þessi umræða um listamannalaun sem sprettur nú upp á hverju ári veldur mér miklum áhyggjum. Aðallega er það vegna þess að margir þeir sem tjá sig um þau (jafnvel listamenn sjálfir og þeir sem hafa ákvörðunarvald á þessu sviði) virðast misskilja tilgang þeirra, eða vilja ala á misskilningi meðal almennings. Misskilningurinn felst fyrst og fremst í því að líta á (eða skilgreina) alla framleiðslu listamanna sem markaðsvöru og að gildi framleiðslunnar er að öllu leyti háð móttöku markaðarins. Ef þetta er raunin þá meikar alveg sens að velta fyrir sér hvort rétt sé að halda einhverjum uppi meðan hann framleiðir eitthvað sem fær kannski ekki góðar móttökur á opnum markaði. En ég held að þetta sé ekki rétt. Hlutverk listamannalauna, eins og hlutverk margra styrkja til vísindalegra rannsókna, er einmitt að gera listamönnum kleift að stunda sína sköpun óháð þrýstingi frá markaðsöflum hverju sinni. Rökin fyrir því að samfélagið skuli kosta svona vinnu er að slíkt getur (og gerir oft) leitt til jákvæðra breytinga og nýsköpun yfir lengri tíma.
Ég þekki ágætlega til í heimi listsköpunar þar sem allir í minni fjölskyldu (fyrir utan mig) eru menntaðir í og starfa við listsköpun. Hins vegar þekki ég betur til í heimi rannsókna og fræðimennsku, þar sem ég starfa. Þannig að þó svo að umræðan snúist um listsköpun ætla ég að leyfa mér að útskýra mitt sjónarhorn á þessum málum út frá rannsóknum og fræðistörfum með smá listaívafi. Að mínu mati er ekki langt á milli þessara tveggja heima (sjá meira um það hér). Bæði listamenn og fræðimenn hafa það að markmiði að skapa nýja merkingu og þekkingu til að lýsa umhverfina sem við upplifum dags daglega. Þeir gera það bara hver á sinn hátt. Það sem á eftir kemur byggir að miklu leyti á rannsóknum Martin & Irvine (1984), sem mér finnst vera ein besta og hlutlausasta framsetning og greining á málinu.
Spurningin sem um ræðir er þessi: Hvort gagnast samfélaginu mest, að setja opinbert fé í grunnrannsóknir (pure research) eða hagnýtar rannsóknir (applied research)? Grunnrannsóknir eru þær sem eru unnar fyrst og fremst til að svala forvitni og þekkingarþörf fræðimanna. Grunnrannsóknir snúast gjarnan um það að skapa eða styrkja fræðilegar kenningar án sérstaks tillits til þess hvort þær leiði til afurða eða þjónustu sem nýtist almenningi. Hagnýtar rannsóknir snúast hins vegar um það að skapa afurðir eða þjónustu á grundvelli fræðilegrar þekkingar sem nýtist samfélaginu og taka því tillit til markaðsafla. Sem dæmi um þetta tvennt:
- Grunnrannsóknir: Klassíska dæmið um grunnrannsóknir er afstæðiskenning Einsteins. Á sínum tíma hafði afstæðiskenningin vissulega mikil áhrif á heimsmyndina en hafði lítið sem ekkert auðsjáanlegt notagildi með tilliti til daglegs lífs almennings.
- Hagnýtar rannsóknir: Eitt skýrasta dæmið um hagnýtar rannsóknir eru lyfjaprófanir. Þar er markmiðið að nota vísindi til að skapa vöru sem nýtist almenningi á mjög áþreifanlegan hátt.
Það er ekki algengt, held ég, að listamenn eða aðrir skilgreini listsköpun með sömu hugtökum og ég nota hér fyrir ofan en ég held að eðli sköpunarinnar er samt nógu lík til að láta samlíkinguna ganga upp.
Listamenn taka þátt í orðræðu sín á milli sem snýst um að kanna hvernig er hægt að nota hina ýmsu listrænu miðla (t.d. tungumálið, tónmál, litir, línur, rými, o.s.frv.) til að tjá sína sýn. Þessi þáttur í listsköpuninni líkist grunnrannsóknum. Góður rithöfundur hefur t.d. líklega gert margar tilraunir til að lýsa sögupersónu á sannfærandi hátt og nýtt til þess fyrirmyndir úr listasögunni. Fæstar tilraunirnar enda í bókum viðkomandi en eru samt sem áður nauðsynleg forsenda þess að eitthvað prenthæft verði til. Þennan hluta listasköpunarinnar er ekki hægt að meta út frá arðsemissjónarmiðum nema yfir lengri tíma. Útkomur tilraunanna sem listamaðurinn gerir skila sér kannski ekki í næsta verki, og jafnvel ekki í þarnæsta, og kannski aldrei. En þær hafa samt sem áður sitt gildi vegna þess að þær eiga erindi í orðræðu listamanna og auka þar almenna þekkingu í nærsamfélaginu og jafnvel víðar.
Þegar rithöfundur skrifar bók sem á að fara í sölu notar hann þá þekkingu sem hefur skapast með ótal tilraunum til að búa til verk sem líklegt er til að seljast - eins og þegar fræðimenn framkvæma hagnýtar rannsóknir. Þá skipta markaðsöflin máli. Rithöfundurinn (eins og aðrir listamenn) þarf að geta sett þá þekkingu sem er til staðar varðandi sköpunina í samhengi sem henntar almenningi. Annars skapar verkið ekki tekjur og kostnaðurinn fellur á listamanninn eða aðra.
Í vísindum hefur verið deilt um það hvort sé mikilvægara með tilliti til nýsköpunar, grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir. Á sama hátt getum við spurt hvort sé mikilvægara fyrir nýsköpun í listum, skapandi vinnan eða framleiðsla listavara? Pólana tvo skilgreina Martin & Irvine, sem ég nefndi áður, þannig (meira um þetta hér):
- Science-push: Vísindaleg þekking skapar eftirspurn eftir nýjungum sem hægt er að setja á markað.
- Market-pull: Markaðurinn skapar eftirspurn eftir nýjungum sem krefjast nýrrar vísindalegrar þekkingar.
Ef science-push módelið er líklegra til að leiða til nýjunga fyrir markað, er rökrétt að styrkja grunnrannsóknir sem auka vísindaleg þekkingu óháð vilja markaðarins hverju sinni. Ef market-pull módelið er líklegra til að leiða til nýjunga þá er rökréttara að styrkja hagnýtar rannsóknir sem taka mið af markaðsöflum hverju sinni.
Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna hvort nýsköpun ræðst frekar af science-push eða market-pull. Martin & Irvine fóru yfir þrjár helstu rannsóknirnar (sem eru Project Hindsight, TRACES og Battelle rannsóknin) sem þeim var kunnugt um. Þessar rannsóknir þóttu sýna að nýsköpun er verulega háð grunnrannsóknum en að það þarf að rekja sögu nýjunga nokkuð langt aftur í tímann til að sýna fram á tengslin. Sem dæmi má nefna ljósleiðaratækni en þekkingarsögu hennar má rekja aftur til rannsókna á hegðun ljóss í upphafi 20. aldar. Á þeim tíma hafði þekkingin lítið notagildi (nema þá til að skemmta fólki eins og var gert á Heimssýningunni í París 1889). Martin & Irvine voru hins vegar mjög dipló og ályktuðu að bæði science-push og market-pull hefðu áhrif á nýsköpun, og þá sérstaklega samvirknin milli þessara tveggja póla.
Ef við snúum þessu svo upp á listir má finna mýmörg dæmi um það að listsköpun hefur ekki fundið farveg á markaði fyrr en löngu eftir að sköpunin hafi átt sér stað. Ég hef mikið dálæti á tónlist þannig að lítum á nokkur dæmi:
- Vorblót Stravinsky: Þetta þekkta dans- og tónlistaverk þykir í dag með merkilegustu og áhrifamestu tónverkum 20. aldar. Þegar það var frumsýnt í París 1913 brutust út óeirðir meðal áhorfenda sem móðguðust þar sem þeim fannst Stravinsky vera að gera grín að sér. Tónskáldið Puccini sagði verkið augljóslega vera afrakstur geðveiks manns. Það var ekki fyrr en nokkrum áratugum síðar, og þá í Bandaríkjunum, sem tónlistarunnendur byrjuðu að taka verkið í sátt.
- Fyrsta plata David Bowie (kom fyrst út 1969): Platan vakti litla sem enga athygli fyrr en hún var gefin út öðru sinni árið 1972 og þá eftir að Bowie var búinn að geta sér gott orð með tveimur öðrum plötum. Hún hefur s.s. aldrei verið talin með merkilegustu plötum Bowie en hún náði þó töluverðum vinsældum 1972 og komst fljótlega í topp 10 á vinsældalistum beggja vegna Atlantshafs.
- Velvet Underground & Nico (oft kölluð Bananaplatan): Plata þessi er án efa ein sú áhrifamesta rokksögunnar. Hún seldist nánast ekkert þegar hún kom fyrst út 1967. Brian Eno á að hafa sagt um hana að hún seldist í aðeins 30.000 eintökum fyrstu áratugana eftir að hún kom út, en allir þessir 30.000 stofnuðu hljómsveit. Það var ekki fyrr en eftir 10 ár að hún fór að vekja athygli og þá aðallega meðal ungra pönkara og nýbylgjusinna í leit að einhverju fersku. Á 9. og 10. áratugnum voru fáir rokktónlistamenn sem ekki listuðu plötuna meðal helstu áhrifavalda.
- Bitches Brew - Miles Davis: Þetta tímamótaverk hefur haft gífurleg áhrif ekki bara á djasstónlist heldur líka rokk og s.k. klassík. Þegar verkið kom fyrst út 1970 voru margir innan djass-heimsins sem höfnuðu verkinu og töldu þetta vera svanasöng Davis. Raunin varð önnur. Hjá Davis hófst tímabil sem einkenndist af mikilli tilraunastarfsemi og þeir ungu tónlistarmenn sem hann fékk til liðs við sig áttu eftir að móta framtíð djass, popp, og rokk tónlistar: t.d. John McLaughlin, Chick Corea, Wayne Shorter, Herbie Hancock og margir fleiri.
Í öllum þessum tilvikum höfðu listamennirnir fengið tækifæri til að vinna að sinni listsköpun án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvernig markaðurinn myndi taka á móti afurðinni. Þeim var öllum hafnað í fyrstu en með tímanum náðu þeir eyru annarra listamanna og skapaðist ný merking, nýtt tónrænt tungumál, sem skapaði farveg fyrir mikla nýsköpun. Það er einmitt þetta sem listamannalaunum er ætlað að gera - að gefa listamönnum tækifæri til að vinna að sinni sköpun óháð þrýstingi markaðsafla. Slíkt gefur kannski lítið af sér þegar til skamms tíma er litið en með tímanum getur það leitt til byltinga. Og kannski það sem mikilvægast er, að fáar byltingar gerast án slíks undanfara. Það má segja að markaðurinn er kannski góður í að fylla upp í göt, en það er óheft listsköpun og grunnrannsóknir sem búa til götin.
Listamannalaun, eins og styrkir til grunnrannsókna, eru ætluð að gera listamönnum kleift að stunda sína sköpun án markaðsþrýstings. Hins vegar hefur gagnrýni beinst gegn því að tiltekinn hópur fái opinbert fé fyrir að gera það sem ætlast er til af þeim. En, það er eins og ég sagði áður, listamannalaun eru einmitt ætluð að veita listamönnum tækifæri til að gera annað en það sem vanalega er ætlast af þeim. Þessi gagnrýni er því á röngum forsendum. Tónlistarmaðurinn Ingó veðurguð komst kannski næst því sem málið ætti raunverulega að snúast um þegar hann spurði af hverju skattfé hans ætti að fara í að kosta listsköpun sem aðeins 30 manns myndu njóta? Þarna er eins og með Velvet Underground á sínum tíma, ef þetta eru réttu 30 manns þá gæti það breytt heiminum til hins betra.
En það eru ekki bara þeir sem gagnrýna listamannalaun sem hafa farið á mis við kjarna málsins. Agnar Kr. Þorsteinsson, blaðamaður á Stundinni, gagnrýndi töframanninn Einar Mikael Sverrisson fyrir að vera mótfallinn listamannalaunum þegar Einar Mikael þáði sjálfur atvinnusköpunarstyrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Listamannalaun og atvinnusköpunarstyrkir eru gjörólíkir og má segja að þeim er ætlað hvor um sig að styðja við þessa andstæðu póla nýsköpunarferlisins, sem ég nefndi áður. Meðan listamannalaun eru ætluð að styðja við óhefta listsköpun eru atvinnusköpunarstyrkir ætlaðir að styrkja markaðsvæðingu góðra hugmynda, sem geta átt rætur í listsköpun eða grunnrannsóknum. Ef við göngum út frá því að tilgangur listamannalauna sé eins og ég hef sagt, þá er engin mótsögn í því að vera á móti listamannalaunum en þiggja atvinnusköpunarstyrk. Blaðamaður Stundarinnar virðist ekki átta sig á þessu.
Þetta er furðuleg staða þegar hvorki þeir sem eru með né þeir sem eru á móti listamannalaunum átta sig á hlutverki þeirra. Öll gagnrýnin umræða, bæði með og á móti, virðist orðin svolítið marklaus.
Dægurmál | Breytt 12.9.2016 kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2013 | 20:07
Samkynhneigðir eru stjörnur!
Dægurmál | Breytt 9.4.2018 kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2011 | 14:18
Meingölluð skoðanakönnun MMR um Icesave
Nýlega var sagt frá skoðanakönnun MMR sem sýnir að 57% Íslendinga ætla að samþykkja Icesave lögin í kosningu. Einn bloggari hér á blog.is benti á þann alvarlega galla á skoðanakönnuninni, sem ég tók undir, að úrtakið náði aðeins til þeirra sem eru 18-67 ára. Af einhverjum ástæðum hefur bloggarinn fjarlægt færsluna af bloggi sínu. Ég held að þetta sé samt eitthvað sem er þess virði að vekja athygli á.
MMR gefur enga ástæðu fyrir að Íslendingar eldri en 67 ára eru ekki í úrtakinu. Það er alvarlegt að úrtak nái ekki til allra sem málið varðar, sérstaklega þegar um er að tiltekinn hóp sem hægt er að skilgreina út frá ákveðnum forsendum. Íslendingar eldri en 67 ára eru í dag um 31.500 manns. Fjöldi íslendinga á kosningaaldri, þ.e.a.s. 18 ára og eldri, eru samtals um 238.000. Þarna eru því 13% af kosningabærum Íslendingum ekki hafðir með í úrtakinu. Þetta getur skekkt niðurstöður könnunarinnar all verulega.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2007 | 18:19
Og hvað með hitt? Tækin, auðir diskar, o.s.frv.
Þetta er góð spurning hjá honum Gísla. En af hverju talar hann ekki um öll hin gjöldin sem renna til réttindahafa (eða samtök "þeirra")? Innheimtumiðstöð gjalda fær margar miljónir af sölu diska og tækja hvort sem þau eru notuð til að fjölfalda tónlist eða ekki. Þar að auki eru STEF gjöld innheimt tvisvar ef heyrist í útvarpi á opinberum stað (útvarpsstöðin borgar og staðurinn sem dirfist að láta heyrast í útvarpi).
Þetta er eins og að láta fólk borga tvisvar fyrir bílastæði - einu sinni fyrir notkun á bílastæðinu og svo líka sekt ef maður skyldi fara yfir á tíma (svo þarftu auðvitað að borga sektina aftur ef þú ferð yfir). Þar að auki þarf að borga fyrir hvert dekk. Og sama gildir um reiðhjól, barnavagna, hjólaskauta og innkaupatöskur á hjólum.
Það er hreint ótrúlegt hvað STEF kemst upp með að rukka oft fyrir sama hlutinn.
Segir neytendur greiða oft fyrir sama afnotaréttinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)