Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eins og flís við rass: um snjalltæki, samfélagsmiðla og skóla

samfo_i_skola... ungt fólk finnur það sjálft að samskiptatækni þeirra passar við nám eins og flís við rass.

Nýlega birti Sigurður Ólafsson, formaður fræðslunefndar Fjarðabyggðar, grein á Austurfrett.is um ákvörðun Fjarðarbyggðar "að banna börnum að nota sín eigin snjalltæki á skólatíma." Greinin rataði inn á Facebook hóp kennara og annarra sem koma að menntun og fræðslumálum og hefur vakið töluverða umræðu og margt áhugavert í henni.

Fyrir mitt leyti er sérstaklega tvennt sem er athugavert við þessa ákvörðun fræðslunefnarinnar. Í fyrsta lagi, ef fyrrnefnd grein lýsir rétt þá leið sem var farin til að taka þessa ákvörðun, þá virðist hún byggð að miklu leyti á alhæfingum og mýtum um tæknilegan veruleika ungs fólks í dag. Birtur er langur listi af veilum sem eiga að herja á ungu fólki og allri sök skellt á snjalltækin. Lítið virðist hafa verið gert til að komast að því hvað valdi öllum þessum kvillum, heldur hafa viðkomandi gefið sér að snjalltækin bera þar mestu sök - á öllu. Í öðru lagi, og nátengt því fyrra, er að það lítur út fyrir að gengið hafi verið út frá því að banna ætti snjalltæki og rökum safnað til að styðja þá ákvörðun frekar en að safna fyrst gögnum og taka upplýsta ákvörðun á grundvelli þeirra. Sigurður birtir langan lista af rökum sem mæla gegn notkun nemenda á eigin snjalltækjum í skólum en engin rök sem mæla með þeim. Og það er ekki að sjá í greininni að það hafi verið kafað djúpt eftir rökum sem mæla með notkun snjalltækja nemenda í skólum.

Sökin er ekki alfarið fræðslunefndar Fjarðabyggðar. Vandinn er að við höfum afskaplega lítið kannað snjalltækjanotkun íslenskra ungmenna og áhrif hennar á daglegt líf þeirra. Jú, við höfum einhverja yfirborðskennda tölfræði um, t.d. skjátíma (en ekki hvað skjátímanum er varið í), hvaða samfélagsmiðla er verið að nota (en ekki til hvers er verið að nota þá), hversu mikinn tíma það eyðir "á netinu" (er með tilkomu snjalltækni hægt að segja að við séum einhverntíma ekki á netinu?), og fleira. Þetta segir okkur ýmislegt um hvaða tækni ungt fólk notar en lítið sem ekkert um til hvers það notar hana og hvernig notkunin mótar félagslegan veruleika þess.

En sem betur fer erum við Íslendingar ekki einir í heiminum og ungt fólk okkar er ekki ósvipað ungu fólki annarsstaðar og því hægt að nota gögn annarsstaðar frá til viðmiðunar (sem ætti þó ekki að koma í veg fyrir að við rannsökum eigið umhverfi - en við notum það sem við höfum í bili). Í Bandaríkjunum hefur verið fylgst kerfisbundið með notkun fólks á upplýsingatækni, þar með talið ungt fólk, í næstum 20 ár í "Internet & American Life" verkefninu sem leitt er af Pew Research Center. Eitt sem kom mjög snemma á óvart í gögnum Pew var hvað ungt fólk notar tækni mikið til að sinna skólavinnu, afla sér nýrrar þekkingar og hæfni og vinna úr misflóknum upplýsingum. Til þess nota þau þá miðla sem eru mest áberandi í þeirra tæknilega veruleika hverju sinni, t.d. YouTube, Instagram og ýmis samskiptaforrit á borð við Whatsapp. Raunin virðist vera að ungt fólk finnur það sjálft að tækni þeirra passar við nám eins og flís við rass. Ef aðeins er horft til hvaða tækni er verið að nota en ekki hvernig það notar hana þá getur þessi staðreynd auðveldlega farið framhjá fólki.

Þar sem mér finnst vanta ýmislegt í rökin sem Sigurður listar upp í grein sinni ætla ég að fara í gegnum um þau og setja aðeins betur í samhengi eins og ég sé það:

1. "Samfélagsmiðlar eru ótrúlegustu auglýsinga- og áróðursmaskínur sem mannkynið hefur fundið upp. Barn sem opnar símann sinn í hverjum frímínútum sér sennilega hundruð eða jafnvel þúsundir sérsniðinna auglýsinga á degi hverjum.í [sic] hvert skipti sem barnið notar samfélagsmiðla fá svokölluð algrím (algorythm) [sic] nýjar upplýsingar sem svo sérsníða skilaboð til viðkomandi enn nákvæmar til að auka líkur á breyttri hugsun og hegðun. Við vitum ekkert hverjir borga samfélagsmiðlunum fyrir að hafa áhrif á börnin okkar, en ljóst er að þetta er afar öflug leið til að selja bæði hugmyndir og vörur."

Þetta er sennilega rétt en þá bara vegna þess að viðkomandi kann ekki að stjórna því hvaða upplýsingum er miðlað til auglýsenda eða hvernig á að koma í veg fyrir birtingu auglýsinga. Rétt er að allar okkar ferðir um netheima skilja eftir einhver fótspor. Hins vegar hefur aukin umræða um persónuupplýsingar leitt af sér leiðir, tæki og tól til að stjórna því hversu stórt fótsporið er og hvað er hægt að lesa út úr því. Því minna sem auglýsendur vita um netverja, þeim mun færri eru möguleikarnir til að sérsníða auglýsingar. Það eru líka leiðir til að koma í veg fyrir birtingu auglýsinga. T.d. eru til viðbætur fyrir vefrápara sem koma í veg fyrir birtingu auglýsinga, en það er líka hægt að stoppa þær í samskiptarásinni, nánar tiltekið með stillingum á netbeinum (ef þú getur komið í veg fyrir að nemendur komist á samfélagsmiðla á skólaneti (eins og Sigurður nefnir í greininni) þá geturðu komið í veg fyrir að auglýsingar fari um skólanetið). Til þess að geta betur stjórnað því hvaða efni er miðlað til notenda og hvaða gögnum er safnað um þá þarf fólk að læra að umgangast tæknina. Er skólinn ekki tilvalinn staður til að kenna það?

2. "Samfélagsmiðlar eru hannaðir til að vera ávanabindandi í því skyni að hámarka tímann sem fólk eyðir í notkun þeirra."

Hér er aftur, eins og í #1, talað um netnotendur eins og þau séu stjórnlaus tuskudýr í höndum stjórnenda samfélagsmiðla. Í fyrsta lagi, vissulega er hægt að koma í veg fyrir að fólk ánetjist einhvers með því að takmarka aðgengi að skaðvaldanum, en ef aðgengi er samt til staðar, eins og er raunin hvort sem snjalltæki eru bönnuð í skólum eða ekki (t.d. með földum tækjum eða utan skóla), þá kemur það ekki í veg fyrir að þeir sem eru í hættu falli í gildruna. Í öðru lagi, hugsunin sem liggur að baki hér virðist ekki taka tillit til þess að, af einhverjum ástæðum, verða sumir háðir en aðrir ekki - jafnvel þeir sem eru með sömu tæki og sama aðgengi að samfélagsmiðlum. Það er því alls ekki gefið (og í raun hæpið) að vandinn sé bundinn við tækni heldur er eitthvað annað sem ýtir undir að sumir ánetjast samfélagsmiðla meðan aðrir gera það ekki.

#2 myndi ég flokka undir "teachable moments", það er tækifæri til náms, og mætti því alveg nota til að færa rök með notkun eigin tækja nemenda í skólum - það er að þeir læri að umgangast samfélagsmiðla og tækni á ábyrgan hátt í gegnum skólastarfið. Það er margt sem mælir með þessari leið ekki síst að það verður ætlast til þess af þeim sem eru í skólum okkar í dag að þeir tileinki sér þessa miðla og tækni í störfum og borgaralegu lífi í framtíðinni.

3. "Samfélagsmiðlar bjóða upp á endalausan og óraunhæfan samanburð við aðra."

Það að fólk er ólíkt býður upp á samanburð við aðra - samfélagsmiðlar auðvelda bara aðgang að öðru fólki. Samfélagsmiðlar eru svolítið sér á báti í þessu samhengi út af því að við getum skapað það ídentitet sem við kjósum á samfélagsmiðlum, sem þarf ekki að vera í samræmi við raunveruleikann. Það er þetta sem getur leitt til þess að samanburðurinn verður óraunhæfur. En þetta er ekki nýr vandi. Við höfum séð miðla notaða til að skapa óraunhæfa mynd af fólki eins lengi og þeir hafa verið til. T.d. þekkjum við öll Gunnar á Hlíðarenda sem "hljóp meir en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig." Það er ekki lítið lagt á þá sem vilja sanna karlmennsku sína...

Ungt fólk er, eins og hefur alltaf verið, upptekið af því að uppgötva sig sjálft og skilgreina sig sjálft innan félagslegs veruleika þess. Í dag eru samfélagsmiðlar stór partur af þessum félagslega veruleika og því mikilvægur vettvangur sem tengist þessu ferli.

Eins og með #2 sé ég í þessu annað "teachable moment". Það hafa verið gerðar mjög áhugaverðar rannsóknir á tengslum milli mótunnar sjálfsmyndar og samskipta á samfélagsmiðlum sem mætti nýta í kennslu og víðar til að takast á við þetta.

4. "Samfélagsmiðlar gefa nýja möguleika á einelti, áreitni og andlegu ofbeldi sem getur verið mun auðveldara að dylja en annað einelti."

Ef ætlunin er að leggja einhvern í einelti verða allar tiltækar aðferðir notaðar til að reyna að dylja það. Eigum við að hjálpa gerendum með því að gera félagslegan vettvang þeirra ósýnilegan í skólaumhverfinu? Ég næ ekki hugsuninni sem liggur hér að baki. Þetta er eins og að byggja vegg á skólalóðinni til að gera einelti ósýnilegt. Vandinn er eineltið ekki hvar eða hvernig það fer fram.

5. "Sum börn eiga foreldra sem hafa efni á að kaupa handa þeim nýjustu og flottustu snjallsímana á 170.000 kr. Önnur börn eiga foreldra sem hafa kannski bara efni á gömlum og lélegum síma. Símar eru stöðutákn og undirstrika með mjög augljósum hætti misskiptingu og ólíka félagslega stöðu."

Þessi rök heyrast oft. Það eru til rannsóknir sem þykja sýna að ungt fólk er ekki eins upptekið af þessu og sumir vilja meina. Þó eru væntanlega sumir, sérstaklega á unglingastigi og ofar, sem eru meira "brand conscious" en aðrir. Ef þetta er virkilega vandamál má leita leiða til að koma til móts við þá sem hafa ekki aðgang að nægilega góðri tækni. T.d. að biðja foreldra eða aðra í samfélaginu að gefa síma sem þeir eru að skipta út til skólanna. "Where there's a will, there's a way."

6. "Snjallsímarnir veita óheftan aðgang að endalausu magni kláms og annars óþverra, hvar og hvenær sem er. Maður þarf að vera ansi bláeygur til að ímynda sér að allir nemendur hafi sjálfsstjórn og þroska til að láta slíkt eiga sig á skólatíma."

Hér virðast rökin byggja á hugsuninni að ef ég sé það ekki þá er það ekki að gerast. Snjallsímabann í skólum tekur ekki á þessum vanda með nokkrum hætti. Það bara útilokar hann úr skólaumhverfinu (svo lengi sem þú gefur þér að nemendurnir eru ekki með tæki sem þú veist ekki af). Hér er líklega enn eitt "teachable moment" fyrir þá sem þora...

7. "Andlegri heilsu barna og ungmenna virðist hraka ógnvænlega. [...] Langstærsta breytingin á daglegu lífi barna og unglinga síðustu árin er þessi sítenging við netið og samfélagsmiðla og það verður að teljast líklegt að þarna sé um orsakasamhengi að ræða, þótt erfitt sé að fullyrða um slíkt."

"Langstærsta breytingin á daglegu lífi barna og unglinga" er samt ekki eina eða endilega stærsta breytingin í umhverfi þeirra. T.d. hefur það aukist töluvert að ungt fólk sé yfirleitt greint. Samfélagsbreytingar spila eflaust inn í málið að einhverju leyti - örari breytingar (sem hafa margar ekkert með tækni að gera) geta verið streituvaldar. Það er meiri streita í skólaumhverfinu - próf og fleira. Ójafnar breytingar valda togstreitu - t.d. þegar skólar breytast ekki í takt við breytingar í félagslega umhverfinu. Svo mætti lengi telja. Að skella allri skuldinni á snjalltæki ungs fólks er bara leit að skyndilausn sem nægir til að sýna aðgerðir en er ólíklegt til að taka á vandanum.

Stefnumótun og breytingar
Til að setja það sem hér um ræðir í fræðilegt samhengi þá held ég að þetta sé gott dæmi um það sem Donald Schön kallaði kvika afturhaldssemi (dynamic conservatism). Með þessu hugtaki vildi Schön vekja athygli á það að afturhaldssemi felur sjaldnast í sér aðgerðarleysi, heldur fara stofnanir í aðgerðir, stundum allmiklar, sem eru til þess gerðar að viðhalda ríkjandi ástand. Schön þróaði þessa pælingu frekar í samstarfi við Chris Argyris og varð hún að kenningunni, sem er nokkuð vel þekkt, um einslykkju lærdóm (single-loop learning) og tvílykkja lærdóm (double-loop learning) innan stofnana. Stofnun sem nærist á einslykkju lærdómi leitar gjarnan skýringa á áskorunum utan stofnunarinnar, þ.e. að til að takast á við áskorunina þarf að leysa einhvern vanda utan stofnunarinnar frekar en að breyta stofnuninni. Tvílykkju lærdómur felur í sér að stofnunin leitar leiða til að gera breytingar hjá sér til að takast á við áskoranir hvaðan sem þær koma.

Snjalltæki og tækniþróun öll hefur áhrif á nám, menntakerfi og samfélög, og sífellt örari breytingum, sem tengjast tækniþróun, fylgir töluverðar áskoranir fyrir skóla og aðrar samfélagslegar stofnanir. Í aðgerðum eins og þeim sem fræðslunefnd Fjarðabyggðar er að ráðast í má greina ákveðna þreytu - að áskoranirnar (ekki bara tæknilegar) virðast það íþengjandi að stefnumótendur og stjórnendur leita leiða til að takast á við þær á sem einfaldasta hátt. Snjalltæki nemenda eru auðveld skotmörk - þau hafa verið mikið til umræðu, þau eru mjög sýnileg og þau eru vandamál sem kemur að utan sem er hægt að leysa með einu pennastriki (eða allavega láta líta þannig út). Ennfremur, og kannski það sem mestu skiptir, erum við látin halda að verið sé að taka á krítískum málum, ekki bara varðandi snjalltækin, heldur líka einelti, andlega vanlíðan, samfélagsmiðlafíkn, klám og fleira sem Sigurður telur upp í rökum sínum. En raunin er að það er ekki verið að taka á neinu af þessu með þessum aðgerðum.

Skólar þurfa að taka tillit til þess, og byggja á því, að snjalltæki og samfélagsmiðlar eru núþegar stór partur af félagslegum veruleika ungs fólks (eins og annarra). Að láta eins og þessi veruleiki sé ekki til og miðla ekki inn í hann eykur líkur á því að námsumhverfið fjarlægist félagslega umhverfinu og tilfærsluleiðir upplýsinga og gagnlegrar þekkingar þar á milli rofna. Í huga nemenda getur námið þá virst tilgangslaust þar sem það vísar ekki til raunveruleika þeirra eins og þeir upplifa hann. Þetta höfum við fengið að heyra frá sjálfu unga fólkinu eins og í grein Ásgríms Hermannssonar fyrir mörgum árum, sem þá var ármaður skólafélags MS (ég finn ekki þessa merku grein á netinu lengur en ég varðveitti allavega skjáskot af henni í þessum glærum). Þar segir Ásgrímur nákvæmlega þetta, að hann upplifði skólann sem félagslegan veruleika sem var utan við og óskyldur veruleikanum eins og hann upplifði hann og þess vegna fannst honum að skólinn hafi "drepið metnað sinn". Ætlum við að skila unga fólki nútímans út í samfélagið með sömu reynslusögu?


Það lýsir vanþekkingu Kjartans á PISA og próffræðum að heimta þessar niðurstöður

Það er að verða þreytt að þurfa að hamra á þessu aftur og aftur. Það sem Kjartan Magnússon er að fara fram á er rangt. Það er mjög ábyrgðarlaust að gefa út eða birta PISA niðurstöður einstakra skóla. Vegna aðferðafræðinnar sem er notuð eru PISA niðurstöður tæknilega séð marklausar þegar þær eru greindar niður á einstaka skóla. Að gefa út eða nota á nokkurn hátt PISA niðurstöður einstakra skóla er ábyrgðarlaus misnotkun á gögnunum.

Ég hef útskýrt þetta áður hér: Er þetta sniðugt? Um PISA niðurstöður einstakra skóla. Það sem ég segi í þessari grein er eiginlega nákvæmlega það sama og Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri á mats- og greiningarsviðs Menntamálastofnunar, sagði í viðtali í Kastljósi fyrir skömmu.

Síðdegisviðbót: Þetta er ánægjulegt að sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/03/08/pisa_hentar_ekki_til_ad_meta_stodu_skola/


mbl.is Neita skólum um niðurstöður PISA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver hjá Viðskiptablaðinu segir kennara fá falleinkunn

Pisa-StudieHér fyrir neðan eru ummæli sem ég skrifaði við innlegg frá félaga mínum á Facebook. Hann benti á grein í Viðskiptablaðinu þar sem "Óðinn", ónafngreindur aðili sem skrifar reglulega um allt milli himins og jarðar, gagnrýnir kennara og launakröfur þeirra með tilvísan í nýlegar PISA niðurstöður. Mér finnst þessi skrif "Óðins" svo einstaklega hallærisleg að ég hef ákveðið að birta þetta hér líka. Þetta birtist óbreytt og er á einstaka stað vísað í umræðurnar sem voru á Facebooksíðu félaga míns en ég held að þetta ætti samt að skiljast.

"Ég ætla að leyfa mér að koma með svolítið langt innlegg í þessa umræðu þótt seint sé vegna þess að ég er sammála ****a að þessi grein er eiginlega skammarleg og hálfótrúlegt að svona illa upplýst og innrætt blaður sé birt á prenti.

Fyrir það fyrsta: P
ISA er ætlað að meta menntakerfi en ekki árangur nemenda. Réttari fyrirsögn á greininni væri (sama á við um flest sem skrifað er um PISA) "Menntakerfið fellur á prófinu". Eins er rangt að tala um að íslenskum skólabörnum fari aftur, frekar að íslenska menntakerfinu fer aftur.

Menntakerfi er flókið fyrirbæri. Það mótast af því sem fram fer innan skólanna, aðgerðum stjórnvalda og ytri þrýstingi hvort sem hann kemur frá foreldrum, fulltrúum atvinnulífsins eða almenningi. Um leið og þessir aðilar fara að skipta sér af menntamálum og reyna að hafa áhrif þar á, hvort sem er í ræðu eða verki, þá eru þeir orðnir partur af kerfinu. Það er því erfitt, ef ekki ógerlegt, að skella skuldinni fyrir slæmt gengi á einhvern einn hóp eða þátt innan kerfisins. Umfjöllun eins og þessi, þar sem er markvisst verið að gera lítið úr kennurum, hafa áhrif á kerfið og það má því alveg eins benda á hana og þá sem henni stýra sem hluta vandans, eins og kennarana.

Hvað varðar rök greinarhöfundar þá eru þau í raun engin. Höfundurinn notar gögn sem hann annaðhvort kann ekki að lesa úr eða notar gagngert á misvísandi hátt. Það eru fjölmörg dæmi um frábært skólastarf í íslenskum skólum sem hefur skilað góðum árangri sem höfundur kýs að horfa framhjá. T.d. má nefna kennslu barna með annað móðurmál en íslensku, samtengingu náms og samfélags til að "mennta ekki burt" nemendur eins og hefur verið vandi víða á landsbyggðinni, eflingu sköpunnar í námi, betri tengingar við tæknilegan veruleika ungs fólks og svo margt fleira. Þessa þætti mælir PISA ekki og ekki heldur aðrar samræmdar mælingar sem eru gerðar. Samt eru þetta þættir sem skipta miklu máli fyrir framtíð nemenda og íslenskrar þjóðar. Samt kýs höfundur að líta framhjá þessu öllu og dæma kerfið allt út frá illa upplýstum lestri sínum á PISA gögnum.

Svo gerir höfundurinn lítið úr því að PISA gögnin sýni að mikill jöfnuður ríkir innan íslenska menntakerfisins. Þetta er sá partur af PISA sem flestir við sem komum að rannsóknum og þróun á skólastarfi horfum helst til. Jöfnuður í menntakerfinu er mikilvægur, ekki vegna þess að við viljum hafa alla eins (e.o. greinarhöfundur ýjar að), heldur að við viljum tryggja að samfélagið njóti ávaxta þeirra hæfustu á meðal okkar sama hvaðan þeir koma. Við vitum ekki fyrirfram hvort næsti Össur h/f kemur úr Garðabænum eða Breiðholtinu.

Eins gagnrýnin og greinarhöfundur er á íslenska kennarastétt, vekur furðu að hann virðist hafa fátt út á PISA að setja. En PISA er alls ekki hafið yfir gagnrýni og þá er ég ekki að tala um þessa smávægilegu hluti eins og þýðingar á könnunartækjum, sem hefur verið áberandi í umræðu undanfarna daga. Upphaflegur tilgangur PISA var að hjálpa stefnumótendum að sjá hvar væri verið að gera góða hluti til að geta lært af reynslu annarra. Síðan PISA hófst hefur þróunin verið þannig að ákveðin lönd hafa verið að raða sér á topp árangurslistanna og eru það fyrst og fremst austurlönd eins og S. Kórea, Singapúr og Sjanghæ í Kína. Í þessum löndum er menntakerfið mjög prófmiðað þannig að framtíð nemenda er nánast að öllu leyti háð árangri á stöðluðum prófum. Þar af leiðandi gengur kennsla að miklu leyti út á það að kenna nemendum að taka próf. Pressan er svo mikil að til hefur orðið það sem kallað er "skugga-menntakerfi" (e. shadow education system) sem er almennt álitið til vandræða. Nemendur eru í skóla nánast frá því að þeir vakna þangað til seint að kvöldi, bæði í opinberum og einkaskólum; skuggakerfið sýgur til sín alla hæfustu kennara þannig að opinberir skólar eru illa mannaðir; og árangur í skóla (og þar með lífinu) er háður því hver getur borgað mest. Í okkar heimshluta er takmarkaður áhugi fyrir því að taka upp slíkt kerfi. Meira að segja hafa yfirvöld í austurlöndunum sjálfum reynt að sporna gegn þessari þróun, en án árangurs. Þá er spurning - hvaða gagn er af PISA ef það eina sem það getur vísað okkur á til að ná árangri er eitthvað sem enginn vill?

Samt sem áður, er það svo að útkoma íslenska menntakerfisins í PISA er, og ætti að vera, umhugsunarefni. Hins vegar er hæpið að þær tillögur til úrbóta sem hafa verið nefndar hér í þessari umræðu (sem ég er kannski svolítið að hijack-a frá Magga með þessari langloku minni) séu líklegar til að snúa málunum við. Við verðum að hafa í huga að það menntakerfi sem hefur verið byggt upp hér og í nágrannalöndum er að miklu leyti andsvar við fyrri kerfi sem voru ýmist einkarekin, aðeins fyrir útvalda eða öðruvísi misskipt. Þeir sem agentera fyrir svona skólarekstri í dag þurfa að mínu mati að gera grein fyrir því af hverju þeir halda að þau skili betri árangri nú en þau gerðu fyrir 100 árum. Ég get ekki sagt að ég sé bjartsýnt. Þetta hefur allt verið reynt: einkarekstur, einkaskólar, úttektarreikningar (voucher schools) og þar fram eftir götunum. Ekkert af þessu skilar betri árangri fyrir samfélagið í heild en opið opinberlega rekið menntakerfi og flest er sannanlega verra.

Það sem hefur verið sýnt að skili árangri í samfélagi eins og okkar er þegar kennurum er sýnd virðing og þeim treyst fyrir því starfi sem þeir vinna. Íslenskir kennarar hafa því miður ekki fengið að njóta slíks trausts né virðingar. Getiði ímyndað ykkur hvernig er að vera hámenntaðir sérfræðingar á ykkar sviði og þurfa að þola ummæli eins og "Markmiðið … er … ekki að tryggja kennurum þægilega innivinnu á launum sem eru langt yfir meðallaunum í landinu." Þetta er skammarlegt og það sem gerir þetta enn verra er að Viðskiptablaðið skuli leyfa sér að birta svona blaður nafnlaust. Launakröfur íslenskra kennara eru ekki fáranlegar miðað við kröfurnar sem eru gerðar til þeirra. Þær eru heldur ekki óviðráðanlegar ef okkur er alvara um að vilja tryggja að okkar unga fólk fái þá menntun sem þarf til að verða virkir, glaðir og konstrúktívir þátttakendur í okkar samfélagi.

Það kostar okkur líklega meira á endanum að reyna að nískast með menntakerfið eins og hefur verið gert. Þetta er eins og að kaupa farsíma í dag - Þú getur keypt einn fyrir kr. 40.000 sem endist í eitt ár eða fyrir kr. 70.000 sem endist í þrjú ár. Hvor er betri díllinn?"


Nýja orðræðan um menntun: Þín fjárfesting - þín framtíð?

UPPFÆRT 4.12.2015

Ég hef fengið nokkur komment um þessi skrif mín, sérstaklega varðandi skilgreiningar á einkavæðingu og einkarekstri í menntun. Upphaflega ætlaði ég að fjalla aðeins um þá umræðu í þessari grein en hún var orðin það löng að ég sleppti því. Það er líklega efni í aðra grein. EN Sumir vilja gera greinarmun á einkavæðingu og einkarekstri. Yfirleitt þannig að eitt vísar til þess að einkaaðilar stofna nýjan skóla frá grunni og hitt að einkaaðilar reki opinberar stofnanir. Ég held að í reynd hafi verið sáralítill munur á þessu þar sem einkaaðilarnir fara fram á að reka stofnun sína fyrir opinbert fé hvernig svo sem staðið er að stofnun eða rekstri. Á endanum snýst þetta alltaf um eitt - að flytja opinbert fé yfir til einkaaðila sem sjá svo um að mennta fólk. Þetta er umræða sem mætti taka og kannski til einhvers gagns að skýra þessi mál.

Þetta er hins vegar ekki það sem ég er að tala um hér. Það sem ég er að tala um er breytta gildismatið sem fylgir því að innleiða rekstarform sem byggir á markaðslögmálum og lengri tíma áhrif þess. Þar sem reynsla er virðist tilhneigingin vera að þiggja opinbera fjármagnið en hækka um leið beinan kostnað fyrir nemendur. Í greininni vísa ég í ummæli formanns Samtaka sjálfstætt starfandi skóla sem er ósátt við að einkareknir skólar megi ekki innheimta skólagjöld, sem verða að teljast nokkuð há, ofan á opinber fjárframlög. Þetta bendir til þess að aukin einkavæðing sé líkleg til að leiða til sömu þróunar hér á landi og við höfum séð annarsstaðar í heiminum. Það er, aukinn kostnaður, persónuleg áhætta og ójöfnuður.


schoolfundingGestur Guðmundsson birti nýlega áhugaverða grein á vef Visir.is þar sem hann gagnrýnir skýrslu Hagfræðistofnunar um efnahagsleg áhrif styttingar framhaldsnáms. Gestur vekur meðal annars athygli á orðalaginu sem er notað í skýrslunni, sem tengir menntun við einkahag, velferð og „tekjumöguleika” einstaklingsins. Lítið er hins vegar gert úr samfélagslegu samhengi menntunar. Í tíð núverandi ríkisstjórnar virðist fara meira en áður fyrir þessari orðræðu, sem miðar að því að sannfæra almenning um að þeirra menntun er þeirra einkahagsmunamál, sem ætti þar af leiðandi að líta á sem þeirra eigin fjárfestingu. Þessa orðræðu má greina í almennri umræðu stjórnarflokka um menntamál, Hvítbók menntamálaráðherra, fyrrnefndri skýrslu Hagfræðistofnunar og ýmsum skýrslum Samtaka Atvinnulífsins og Viðskiptaráðs Íslands, svo eitthvað sé nefnt. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að hér sé markvisst verið að reyna að breyta gildismati varðandi menntun án þess að huga nægilega vel að því hvert það muni leiða okkur.

Ég er ekki í nokkrum vafa um markmið málsvara þessarar orðræðu. Það er að greiða fyrir aukinni einkavæðingu í menntakerfi þjóðarinnar. Það verður að segjast að þeir eru ekki mjög frumlegir sem standa á bak við þetta verkefni. Ég hef fylgst með þróun sömu orðræðu í menntamálum Bandaríkjana þar sem ég hóf fyrst háskólanám fyrir um 25 árum og stundaði framhaldsnám í gegnum seinni hluta síðasta áratugar. Frá því að ég skráði mig fyrst til náms í Bandarískum háskóla hefur kostnaður einstaklinga vegna háskólanáms rokið upp um næstum því 1.000%. Þetta er að miklu leyti tilkomið út af tvennu. Í fyrsta lagi, rekstarbreytingar innan háskóla og samfara því mikil aukning hálaunaðra stjórnunarstaða. Í öðru lagi, tilfærslu kostnaðar frá hinu opinbera til einstaklinga sem stunda háskólanám. Það er einmitt orðræða um menntun sem einkahagsmunamál og breytt gildismat um menntun sem hefur greitt fyrir þessari tilfærslu kostnaðar háskólana á einstaka borgara.

Fjöldin allur af bandarískum ungmennum hefur látið sannfærast af yfirvöldum, fulltrúum skóla og annarra að fjárfestingar þeirra í eigin námi, oft upp á svimandi upphæðir, muni borga sig að námi loknu. Annað hefur komið í ljós. Nýútskrifaðir háskólanemar í Bandaríkjunum hafa þurft að horfast í augu við það að störfin sem þeim var lofað eru ekki til staðar og þegar vinna við hæfi finnst ná launin engan veginn fyrir skuldunum sem var safnað á námstímanum. Hvað gerist þá? Þeir sem eiga að fjársterka bakhjarla fá forskot í lífinu, einstaka aðili nær að fóta sig, þeir sem eftir eru fara að vinna á Starbucks og misjöfnuður í samfélaginu eykst. Aukinn misjöfnuður leiðir svo til þess að það er fjárhagur sem ræður hver kemst í áhrifastöður í samfélaginu en ekki hæfni. Samfélagið tapar á endanum þar sem þeir hæfileikar sem eru til staðar (eða er hægt að rækta) fá ekki að njóta sín í þágu þess.

En það er ekki bara háskólastigið sem um ræðir. Einkavæðingaóskhyggjan nær yfir öll skólastig. Aftur eru það Bandaríkin sem við getum leitað til eftir fyrirmyndum. Mikil einkavæðing hefur verið í menntun á grunn- og framhaldsskólastigum þar - sérstaklega í formi svokallaðra „charter schools”, sem er eiginlega tilfærsla opinbers fés til einkaaðila. Eitt hneykslið á eftir öðru hefur komið upp í tengslum við charter skólana (þetta er þó ekki algilt - ég hef heimsótt hreint frábæra charter skóla í Bandaríkjunum). Skólar hafa farið á hausinn vegna slæms reksturs eða jafnvel fjármálamisferli rekstraraðila og skilið eftir strandaða nemendur sem geta lítið annað gert en hrökklast aftur í opinberu skólana. Skólar hafa orðið uppvísir að því að hafna eða að „losa sig við” erfiða nemendur eða þá sem þurfa auka aðstoð í náminu. Sumstaðar hafa charter skólar verið stofnaðir sem eru látnir höfða bara til ákveðinna þjóðfélagshópa sem hefur leitt til aukins aðskilnaðar í samfélögum. Og ávinningurinn af þessu öllu? Lítið sem enginn. Sama hvernig á það er litið - gæði náms, tækifæri til náms, námsárangur, nýsköpun í námi - nánast ekkert af því sem charter skólarnir áttu að skila samfélaginu hefur ræst.

En einkavæðingasinnar láta ekki svona leiðinda staðreyndir stoppa sig. Einkavæðinga- og einstaklingshyggjuorðræðan býður upp á ýmsar aðrar leiðir til að sannfæra en með staðreyndum. Eitt slíkt dæmi birtist nýlega í Viðskiptablaðinu. Þar heldur Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla, því fram að með tilkomu Hjallastefnunnar og Alþjóðaskólans í Garðabæ, sem eru báðir einkareknir skólar, hafi „staðlar” hækkað. Ég veit ekki hvaða staðla Áslaug Hulda er að tala um og fullyrðingin er ekki rökstudd frekar í greininni sem birtist á vef Viðskiptablaðsins. Kannski er fjallað meira um þetta í prentuðu útgáfunni. Ef við lítum til samræmdra prófa í 10. bekk þá hefur verið lítil sem engin breyting á útkomum í Garðabæ síðustu árin - og þetta eru árin sem fyrstu nemendur Hjallastefnunnar í Garðabæ eru að taka prófin. En ég veit ekki hvort samræmdu prófin hafi nokkuð með þennan „staðal” að gera sem Áslaug Hulda talar um.

Áslaug Hulda kvartar líka yfir því að einkareknir skólar sem þiggja opinbert fé í Garðabæ megi ekki rukka skólagjöld að vild. Hún kallar það „ósanngjarnt” meira að segja. Ég get ekki séð að hægt sé að túlka þetta öðruvísi en svo að henni finnst brotið á rétti einkarekinna skóla til að mismuna skólabörnum eftir fjárhag heimila. Augljóslega hafa ekki allir ráð á að borga þessar kr. 60.000 á mánuði, sem Áslaug Hulda telur vera hæfilegt gjald, ofan á skattana sem þeir borga núþegar til að reka skólakerfi og fleira.

Hvernig svo sem við kjósum að ræða um menntamál þá breytir það því ekki að menntun telst til almannagæða, sem þýðir að menntun einstaklinga, sama hvernig menntastofnanir eru reknar eða fjármagnaðar, nýtist alltaf samfélaginu öllu. Þetta er ekki skilgreiningaratriði né hagfræðilegt sjónarmið. Þetta er einfaldlega eðli menntunar.

Á sama hátt, hefur það áhrif á allt samfélagið þegar hindranir eru settar fyrir aðgengi tiltekinna einstaklinga að menntun. Á Alþingi í dag var einmitt tekin upp umræða um áhrif stefnubreytinga ríkisstjórnar í menntamálum. Fjöldi nemenda í námi á framhaldsskólastigi sem eru 25 ára og eldir hefur fækkað umtalsvert á milli ára, enda ekki gert ráð fyrir þeim í fjárlögum. Auðvitað eru ýmis önnur tækifæri fyrir þá að mennta sig, en það verða þeir að gera á eigin kostnað. Þetta er hindrun og verður eflaust til þess að færri bæti við sig þessa menntun en ella. Þetta eru samstarfsaðilar okkar í uppbyggingu og þróun samfélagsins. Það er okkur í hag gera allt sem við getum til að tryggja að það, og allir, hafi þá þekkingu og hæfni sem þarf til að taka þátt í upplýstri og gagnrýninni umræðu um framtíð samfélags okkar. Ég sé ekki hvernig á að tryggja þetta í því menntakerfi sem málsvarar nýju orðræðunnar virðast vilja.

Ég hef aldrei séð skýra framtíðarsýn setta fram samfara orðræðubreytingunni. Segjum sem svo að við ákveðum að fara sömu leið og sést hefur í löndum eins og Bandaríkjunum. Hvernig sjáum við fyrir okkur menntakerfi sem byggist á einkahagsmunum eftir 20-25 ár? Er jafn aðgangur að menntun óháð fjárhag eða stöðu í samfélaginu? Fá allir tækifæri til að blómstra - eða „verða besta útgáfan af sjálfum sér”, eins og ég hef heyrt það orðað? Eða á útkoman að ráðast af því sem hver og einn getur, eða vill, borga fyrir?


Við erum víst ekki margir framtíðarfræðingarnir hér á landi...

backtofutureÆtli ég komi ekki fyrst upp þegar gúglað er eftir íslenskum framtíðarfræðingi. Í tilefni dagsins var ég í viðtali um framtíðarfræði og framtíðina í Víðsjá á Rás 1.


mbl.is Back to the Future dagurinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju heldur Vigdís að íslenskir skólar séu að "sóa" fé?

ed_spend_toonÞað þyrfti að fá frekari skýringar á þessu (ég tek fram að ég er ekki með Morgunblaðið í höndunum og get því ekki borið þessa stuttu grein saman við það sem sagt er að komi fram í blaðinu).

Fyrir það fyrsta þá eru fjárframlög til menntamála hér á landi ekkert sérlega há (og hafa lækkað töluvert síðan 2008). Það er hægt að mæla fjárframlög á ýmsan hátt til að gera þau samanburðarhæf (US$ pr/nem, % af þjóðarframleiðslu o.s.frv.). Eftir því hvernig er mælt er Ísland allt frá botninum miðað við önnur OECD lönd og upp í ca. meðaltal.

Hvað námsárangur varðar þá er Ísland mjög nálægt PISA meðaltalinu í öllum greinum ásamt löndum eins og Noregur, Bretland, Frakkland, Danmörk og Lúxemborg, svo eitthvað sé nefnt.

Að lokum, ég er ekki sannfærður um að það sé ástæða til að telja að það eigi að vera fylgni milli fjárframlaga til menntamála og námsárangurs eins og gefið er í skyn í þessari grein. Til dæmis, meðal þeirra landa sem setja hvað mest af fjármagni í menntamálin eru Sviss, Noregur og Lúxemborg. Eins og áður sagði er árangur Noregs og Lúxemborgar skv. PISA svipaður og á Íslandi en Sviss er meðal hæstu PISA-landa. Svo er auðvitað Finnland, sem flestir þekkja, með fjárframlög nálægt meðaltalinu en mjög góðan námsárangur.

Hvað er það í þessum gögnum (PISA eða tölur OECD varðandi fjárframlög til menntamála) sem bendir til að skólar séu að "sóa" fé?


mbl.is Mikil sóun í menntakerfinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntamálaráðherra virðist misskilja máltækið um bókvitið

Í frétt á Vísi.is í dag er sagt frá umræðum um menntamál á Alþingi í dag. Þar kallaði Guðmundur Steingrímssón eftir aðgerðaráætlun um menntamál og talaði m.a. um þann fjölda sem menntar sig hér en starfar svo erlendis og borgar skatta þar. Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, svaraði þá skv. Vísi, "Við erum þjóðin sem bjó til máltækið: 'Bókvitið verður ekki í askana látið'." Þarna held ég að Illugi hljóti að vera að misskilja máltækið. Ég lærði einhverntíma fyrir löngu að máltækið merkir að það þurfi að hafa fyrir bókvitinu, því verður ekki ausað í kollinn á fólki eins og að fá mat í askinn sinn. Hér eru tvær greinar sem styðja þennan skilning minn: Guðrún Kvaran á Vísindavefunum og grein á mbl.is.

Eftir umræðu hér á heimilinu og snögga leit á vefnum virðist algengt að fólk misskilji/misnoti máltækið. Sjá t.d. nýlega grein Ágústs H. Ingþórssonar þar sem hann skilur máltækið greinilega á sama hátt og Illugi.

Kannski er jafnvel hægt að segja að merking þess hafi breyst í tímanna rás, eða hvað?


Tölfræðilegur misskilningur eða blekkingar?

Í gær (10.06.2015) birtist frétt á vef Viðskiptaráðs Íslands sem hefst á þessum orðum:

„Áætluð fjarvera starfsfólks vegna veikinda er tvöfalt meiri á opinberum vinnustöðum en á almennum vinnustöðum. Þetta er ein af niðurstöðum þróunarverkefnisins Virkur vinnustaður sem kynntar voru í síðasta mánuði.”

Nei, þetta er ekki ein af niðurstöðum verkefnisins sem vísað er til. Ein af niðurstöðunum er að hlutfall fjarveru var hærra á þeim opinberu vinnustöðum sem tóku þátt í verkefninu í samanburði við einkarekna vinnustaði sem tóku þátt. Tekið er fram í grein um verkefnið (bls. 43) að:

„Mikilvægt er að hafa í huga, þegar skoðaðar eru niðurstöður frá söfnun lykiltalna hjá þátttökufyrirtækjum, að fjöldi og gerð fyrirtækja og stofnanna sem tóku þátt í verkefninu Virkur vinnustaður var takmarkaður og því er ekki hægt að yfirfæra tölurnar almennt yfir á opinberan og almennan vinnumarkað.”

Samt gerir greinarhöfundur VÍ nákvæmlega þetta - yfirfærir niðurstöður um takmarkað úrtak á þýðið og ályktar út frá því að niðurstöður lýsi almennu ástandi.

Það sem verra er er að greinarhöfundur veit af takmörkunum tölfræðilegu greiningarinnar sem hann er að vísa í en reynir samt að réttlæta alhæfingar sínar. Í lok greinarinnar bendir höfundur á að:

„Þar sem fjöldi vinnustaða í þróunarverkefninu var takmarkaður gefur þróunarverkefnið ekki endanlega niðurstöðu um tíðni veikinda á opinberum og almennum vinnumörkuðum.”

Þá vaknar spurningin, af hverju er hann þá að nota niðurstöðurnar til að alhæfa um opinbera og almenna vinnumarkaði? Greinarhöfundur er með tilbúið svar:

„Þá þarf að athuga að í upphafi verkefnisins, árið 2011, fóru þeir vinnustaðir sem tóku þátt í greiningu á fjarveru og útbjuggu fjarverustefnu með þátttöku starfsmanna sem samþykkt var af stjórnendum og innleidd í kjölfarið. Það gefur vísbendingu um að veikindafjarvera gæti verið meiri á opinberum og almennum vinnumarkaði í heild.”

Þetta er óskiljanlegt. Af hverju ætti það að viðkomandi vinnustaðir fóru í stefnumótun árið 2011 að breyta tölfræðilegum takmörkunum greiningarinnar sem er verið að fjalla um? Það er kannski vísbending um að þetta þyrfti að kanna betur en réttlætir ekki alhæfingar.

Hér er annaðhvort verið að misskilja tölfræðina sem byggt er á eða verið að beita blekkingum.


mbl.is Veikindi tvöföld hjá hinu opinbera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að eiga við menntakerfið

Nýlega hef ég átt í samræðu við fólk á netinu sem gagnrýnir menntakerfið m.a. fyrir það að það “verji sig sjálft” gagnvart breytingum til að halda sér gangandi, sem leiðir til stöðnunar, ofvaxtar og eflaust margt fleira. Gagnrýni sem þessi á eflaust rétt á sér að einhverju leyti en undirstrikar um leið hversu brýnt er að skilja hvernig kerfi virka almennt ef gagnrýni og aðgerðir eiga að hafa áhrif. Þar kemur að gagni s.k. kerfiskenning (sem mér finnst frekar afleit tilraun til að þýða “systems theory” en ég má ekki vera að því að láta mér detta eitthvað betra í hug núna). Kerfiskenning hjálpar til við að greina aðstæður í hvers kyns kerfi út frá heildrænum áhrifum umhverfis, innviða og virkni. Skv. kerfiskenningu eru ákveðin lögmál sem eru að verki í öllum kerfum og skiptir þá engu hvort við erum að tala um menntakerfi, leikkerfi landsliðsins í handbolta eða vél í bíl. Í öllum tilvikum er kerfi í gangi sem tekur við innleggi, umbreytir því og sendir frá sér sem afurð. Kerfiskenning (eða kerfisnálgun, e. systems thinking) segir okkur að þegar við erum að fást við slík kerfi þurfum við að horfa heildrænt á þau og skilja hvernig allir partarnir virka saman ef við ætlum að geta haft áhrif á þau. Kerfiskenning hefur orðið nokkuð algengt greiningartæki til að skoða menntakerfi, sérstaklega eftir að Peter Senge og félagar gáfu út bókina Schools That Learn: A Fifth Discipline Fieldbook for Educators, Parents, and Everyone Who Cares About Education árið 2000.

Þegar við erum að fást við kerfi eða að reyna að breyta kerfi þá er mikilvægt að við skiljum hvernig kerfi virka og hvað hefur áhrif á þau. Hér eru nokkur grundvallaratriði sem öll kerfi eiga sameiginlegt sama hvers eðlis þau eru. Sumt kann að virðast nokkuð mótsagnarkennt.

  1. Eðli kerfa er að leita jafnvægis. Í kerfiskenningu er þetta jafnvægi kallað homeostasis. Það er algengt að fólk telji eðli kerfa vera að halda sér gangandi því þannig vinna þau verk sín og það hlýtur þá að vera grunneðlið. Svo er ekki. Kerfi getur fórnað ganginum til að halda jafnvægi en það fórnar síður jafnvæginu til að halda sér gangandi. Til dæmis, ef olían á bílvél klárast heldur vélin áfram að ganga þangað til vélarhlutir eru svo illa farnir að hún nær ekki lengur að stilla jafnvægi milli bensíninntaks og þess að knýja bílinn áfram og vélin hættir að ganga. Það gerir lítið gagn að reyna að gangsetja bílinn á ný. Við þurfum að gera breytingar inni í vélinni þannig að kerfið geti aftur farið að stilla sjálft til jafnvægis eftir þörfum. Það er eins með menntakerfið - það leitar sífellt jafnvægis til að halda sér gangandi. 5LhxCIpEf það getur ekki lengur stillt jafnvægi (t.d. vegna fjárskorts) þá hættir það að ganga, en ekki fyrr en það hefur reynt til þrautar að vinna tilætlað verk með þeim aðföngum sem það hefur hverju sinni. Sjá meðfylgjandi mynd sem útskýrir homeostasis á einfaldan hátt. 
  2. Þar sem kerfi er sífellt að leita jafnvægis þá er það sífellt að breytast. Það er oft sagt um menntakerfið að það breytist ekkert en þá er yfirleitt verið að tala um að það breytist ekki eins og tiltekinn aðili vill. Menntakerfið, eins og öll kerfi, bregst við innri og ytri áreitum með því að breyta sér á hagkvæmasta hátt sem kostur er á og aðföng leyfa. T.d. þegar notkun samfélagsmiðla var að breiðast meðal ungmenna þá voru viðbrögð skóla að banna slíka miðla innan veggja þeirra og gera ýmislegt til að koma í veg fyrir að nemendur hefðu aðgang að þeim. Þetta er breyting. Þetta er kannski ekki sú breyting sem mörg okkar hefðu viljað sjá en er breyting samt sem áður. Þarna voru búnar til reglur sem breyta getu kerfisins til að leita jafnvægis í ljósi nýrra aðstæðna og er í fullkomnu samræmi við það sem við er að búast af kerfi.
  3. Margir vilja að menntakerfið verði opnara fyrir nýjungum og verði meira skapandi en þeir telja það vera og halda að til þess að það gangi þurfi að einfalda og minnka kerfið. Hins vegar er það svo að einföld og lítil kerfi leiða síður til nýsköpunar en flókin kerfi þar sem ríkir hæfileg óreiða, það sem stundum er kallað “chaordia” (sem mætti þýða sem “skipulagt kaos”). Óreiða er afl sem verkar stöðugt á jafnvægispunkt kerfisins þannig að hann er alltaf að færast til. Kerfið bregst við með að leita jafnvægis og þegar óreiðan er hæfilega mikil þá dugir ekki að fara hagkvæmustu eða auðveldustu leið og nýsköpun á sér þá stað. Hins vegar er mjög erfitt að átta sig á hver hæfilega hlutföll óreiðu og skipulags þurfa að vera til að láta þetta ganga upp. En, ef ætlunin er að stuðla að nýsköpun þá er einfalt og lítið kerfi sennilega ekki rétta leiðin.
  4. Kerfi mótast ekki síður af umhverfinu en innviðum. Til að átta okkur á kerfi og hvað það er sem hefur áhrif á kerfi þurfum við að hugsa heildrænt. Kerfi afmarkast ekki af gangverkinu einu. Um leið og einhver aðili er farinn að skipta sér af kerfinu í orði eða verki þá er sá orðinn hluti af því og hefur áhrif á það. Það má t.d. líta á vél í bíl sem eitt heildstætt kerfi. En um leið og ökumaður stígur á bensíninngjöfina þá er sá orðinn hluti af kerfinu. Þeir sem tala um menntakerfið opinberlega, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt, eru um leið að gera sjálfa sig að parti af kerfinu.

 

Ég hef því miður ekki tíma til að skrifa meira um þetta þessa stundina þar sem ég þarf að koma mér út á flugvöll. En skilaboðin eru þessi: ef við erum að fást við kerfi og viljum breyta því kerfi þá þurfum við að skilja hvernig kerfi virka. Tilraunir til að breyta kerfi án þess að skilja þau leiða til óútreiknanlegra útkoma sem verða til þegar kerfið leitar jafnvægis. Ef við skiljum hvernig kerfi virka þá sjáum við fljótt að leiðin til að breyta þeim er að huga að jafnvægispunktinum. Hvernig truflum við jafnvægispunktinn á þann hátt að kerfið leiti jafnvægis í þá átt sem við viljum að það leiti? Ef þetta tekst þá breytir kerfið sig sjálft eins og við viljum að það breytist.


Geta geirvörtur breytt heiminum?

miles-davis-san-francisco-ca-1971-jim-marshall

Miles Davis og geirvörtur hans um það leyti sem hann var að breyta heiminum.

Um fátt annað hefur verið rætt eins mikið síðustu daga en brjóst og geirvörtur. Margir furða sig á þessu nýjasta uppátæki íslenskra ungmenna sem tóku sig til og flössuðu geirvörtum sínum fyrir hverjum sem vildu sjá, sem og þeim sem ekki vildu. „Ég bara skil þetta ekki!”, segja sumir. Biggi lögga heldur því fram að þátttakendur munu sjá eftir því síðar meir. Sumir ganga svo langt að kalla þátttakendur „plebba". Sérfræðingur í kynjafræðum velti fyrir sér í fréttum RÚV hvort átakið „tali inn í það samhengi” sem skapast hefur í kringum ríkjandi orðræðu um jöfnuð og réttindi kynja. En þá spyr ég: af hverju ætti unga fólkið að vera að tala inn í það samhengi? Sú orðræða hefur augljóslega ekki skilað því sem það vill. Skilaboð unga fólksins eru skýr fyrir mér: nú skal hafna gömlu gagnslausu orðræðunni og taka upp nýja, sem verður á forsendum nýrrar kynslóðar. Það er því ekki að furða að aðgerðirnar „tala ekki inn í” gamla samhengið. Það er þveröfugt við markmiðið. Þeir sem ætla að taka þátt í nýju orðræðunni verða að tala inn í hana - aðrir munu aldrei heyra né skilja það sem unga fólkið er að segja.

Það sem unga fólkið er að gera nú minnir um margt á það sem Miles Davis gerði í djasstónlistinni á 7da áratug síðustu aldar. Mörgum fannst djassinn þá vera orðinn einsleitur og þreyttur - búinn að hjakka í sama farinu í áratugi. Þegar Miles Davis gaf svo út plötuna Bitches Brew voru margir sem höfnuðu henni og sögðu Davis vera algjörlega genginn af göflunum að vera senda frá sér þvílíkan hávaða og kalla „djass”. Í dag er Bitches Brew auðvitað talin eitt mesta meistaraverk tónlistarsögu 20. aldar. Hún markaði upphaf byltingar í tónlist, sem breytti ekki aðeins hvernig tónlist er samin og spiluð heldur líka hvernig við hlustum á og heyrum tónlist. Davis tók sér það bessaleyfi að gjörbreyta tónlistarorðræðunni og hann gerði það ekki með því að tala inn í það sem samhengi sem var til staðar. Hann bauð tónlistarmönnum og unnendum að taka þátt í að móta nýja orðræðu, sem þeir og gerðu. Hvort sem hlustað er í dag á djass, rock, R&B, klassík eða hvað annað, er öruggt að greina má áhrif Bitches Brew í einhverju formi.

Þeir vita það vel sem hafa fengist við nýsköpun og/eða breytingastjórnun að oft er besta, og jafnvel eina leiðin til að ná árangri að skapa nýja orðræðu. Ef sú gamla er orðin svo rótgróin að engin man t.d. hver ákvað að konur mega ekki sýna geirvörtur sínar né hvers vegna, en samt er staðið fast á því að það megi alls ekki, þá er líklega kominn tími til að taka málið upp á nýjum forsendum. Það er það sem unga fólkið er að gera nú og ég fagna því. Ég er kannski ekki alveg tilbúinn að hella mér í þá umræðu en ég ætla að leggja mig fram við að hlusta á það sem unga fólkið er að segja og reyna að skilja þeirra mál svo ég geti talað inn í þeirra samhengi - þeirra sem munu líta skammarlaust til baka þegar þau benda á myndir sem þau póstuðu og segja „Þetta er þegar ég byrjaði að breyta heiminum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband