Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Eins og flís við rass: um snjalltæki, samfélagsmiðla og skóla

samfo_i_skola... ungt fólk finnur það sjálft að samskiptatækni þeirra passar við nám eins og flís við rass.

Nýlega birti Sigurður Ólafsson, formaður fræðslunefndar Fjarðabyggðar, grein á Austurfrett.is um ákvörðun Fjarðarbyggðar "að banna börnum að nota sín eigin snjalltæki á skólatíma." Greinin rataði inn á Facebook hóp kennara og annarra sem koma að menntun og fræðslumálum og hefur vakið töluverða umræðu og margt áhugavert í henni.

Fyrir mitt leyti er sérstaklega tvennt sem er athugavert við þessa ákvörðun fræðslunefnarinnar. Í fyrsta lagi, ef fyrrnefnd grein lýsir rétt þá leið sem var farin til að taka þessa ákvörðun, þá virðist hún byggð að miklu leyti á alhæfingum og mýtum um tæknilegan veruleika ungs fólks í dag. Birtur er langur listi af veilum sem eiga að herja á ungu fólki og allri sök skellt á snjalltækin. Lítið virðist hafa verið gert til að komast að því hvað valdi öllum þessum kvillum, heldur hafa viðkomandi gefið sér að snjalltækin bera þar mestu sök - á öllu. Í öðru lagi, og nátengt því fyrra, er að það lítur út fyrir að gengið hafi verið út frá því að banna ætti snjalltæki og rökum safnað til að styðja þá ákvörðun frekar en að safna fyrst gögnum og taka upplýsta ákvörðun á grundvelli þeirra. Sigurður birtir langan lista af rökum sem mæla gegn notkun nemenda á eigin snjalltækjum í skólum en engin rök sem mæla með þeim. Og það er ekki að sjá í greininni að það hafi verið kafað djúpt eftir rökum sem mæla með notkun snjalltækja nemenda í skólum.

Sökin er ekki alfarið fræðslunefndar Fjarðabyggðar. Vandinn er að við höfum afskaplega lítið kannað snjalltækjanotkun íslenskra ungmenna og áhrif hennar á daglegt líf þeirra. Jú, við höfum einhverja yfirborðskennda tölfræði um, t.d. skjátíma (en ekki hvað skjátímanum er varið í), hvaða samfélagsmiðla er verið að nota (en ekki til hvers er verið að nota þá), hversu mikinn tíma það eyðir "á netinu" (er með tilkomu snjalltækni hægt að segja að við séum einhverntíma ekki á netinu?), og fleira. Þetta segir okkur ýmislegt um hvaða tækni ungt fólk notar en lítið sem ekkert um til hvers það notar hana og hvernig notkunin mótar félagslegan veruleika þess.

En sem betur fer erum við Íslendingar ekki einir í heiminum og ungt fólk okkar er ekki ósvipað ungu fólki annarsstaðar og því hægt að nota gögn annarsstaðar frá til viðmiðunar (sem ætti þó ekki að koma í veg fyrir að við rannsökum eigið umhverfi - en við notum það sem við höfum í bili). Í Bandaríkjunum hefur verið fylgst kerfisbundið með notkun fólks á upplýsingatækni, þar með talið ungt fólk, í næstum 20 ár í "Internet & American Life" verkefninu sem leitt er af Pew Research Center. Eitt sem kom mjög snemma á óvart í gögnum Pew var hvað ungt fólk notar tækni mikið til að sinna skólavinnu, afla sér nýrrar þekkingar og hæfni og vinna úr misflóknum upplýsingum. Til þess nota þau þá miðla sem eru mest áberandi í þeirra tæknilega veruleika hverju sinni, t.d. YouTube, Instagram og ýmis samskiptaforrit á borð við Whatsapp. Raunin virðist vera að ungt fólk finnur það sjálft að tækni þeirra passar við nám eins og flís við rass. Ef aðeins er horft til hvaða tækni er verið að nota en ekki hvernig það notar hana þá getur þessi staðreynd auðveldlega farið framhjá fólki.

Þar sem mér finnst vanta ýmislegt í rökin sem Sigurður listar upp í grein sinni ætla ég að fara í gegnum um þau og setja aðeins betur í samhengi eins og ég sé það:

1. "Samfélagsmiðlar eru ótrúlegustu auglýsinga- og áróðursmaskínur sem mannkynið hefur fundið upp. Barn sem opnar símann sinn í hverjum frímínútum sér sennilega hundruð eða jafnvel þúsundir sérsniðinna auglýsinga á degi hverjum.í [sic] hvert skipti sem barnið notar samfélagsmiðla fá svokölluð algrím (algorythm) [sic] nýjar upplýsingar sem svo sérsníða skilaboð til viðkomandi enn nákvæmar til að auka líkur á breyttri hugsun og hegðun. Við vitum ekkert hverjir borga samfélagsmiðlunum fyrir að hafa áhrif á börnin okkar, en ljóst er að þetta er afar öflug leið til að selja bæði hugmyndir og vörur."

Þetta er sennilega rétt en þá bara vegna þess að viðkomandi kann ekki að stjórna því hvaða upplýsingum er miðlað til auglýsenda eða hvernig á að koma í veg fyrir birtingu auglýsinga. Rétt er að allar okkar ferðir um netheima skilja eftir einhver fótspor. Hins vegar hefur aukin umræða um persónuupplýsingar leitt af sér leiðir, tæki og tól til að stjórna því hversu stórt fótsporið er og hvað er hægt að lesa út úr því. Því minna sem auglýsendur vita um netverja, þeim mun færri eru möguleikarnir til að sérsníða auglýsingar. Það eru líka leiðir til að koma í veg fyrir birtingu auglýsinga. T.d. eru til viðbætur fyrir vefrápara sem koma í veg fyrir birtingu auglýsinga, en það er líka hægt að stoppa þær í samskiptarásinni, nánar tiltekið með stillingum á netbeinum (ef þú getur komið í veg fyrir að nemendur komist á samfélagsmiðla á skólaneti (eins og Sigurður nefnir í greininni) þá geturðu komið í veg fyrir að auglýsingar fari um skólanetið). Til þess að geta betur stjórnað því hvaða efni er miðlað til notenda og hvaða gögnum er safnað um þá þarf fólk að læra að umgangast tæknina. Er skólinn ekki tilvalinn staður til að kenna það?

2. "Samfélagsmiðlar eru hannaðir til að vera ávanabindandi í því skyni að hámarka tímann sem fólk eyðir í notkun þeirra."

Hér er aftur, eins og í #1, talað um netnotendur eins og þau séu stjórnlaus tuskudýr í höndum stjórnenda samfélagsmiðla. Í fyrsta lagi, vissulega er hægt að koma í veg fyrir að fólk ánetjist einhvers með því að takmarka aðgengi að skaðvaldanum, en ef aðgengi er samt til staðar, eins og er raunin hvort sem snjalltæki eru bönnuð í skólum eða ekki (t.d. með földum tækjum eða utan skóla), þá kemur það ekki í veg fyrir að þeir sem eru í hættu falli í gildruna. Í öðru lagi, hugsunin sem liggur að baki hér virðist ekki taka tillit til þess að, af einhverjum ástæðum, verða sumir háðir en aðrir ekki - jafnvel þeir sem eru með sömu tæki og sama aðgengi að samfélagsmiðlum. Það er því alls ekki gefið (og í raun hæpið) að vandinn sé bundinn við tækni heldur er eitthvað annað sem ýtir undir að sumir ánetjast samfélagsmiðla meðan aðrir gera það ekki.

#2 myndi ég flokka undir "teachable moments", það er tækifæri til náms, og mætti því alveg nota til að færa rök með notkun eigin tækja nemenda í skólum - það er að þeir læri að umgangast samfélagsmiðla og tækni á ábyrgan hátt í gegnum skólastarfið. Það er margt sem mælir með þessari leið ekki síst að það verður ætlast til þess af þeim sem eru í skólum okkar í dag að þeir tileinki sér þessa miðla og tækni í störfum og borgaralegu lífi í framtíðinni.

3. "Samfélagsmiðlar bjóða upp á endalausan og óraunhæfan samanburð við aðra."

Það að fólk er ólíkt býður upp á samanburð við aðra - samfélagsmiðlar auðvelda bara aðgang að öðru fólki. Samfélagsmiðlar eru svolítið sér á báti í þessu samhengi út af því að við getum skapað það ídentitet sem við kjósum á samfélagsmiðlum, sem þarf ekki að vera í samræmi við raunveruleikann. Það er þetta sem getur leitt til þess að samanburðurinn verður óraunhæfur. En þetta er ekki nýr vandi. Við höfum séð miðla notaða til að skapa óraunhæfa mynd af fólki eins lengi og þeir hafa verið til. T.d. þekkjum við öll Gunnar á Hlíðarenda sem "hljóp meir en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig." Það er ekki lítið lagt á þá sem vilja sanna karlmennsku sína...

Ungt fólk er, eins og hefur alltaf verið, upptekið af því að uppgötva sig sjálft og skilgreina sig sjálft innan félagslegs veruleika þess. Í dag eru samfélagsmiðlar stór partur af þessum félagslega veruleika og því mikilvægur vettvangur sem tengist þessu ferli.

Eins og með #2 sé ég í þessu annað "teachable moment". Það hafa verið gerðar mjög áhugaverðar rannsóknir á tengslum milli mótunnar sjálfsmyndar og samskipta á samfélagsmiðlum sem mætti nýta í kennslu og víðar til að takast á við þetta.

4. "Samfélagsmiðlar gefa nýja möguleika á einelti, áreitni og andlegu ofbeldi sem getur verið mun auðveldara að dylja en annað einelti."

Ef ætlunin er að leggja einhvern í einelti verða allar tiltækar aðferðir notaðar til að reyna að dylja það. Eigum við að hjálpa gerendum með því að gera félagslegan vettvang þeirra ósýnilegan í skólaumhverfinu? Ég næ ekki hugsuninni sem liggur hér að baki. Þetta er eins og að byggja vegg á skólalóðinni til að gera einelti ósýnilegt. Vandinn er eineltið ekki hvar eða hvernig það fer fram.

5. "Sum börn eiga foreldra sem hafa efni á að kaupa handa þeim nýjustu og flottustu snjallsímana á 170.000 kr. Önnur börn eiga foreldra sem hafa kannski bara efni á gömlum og lélegum síma. Símar eru stöðutákn og undirstrika með mjög augljósum hætti misskiptingu og ólíka félagslega stöðu."

Þessi rök heyrast oft. Það eru til rannsóknir sem þykja sýna að ungt fólk er ekki eins upptekið af þessu og sumir vilja meina. Þó eru væntanlega sumir, sérstaklega á unglingastigi og ofar, sem eru meira "brand conscious" en aðrir. Ef þetta er virkilega vandamál má leita leiða til að koma til móts við þá sem hafa ekki aðgang að nægilega góðri tækni. T.d. að biðja foreldra eða aðra í samfélaginu að gefa síma sem þeir eru að skipta út til skólanna. "Where there's a will, there's a way."

6. "Snjallsímarnir veita óheftan aðgang að endalausu magni kláms og annars óþverra, hvar og hvenær sem er. Maður þarf að vera ansi bláeygur til að ímynda sér að allir nemendur hafi sjálfsstjórn og þroska til að láta slíkt eiga sig á skólatíma."

Hér virðast rökin byggja á hugsuninni að ef ég sé það ekki þá er það ekki að gerast. Snjallsímabann í skólum tekur ekki á þessum vanda með nokkrum hætti. Það bara útilokar hann úr skólaumhverfinu (svo lengi sem þú gefur þér að nemendurnir eru ekki með tæki sem þú veist ekki af). Hér er líklega enn eitt "teachable moment" fyrir þá sem þora...

7. "Andlegri heilsu barna og ungmenna virðist hraka ógnvænlega. [...] Langstærsta breytingin á daglegu lífi barna og unglinga síðustu árin er þessi sítenging við netið og samfélagsmiðla og það verður að teljast líklegt að þarna sé um orsakasamhengi að ræða, þótt erfitt sé að fullyrða um slíkt."

"Langstærsta breytingin á daglegu lífi barna og unglinga" er samt ekki eina eða endilega stærsta breytingin í umhverfi þeirra. T.d. hefur það aukist töluvert að ungt fólk sé yfirleitt greint. Samfélagsbreytingar spila eflaust inn í málið að einhverju leyti - örari breytingar (sem hafa margar ekkert með tækni að gera) geta verið streituvaldar. Það er meiri streita í skólaumhverfinu - próf og fleira. Ójafnar breytingar valda togstreitu - t.d. þegar skólar breytast ekki í takt við breytingar í félagslega umhverfinu. Svo mætti lengi telja. Að skella allri skuldinni á snjalltæki ungs fólks er bara leit að skyndilausn sem nægir til að sýna aðgerðir en er ólíklegt til að taka á vandanum.

Stefnumótun og breytingar
Til að setja það sem hér um ræðir í fræðilegt samhengi þá held ég að þetta sé gott dæmi um það sem Donald Schön kallaði kvika afturhaldssemi (dynamic conservatism). Með þessu hugtaki vildi Schön vekja athygli á það að afturhaldssemi felur sjaldnast í sér aðgerðarleysi, heldur fara stofnanir í aðgerðir, stundum allmiklar, sem eru til þess gerðar að viðhalda ríkjandi ástand. Schön þróaði þessa pælingu frekar í samstarfi við Chris Argyris og varð hún að kenningunni, sem er nokkuð vel þekkt, um einslykkju lærdóm (single-loop learning) og tvílykkja lærdóm (double-loop learning) innan stofnana. Stofnun sem nærist á einslykkju lærdómi leitar gjarnan skýringa á áskorunum utan stofnunarinnar, þ.e. að til að takast á við áskorunina þarf að leysa einhvern vanda utan stofnunarinnar frekar en að breyta stofnuninni. Tvílykkju lærdómur felur í sér að stofnunin leitar leiða til að gera breytingar hjá sér til að takast á við áskoranir hvaðan sem þær koma.

Snjalltæki og tækniþróun öll hefur áhrif á nám, menntakerfi og samfélög, og sífellt örari breytingum, sem tengjast tækniþróun, fylgir töluverðar áskoranir fyrir skóla og aðrar samfélagslegar stofnanir. Í aðgerðum eins og þeim sem fræðslunefnd Fjarðabyggðar er að ráðast í má greina ákveðna þreytu - að áskoranirnar (ekki bara tæknilegar) virðast það íþengjandi að stefnumótendur og stjórnendur leita leiða til að takast á við þær á sem einfaldasta hátt. Snjalltæki nemenda eru auðveld skotmörk - þau hafa verið mikið til umræðu, þau eru mjög sýnileg og þau eru vandamál sem kemur að utan sem er hægt að leysa með einu pennastriki (eða allavega láta líta þannig út). Ennfremur, og kannski það sem mestu skiptir, erum við látin halda að verið sé að taka á krítískum málum, ekki bara varðandi snjalltækin, heldur líka einelti, andlega vanlíðan, samfélagsmiðlafíkn, klám og fleira sem Sigurður telur upp í rökum sínum. En raunin er að það er ekki verið að taka á neinu af þessu með þessum aðgerðum.

Skólar þurfa að taka tillit til þess, og byggja á því, að snjalltæki og samfélagsmiðlar eru núþegar stór partur af félagslegum veruleika ungs fólks (eins og annarra). Að láta eins og þessi veruleiki sé ekki til og miðla ekki inn í hann eykur líkur á því að námsumhverfið fjarlægist félagslega umhverfinu og tilfærsluleiðir upplýsinga og gagnlegrar þekkingar þar á milli rofna. Í huga nemenda getur námið þá virst tilgangslaust þar sem það vísar ekki til raunveruleika þeirra eins og þeir upplifa hann. Þetta höfum við fengið að heyra frá sjálfu unga fólkinu eins og í grein Ásgríms Hermannssonar fyrir mörgum árum, sem þá var ármaður skólafélags MS (ég finn ekki þessa merku grein á netinu lengur en ég varðveitti allavega skjáskot af henni í þessum glærum). Þar segir Ásgrímur nákvæmlega þetta, að hann upplifði skólann sem félagslegan veruleika sem var utan við og óskyldur veruleikanum eins og hann upplifði hann og þess vegna fannst honum að skólinn hafi "drepið metnað sinn". Ætlum við að skila unga fólki nútímans út í samfélagið með sömu reynslusögu?


Könnun Vísinda- & tækniráðs um áskoranir framtíðarinnar

samfelagslegar_askoranirVísinda- & tækniráð vill vita hvað þér finnst vera helstu áskoranir framtíðarinnar en ég held að það þurfi að fara öðruvísi að.

Vísinda- og tækniráð Íslands (VTRÍ) opnaði nýlega fyrir könnun um helstu áskoranir Íslands í framtíðinni. Ég er ekki viss um að þessi könnun geri mikið gagn - allavega ekki á þessum tímapunkti. Mikið af minni vinnu og nánast öll mín rannsóknarvinna snýst um framtíðina og sérstaklega hvernig fólk myndar sér hugmyndir um framtíðina og hvernig það notar upplýsingar og gögn sem það hefur um framtíðina. Vandinn með opna könnun, eins og þessa sem VTRÍ er að framkvæma, er að fólk er almennt illa undir það búið að taka þátt í uppbyggilegri orðræðu um framtíðina (og þá er ég að tala um minnst 15-20 ár fram í tímann). Þekking á breytingaröflum er fremur lítil og jafnvel þegar breytingaröflin eru þekkt þá skortir hæfni til að vinna markvisst með og úr slíkum upplýsingum.

Undanfarin 6-8 ár hef ég farið víða um hér á landi og erlendis og unnið með fólki, mest skólafólki (það er sá vettvangur sem ég kýs helst að starfa á vegna þess að það að mennta fólk er eitt mesta framtíðamiðaða verk sem við tökum okkur fyrir hendur sem samfélag), að framtíðamiðaðri og langtíma stefnumótun. Þegar ég var að byrja átti ég til að gefa mér að fólk kynni almennt að hugsa um og vinna með framtíðina. Það er ekki svo fjarstætt enda gerum við mannfólkið það öll og nánast á öllum stundum, að hugsa um og plana framtíðina. Við ákveðum á morgnana hvaða leið og hvernig við ætlum að komast í vinnuna. Við reynum að sjá fyrir okkur hvernig líf okkar verður langt fram í tímann og gerum áætlanir í samræmi við það, t.d. að plana menntun okkar, gera ráðstafanir um myndun fjölskyldu, stofnum fyrirtæki, og svo framvegis. Ef eitthvað er þá mætti jafnvel segja að þessi geta okkar, og tilhneiging, til að hugsa um ókominn tíma er eitt af því sem gerir mannkynið sérstakt í lífríki jarðar.

Hins vegar, er himin og haf milli þess að huga að persónulegri framtíð í tengslum við eigið daglegt líf og þess að gera langtíma áætlanir sem eru ætlaðar að stuðla að farsælli samfélagsþróun. Munurinn er helst sá að þegar við erum að gera áætlanir fyrir okkur sjálf getum við bruðgist við breyttum forsendum nær samstundis án þess að verða sérstaklega vör við allar breytingarnar sem við gerum. Segjum t.d. að ég hafi ákveðið að labba í vinnuna þennan dag. Þegar ég lít út um gluggan sé ég að það er grenjandi rigning og ákveð að taka strætó í staðinn. Þetta er töluverð breyting á áætlunum mínum en ég verð lítið var við smáatriðin vegna þess að ég hef oft tekið strætó í vinnuna og reynslan segir mér að ég get fylgt áætlun sem ég hef notað áður. Það er annað þegar verið er að gera samgönguáætlun fyrir 120.000 manna borg til næstu 10 ára. Þá þarf að hafa í huga hvernig fleiri þættir gætu þróast, t.d.:

  • Hvaða breytingar verða á mannfjölda?
  • Hvernig þróast dreifing byggðar?
  • Hvaða breytingar verða á samgöngutækni?

Þessir þættir eru allir að einhverju leyti háðir ytri áhrifavöldum sem þarf þá líka að huga að, t.d.:

  • Gerist eitthvað fyrir utan landið sem hefur áhrif á mannfjölda á Íslandi?
  • Eru einhverjar fyrirsjáanlegar tæknilegar breytingar sem munu hafa áhrif á byggðarþróun?
  • Eru einhverjir aðilar út í heimi að þróa tækni sem mun leiða til byltingar í samgöngutækni?

Undirliggjandi í allri framtíðahugsun er kerfisleg hugsun (systems thinking, systems theory), það er (í mjög svo stuttu máli), ef eitt breytist, þá veldur það breytingu annarsstaðar í kerfinu, sem veldur annarri breytingu, og svo framvegis. Munurinn á því að vinna með eigin framtíð og framtíð annarra er að með eigin framtíð erum við mest að vinna með innri kerfi, þ.e. að við stjórnum breytum og ferlum í kerfinu að mestu sjálf. Þess vegna getum við brugðist hratt við þegar forsendur breytast - við ráðum ferðinni. Þegar við erum að gera áætlanir sem varða framtíð annarra eru það flókin ytri kerfi sem hafa mest áhrif. Oftar en ekki eru þetta kerfi sem viðkomandi, þ.e. þeir sem eru að gera áætlanirnar eða að móta framtíðarsýn, geta haft lítil eða engin áhrif á. Viðkomandi þarf því að hafa skilning á því hvernig þessi ytri kerfi bregðast við þegar breytingar verða til að geta gert raunhæfar áætlanir (slíkar áætlanir gætu hugsanlega falið í sér að valda kerfisbreytingu sem kallar þá á enn meiri innsýn í virkni kerfisins - en það er önnur umræða).

Ég er þeirrar skoðunar að framtíðamiðuð starfsemi á alltaf að byggjast á samstarfi. Það er einfaldlega óraunhæft að ætla að einstaklingur, eða jafnvel tiltölulega þröngur hópur einstaklinga, geti haft yfirsýn yfir alla þá þætti sem geta mögulega haft áhrif á framtíðina. Hins vegar þarf að tryggja að þeir sem koma að verkefninu skilji hvað það felur í sér. Þar liggur vandi VTRÍ, sérstaklega þegar almenningi er boðið að koma að verkefninu án undirbúnings. Það er lítil ef nokkur áhersla á framtíðar- eða kerfislega hugsun í skólakerfi okkar. Allavega er hún ekki næg til að geta gert ráð fyrir að almenningur hafi þá þekkingu sem þarf til að koma að þessu verkefni. Mín reynsla, sem er orðin töluverð að ég tel, segir mér að eins og þessi könnun VTRÍ er framkvæmd, á hún ekki eftir að varpa ljósi á áskoranir framtíðarinnar, heldur mun hún í besta falli undirstrika hverjar eru áskoranir nútímans (það er í dag og næstu ca. 5 árin). Það er ekki vegna þess að ég tel almenning skorta framtíðarsýn, heldur vegna þess að almenningur hefur ekki fengið nægilega þjálfun í kerfislegri hugsun, sem er forsenda þess að verkefni eins og þetta skili gagnlegum niðurstöðum.

Ég fagna því að VTRÍ bjóði almenningi að koma að þessu mikilvæga verkefni og hlakka mjög til að sjá hverjar niðurstöður verkefnisins verða. Hins vegar, held ég að þessi könnun sé ekki rétta leið til að fá innlegg almennings. Áður en almenningur er spurður um áskoranir framtíðarinnar þá þarf að fara fram samtal um hver raunveruleg staða tækniþróunar er í dag (fæstir vita t.d. á hvað stigi þróun gervigreindar og vélmenna er) og hvernig áhrif slík þróun hefur. Ég hef t.d. oft spurt þá sem hafa verið á námskeiðum eða í vinnustofum hjá mér hvaða áhrif þeir telja að sjálfakandi bílar munu hafa á menntun. Svörin eru nokkuð fyrirsjáanleg: ferðir í og úr skóla verða einfaldari, tími sem fer í samgöngur nýtist betur, og svo framvegis. Sjaldnast (held ég aldrei) hugar fólk að þeirri tækni sem þarf að þróa til að sjálfakandi bílar verði að veruleika og áhrif hennar, sem mætti segja að eru óbein áhrif sjálfakandi bíla. Þar má t.d. nefna gervigreind, rýmisskynjun (-vitund) tækni, rafgeyma, netsamskipti milli tækja, og margt fleira. Ef við lítum bara á gervigreindina, þá er ljóst að gervigreind sem verður þróuð til að gera sjálfakandi bíla að veruleika nýtist ekki bara í samgöngur. Hún kemur til með að dreifast um samfélagið og nýtast í allt mögulegt, þar á meðal í menntun. Til að koma auga á þessa möguleika þarf meira innsýn í tækniþróun og breytingarferla en flestir hafa.

(Upphafleg drög að greininni voru miklu lengri og ítarlegri. Ég skar verulega niður til að gera þetta aðgengilegra (og svo að fólk nenni að lesa þetta...). Ég er meira en til í frekari umræðu um þetta í kommentum...)


Erum við að nota tækni í skólum til að "stækka sjálfið"?

transhumanRÚV birti nýlega áhugaverðan pistil Karls Ólafs Hallbjörnssonar um tækni og hvað tækni segir um okkur mennina undir yfirskriftinni „Endalok tækninnar og eilíft líf“. Ég veit ekki um þetta með „endalok tækninnar“ eða „eilíft líf“, sem mér finnst Karl Ólafur ekki koma mikið inn á, en pistillinn vakti mig samt til umhugsunar. Sérstaklega finnst mér áhugaverður parturinn þar sem Karl Ólafur fjallar um tækni og „stækkun sjálfsins“. Þetta minnir mig á orð ekki minni manns en sjálfan Martin Luther King Jr., sem sagði eitt sinn (mín þýðing);

„Öll verk sem efla mannkynið hafa sæmd og eru mikilvæg og ættu að vera framkvæmd af vandvirkni.“

Ég lít á tækni sem eitt verk okkar mannana og les út úr orðum Kings tvennt. Annars vegar að okkur ber að fara varlega í tækniþróun og gæta þess að hún sé til þess gerð að þjóna þörfum manna. En líka, og það er hér sem ég tel mig sjá samsvörun við pistil Karls Ólafs, að velheppnuð tækni er góð því hún gerir okkur að betri og meiri mönnum. Hún eflir okkur með því að gera okkur kleift að gera meira og gera betur.

Ég hef fylgst með því í ekki minna en tvo áratugi hvernig tækni er notuð í skólastarfi og áhrifunum sem hún hefur þar á. Á þessum tíma hefur orðið til tækni sem gerir okkur kleift að vinna verk sem hefðu talist nánast óhugsandi áður fyrr. En áhrif þessara tækninýjunga á skólastarf hefur ekki verið í takt við breytingarnar sem hafa orðið. Ég velti fyrir mér núna hvort þetta sé vegna þess að við nýtum ekki tæknina til að „stækka sjálfið“, svo ég noti orð Karls Ólafs. Heldur er hún notuð til að styðja við þá kennsluhætti og skólastarf sem er fyrir. Með öðrum orðum, lögum við tæknina að skólastarfinu eða lögum við skólastarfið að tækninni? Og hvort ætti frekar að gera?

Ef það er rétt sem Karl Ólafur og Martin Luther King Jr. segja, þá ættum við í dag að gera mun meiri kröfur til nemenda en áður hefur verið gert vegna tækniþróunnarinna sem hefur átt sér stað. Tæknin einfaldlega gerir okkur kleift að gera svo mikið meira en við gátum áður. Við getum t.d. notið góðrar bókar án þess að kunna að lesa, við getum gert flókna útreikninga án þess að kunna stærðfræðina á bak við þær, við getum lesið franska miðla án þess að kunna stakt orð í frönsku. Það er sennilega ekkert því til fyrirstöðu að nemandi í þriðja bekk geti reiknað virðisaukaskatt útfrá uppgefnu verði án skattsins með hugbúnaði eins og Excel. Nemandinn veit kannski ekki alveg hvað hugbúnaðurinn er að gera á bak við tjöldin, en hann er að framkvæma mjög praktíska aðgerð sem má auðveldlega tengja við hans raunheim og sem sýnir hlutverk stærðfræðinnar í daglegu lífi.

Erum við að gera svona í skólum?

Eigum við að gera svona í skólum?

Erum við að skapa næg tækifæri fyrir nemendur okkar til að „stækka sjálfið“ sitt?


Af hverju þurfum við þráðlaus net í skólum?

- Að fórna öllu því góða sem fylgir aukinni notkun upplýsingatækni í skólastarfi á grundvelli veikra raka örlítils hóps manna, sem virðist staðráðinn að sýna fram á skaðsemi þess þvert á meirihlutaálit vísindasamfélagsins, væri glapræði. -

TinFoilHatAreaOnlyNýlega hélt Félag foreldra leikskólabarna í Reykjavík ráðstefnu undir yfirskriftinni Börn, skjátími og þráðlaus örbylgjugeislun. Fjórir af sjö fyrirlesurum á ráðstefnunni fluttu erindi um skaðsemi örbylgjugeislunar sem eru í hrópandi ósamræmi við ráðleggingar eftirlitsstofnana og meirihluta vísindasamfélags.

Þessi fámenni hópur heldur því fram að efasemdir um mat vísindasamfélagsins og eftirlitsaðila, sem eru mest þeirra eigin, sýna fram á vafa sem nægir til að krefjast algjörs banns á notkun þráðlausra neta í skólum. Á ráðstefnunni var engin fyrirlesari sem útskýrði eða studdi málstað vísindasamfélags né eftirlitsaðila þótt af mörgum væri hægt að velja. Ég held því að óhæft sé að kalla þetta ráðstefnu, í vísindalegum skilningi. Þetta hljómar meira eins og predíkun - og heyrist það hafa verið raunin af fréttaflutningi (tek það fram að ég mætti ekki).

Burt séð frá því hvort við eigum að kalla þetta vísindalega ráðstefnu eða eitthvað annað þá held ég að ráðstefnuhaldarar hafi gert mikil mistök með því að blanda saman umræður um skjátíma og örbylgjugeislun. Eða kannski var það með ráðum gert til að rugla umræðuna. En þetta tvennt er gjörólíkt - ekki bara efnislega heldur líka í hugum fólks. Ég hef t.d. séð ummæli frá fólki sem sótti ráðstefnuna sem heldur því fram að ráðstefnan var fyrst og fremst um skjátíma. Það virðist hafa misst af þessum 4 af 7 fyrirlesurum sem gerðu örbylgjugeislun að sínu aðalumræðuefni.

En það er ekki ætlun mín að ræða hér um örbylgjugeislun né skjátíma þótt þar sé af nógu að taka. Ragnar Þór Pétursson hefur skrifað ágæta grein um málið og ég skrifaði fyrir nokkru stuttan pistil um það sama.

Það sem ég vil fjalla um hér varðar kröfu sumra um að "leyfa börnum að njóta vafans" (ef einhver er) og banna þráðlaus net í skólum landsins. Þetta er augljóslega markmið ráðstefnuhaldara og það sem fyrirlesarar hafa kallað eftir.

Í umræðum á samfélagsmiðlum eftir þessa ráðstefnu sést að lítill hópur hefur tekið upp málstað ráðstefnuhaldara og fyrirlesara. Þeir eru ekki allir sammála hversu langt eigi að ganga. Sumir vilja banna þráðlaus net, sumir öll snjalltæki, sumir virðast ekki sjá nokkurn tilgang í því að nota upplýsingatækni í skólum yfir höfuð (allavega ekki í yngri bekkjum og leikskólum). En öll eiga þau það sameiginlegt að vilja takmarka mjög notkun upplýsingatækni í skólum miðað við það sem nú er og stefnt er að. Rökin er tvenns konar. Annars vegar að forða börnum frá örbylgjugeislun (sem er e.o. ég hef sagt ekki það sem ég vil ræða hér) og hins vegar að upplýsingatækni, og þá sér í lagi far- og snjalltækni, gerir lítið sem ekkert gagn í skólum. Það er þetta síðara sem ég vil ræða.

Í einum Facebook hópi sagði einn viðmælandi, "Engar vísindalegar sannanir eru fyrir því að börn á leikskólaaldri þroskist betur með snjalltæki eða fái aukin lífsgæði með þráðlausu neti." Þetta virðist vera í samræmi við það sem margir sem vilja úthýsa upplýsingatækni úr skólastarfi eru að hugsa. En í þessum ummælum felst mikill misskilningur á bæði menntavísindum og skólastarfi almennt.

Það er sennilega rétt að það eru engar "vísindalegar sannanir" fyrir því að börn læri betur eða meira með snjalltækni. Við höfum heldur ekki óyggjandi vísindalegar sannanir fyrir því að nemendur læri stærðfræði af stærðfræðikennurum. Hins vegar eru mjög sterkar vísbendingar að eitthvað samband er þar á milli. Og þetta á við um öll menntavísindi.

Í menntavísindum, ef við ætlum að sanna að einhver tækni eða kennsluaðferð hafi tiltekin áhrif á nám, þurfum við að sýna fram á beint orsakasamband milli orsakavaldans og afleiðingarinnar. Við þurfum þá að útiloka að aðrir þættir í umhverfinu hafi áhrif á breyturnar sem við teljum okkur vera að mæla. Þetta getum við ekki í menntavísindum.

Nám fer fram í umhverfi þar sem eru fjölbreyttir og margþættir kraftar að verki: nemendur eru ólíkir, kennarar eru ólíkir, áreiti í umhverfinu virka misjafnt á fólk, o.fl. Við getum ekki einangrað þær breytur sem við viljum mæla frá öllu hinu og getum þess vegna aldrei sýnt fram á beint orsakasamband. Möguleikinn er alltaf fyrir hendi að útkoma úr tilraunum sé vegna einhvers annars, eða samspils við eitthvað annað, en þess sem við erum að reyna að mæla. Það er því óraunhæft að krefjast vísindalegra sannana á áhrifum tækni á námsárangur.

Þótt við höfum ekki vísindalegar sannanir til að styðja við varðandi notkun upplýsingatækni í skólastarfi, þá höfum við þó nokkra reynslu sem gefur okkur ástæðu til að ætla að hægt sé að bæta skólastarf með þessari tækni. Eins og ég sagði áður þá fer nám fram í flóknu umhverfi og að sýna fram á kosti eða galla er ekki eins og að leggja saman 1+1 og fá 2. Raunin er að innleiðsla tækni eins og þráðlaus net, spjaldtölvur eða snjallsíma þar sem það á við, gerir okkur kleift að gera ýmsa hluti sem samræmast námskenningum en var ekki hagkvæmt að gera án tækninnar. Til dæmis:

  • Einstaklingsmiðað nám: Þetta er frábær leið til að mæta þörfum nemenda en nánast óframkvæmanleg þegar þú ert með einn kennara í skólastofu með 20 nemendum. Þegar hver og einn einstaklingur getur verið að vinna með eigið tæki verður þetta hins vega mun raunhæfara.
  • Verkefnamiðað nám: Með fartækni geta nemendur unnið margþætt verkefni sem reynir á og þjálfar alls kyns hæfni. Þar sem þau eru ekki bundið við einn stað geta þau nýtt sér umhverfið í tilraunir, myndatökur og fleira.
  • Skemmtilegt nám: Börn geta lært margt af leikjum og þeim finnst það oft skemmtilegra og þeir halda betur athygli þeirra en margar aðrar aðferðir.
  • Nám með öðrum: Með tækni er hægt að tengja nemendur á ýmsan hátt svo þau læri með og af öðrum, jafnvel nemendum í öðrum löndum.
  • Samsvörun skóla og samfélags: Hlutverk skóla okkar er að undirbúa nemendur fyrir fullgilda þátttöku í lýðræðislegu samfélagi. Til að ná þessu markmiði þarf skóli að endurspeglar samfélagið sem hann þjónar og horfa til framtíðar nemenda. Far- og snjalltæki og möguleikarnir sem þau bjóða upp á eru þau öfl sem eiga eftir að móta framtíðina, þ.e. framtíð nemenda okkar.

Með áframhaldandi tækniþróun bætast við enn fleiri möguleikar. Nú eru nemendur í íslenskum skólum að kynnast alls konar áhugaverðum stöðum og aðstæðum í gegnum sýndarveruleika. Þau stunda lausnamiðað nám sem þjálfar rök- og algóritmíska hugsun með því að forrita vélmenni. Þetta eru hlutir sem gera nám áhugaverðara og skemmtilegra þannig að börn eru ekki bara viljug til að læra heldur eru þau spennt fyrir því. Þetta eru hlutir sem væri ekki hægt að gera án fartækni og þráðlausra neta.

En það er ekki bara tækjanotkun nemendana sjálfra sem bætir nám - líka notkun kennara. Með fartækni og þráðlausum netum hafa kennarar aðgang að margvíslegu kennsluefni sem þeir geta deilt með nemendum. Þeir geta safnað gögnum um nám og árangur nemenda á nýjan hátt og fengið þá betri innsýn í hvað nemendur eru að læra og hvernig er best að aðstoða þá.

Þegar við ákveðum að úthýsa tiltekna tækni úr skólum þá þurfum við að hugsa það dæmi til enda og hafa í huga allt sem hverfur með þeirri tækni. Tökum t.d. skriffæri. Segjum sem svo að við ákveðum að banna skriffæri vegna þess að börn geta stungið sig á þeim og þau trufla skólastarf þar sem nemendur eru að nota þau til að teikna skopmyndir af kennurum og senda skilaboð sín á milli. Hvaða áhrif hefði slíkt bann á skólastarf? Það væri ekki bara að nemendur geta ekki lengur skrifað glósur. Við þyrftum t.d. líka að hætta með skrifleg próf. Þá væri eini möguleikinn að vera með munnleg próf. Heill bekkur nemenda getur ekki tekið munnlegt próf samtímis þannig að þá raskast allar tímaáætlanir vegna þess mikla tíma sem fer í prófin. Og svo framvegis.

Að banna þráðlaus net í skólum í dag myndi takmarka svo mjög notkunarmöguleika upplýsingatækni í skólastarfi að ég leyfi mér að fullyrða að það myndi setja skólaþróun aftur um minnst tvo áratugi. Flest af því sem ég nefni fyrir ofan væri ógerlegt og annað ill framkvæmanlegt. En sumir segja að það er einhver vafi varðandi skaðsemi örbylgjugeislunnar og að börn verði að fá að njóta vafans. Ég held að það fólk skilji illa vafann. Það er innbyggt í eftirlitsstaðla að við fáum að njóta vafans, ef einhver er.

Sumir virðast halda að viðmiðunarmörk sem eftirlitsaðilar styðja við séu hættumörk. Þau eru það ekki. Hæstu leyfilegu viðmiðunarmörk eru aðeins 2% af þeim mörkum sem talið er að geislunin geti mögulega haft skaðleg áhrif. Í skólum í dag þar sem er þráðlaust net og far- og snjalltæki í notkun er geislunin vel innan viðmiðunarmarka.

Raunin er að það mætti líklega lækka viðmiðunarmörk töluvert án þess að það gæfi ástæðu til að banna notkun þráðlausra neta í skólum. En við stillum ekki viðmið út frá því sem við viljum hverju sinni. Við stillum þau í samræmi við viðurkenndar vísindalegar niðurstöður rannsókna og prófanna. Þeir aðilar sem fluttu fyrirlestra um örbylgjugeislun á ráðstefnu Foreldrafélags leikskólabarna í Reykjavík eru á skjön við vísindasamfélagið. Vísindasamfélagið og eftirlitsstofnanir um allan heim hafa ályktað að okkur stafar ekki hætta af þráðlausum netum sem eru í notkun í dag né af þeim tækjum okkar sem tengjast þeim.

Að fórna öllu því góða sem fylgir aukinni notkun upplýsingatækni í skólastarfi á grundvelli veikra raka örlítils hóps manna, sem virðist staðráðinn að sýna fram á skaðsemi þeirra þvert á meirihlutaálit vísindasamfélagsins, væri glapræði.

 


Samfélagsmiðlar og kvíði: orsakasamband eða fylgni?

The-Joy-of-Social-MediaÁ vef visir.is í dag blasir við þessi fyrirsögn í stóru letri: Mikil notkun samfélagsmiðla gerir ungar stúlkur þunglyndar. Það væri óskandi að við myndum geta neglt niður hvað það er sem veldur þunglyndi stúlkna en það er ekkert um þessa rannsókn sem bendir til þess að það hafi verið gert. Hér virðist blaðamaður búa til orsakasamband, það er að eitt leiði til annars, úr fylgni, það er að tvennt á sér stað við svipaðar aðstæður. Um leið afskræmir blaðamaður vísindalegar niðurstöður þessarar gagnlegu rannsóknar.

Í greininni kemur fram að það mælist fylgni milli kvíða stúlkna og notkun þeirra á samfélagsmiðlum. Fylgni er ekki það sama og orsakasamband og það er langt stökk þarna á milli. Það er mjög erfitt að sýna fram á orsakatengsl í félagsvísindum. Til þess að sýna örugglega fram á orsakasamband þarf að útiloka allar breytur sem gætu mögulega haft villandi áhrif á niðurstöður. Í félagsvísindum erum við að díla við fólk í margþættu og flóknu félagslegu samhengi. Það er nánast útilokað að við getum einangrað tilteknar breytur til að sýna fram á orsakasamband.

Þar sem niðurstöður þessarar rannsóknar virðast sýna fylgni en ekki orsakasamband þá getum við ekki verið viss hvort tilfellið sé að mikil notkun samfélagsmiðla sé orsök eða afleiðing kvíða ungra stúlkna. Það gæti jafnvel verið að eitthvað annað sem ekki hefur greinst í rannsókninni hafi þarna áhrif.

Það verður að teljast mjög óábyrgt af fjölmiðli að birta frétt sem afskræmir staðreyndirnar svona svakalega. Samfélagsmiðlar eru að mörgu leyti mjög gagnlegir í persónulegu lífi fólks, starfsþróun og námi og mikilvægi þeirra á öllum þessum sviðum eykst stöðugt. Svona villandi fréttamennska getur orðið til þess að við fórnum öllu þessu góða og gagnlega á röngum forsendum.


Helvítis snjalltækin að gera út af við íslenskuna!

frettabl_snjalltÁ forsíðu Fréttablaðsins í dag birtist stórfrétt undir yfirskriftinni "Snjalltækjabörn líklega seinni til máls".

OMG! Beint inn í Faraday búr með þessi litlu grey!

Eða hvað… Það er margt undarlegt í þessari umræðu þegar nánar er skoðað.

Fyrst er það þessi furðufyrirsögn á forsíðu blaðsins. Það er ekkert í grein Fréttablaðsins né öðru sem er vísað í sem styður þessa fullyrðingu sem þar birtist. Haft er eftir Eiríki Rögnvaldssyni að það sé tilfinning margra:

"að áhrif snjalltækja og tækni séu mikil á máltökuna en engar rannsóknir séu til um það."

Með öðrum orðum, mörgum finnst eins og það sé orsakasamband þarna á milli en við vitum ekkert með vissu, hvað þá að við vitum nokkuð um líkurnar að svo sé.

Svo segir á bls. 10 í blaðinu og í netútgáfu greinarinnar:

"Aukin notkun snjalltækja hefur hættur í för með sér fyrir íslenskuna. Annars vegar er hætta á að snjalltækjavæðingin dragi úr mállegum samskiptum barna og fullorðinna…
Svona hefst grein Sigríðar Sigurjónsdóttur, prófessors í íslensku, um snjalltækjavæðingu og máltöku íslenskra barna sem birtist í vefritinu Hugrás."

Svona hefst grein Sigríðar reyndar ekki, heldur hefst hún svona:

"Aukin notkun snjalltækja er að ýmsu leyti jákvæð en hún hefur einnig hættur í för með sér fyrir íslenskuna."

Best að taka allt jákvætt út. Hér á greinilega að gera snjalltækin að óvini #1.

Það er ekki bara þessi grein í Fréttablaðinu sem er athugaverð heldur er líka margt einkennilegt í grein Sigríðar sem er vísað í. í raun er svo margt að ég veit ekki alveg hvar skal byrja:

  • Er Sigríður að tala um snjalltæki eða netnotkun? Þetta er mjög óljóst á köflum.
  • Er vandamálið að notendur sækja í efni á ensku eða að þeir hafa ekki kost á að fá efnið á íslensku?
  • Eru snjalltæki eina ógnin eða ættum við að hafa erlent sjónvarp, aukna ferðamennsku, samfélagsbreytingar og annað sem hefur áhrif á málaumhverfi íslenskra barna í dag með í þessari umræðu?
  • Skiptir máli til hvers er verið að nota snjalltæki/net eða fer þetta bara allt undir einn hatt?

Svo er það þessi stórkostlega mynd sem fylgir greininni hennar Sigríðar sem hún lýsir svo:

"Myndin hér að neðan segir meira en mörg orð. Foreldrarnir eru báðir með hugann við spjaldtölvuna og barnið liggur afskiptalaust á milli þeirra. Við þessar aðstæður fara engin málleg samskipti fram."

Þessi uppstillta mynd segir mér hins vegar ekkert - ekki einu sinni eitt orð, hvað þá mörg.

parents_ipads

Fyrir það fyrsta spyr ég, væri betra ef þessir foreldrar væru með bækur í höndunum frekar en spjaldtölvur? Hitt er að við vitum ekkert hvað þessir foreldrar eru að gera. Kannski eru þau að lesa leikrit fyrir barnið og skipta með sér hlutverkum. Kannski eru þau að lesa um gagnlegar hreyfingaæfingar fyrir barnið. Kannski eru þau að lesa nýju ritreglurnar til að tryggja að þau kenni barninu rétt þegar þar að kemur.

Það er hægt að gera ótal margt með snjalltækjum sumt gott, sumt slæmt, sumt líklega á gráu svæði þar á milli. Það er óþarfi að gera þau að sökudólgi í þessari umræðu þegar er af nógu öðru að taka.


Áhugaverð heimsókn í eTwinning móðurskipið

Atomium

Ekki móðurskipið okkar heldur annað þekkt móðurskip í Brussel.

Í lok október mætti ég á ráðstefnu eTwinning áætlunarinnar í Brussel ásamt hundruðum kennara, skólastjórnenda og annarra sem koma að skólastarfi víðsvegar að úr Evrópu. Mér leið svolítið eins og ég væri meðal ótal geimkönnuða að koma í móðurskipið til skýrslutöku um landkannanir og ávinninga í óravíddum síbreytilegra tækniveruleika. Allir höfðu spennandi sögur að segja. Helst vildi ég heyra þær allar en til þess hefði þurft meira en þessa þrjá daga sem ég hafði.

Það fyrsta sem ég gerði þegar ég kom í móðurskipið, eða "ráðstefnuhótelið" eins og sumir myndu kalla það, var að rjúka í skráningarlistana til að tryggja mér sæti í spennandi málstofum. Sætafjöldi var takmarkaður og af mörgu spennandi að velja. Við vorum líklega með þeim síðustu sem lögðu að móðurskipinu því allt það sem þótti mest spennandi var óðum að fyllast. Í boði voru málstofur um tölvur og leiki, forritun, samfélagsmiðla, reynslu kennara af samstarfi á neti og ótal margt fleira. Ég náði að skrá mig í málstofur um forritun, tækni í vísindakennslu og sýndarveruleika svo eitthvað sé nefnt. Það átti þó eftir að koma í ljós að skráningin hafði lítið að segja. Margir virðast hafa ákveðið að mæta í þær vinnustofur sem þeir vildu hvort sem þeir voru skráðir eða ekki. Fyrir vikið kom fyrir að engin laus sæti voru í sumum málstofum fyrir þá sem höfðu skráð sig. Í sumum tilvikum reyndist þetta þó lán í óláni því ég datt þá inn á vinnustofur sem ég ætlaði mér ekki að sækja en sem reyndust svo afar áhugaverðar.

Ein slík vinnustofa bar þann frekar litlausa titil “Teacher exchange workshop I”, sem er ekki mjög lokkandi yfirskrift miðað við t.d. “Learning to game, gaming to learn”, sem ég ætlaði að vera í þá stundina. Í málstofunni sem ég lenti í fékk ég meðal annars að heyra um verkefni Grískra og Slóvenskra kennara sem voru að nota MOOC (Massive Online Open Courses) til að kenna framhaldsskólanemum ensku. Nemendur skráði sig í námskeið á Coursera ásamt fjölda annarra í samstarfsskólunum, sem og annarra þátttakenda í MOOC-inu. Nemendurnir unnu verkefni í samræmi við kröfur Coursera námskeiðsins, tóku þátt í umræðum þar og unnu verkefni en voru líka í samskiptum sín á milli og við sína kennara í skólastofum og á netinu. Þetta þótti mér mjög skemmtileg notkun á möguleikum MOOC námskeiða til að auðga námsumhverfi nemendana sem tóku þátt.

Mér tókst að koma mér inn á málstofu um forritun sem ég hafði skráð mig í með því að mæta mjög snemma og tryggja mér sæti. Áhugaverðast á málstofunni fannst mér leiðir sem voru kynntar til að kenna grunnatriði í forritun án þess að kenna kóðun, eða ritun skipana á forritunarmálum. Notaður var leikur sem heitir Cody & Roby þar sem þátttakendur búa til leiðakerfi fyrir vélmenni með pílum og öðrum táknum sem vísa vélmenninu réttu leið að settu marki. Þetta passaði mjög við mínar eigin vangaveltur um það hvers vegna vaxandi áhugi er á því að kenna forritun og hvernig best er að fara að til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur. moogwerkstattÉg nýtti mér það sem ég lærði í þessari vinnustofu nýlega þegar ég kynnti nýstárlegt tæki frá hljóðgervlaframleiðandanum Moog, Moog Werkstatt, á menntabúðum UT-torgs og Menntamiðju. Með Moog Werkstatt framleiðir notandinn margskonar hljóð með því að senda rafstraum í gegnum ýmis svokölluð módúl sem umbreyta merkinu. Í grundvallaratriðum er þetta eins og forritun þar sem gögn eru send í gegnum ýmsar rútínur sem umbreyta þeim, nema án flókins forritunarmáls. Eins og forritun, getur tækni eins og Moog Werkstatt nýst í þjálfun algóriþmískrar hugsunar, það er að segja sköpun ferla til að umbreyta gögnum og fá þannig út afurð sem gagnast okkur.

etwinning_10yÞetta er aðeins lítið brot af því sem ég kynntist áður en allir yfirgáfu móðurskipið uppfullir af nýjum reynslusögum og hugmyndum eftir áhugaverðar málstofur og umræður. Á heildina litið var ég mjög heillaður af því hvað kennarar sem ég hitti á ráðstefnunni eru skapandi og áhugasamir um notkun tækni í námi og kennslu. Einnig sýna viðburðir eins og þessi hvers virði Evrópusamstarfið í skólamálum er mikilvægt fyrir okkur. Viljinn til að vinna saman og leita nýrra leiða til að gera nám gagnlegra og áhugaverðara fyrir nemendur á öllum aldri sem ég varð var við er einstaklega aðdáunarverður. Kostir áætlunar eins og eTwinning eru greinilega miklir og margþættir. Ég vona að íslenskir kennarar verði áfram duglegir að nýta sér þau tækifæri sem þær veita til samstarfs um nýja landvinninga í ört breytileikum heimi.


Við erum víst ekki margir framtíðarfræðingarnir hér á landi...

backtofutureÆtli ég komi ekki fyrst upp þegar gúglað er eftir íslenskum framtíðarfræðingi. Í tilefni dagsins var ég í viðtali um framtíðarfræði og framtíðina í Víðsjá á Rás 1.


mbl.is Back to the Future dagurinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aum umfjöllun um gagnaukinn veruleika í RÚV

ingress-PS-1024x500Ég verð að segja að ég er svolítið ósáttur við umfjöllunina um gagnaukinn veruleika í fréttum í RÚV í kvöld. Mér fannst viðmælandi fréttamanns gera frekar lítið úr möguleikum þessarar stórkostlegu tækni. Gagnaukinn veruleiki (GV), sem var kallaður „aukinn veruleiki” (sem mér finnst ekki góð þýðing) í fréttinni, er þýðing á enska hugtakinu „augmented reality” (sjá hér af hverju ég vil kalla þetta „gagnaukinn veruleika”).

Í stórum dráttum verður GV til þegar skynjarar og gögn sem eru sótt yfir nettengingar í snjalltækjum eru notuð til að búa til yfirlag yfir veruleikann til að auka gagnsemi og upplýsingagildi hans. Ég hef fjallað mikið um þessa tækni og sérstaklega möguleika hennar í námi og kennslu í einhver ár núna. Mér finnst frábært að sjá umræðuna breiðast út en er ósáttur við að tæknin sé gerð að einföldu „gimmick” til að skemmta nemendum.

Í fréttinni sagði viðmælandinn, sem tengist samstarfsverkefni sem Háskólinn á Akureyri tekur þátt í, að helsti kostur tækninnar er „wow faktorinn”, þ.e. að tæknin gerir hið hversdagslega sem notað er í námi skemmtilegra og áhugaverðar. GV getur gert miklu meira en það og býður upp á mjög spennandi möguleika til að samþætta nám, nýta tækni í tengslum við nám, auka sköpun í námi og margt fleira.

Ég hef fjallað um þetta allt saman margoft áður og vísa frekar í fyrri skrif og erindi en að fara telja upp hér enn eina ferðina:
Tækninýjungar og framtíð menntunar 
- Gagnaukinn veruleiki og framtíð menntunar (glærur)
- Augmented reality in education (glærur)
Learning in augmented reality: Extending functional realities (kennslufræðilegar pælingar)
Upptaka af erindi á vorráðstefnu 3F 2013

 


Android snjallúrið mitt er æði! En ég get ekki mælt með því fyrir aðra.

androidwearÉg á snjallúr. Mjög fínt Android Wear LG G Watch R, sem ég nota mikið og hefur haft töluverð áhrif á hvernig ég nýti mér upplýsingatækni almennt. Ég er oft spurður „Á ég að fá mér svona?” Því miður er svarið mitt í flestum tilvikum nei. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ef viðkomandi veit ekki hvað það er að „róta” (e. root) símann sinn (og þar með ógilda ábyrgðina) og er smeykt við að krukka í kerfisskjölum þá er það að fá meingallaða vöru. Það er eiginlega eins og að kaupa íbúð á fullu verði en fá ekki lyklana að dyrunum - þú getur kíkt inn um gluggan en þú getur ekki gert neitt. Google (sem n.b. rekur fyrirtæki hér á landi) hefur nefnilega kosið að gera Google Now, sem er sú eining Android fartæknikerfisins sem framtíðarþróun þess byggist á, óvirkt á Íslandi. Án Google Now eru Android úrin lítið meira en dýrt skraut. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá að vita af hverju þetta er hef ég ekki fengið nein svör. Þar með talið eru m.a.s. samskipti sem ég átti við verkefnisstjóra Google Now hjá Google. Ég held að hún hafi ekki einu sinni áttað sig á því að Google Now væri óvirkt í sumum löndum.

googlenownotavailEn hvað er Google Now? Líklega eru margir Íslendingar sem þekkja þetta aðeins sem óvirkan valmöguleika í snjalltækjum sínum sem er „Not available in your country”. Google Now er gervigreindarbúnaðurinn í Android tækjum og af mörgum talinn töluvert betri en Siri, gervigreindin í snjalltækjum Apple. Google Now getur fylgst með staðsetningu notandans, hvað hann er að gera, hver áhugamál hans eru og fleira og fært honum upplýsingar eftir því. Til dæmis:

  • Google Now veit að ég fylgist með ákveðnum vefsvæðum þar sem fjallað er um framtíðarfræði og menntamál og lætur mig vita þegar nýtt efni birtist þar.
  • Google Now notar skynjara í snjalltækjum mínum til að átta sig á þegar ég er að ganga, hjóla eða stunda aðra hreyfingu og tekur upplýsingarnar saman til að ég viti hversu latur eða duglegur ég er búinn að vera.
  • Google Now veit hvar ég á heima og notar staðsetningu mína til að láta vita hversu löng heimferðin verður og hver sé besta leiðin eftir því hvaða ferðamáta ég nota.
  • Google Now les dagatalið mitt og veit hvenær og hvar ég þarf að vera mættur á fund og lætur mig vita í tæka tíð svo ég hafi tíma til að koma mér á staðinn.
  • Google Now veit af bókuðum flugferðum o.þ.h. og passar að ég sé vel undirbúinn þegar þar að kemur.

Þetta allt gerir Google Now án þess að ég gefi nokkrar skipanir þar um. Ég hef sett upp mínar upplýsingaþjónustur þannig að Google Now hefur aðgang að þeim og gervigreindarbúnaðurinn sér um afganginn. En Google Now býður líka upp á margt fleira. Til dæmis eru fjölmargar raddskipanir í Android kerfinu tengd Google Now. Íslendingar þekkja það vel að hægt er að framkvæma leit með raddskipunum og er það íslenska talhermi Google að þakka, sem er sagður vera fullkomnasti íslenski talhermir sem til er í dag. Með Google Now verða ýmsar raddskipanir virkar sem eru það ekki annars. Þá get ég til dæmis með röddinni einni:

  • Beðið snjalltækið um að minna mig á að gera eitthvað þegar ég er kominn á tiltekinn stað - t.d. að kaupa mjólk næst þegar ég er í matvörubúð eða að setja í þvottavél þegar ég kem heim.
  • Ræst tiltekið smáforrit í snjalltækinu.
  • Samið og sent smáskilaboð eða tölvupóst.
  • Hringt í einhvern úr símaskránni.
  • Fengið eða látið þýða einstaka orð eða frasa á ótal tungumál.
  • Fengið lausn á stærðfræði dæmi.
  • Látið spila tónlist sem ég vil úr eigin safni eða smáforriti eins og Spotify.
  • … og margt fleira.

En ef Google Now er ekki virkt þá er flest af þessu ekki í boði.

Snjallúrið er sítengt símanum og með hljóðinntak til að taka á móti raddskipunum og skjá til að birta upplýsingar (og klukku auðvitað). Þannig get ég beðið úrið um að segja mér hvernig ég segi „ég hjólaði út í búð” á dönsku eða hvað (55*372)/3 er (svarið er 6820) án þess að þurfa að taka upp símann. En allt þetta get ég bara út af því að ég er hæfilega mikill nörd að ég treysti mér til að hakka símann minn. Hefði ég ekki verið búinn að ganga úr skugga um að ég gæti hakkað símann til að virkja Google Now hefði ég aldrei keypt mér Android snjallúr. Það skal viðurkennast að Google Now þegar það er virkt hér á Íslandi gerir ekki nærri jafn margt og það gerir í Bandaríkjunum en nóg að mínu mati til að réttlæta vesenið sem það kostar.


uridnavMér finnst ægilega gaman að sýna kennurum hvað ég get gert með úrinu mínu - spyrja það spurninga, gefa því skipanir, láta það þýða fyrir mig og svo framvegis. Flestir verða mjög hissa því þeir hafa ekki áttað sig á þessum möguleikum snjallúranna og gera sér því litla grein fyrir því hvað það hefur að segja að nemendur allt niður í grunnskóla eru byrjuð að mæta með slík tæki í skóla (ég hef heyrt um fjölmörg dæmi þess). En því miður þá er þessi tækni enn óaðgengileg fyrir flesta íslenska notendur. Og það sem er verst er að margir átta sig ekki á þessu fyrr en þeir eru búnir að spreða á tækjakaupin. Google er nefnilega ekki að láta vita að notkun þessarar tækni er mjög takmörkuð í löndum eins og Ísland þar sem lokað er á Google Now. Það er meira að segja þannig að notendur Android hér á landi (alla vega þeir sem eru með Lollipop stýrikerfið 5.*) eru sífellt hvattir til að virkja Google Now til að fá alla frábæru fítusana. Þegar þeir reyna að gera það kemur í ljós að það er ekki hægt - en þeir fá samt áfram ábendingarnar um hversu mikilvægt er að virkja það.

Að lokum skora ég á þá aðila hér á landi sem selja Android vörur að upplýsa okkur neytendur um það af hverju einn helsti kerfishluti Androids er gerður óvirkur og hvenær megi vænta þess að það breytist.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband