Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Um skaðsemi þráðlauss nets, súrsaðs grænmetis og annarra hættulegra efna

Vegetable-picklesÍ Fréttatímanum um daginn birtist grein Margrétar Pálu Ólafsdóttur, Snjallbörn í snjallheimi, þar sem hún varar við ýmsum hættum snjalltækja í umhverfi barna. Hún bendir t.d. á uppeldisleg áhrif þess að börn fái e.t.v. ekki nægilega fjölbreytta örvun. Þetta getum við sagt að sé "kommon sens" - ekkert nýtt þar á ferðinni. Annað tel ég vera hræðsluáróður. Margrét Pála bendir á mögulegar heilsufarslegar hættur útvarpsbylgja þráðlausra neta. Máli hennar til stuðnings bendir hún á að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hafi sett utvarpsbylgjur af því tagi sem um ræðir á lista yfir mögulega krabbameinsvaldandi umhverfisþætti. Ennfremur segir hún, sem á væntanlega að styðja hennar málstað enn frekar, að Frakkar hafi bannað þráðlaus net í leikskólum.

Rétt er að Frakkar samþykktu nýjar reglur um þráðlaus net á svæðum þar sem börn 3ja ára og yngri hafast við. Ég er ekkert sérstaklega sleipur í frönskunni en eins og ég skil þetta væri réttara að segja að reglugerðin takmarki mjög notkun þráðlausra neta en ekki að þau séu með öllu bönnuð (hvet lesendur sem skilja betur til að leiðrétta mig ef þarf). En hér má spyrja, af hverju var þessi reglugerð samþykkt? Eflaust hefur það eitthvað með ákvörðun franskra yfirvalda að gera að útvarpsbylgjur voru settar á lista WHO sem Margrét Pála nefnir, enda oft vísað í hann í umræðunni um nýju reglugerðina.

WHO setti útvarpsbylgjur í svokallaðan 2b flokk yfir umhverfisþætti sem eru mögulega krabbameinsvaldandi en ekki hefur verið sýnt fram á orsakasamband. Það er ansi margt í þessum 2b flokki, en þar finnum við t.d. kaffi, aloe vera og súrsað grænmeti svo eitthvað sé nefnt. Nú er ekki óalgengt að við takmörkum aðgengi ungra barna að kaffi enda finnst þeim það rosalega vont og sennilega mega þau ekki við auka peppinu sem fylgir. Ég kannast hins vegar ekki við að Frakkar né aðrir hafi sérstaklega reynt að takmarka aðgengi ungra barna að aloe vera eða súrsuðu grænmeti. Það að efni eða umhverfisþættir séu settir í 2b flokk WHO þykir því auglóslega ekki nægileg ástæða til að takmarka aðgengi að þeim.

Af hverju hafa Frakkar þá ákveðið að takmarka þráðlaus net í umhverfi barna? Tja… Satt að segja þá veit ég það ekki. Fræðimenn eru að mestu á einu máli um að lítil krabbameinshætta stafi af útvarpsbylgjum. Þeir telja almennt að engin fræðilegur möguleiki er á því að útvarpsbylgjur geti valdið krabbameini, að slíkt samræmist ekki náttúrulögmálum eins og við skiljum þau nú. Það er að segja, að mati helstu lífeðlisfræðinga heims er ekki hægt að sýna fram á að útvarpsbylgjur valdi krabbameini nema með því að gjörbreyta vísindalegri heimsmynd okkar.

Það er alltaf einhver lítill hópur meðal fræðimanna og almennings sem sér hlutina öðruvísi. Slíkir hópar er oft nokkuð duglegir að koma skoðunum sínum á framfæri og halda þannig á lofti ímynduðum vafa. Og þarna virðumst við komin að kjarna rökfærslu Margrétar Pálu enda segir hún:

"Ef börn eiga að njóta vafans ættu barnafjölskyldur að slökkva á þráðlausa netinu nema þá stuttu stund sem samkomulag er um að fjölskyldan skreppi í netheimana."

Og þá spyr ég - hvaða vafi er það, Margrét Pála, og eigum við að hafa sömu áhyggjur af súrsuðu grænmeti?

 


Áður en allir fara að segja upp Facebook...

scaryfacebookSíðustu daga hefur verið nokkur umræða um meðferð Facebook á persónulegum gögnum. Umræðan virðist eiga rætur að rekja (að þessu sinni - er alls ekki ný af nálinni) til erindis sem Ævar Einarsson, ráðgjafi hjá Deloitte, flutti á einhverri samkomu nýverið. Fréttir RÚV um málið gefa til kynna að miklar breytingar hafi átt sér stað um áramótin sem fela í sér stóraukið aðgengi Facebook að persónulegum gögnum sem hafa ekkert með notkun á miðlinum að gera. Skilaboðin eru nokkuð skýr, “Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú notar Facebook!”, eða eins og Ævar segir,

“Ef þú vilt vera alveg viss að þessar upplýsingar leki ekki til þriðja aðila og að myndirnar þínar séu ekki notaðar, þá verðurðu náttúrulega bara að hætta að nota Facebook…”

En Facebook hefur reynst mjög gagnleg fyrir marga notendur (sjá t.d. öll starfssamfélög skólafólks sem nota fésbók í markvissa starfsþróun). Er það sem hér er verið að ræða næg ástæða til að fórna því öllu? Ég held ekki. Í þessari umræðu sem hefur átt sér stað síðustu daga er farið heldur frjálslega með sumar staðreyndir, byggt á vanþekkingu á heimildakerfum í nútímatækjum, sök varpað á ranga aðila og alið á ótta sem ég tel að eigi ekki rétt á sér.

Ég ætla taka hvert atriði í þeirri röð sem birtist hér að ofan:

1. Hefur einhver stórtæk breyting átt sér stað nýlega sem gerir meðferð Facebook á persónulegum gögnum meira áhyggjuefni en var áður?
Það er ekki að sjá að svo sé. Þær heimildir sem Facebook-öpp (Facebook Messenger þar með talin) láta notendur samþykkja eru nokkurn veginn þær sömu í dag og þær voru síðasta haust þegar spjall-möguleikar voru endanlega færðir í sér app á snjall- og fartækjum. Ég hef ekki skoðað heimildirnar lengra aftur í tímann en leyfi mér að giska að þær hafi lítið breyst í nokkurn tíma. Ástæðan skýrist þegar ég segi aðeins frá því hvernig þessar heimildir virka í snjall- og fartækjum. Annars má áætla að margar smávægilegar breytingar hafi verið gerðar af og til enda breytast þarfir með virkni hugbúnaðar og Facebook öppin eru í stöðugri þróun.

2. Af hverju eru Facebook öppin að láta samþykkja mjög víðtækar heimildir?
Umsýsla og skipulagning heimilda í snjall- og fartækni er furðu vanþróuð og vantar mikið upp á gagnsæi í þeim málum. Í mjög einföldu máli þá virkar þetta þannig að öpp fara fram á að fá þær heimildir sem þau þurfa til að gera það sem þeim er ætlað að gera. Gallinn er að notendur eru ekki alltaf með á hreinu hvað öppunum er ætlað að gera og hvernig þau gera það. Þar við bætist að heimildir í snjall- og fartækjum eru yfirleitt bara samþykktar einu sinni, þ.e. þegar appið er sett upp. Þar af leiðandi þarf appið að fara fram á að fá heimildir fyrir fítusa sem viðkomandi ætlar sér kannski ekki að nota í upphafi til þess að þeir verði til staðar síðar.

Samfélagsmiðlar e.o. Facebook hafa þróast mjög hratt á undanförnum árum þannig að fólk notar þá núorðið til ansi margs (skoðið heimildirnar fyrir önnur slík öpp, t.d. Google+ eða Twitter - öll þessi öpp eru með mjög víðtækar heimildir). Fólk er að deila myndum, spjalla, skiptast á skjölum, láta vita af sér (og kannski hvar maður er) og margt fleira. Hugbúnaðarframleiðendur eru ekki í því að sérsníða öpp fyrir hvern notanda þannig að appið þarf að geta gert allt sem Facebook býður upp á. Ef heimildirnar sem Facebook appið fer fram á eru skoðaðar þá sést greinilega hvað er þarna í gangi, t.d.:
- Appið þarf að geta notað myndavélina vegna þess að sumir vilja deila myndum.
- Appið þarf aðgang að sms vegna þess að sumir notendur vilja fá tilkynningar um virkni eða þjónustu (t.d. vegna glataðs leyniorðs) í sms.
- Appið þarf aðgang að símaskrá vegna þess að sumir vilja geta hringt í vini beint úr appinu eða tengt saman vinaskrá og símaskrá.
- Appið þarf aðgang að skráningum fyrir ýmsar þjónustur vegna þess að sumir vilja geta skráð sig inn í þjónustur með Facebook aðganginum.
- Appið þarf aðgang að upplýsingum um vefnotkun vegna þess að sumir vilja deila vefsíðum.
- o.s.frv.
Þannig að Facebook appið fer fram á þær heimildir sem þarf til að gera það sem fólk vill nota appið til að gera. Það breytir því ekki að möguleiki á misnotkun er fyrir hendi en það er ekki Facebook (né öðrum hugbúnaðarframleiðendum) að kenna, eins og ég útskýri í næsta lið.

3. Af hverju get ég ekki slökkt á heimildum sem fylgja fítusum sem ég nota ekki?
Það fer reyndar eftir því hvaða stýrikerfi þú ert að nota. Í IOS kerfi Apple er hægt að stjórna heimildum að einhverju leyti. Í “privacy” stillingunum er hægt að slökkva og kveikja á tilteknum heimildum fyrir einstök öpp (það sést þar líka hvaða öpp hafa nýtt sér heimildir og á iPadnum mínum er notkun Facebook og annarra þekktra samfélagsmiðla í fullkomnu samræmi við það sem ég myndi búast við - ekkert spúkí í gangi). Í Android kerfi Google var um tíma hægt að breyta heimildum fyrir einstök öpp. Til þess að gera það þurfti að setja inn app sem gerði falinn fítus sýnilegan. Þetta hvarf með kerfisútgáfu 4.4 og engin leið er að vita hvort né hvenær það ratar aftur inn. Þannig að sökin hvað þetta varðar (ef einhver er) liggur ekki hjá Facebook eða öðrum sem framleiða öpp heldur hjá aðilanum sem býr til stýrikerfið, sem er auðvitað í flestum tilvikum Apple eða Google. Apple hefur staðið sig betur hvað þetta varðar.

4. Þarf ég þá ekkert að óttast?
Ég held að óttinn sem maður verður stundum var við er frekar yfirdrifinn. Ef okkur finnst ástæða til að óttast þá er líklegast fátt í stöðunni annað en að endurhugsa hvernig við notum samfélagsmiðla og netið yfirleitt. Betra er að reyna að vera meðvituð um það sem við gerum með tækni, skilja hvernig tæknin virkar og beita heilbrigðri skynsemi í okkar samskiptum í stafræna veruleikanum. Eins og öll önnur samskipti og viðskipti þá byggist þetta allt á trausti og ef við treystum ekki aðilanum sem við erum að díla við þá þurfum við að hafa það í huga þegar við notum þjónustuna hans eða hreinlega að nota hana ekki. Ég veit ekki til þess að Facebook eða aðrir samfélagsmiðlar hafi orðið uppvísir að því að misnota aðstöðu sína gagnvart notendum með saknæmum hætti og ég treysti þeim þess vegna. Það breytir því samt ekki að ég fer mjög varlega á netinu og í mínum rafrænu samskiptum almennt. Þar að auki verð ég líklega með þeim fyrstu til að breyta heimildum appa samfélagsmiðla í Android símanum mínum þegar það verður hægt. Það er einfaldlega vegna þess að það eru heimildir í gangi sem tengjast þjónustum sem ég nota ekki og því ástæðulaust að þær séu opnar.

Það verður hver og einn að ákveða fyrir sig hvort og hvernig þeir vilja nota samfélagsmiðla. En ekki láta ákvörðunina ráðast af svona æsifréttamennsku sem hefur verið í gangi hér á landi síðustu daga. Kynntu þér málið - hver er raunverulega hættan, hverjir eru kostirnir, hverjir eru gallarnir? Umfram allt beittu heilbrigðri skynsemi. Af hverju ætti aðili eins og Facebook að fórna stöðu sinni sem stærsti og helsti samfélagsmiðill í heiminum með því að laumast í sms skilaboð sem hafa ekkert með hann að gera? Þetta er bara frekar asnaleg pæling. Ef þú hefur virkilega áhyggjur af þessu þá hefurðu ýmsa valkosti: Fáðu þér iPhone, hakkaðu Android símann þinn til að geta stýrt heimildum (það eru ýmsar leiðir til þess), eða hreinlega hættu að nota samfélagsmiðla. En umfram allt vertu með á hreinu af hverju þú kýst þá leið sem þú ferð og hvað hún felur í sér. Mín ráð eru, slappaðu af, láttu ekki stjórnast af æsifréttamennsku og kynntu þér málin.


Manifesto 15 - gott framtak en örlítið gallað

manifesto15Nýlega sendi Dr. John Moravec og fleiri frá sér Manifesto 15: Evolving Learning (sjá íslenska þýðingu Ragnars Þórs Péturssonar hér - Manifesto 15: Nám í þróun). Þetta er frábært framtak hjá Moravec og kollegum, og Ragnar Þór á þakkir skildar fyrir snara snörun yfir á íslensku.

Eins og segir í upphafi yfirlýsingarinnar, þá er um að ræða yfirlit yfir stöðu skóla- og menntamála í dag í ljósi reynslu kennara, stefnumótenda, skólastjórnenda og annarra sem koma að menntamálum. Það er margt hér sem er mjög kunnuglegt fyrir mér enda erum við Moravec ágætir kunningjar og kenndum saman kúrs um framtíð samfélags og starfa við Háskólann í Minnesóta, ásamt leiðbeinanda okkar beggja, Dr. Arthur Harkins.

Þó mér finnist framtakið lofsvert er tvennt sem böggar mig í yfirlýsingunni sjálfri. Í fyrsta lagi er fullyrðingin “The future is already here…”, og í öðru lagi að höfundar virðast ganga út frá því að strategísk framtíðarsýn á skóla- og menntastarf sé til staðar eða að hún geti orðið til með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Þetta tvennt er svolítið skylt vegna þess að bæði tengjast hæfni til að móta uppbyggilega og raunhæfa framtíðarsýn sem hægt er að byggja menntastefnu á. Mín reynsla er að það vantar að efla þessa hæfni innan íslensks menntakerfis. Það stafar af ýmsu, en aðallega af tvennu: þeir sem koma að stefnumótun og innleiðingu hafa takmarkaða þekkingu á tækniþróun og hvernig hún mótar samfélag; og þekking á framtíðarfræðum og aðferðum hennar, sem framtíðarsýn þarf að byggja á, er mjög lítil ef þá nokkur.

Það er vinsælt að vitna í þessa fleygu setningu Williams Gibsons, “The future is already here - it’s just not very evenly distributed.”, enda er hún ansi smellin og flott. En hún er líka röng og villandi. Framtíðin er ekki “hér” í neinum skilningi. Hana er ekki að finna neins staðar í umhverfinu okkar. Framtíðin er alltaf þessi óráðni tími sem er framundan sem við höfum ekki enn upplifað. Við getum bent á ýmislegt í kringum okkur sem okkur finnst gefa vísbendingar um hvernig framtíðin getur orðið en þá erum við að benda á hluti sem eru í núinu, ekki í framtíðinni. Sumum finnst ég kannski vera með hártoganir út af engu hér, en mín reynsla er að þetta hugarfar, að halda að framtíðin sé einhversstaðar í kringum okkur, er ein helsta hindrunin fyrir framtíðarmiðaðri hugsun í skólastarfi og stefnumótun. Ég hef skrifað um þessi mál áður og frekar en að endurtaka mig bendi ég á eftirfarandi greinar, sem ættu líka að varpa ljósi á seinni athugasemdina mína:

 


Fylgstu með framtíðinni - við vitum meira en margir halda

kettering_tomorrow
Á ráðstefnu Heimilis & skóla síðasta föstudag var sagt í einu erindi um upplýsingatækni í skólastarfi að við vitum ekki hvaða tæknibreytingar eru framundan. Reyndar er það svo að við vitum töluvert um framtíðina og hvernig tækni mun þróast á næstu 5-10 árum og jafnvel lengur. Sjálfakandi bílar munu koma á markað á næstu 5 árum eða svo og hafa töluverð áhrif á samfélagmynstur. Reiknigeta tölvutækni mun stóraukast á næstu árum. Snjalltæki verða sífellt ósýnilegri - fyrst með tilkomu íklæðanlegrar tækni á borð við snjallúr og snjallgleraugu og til lengri tíma litið má gera ráð fyrir að tækni verði jafnvel ígrædd. Vélmenni af ýmsum gerðum munu í auknu mæli sinna störfum sem nú eru í höndum okkar mannana og verða jafnvel sjálfsögð hjálpartæki í námsumhverfi.

Hvernig vitum við þetta? Það er sérstaklega þrennt sem gefur sterkar vísbendingar um hvers sé að vænta í framtíðinni:
  1. Áherslur aðila sem veita styrki til tækniþróunar og verkefni sem tæknifyrirtæki, verkfræðingar og tölvufræðingar eru að fást við hverju sinni.
  2. Neysluvenjur og vilji neytenda.
  3. Skapandi hugmyndir um mögulega tækniþróun sem birtist í myndlist, kvikmyndum, skáldsögum og þess háttar.
Framtíðarfræðingar nota ýmsar misflóknar aðferðir til að meta upplýsingar sem þessar á kerfisbundinn hátt og gera sér grein fyrir líklegri þróun til langs tíma. Flestar eru þessar aðferðir mjög sérhæfðar og niðurstöður ekki endilega á þannig formi að þær gagnast hinum almenna tækninotanda. Hins vegar geta þeir sem hafa áhuga nálgast töluvert af aðgengilegum upplýsingum sem gefa nokkuð raunhæfa mynd af því sem er að vænta. Má t.d. nefna:
  • Kurzweilai.net: Þetta er vefur Ray Kurzweil sem er líklega með þekktustu framtíðarfræðingum heims um þessar mundir. Kurzweil er með öflugt lið sem fæst við að greina upplýsingar um tækniþróun og eru margar niðurstöður settar fram á aðgengilegu formi á þessum vef.
  • Sutura.io: Þetta er tiltölulega nýr vefur þar sem hægt er að nálgast vikuleg yfirlit yfir fréttnæma viðburði úr heimi tækni, vísinda og fleira. Ég er ekki viss hver stendur á bak við þennan vef en held að það sé einn Alex Klokus, frumkvöðull sem starfar í New York borg. Þessi vikulegu yfirlit hófu að birtast fyrir nokkru á Futurology þræðinum á samfélagsvefnum Reddit en auðveldara er að nálgast ný og eldri yfirlit á þessum vef.
  • TED: Þennan vef þekkja líklega margir. TED stendur fyrir “Technology, Entertainment, Design” en efni sem kynnt er á margfrægum TED ráðstefnum nær yfir töluvert breiðara svið en titillinn gefur til kynna. Mörg TED erindi fjalla um það nýjasta sem er að gerast í heimi vísinda og tækni og hvaða áhrif tækni- og vísindaleg þróun getur haft á samfélag og umhverfi til skemmri og lengri tíma litið.
  • Omni Reboot: Omni Reboot er tilraun til að endurlífga hið merka tímarit Omni sem var gefið út á árunum 1978-1995. Tímaritið þótti sérstakt fyrir áhugaverða blöndu efnis úr heimi vísinda og vísindaskáldskapar. Framtíðarmiðaður vísindaskáldskapur er ekki síður gagnleg upplýsingaauðlind fyrir framtíðarfræðinga en vísindin sjálf vegna þess að þar eru oft settar fram hugmyndir um mögulega framtíð á áhrifaríkan og lifandi hátt. Mörg dæmi eru um það að tækninýjung eigi rætur að rekja til þess að einhver með tækniþekkingu heillaðist af möguleikum sem lýstir voru í vísindaskáldsögu eða kvikmynd. Fyrsti farsíminn er eitt þekktasta dæmið um slíkt. Martin Cooper, sem stýrði þróun farsímans, hefur margoft sagt frá því að hann sótti innblástur í upphaflegu Star Trek þáttaröðina.

Það eru til ótal fleiri vefir og upplýsingaveitur þar sem hægt er að kynna sér hvernig tækni mun líklega þróast í framtíðinni og ég vona að sumir leiti þá uppi eftir að hafa fengið smá nasasjón af því sem er í boði. Auðvitað er alltaf möguleiki að hlutirnar fara á annan veg en við höldum en þrátt fyrir það er sumt svo örugglega fyrirsjáanlegt að vert er að taka tillit til þess strax. Hvað eru t.d. margir skólar sem hafa þegar hugað að því hvaða áhrif snjallúr (sem ég hef heyrt að séu þegar farin að sjást í íslenskum skólum) og snjallgleraugu munu hafa á skólastarf? Hvað eru margir skólar sem nota vélmennatækni í námsumhverfinu, þó ekki væri nema að hafa Roomba ryksugu á staðnum? Þeir sem hafa kynnt sér tækniþróun vita að þetta eru allt tækninýjungar sem eru aðgengilegar núþegar og munu hafa áhrif á nám og kennslu í nálægri framtíð. Hvenær er rétti tíminn til að huga að þeim fyrir alvöru?


Illa upplýstar fréttir um tæknimál eru óþarflega villandi

nfc_paybox-1
Eitt af því sem ég geri í mínu starfi er að hvetja fólk til að fylgjast með tækniþróun og reyna að vera meðvitað um möguleika tækni nú og í framtíðinni. Það hjálpar ekki þegar fjölmiðlar birta fréttir um tækniþróun sem virðast byggðar á vanþekkingu og nánast fullkomnum misskilningi. Í þessari frétt er gefið í skyn að Apple muni kynna byltingarkennda tækni sem býður upp á allt aðra möguleika en eru nú fyrir hendi, sérstaklega notkun NFC (near field communications - eða síma "bömp" e.o. sumir krakkar kalla það) til að greiða fyrir vörur og þjónustu á afgreiðslustað. Raunin er að það felst engin tækninýjung í því sem búist er við frá Apple í dag. Þeir ætla bara loksins að setja NFC í iPhone símana. NFC hefur verið í símum frá öðrum framleiðendum í töluverðan tíma og er víða boðið upp á að nota NFC síma sem greiðslukort. Þegar ég var búsettur í Bandaríkjunum þar til fyrir rúmu ári var þá þegar hægt að greiða fyrir vöru með NFC síma í flestum stórum matvöruverslunum, bensínstöðvum, stórmörkuðum og fl. Hins vegar má nefna að Apple verði með einhverja nýjung sem tengist öryggi greiðslukerfisins, en það er allt annað mál og ekki það sem mér sýnist vera til umræðu í þessari frétt.

Til að skilja hver styrkur Apple er í þessu tilliti þarf að vita hvernig farsímamarkaður funkerar í Bandaríkjunum. Söluaðilar símtækja eru oftast þjónustuaðilar og símarnir sem þeir selja eru sérstaklega framleiddir fyrir þá og merktir viðkomandi fyrirtæki. Það gerir það að verkum að tiltekinn sími frá tilteknum framleiðanda er ekki endilega með sömu fítusa hjá öllum endursöluaðilum. T.d. keypti kona mín LG síma hér á landi, sem er merktur LG, sem er með innbyggðu NFC. Sama LG módel frá T-Mobile í Bandaríkjunum er eins að flestu leyti, nema hann er ekki með innbyggðu NFC. Sama LG módel frá Verizon í Bandaríkjunum er hins vegar með innbyggðu NFC. Þetta skapar mikla óvissu fyrir þá sem vilja nýta nýjustu tæknimöguleika þar sem þeir geta ekki gert ráð fyrir að næilegur fjöldi neytandi hafi aðgang að nauðsynlegri tækni.

Styrkur Apple er að iPhone síminn er afar vinsæll og símafyrirtækin hafa ekki fengið að ráða því hvaða fítusar eru í iPhone símum sem þeir selja. Vegna mikillar útbreiðslu iPhone síma, sem allir bjóða upp á sömu tæknilega möguleika, geta þeir sem vilja nýta tækni fyrir nýja þjónustu gengið að því vísu að stór hópur neytenda geti notfært sér þá tækni, sama frá hvaða þjónustuaðila síminn er keyptur. Ennfremur, vegna þess hve mikil yfirráð Apple hefur yfir iPhone símanna (og í raun merkilegt að þeir hafa náð að halda því), getur fyrirtækið gert samninga um tiltekna þjónustu sem nýtist öllum notendum, sama hjá hvaða þjónustuaðila þeir eru.

Byltingin felst því ekki í tækninýjungum heldur í því að gera má ráð fyrir að NFC tækni og notkun hennar sem greiðslukerfi nái meiri útbreiðslu í Bandaríkjunum en hefur verið.

Ég vona að fólk treysti almennt ekki á fjölmiðla e.o. mbl.is (og fleiri íslenska fjölmiðla ef út í það er farið), sem eiga það til að leggja litla vinnu í gerð frétta um tæknimál, til að upplýsa sig um stöðu tækniþróunnar. Það eru til mun betri upplýsingaveitur. En fréttir í þessum fjölmiðlum eru oft þær fyrstu sem almenningur sér og geta þar af leiðandi haft verulega mótandi áhrif á væntingar sem eru gerðar til tækninnar.

mbl.is iPhone gæti komið í stað greiðslukorta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný gjaldskrá Símans = aukinn kostnaður fyrir kennara og nemendur

too-damn-high
Eins og flestir vita hefur Síminn kynnt nýja gjaldskrá fyrir nettengingar. Helsta breytingin er að nú verður rukkað jafnt fyrir bæði innlendun og erlendan gagnaflutning. Það er ýmislegt sem hægt er að segja um þessa breytingu en mig langar sérstaklega að vekja athygli á kostnaðaraukningu sem þetta hefur í för með sér fyrir notkun upplýsingatækni í skólastarfi.

Í nýjum námskrám er gert ráð fyrir að netið nýtist í námi og kennslu bæði til upplýsingaöflunnar og miðlun kennsluefnis. Sérstaklega er lögð áhersla á notkun fjölbreyttra miðla, s.s. myndrænt- og hljóðrænt efni. Það er allt gott og vel og margir kennarar að gera góða hluti með þau markmið. Hins vegar, hefur skortur á aðgengilegri hýsingu innanlands fyrir slíkt námsefni verið nefnt sem hindrun. Vandinn er að notkun hýsingarmöguleika erlendis, s.s. YouTube o.fl., fylgir aukinn kostnaður fyrir kennara og nemendur vegna gjaldtöku samskiptafyrirtækja fyrir erlent niðurhal. Þannig verður nemendum og kennurum mögulega mismunað þar sem aðgengi þeirra að kennsluefni sem er þannig hýst ræðst að einhverju leyti af getu þeirra til að greiða fyrir niðurhalið. Sérstaklega á þetta við um margmiðlunarefni sem getur verið þungt og kostað heilmikið niðurhal.

Síðustu ár hefur verið töluverð umræða um þörf fyrir aðgengilega og hagkvæma hýsingarkosti hér á landi til að gera námsefni aðgengilegt á netinu án þess að það feli í sér aukinn kostnað fyrir þá sem þurfa að nota það. Eitthvað hefur miðast í þessum málum, t.d. með tilkomu vefsins Vendikennsla.is þar sem kennarar geta gert margmiðlunarefni aðgengilegt fyrir nemendur. Vistun efnis er ókeypis fyrir kennara og allt efni er hýst á innlendum þjónum þannig að niðurhal hefur verið ókeypis fyrir nemendur.

Ný gjaldskrá Símans gerir þessar framfarir að engu. Viðskiptavinir þurfa að greiða fyrir niðurhal á efni frá innlendum hýsingaraðilum eins og Vendikennsla.is sem þeir gerðu ekki áður. Ennfremur get ég ekki séð að það séu neinir möguleikar til að koma til móts við þá sem eru efnaminni eins og nýja gjaldskráin er sett upp. Ný gjaldskrá Símans gerir það að verkum að aukin notkun stafrænna miðla í námi og kennslu -eins og hvatt er til í nýjum námskrám- mun fela í sér aukinn kostnað fyrir bæði kennara og nemendur.

mbl.is Síminn hyggst rukka fyrir alla notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunnum við nógu vel á framtíðina?

believablefuture
Í Kanada taka stefnumótendur framtíðina alvarlega. Þar hefur verið starfrækt síðan 2011 opinber stofnun, Policy Horizons Canada, sem hefur það hlutverk að afla og miðla upplýsingum um tækni- og samfélagslega þróun framtíðar fyrir opinbera aðila, stefnumótendur, og almenning. Þannig er unnið markvisst að því að yfirvöld, atvinnulíf, stefnumótendur og aðrir hafi þær upplýsingar sem þeir þurfa til að miða aðgerðir að langtímaþörfum samfélagsins. Stofnunin gefur út ótal rit á ári en ein helsta afurðin er MetaScan ritröðin, en MetaScan3 kom út nýverið þar sem er farið yfir helstu tækninýjungar sem munu líta dagsins ljós á næstu 10-15 árum.

Það er minn draumur að til verði framtíðarstofa af þessu tagi hér á Íslandi (alla vega fyrir menntasamfélagið) sem hefði það hlutverk að safna og miðla upplýsingum um framtíðina, en líka að þjálfa þá sem koma að mótun skóla- og menntastarfs í því að vinna kerfisbundið með slíkar upplýsingar og miða ákvarðanatöku við langtímaþarfir samfélagsins.

Á síðustu rúmlega 5 árum hef ég unnið með ýmsum hópum skólafólks, bæði hér á Íslandi og erlendis, við að vinna úr upplýsingum um framtíðina og nýta til stefnumótunnar. Það er ýmislegt sem maður lærir af svonalöguðu, t.d.:

Okkur (mannkynið) er tamt að hugsa um framtíðina - við ímyndum okkur framtíð, gerum fyrirætlanir og miðum oft okkar athafnir við tiltekna framtíðarsýn. Maðurinn er framtíðarmiðuð skepna!

Þrátt fyrir að vera framtíðarmiðuð að eðlisfari er ekki sjálfgefið að við séum sérstaklega klár þegar kemur að því að hugsa um framtíðina.
  • Flestum reynist erfitt að hugsa lengra en 5 ár fram í tímann nema þá í rótgrónum staðalmyndum.
  • Framtíðarsýn byggir oftar en ekki á ímynduðum stöðugleika, það er að segja að jafnvel þegar við hugsum 5 ár fram í tímann eða lengra endurspeglar sýnin nútímann án nægilegs tillits til fyrirsjáanlegra breytinga.
  • Tiltölulega fáir meðal sérfræðinga, stefnumótenda eða almennings fylgjast nægilega með því sem er að gerast í tækni- og samfélagsþróun hverju sinni til að geta sett fram raunhæfar áætlanir um hvers er að vænta 10-15 ár fram í tímann.

Allt þetta verður til þess að jafnvel þegar við tökum okkur til og ætlum okkur að móta framtíðarsýn til langs tíma fyrir íslenskt samfélag misheppnast það og framtíðarsýnin verður úrelt á örfáum árum - ef hún var þá einhverntíma gild.

Ef við hér á Íslandi ætlum okkur að taka framtíðinni alvarlega, eins og Kanadamenn eru að gera, þurfum við fyrst og fremst að gera tvennt:
  • Huga að því hvernig við ætlum að afla upplýsinga, vinna úr þeim og miðla til þeirra sem þurfa,
  • og byggja markvisst upp hæfni þeirra sem koma að, eða hafa áhrif á, ákvarðanatöku til að móta raunhæfa framtíðarsýn sem hægt er að fylgja til lengri tíma.
Þetta er verðugt verkefni sem enginn, sem ég veit um, er að vinna að um þessar mundir. 
 
Og hérna er svo vandinn við þetta allt saman: við höfum ekki svigrúm til að eyða miklum tíma í þetta! Tækniþróun verður sífellt örari og er jafnvel orðin slík nú þegar að meðal manneskjan getur ekki lengur fylgst með öllum þeim breytingum sem eru að eiga sér stað hverju sinni, jafnvel á sviðum sem hver og einn þykist hafa sérþekkingu.

Hver ætlar að vera memm’ í þessu?
 
Að lokum - Með skýrslunni MetaScan3 hefur Policy Horizons Canada látið gera þessa mjög fínu "infographic" til að lýsa tækniþróun komandi ára. Hér er flott uppsettning sem gott er að skoða á tölvuskjá.

Eru tæknibönn bara til að takast ekki á við raunveruleikann?

cell-phone-ban
Í Fréttablaðinu í dag, 13. febrúar, er stutt frétt um notkun nemenda á farsímum í skólum. Þar segir Svanhildur María Ólafsdóttir, formaður Skólastjórafélags Íslands, m.a. að það þurfi að kenna börnum að nota þessi tæki, eins og önnur, í samræmi við almennar samskiptareglur. Eins og Svanhildur bendir á þá eru þetta auðvitað mjög öflug tæki sem nýtast á ýmsan hátt, s.s. upplýsingaleit, samskipti, samstarf, sköpun og margt fleira. En raunin er, að sárafáir skólar leyfa notkun þessara tækja. Líklega eru ýmsar ástæður gefnar fyrir farsímabönnum, en ég held að helsta ástæðan komi fram í því sem haft er eftir Óskari S. Einarssyni, skólastjóra Fossvogsskóla, að “verið [er] að reyna að finna leiðir til þess að geta nýtt farsíma”. Þá spyr ég, af hverju, þegar farsímar hafa verið áberandi í samfélaginu eins lengi og raunin er og þykja nú nauðsynlegir í flestum störfum og annarri iðju utan skóla, er verið að “reyna að finna leiðir” núna? Af hverju er ekki löngu búið að því? Það er fátt sem hefur gerst í tengslum við þróun farsíma og snjallsíma síðustu 10 árin sem hefur komið á óvart. Það hefði verið hægt að hugsa út í þetta fyrir löngu.

Vandinn með bann-hneigðina, sem einkennir oft afstöðu skólafólks gagnvart upplýsingatækni, er að hún leiðir til sýndaraðgerða. Þegar skóli bannar farsíma, Facebook, eða hvaða tækni sem er, þá gefur hann sig út fyrir að vera að taka afstöðu og fylgja henni eftir með aðgerðum. Raunin er, hins vegar, að það að banna tækni sem fellur vel að öllum helstu markmiðum menntunar og þykir þarfasta tól í daglegu lífi utan skóla er ekkert annað en frestun, og þar með aðgerðaleysi. Bann á slíkri tækni felur í sér viðurkenningu að tæknin er til staðar og hún hefur áhrif, en viðkomandi stofnun ætlar bara ekki að díla við hana á þessari stundu.

Fartæknin, þ.e. snjallsímar og spjaldtölvur, hefur breiðst út hraðar en nokkur upplýsingatækni sem á undan hefur komið. Nú eru tæplega 6 ár síðan snjallsímavæðingin hófst fyrir alvöru (miðað við fyrsta iPhone síma Apple) og fæstir skólar hafa enn mótað raunverulega stefnu um hvernig skuli nýta þessa tækni í þágu menntunar. Ef þetta er raunin í dag, hver verður staðan eftir næstu 6 ár? Hvað ætla skólar að gera þegar fartæknin verður orðin nánast ósýnileg á næstu árum? Verða skólar tilbúnir þegar nemendur mæta í kennslustofu og kennarinn hefur enga leið til að vita hvort þeir eru að hlusta á sig eða að kaupa nýtt geimskip af Eve Online spilara í Timbúktú? Ætla skólar þá ennþá að vera að “reyna að finna leiðir” til að nýta 6 ára gamla tækni?

Ekki fyrsti 3víddar prentarinn á almennum markaði

mb-rep2-features-4

Blaðamaður mbl.is virðist hafa gjörsamlega misskilið fréttina sem hann notar sem heimild. Þar er ekki sagt að þetta sé fyrsti 3víddar prentarinn á "almennum markaði" heldur að þetta sé fyrsti prentarinn sem seldur er á "high street", þ.e.a.s. út úr gamaldags staðbundinni verslun (og er sennilega átt við Bretland sérstaklega). Þrívíddar prentarar hafa verið auðfáanlegir í nokkur ár, þá helst með því að panta á netinu. Einn sá fyrsti sem var tiltölulega ódýr og aðgengilegur almenningi á netinu var RepRap prentarinn. Hægt er að sækja teikningar fyrir samsetningu RepRap og þrívíddar teikningar fyrir alla nauðsynlega parta og íhluti ókeypis á netinu. Notandinn sér svo um að verða sér úti um parta og setja tækið saman. Fab@home býður upp á svipað og RepRap. Í dag eru margir 3víddar prentara sem hægt er að kaupa á netinu og fá senda bæði samsetta og ósamsetta og er verð á þeim sem ætlaðir eru almenningi allt frá nokkrum þúsundum bandaríkjadölum og niður í 6-700 dollara.

Fyrir þá sem hafa keypt 3víddar prentara eru komnir upp vefir þar sem hægt er að sækja fjölda módela til að prenta eftir, t.d. Thingiverse þar sem öll módel er opin og ókeypis.

Þrívíddar prenttæknin er komin töluvert lengra á leið en margan grunar... 


mbl.is Fyrsti 3D prentarinn í almenna sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækninýjungar og framtíð menntunar

Aaron-Tech-Image-1-2
Á föstudaginn 5. apríl, 2013 var ég með innangserindi á ráðstefnunni "Í skýjunum", árleg ráðstefna 3F sem var haldin í Háskólanum í Reykjavík í samstarfi við HR og Upplýsingu-Félag bókasafns- og upplýsingafræða. Erindið kallaði ég "Gagnaukinn veruleiki og framtíð menntunar" (glærurnar má nálgast hér).

Markmiðið með erindinu var tvíþætt. Í fyrsta lagi að gera grein fyrir gagnauknum veruleika (GV - e. augmented reality) sem nýja tæknilega þróun sem skiptir máli fyrir menntun. Í öðru lagi að vekja ráðstefnugesti til umhugsunar um hvernig við, sem komum að menntun á Íslandi, eigum að bregðast við tækninýjungum meðan þær eru enn nýjar. Það er nefnilega svo með tækninýjungar sem hafa ekki náð mikilli útbreiðslu og eru enn í þróun að við vitum ekki alltaf hvaða áhrif þau munu, eða geta, haft. Þá þarf að hugsa heildrænt (möguleg áhrif á samfélagið í heild - ekki bara menntun), vera opin fyrir ýmis konar breytingum (hvað getur mögulega komið okkur að óvörum) og ekki síst að nota ímyndunaraflið - hvernig getum við notað tækninýjungar til að breyta því sem við viljum? Ég held að þetta hafi komist ágætlega til skila. Alla vega voru margir þeir sem ég ræddi við eftir erindið mjög spenntir fyrir að kanna möguleika GV og annarra tækninýjunga.

Í erindinu notaði ég GV sem lýsandi dæmi um tækni sem er í örri þróun og breiðist hratt út en hefur ekki ratað í umræðu um upplýsingatækni og menntun. T.d. fékk ég mjög fyrirsjáanleg viðbrögð þegar ég spurði ráðstefnugesti hversu margir höfðu nýtt sér GV þann daginn. Innan við 5 svöruðu játandi. Hins vegar, þegar ég spurði hversu margi höfðu nýtt sér Google Maps þann daginn svöruðu næstum allir játandi. Eins og kemur fram í glærunum sem ég vísa í hér að ofan, er Google Maps líklega útbreiddasta dæmið um notkun GV í samfélaginu í dag. Það að fáir ráðstefnugestir gerðu sér grein fyrir því segir mér að við erum ekki nægilega upplýst um þær breytingar sem GV hefur í för með sér og eigum því á hættu að missa af mikilvægum tækifærum til að nýta tæknina í menntun.
 
E.o. ég hef sagt notaði ég GV aðeins sem dæmi um tækninýjung sem hefur, eða gæti haft, mikla umbyltingu í för með sér fyrir skólastarf. Vissulega er fjöldi annarra tækninýjunga sem þyrfti líka að huga að. Ég ætla að lýsa hér stuttlega tveimur tækninýjungum (reyndar er önnur ekki svo ný) sem skólafólk ætti að vera farið að huga að:
Í fljótu bragði mætti velta fyrir sér hvað í ósköpunum þessar tækninýjungar hafa með menntun að gera? Raunin er sú að þær hafa báðar mikið með menntun að gera vegna þeirra samfélagslegra breytinga sem þeim fylgja - og forsjálir aðilar eru þegar að prófa sig áfram með þær í skólastarfi.
 
Þrívíð prentun 
Þrívíð prentun er tækni sem notar ýmis efni til þess að búa til þrívíðan hlut eftir tölvugerðu módeli. T.d. er hægt að teikna upp þrívítt módel af legókubb í þar til gerðu forriti (e.o. Blender, ókeypis opið forrit sem er mikið notað) og láta svo þrívíðan prentara búa til raunverulegan, meðhöndlanlegan og nothæfan legókubb. Ástæðan fyrir því að þessi tækni skiptir miklu máli eru margar. T.d.:
  • aukið aðgengi að alls kyns hlutum vegna þess að það þarf ekki að hugsa um hvernig eigi að koma framleiddum vörum á þá staði þar sem þær verða notaðar
  • fýsilegt að setja á markað vörur sem hefðu ekki svarað kostnaði þar sem ekki þarf að taka tillit til framleiðslukostnaðar á vörum sem er gert ráð fyrir að seljist í litlu upplagi
  • krefst annarrar hæfni í vöruþróun, sérstaklega þarf hæfni eða innsýn í hönnunarferli
  • þarf að huga að sjálfbærni og umhverfislegum þáttum til þess að tryggja að breyttar framleiðsluaðferðir (sem færist á neytandann) leiði ekki til sóunnar og ofnotkunar á takmörkuðum auðlindum
 
Vélmenni 
Okkur þykir gjarnan hugmyndin um vélmenni bæði heillandi og ógnandi í senn. Annars vegar njótum við góðs af vélmennavæðingu í ýmsum starfsgeirum sem heilla lítið, s.s. framleiðslu, einfaldri þjónustu o.þ.h., og hins vegar sjáum við fyrir okkur kuldaleg, ópersónuleg og óútreiknanleg mannslíki vísindaskáldskaparins. Ef einhver möguleg tengsl við menntun greinast er það helst að leyfa ungu fólki að spreyta sig við smíði einfaldra vélmenna á borð við fyrri kostinn e.o. gert er í First Lego League vélmennakeppninni sem íslendingar hafa tekið þátt í og árlegri hönnunarkeppni verkfræðinema í HÍ sem hefur verið sjónvarpað um árabil.

Í Austur-Asíu er litið vélmennavæðingu öðrum augum. Í löndum e.o. S-Kóreu og Japan er fólk opnara fyrir hugmyndum um vélmenni sem líkjast mönnum og að þau sinni ýmsum verkum sem fela í sér mikla nálægð og umgengni við fólk. Í S-Kóreu hafa yfirvöld sett sér þau markmið að frá og með árinu 2020 verði vélmenni á hverju heimili þar í landi og að þau sinni ýmsum störfum í samfélaginu, t.d. umönnun eldri borgara og framkvæmd skurðlækninga. Það kemur því varla á óvart að vélmenni skulu nú þegar vera búin að rata inn í skóla þar í landi. Þau eru helst notuð til að koma nemendum í samband við fjarstadda kennara. T.d. hafa vélmenni verið notuð við enskukennslu barna þar sem vélmennin eru fjarstýrð af kennurum í Filipseyjum og Ástralíu. Vélmennin eru sérstaklega hönnuð til að höfða til ungra nemenda og líta gjarnan út e.o. litrík og skemmtileg leikföng. Tilraunir með þessa kennsluhætti þykja hafa gengið framar vonum og eru ungir nemendur sérstaklega heillaðir af þessum nýju kennurum sínum.

Þetta er aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um nýstárlega notkun vélmenna í skólum. Einnig má nefna vélrænann tvífara japanska prófessorsins Hiroshi Ishiguro sem sér um að sitja í kennslustofunni hans þegar hann kemst ekki á staðinn. Í Singapúr hafa yfirvöld tilkynnt um að á næstu árum verða gerðar tilraunir með notkun gervigreindarsamræðuvéla sem nemendur munu nota til að ræða um námsefni og fá þannig meira innsýn í það sem verið er að læra.

Þessi dæmi sýna okkur að hægt er að finna skemmtilega og nýstárlega möguleika fyrir notkun tækninýjunga í menntun svo lengi sem fólk er opið fyrir breytingum og óhrætt við að prófa sig áfram. En þá er ekki síður mikilvægt að hlutaðeigandi sé meðvitað um tækniþróun og geri sér grein fyrir þeim tækninýjungum sem eru að ryðja sér til rúms - eða jafnvel enn betra - að það geri sér grein fyrir þeim tækninýjungum sem er að vænta á næstu árum. Með slíkri forsýni getum við gripið fljótt tækifæri og haft áhrif á þróun tækninýjunga þannig að hún þjóni markmiðum um uppbyggingu menntunar fyrir 21stu öldina.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband