Um skaðsemi þráðlauss nets, súrsaðs grænmetis og annarra hættulegra efna

Vegetable-picklesÍ Fréttatímanum um daginn birtist grein Margrétar Pálu Ólafsdóttur, Snjallbörn í snjallheimi, þar sem hún varar við ýmsum hættum snjalltækja í umhverfi barna. Hún bendir t.d. á uppeldisleg áhrif þess að börn fái e.t.v. ekki nægilega fjölbreytta örvun. Þetta getum við sagt að sé "kommon sens" - ekkert nýtt þar á ferðinni. Annað tel ég vera hræðsluáróður. Margrét Pála bendir á mögulegar heilsufarslegar hættur útvarpsbylgja þráðlausra neta. Máli hennar til stuðnings bendir hún á að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hafi sett utvarpsbylgjur af því tagi sem um ræðir á lista yfir mögulega krabbameinsvaldandi umhverfisþætti. Ennfremur segir hún, sem á væntanlega að styðja hennar málstað enn frekar, að Frakkar hafi bannað þráðlaus net í leikskólum.

Rétt er að Frakkar samþykktu nýjar reglur um þráðlaus net á svæðum þar sem börn 3ja ára og yngri hafast við. Ég er ekkert sérstaklega sleipur í frönskunni en eins og ég skil þetta væri réttara að segja að reglugerðin takmarki mjög notkun þráðlausra neta en ekki að þau séu með öllu bönnuð (hvet lesendur sem skilja betur til að leiðrétta mig ef þarf). En hér má spyrja, af hverju var þessi reglugerð samþykkt? Eflaust hefur það eitthvað með ákvörðun franskra yfirvalda að gera að útvarpsbylgjur voru settar á lista WHO sem Margrét Pála nefnir, enda oft vísað í hann í umræðunni um nýju reglugerðina.

WHO setti útvarpsbylgjur í svokallaðan 2b flokk yfir umhverfisþætti sem eru mögulega krabbameinsvaldandi en ekki hefur verið sýnt fram á orsakasamband. Það er ansi margt í þessum 2b flokki, en þar finnum við t.d. kaffi, aloe vera og súrsað grænmeti svo eitthvað sé nefnt. Nú er ekki óalgengt að við takmörkum aðgengi ungra barna að kaffi enda finnst þeim það rosalega vont og sennilega mega þau ekki við auka peppinu sem fylgir. Ég kannast hins vegar ekki við að Frakkar né aðrir hafi sérstaklega reynt að takmarka aðgengi ungra barna að aloe vera eða súrsuðu grænmeti. Það að efni eða umhverfisþættir séu settir í 2b flokk WHO þykir því auglóslega ekki nægileg ástæða til að takmarka aðgengi að þeim.

Af hverju hafa Frakkar þá ákveðið að takmarka þráðlaus net í umhverfi barna? Tja… Satt að segja þá veit ég það ekki. Fræðimenn eru að mestu á einu máli um að lítil krabbameinshætta stafi af útvarpsbylgjum. Þeir telja almennt að engin fræðilegur möguleiki er á því að útvarpsbylgjur geti valdið krabbameini, að slíkt samræmist ekki náttúrulögmálum eins og við skiljum þau nú. Það er að segja, að mati helstu lífeðlisfræðinga heims er ekki hægt að sýna fram á að útvarpsbylgjur valdi krabbameini nema með því að gjörbreyta vísindalegri heimsmynd okkar.

Það er alltaf einhver lítill hópur meðal fræðimanna og almennings sem sér hlutina öðruvísi. Slíkir hópar er oft nokkuð duglegir að koma skoðunum sínum á framfæri og halda þannig á lofti ímynduðum vafa. Og þarna virðumst við komin að kjarna rökfærslu Margrétar Pálu enda segir hún:

"Ef börn eiga að njóta vafans ættu barnafjölskyldur að slökkva á þráðlausa netinu nema þá stuttu stund sem samkomulag er um að fjölskyldan skreppi í netheimana."

Og þá spyr ég - hvaða vafi er það, Margrét Pála, og eigum við að hafa sömu áhyggjur af súrsuðu grænmeti?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Þetta er hlægileg umræða ef kalla má þetta því nafni. Alla okkar æfi, dag og nótt skella á okkur útvarpsbylgjur,örbylgjur og ekki gleyma röntgen og öðrum enn hættulegri bylgjum sem við ráðum ekkert við. Svo netið er bara guðs blessum held ég.

Eyjólfur Jónsson, 11.3.2015 kl. 17:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband