Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Höfundarréttur, efnahagskerfið og ábyrgð menntakerfisins

against_copyright

Sjóræningjarnir á Pirate Bay eru komnir í slag við finnsku höfundarréttarsamtökin CIAPC. Málið fékk mig til að hugsa enn einu sinni um höfundarrétt og sérstaklega hlutverk höfundarrétarsamtaka, en í þetta sinn velti ég líka fyrir mér hvert hlutverk menntunnar er  í tengslum við höfundarrétt. Samkvæmt gildandi námskrám er höfundarréttur lykilþáttur í upplýsingalæsi. Það er einkum tvennt sem truflar mig: Í fyrsta lagi, hugmyndin að menntakerfið eigi að standa vörð um það sem margir telja vera úrelt höfundarréttakerfi. Í öðru lagi, að höfundarréttarmál eru orðin svo flókin með tilkomu opinna leyfa og svo framvegis, að það er mjög óljóst hvað eigi að kenna skólabörnum um höfundarrétt.
 
Réttast er að taka fram strax í upphafi að ég er ekki óháður aðili í þessari umræðu. Ég er tónlistarmaður og hef sent frá mér slatta af tónlist og ég birti heilmikið ritað efni víða á stafrænu og prentuðu formi. Allt sem ég sendi frá mér er gefið út með Creative Commons leyfi - þ.a.s. að almenningur hefur rétt til að nota efnið eins og það sýnist en ég fer aðeins fram á að það geti heimilda. H.v. sem fræðimaður og tónlistarmaður er það ekki alltaf undir mér komið hvaða heimildir eru settar á efni sem ég bý til - en það er allt önnur umræða sem ég ætla ekki að fara út í hér.
 
Svo ég byrji á sögunni um slag Sjóræninga og CIAPC - Stutta útgáfa sögunnar er þessi: CIAPC setti upp síðu sem líkir eftir síðu Sjóræningjana þar sem myndinni af mikilfengu sjóræningjaskipi er skipt út fyrir drungalegri mynd af sökkvandi skipi. Sjóræningjar vilja meina að með þessu hafi CIAPC brotið á höfundarrétti sínum og eiga því skilið sömu meðferð og aðrir sem brjóta höfundarréttarlög. Lengri sagan er þessi: Síðasta haust gerðist 9 ára stúlka í Finnlandi sek um að hlaða niður einu lagi af Pirate Bay vefnum. Í kjölfarið var tölva stúlkunnar gerð upptæk og CIAPC sækir nú málið gegn foreldrum hennar, sem eru gerðir ábyrgir fyrir brotum barna á netinu í Finnlandi. Þetta gerist þrátt fyrir að söngkonan hafi sagst ekki vilja gera mikið úr málinu og meira að segja benti stúlkunni á að hún gæti hlustað á lagið ókeypis í gegnum Spotify. Sjóræningjar, sem ég held að séu í raun nokk sama um það að CIAPC líki eftir vef þeirra, ákváðu í kjölfarið að sækja höfundarréttarmál gegn CIAPC og nota hvert tækifæri til að vekja athygli á fáránleika málsins. Til dæmis var haft eftir Sjóræningjum í frétt á vísi.is:
<kaldhæðni>Okkur blöskrar þessi framkoma. Fólk verður að skilja muninn á réttu og röngu. Að stela efni sem þessu [útlit vefsíðu Sjóræningja] á internetinu er ógn við hagkerfi heimsins.</kaldhæðni>
Ef undirstöður ríkjandi hagkerfis felast í höfundarréttarlögum sem kveða á um að refsa skuli 9 ára stúlku sem hleður niður einu lagi af Pirate Bay þá er kannski rétt að endurhugsa það hagkerfi. Höfundarréttarsamtök hafa haldið því fram að brot á höfundarréttarlögum verða sífellt tíðari. Þá er vert að spyrja, og að ég held í samræmi við meginhugmyndir ríkjandi kapitalísks efnahagskerfis, er þetta ekki rödd neytandans að lýsa yfir breyttu verðmætamati á höfundarréttavörðu efni? Ef það er rétt sem höfundarréttarsamtök halda fram, þá heyrist mér neytendur vera að hrópa hástöfum að þeir vilja ekki borga fyrir að fá að hlusta á eitt og eitt lag á netinu eða birta ljósmynd á Tumblr síðu, o.s.frv. Höfundarétthafar hafa val - þeir geta breytt sínum háttum til að svara kalli neytenda eða haldið til streitu þvert á vilja þeirra. Fjölmargir hafa kosið að hlusta á neytendur og gefa út efni undir opnum leyfum -t.d. Creative Commonsopin hugbúnaðarleyfi (GPL, BSD, o.s.frv.)- og virðast lifa það af þvert á dómsdagsspár höfundarréttarsamtaka. Það er margt sem bendir til þess að merkilegar breytingar séu að eiga sér stað á þessu sviði og skriðurinn jafnvel orðinn það mikill að ekki verði aftur snúið. Spurning er þá hvort höfundarréttarsamtök eru að heyja vonlausa baráttu við breytingaröfl sem mér sýnist ætla að ganga eins og valtari yfir þeirra staðfasta virki? Ég held að rödd neytandans hljóti að sigra á endanum.
 
En snúum okkur svo að menntamálunum. Í gildandi námskrá um upplýsingatækni og tölvu/upplýsingalæsi er skólum landsins gert að standa vörð um gildandi fyrirkomulag höfundarétta. Eitt helsta markmið náms í tölvu/upplýsingalæsi frá yngstu bekkjum er að nemendur þekki hugtakið "höfundarréttur" og á síðari stigum að þau kunni skil á helstu þáttum höfundarréttarlaga. Þetta kann að virðast nokkuð einfalt við fyrstu sýn, en eins og fyrirkomulag um höfundarrétt er nú orðið flókið, með gildandi lögum og sífelldri endurtúlkun þeirra og öll þau opnu og hálfopnu leyfi sem spretta upp eins og gorkúlur, þá vex þetta um sig. Hvað á eiginlega að kenna skólabörnum um höfundarrétt?
 
Einhverntíma (ég man ekki hvar eða hvenær) las ég eftir einhvern að best væri að kenna börnum að ganga skuli út frá því að aldrei megi nota efni annarra án leyfis. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Það eru tímamörk á höfundarrétti og heilmikið efni til sem engin "á" rétt á, þ.e.a.s. að það er opinber eign. Einnig er til mikið efni í dag sem er gefið út með opnu leyfi - þ.e.a.s. að allir hafa heimild til að nota efnið í eigin sköpunarverk. Til dæmis, þegar þetta er ritað eru rúmlega 250 miljónir mynda á Flickr.com vefnum sem eru birtar með opnu leyfi. Og, eins og ég nefndi áður, færist sífellt í aukanna að tónlistarmenn veiti ókeypis aðgang að tónlist sinni og leiti annarra leiða til að afla sér tekna en á sölu eins og eins lags (hljómsveitin Nine Inch Nails verið leiðandi í þessu). Stefnan virðist vera í þá áttina að útgáfa sköpunarverka undir opnum leyfum færist í aukanna.
 
Er það hlutverk menntunar að viðhalda gildandi venjum og normum eða á að mennta fólk fyrir framtíðina? Mér sýnist flestir staldra stutt við í núinu og enn styttra í fortíðinni, en þau losna aldrei undan framtíðinni og ég held þar af leiðandi að svarið sé nokkuð ljóst. Menntun fólks þarf að horfa til framtíðar og ég held að þegar það er gert þjónar það litlum tilgangi orðið að tala um höfundarrétt í þeim skilningi sem hefur verið gert. Við eigum frekar að hugsa þetta út frá rétti neytenda - það er að segja, hver er réttur almennings þegar kemur að sköpunarverki annarra? Gagnvart efni sem er gefið út með hefðbundnum (úreltum?) höfundarleyfum er réttur almennings nánast enginn (og þau litlu réttindi sem eru fara hraðminnkandi með sífelldri endurtúlkun laga). Þegar horft er frá sjónarhorni neytenda er ekki margt sem þarf að kenna um þetta og þá spurning hvort höfundarréttur þurfi að vera jafnstór þáttur í námskrám eins og er núna. Hins vegar, ef við hugsum um leyfismál almennt út frá réttindum neytenda þá eru opin leyfi, creative commons leyfi, og þess háttar mun bitastæðara efni og meira viðeigandi, sem mætti gera betur skil. Ég legg því til að í nýjum námskrám verði allt um "höfundarrétt" skipt út fyrir orðalagi sem miðar að réttindum neytenda frekar en höfunda og að kennsla verði miðuð að því sem almenningur má frekar en því sem hann má ekki. Mér virðist að sé miðað við réttindi neytenda sem felast í mismunandi tegundum höfundarleyfa ætti þá að leggja hlutfallslega mestu áherslu á opin leyfi, creative commons leyfi, og þess háttar. Og að lokum, þá bendir ýmislegt til þess að slík nálgun sé frekar í samræmi við það sem vænta má í framtíðinni.

Mjög áhugaverð keppni í forritun og vélmennahönnun um helgina

Um helgina verður FIRST LEGO League forritunar- og vélmennahönnunarkeppni haldin í Háskólabíói. Þetta er mjög áhugaverð keppni sem hefur verið haldin árlega á Íslandi í nokkuð mörg ár núna þar sem ungt fólk fær tækifæri til að sameina tækniþekkingu og hugvit við að leysa mjög praktísk verkefni.

Í gegnum árin hefur Lego átt þátt í að leiða margt hæfileikaríkt ungt fólk á braut uppfinninga og tækniþróunar. Smá sögulegt ágrip fyrir þá sem ekki þekkja: Lego hóf samstarf við Seymour Papert(frumkvöðull í notkun upplýsingatækni í skólastarfi - bjó til Logo forritunarmál fyrir krakka, kom af stað einni fyrstu stórtæku 1:1 fartölvuvæðingunni í skólum í Maine-fylki í BNA. og margt fleira) fyrir nokkrum áratugum sem leiddi af sér Lego Mindstorms vörulínuna. Það sem gerir Lego Mindstorms vörulínuna sérlega áhugaverða fyrir skólafólk, að vörulínan er hönnuð út frá vel grunduðum pedagógískum pælingum. Lego Mindstorms eru forritanleg Lego sett sem eru notuð til að búa til einföld og lítil vélmenni. Með þessu kynnist ungt fólk forritun, vélmennahönnun, gervigreind, o.s.frv. Lego Mindstorms hefur líka verið notað til kennslu á háskólastigi. Notkun Lego Mindstorms innan skóla jafnt sem utan hefur verið mikið rannsökuð og þykir það mjög heppilegt tæki til að kynna fyrir ungu fólki möguleika nútíma tækni á öllum skólastigum.

Salvör Gissurardóttir benti á þessa upptöku frá Málþingi RANNUM um First Lego League keppnina sem var haldið á síðasta ári: http://frea.adobeconnect.com/p4o23javfm6/


mbl.is Forrita vélmenni til að leysa verkefni eldri borgara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópuþing felldi ACTA: Löngu tímabært að endurhugsa höfundarétt.

Í dag felldi Evrópuþingið alþjóðlega samkomulaginu um höfundarétt, ACTA (Anti-Counterfeiting Trade Agreement) með miklum meirihluta atkvæða, eða 478 á móti 39. Áður hafði Framkvæmdastjórn ESB samþykkt samkomulagið. Það er ýmislegt merkilegt sem felst í þessari niðurstöðu.

Í fyrsta lagi, má segja að Evrópuþingið hafi fellt ACTA á heimsvísu. Samkomulagið hefði m.a. hert mjög lög um höfundarétt og refsingar fyrir brot á höfundaréttarlögum. Samkomulagið er stutt af samtökum rétthafa e.o. samtaka rétthafa kvikmynda, tónlistar, hugbúnaðar, lyfja o.fl. Ýmis samtök sem berjast fyrir réttindum almennings til að nota réttindavarið efni hafa barist gegn samkomulaginu, t.d. Læknar án landamæra, sem segja að samkomulagið muni hefta mjög aðgang að nauðsynlegum lyfjum í þróunarlöndum. Áður höfðu 8 lönd samþykkt samkomulagið en áttu eftir að staðfesta samþykkið. Án þátttöku ESB er ljóst að samkomulagið er orðið að engu. Þó svo að hin löndin myndu staðfesta samkomulagið eru ESB löndin það stór hluti af markaðssvæðinu sem það er ætlað að taka til að það myndi aldrei vera hægt að framfylgja reglunum sem því fylgja.

Í öðru lagi hefur Evrópuþingið sýnt það og sannað að lýðræði er til staðar í ESB. Framkvæmdastjórn ESB hefur sagst ætla að leggja samkomulagið aftur fyrir þingið en það er ljóst að það mun ekki skila árangri. Í raun hefur Evrópuþingið málsstað netnotenda um allan heim, en ekki bara í ESB og hefur þannig sýnt að lýðræðisleg stofnun svo stórs markaðssvæðis getur haft töluverð áhrif á þróun heimsmála.

Mér þótti undarlegt að ekkert heyrðist um þessa merkilegu kosningu frá ESB andstæðingum á Íslandi, sem þreytast ekki á því að lýsa ESB sem miðstýrðu peði almáttugs Framkvæmdastjórnar. En svo áttaði ég mig á því að mbl.is hefur ekki séð ástæðu til að segja frá þessari merkilegu frétt. Ætli andstæðingarnir viti nokkuð af þessu þá?

Segja má að höfundarréttur sé einn hornsteinn kapitalísmans. Ég hélt að kapitalístar hlustuðu á markaðinn. Mér heyrist markaðurinn vera að tala. Eru kapitalístarnir að hlusta? Það er löngu orðið ljóst að rétthafar þurfa að endurhugsa sín mál.

Eru gagnaver raunverulega stórir kúnnar Farice?

Í frétt á Vísi.is í dag er sagt frá því að Farice ætli að hækka gjöld fyrir aðgengi almennings að sæstrengssambandi við netið. Það hefur komið fram að almenningur mun borga töluvert meira fyrir netsambandið en gagnaver. Ómar Benediktsson, forstjóri Farice, réttlætir þetta þannig, "Gagnaverin eru mun stærri kúnni". Spurt hefur verið um eignarhald og notkun á strengjum Farice á þingi og skv. svörum sem fengust þá (2010-2011) er nýting Farice þessi:

Burðargeta og nýting:
StrengurBurðargetaNýtingarhlutfall
Farice100 Gbit/s45%
Danice100 Gbit/s55%


Viðskiptavinir:
  • Íslensk síma- og fjarskiptafélög 41% 
  • Erlend síma- og fjarskiptafélög 15%
  • Aðilar sem reka rannsókna- og háskólanet 17% 
  • Gagnaver og erlendir viðskiptavinir gagnavera 27%

Til samanburðar má geta að álbræðslur nota um 80% af raforku sem framleidd er á Íslandi. Það eru stórir kúnnar - gagnaverin eru það ekki.

Augmented reality = gagnaukinn veruleiki: Tillaga að nýrri þýðingu

Sú tækni sem líklegust er til að hafa teljandi áhrif á því hvernig við notum upplýsingatækni á komandi árum hefur verið nefnd á ensku "augmented reality" (AR) (sjá t.d. um tæknina hér, hér og hér. Ég á enn eftir að sjá góða íslenskun á þessu hugtaki. Sumir hafa þýtt hugtakið beint sem "viðbættur raunveruleiki" en þetta hugtak er bæði óþjált og lýsir illa því sem er átt við. Ég hef stungið upp á að þetta verði þýtt sem "gagnaukinn veruleiki" sem ég tel að virki vel á íslenskri tungu og lýsir tækninni einstaklega vel, jafnvel betur en enska hugtakið. Fyrst ætla ég að útskýra hvað gagnaukinn veruleiki (GV) er og svo rökstyð ég þessa þýðingu mína.

GV byggir á notkun gagna og tækni sem eru til í nútímatölvum og snjallsímum í dag, s.s. myndavél, staðsetningartækni, þráðlaust net. Þessi tækni hefur töluverð áhrif á samskipti okkar við umhverfið - bæði hvernig við skynjum umhverfið okkar og hvernig við skilgreinum og mótum umhverfið. Í vissum skilningi má segja að tæknin gerir umhverfinu kleift að upplýsa okkur um sig sjálft - t.d. getum við beint snjallsímanum að tilteknu fjalli og fengið að vita hvað það heitir, hvað það er hátt, o.s.frv. Við getum líka notað þessa tækni til að koma fyrirbærum fyrir í umhverfinu sem eru ekki annars til staðar - t.d. er eitt snjallsímaforrit sem gerir fólki kleift að fara í boltaleik án þess að nota raunverulegan bolta. Sennilega er Google Maps mest notaða GV tæknin í dag. Google Maps víkkar út okkar skynjaða umhverfi til muna. Ég get staðið á götuhorni í framandi borg í leit að kaffihúsi og vitað um öll kaffihús í göngufæri við mína staðsetningu en ekki bara þau kaffihús sem ég sé með eigin augum. GV tæknin þróast mjög ört og það er aðeins hugmyndaflugið sem takmarkar hvað við getum gert með henni. Nokkrir möguleikar: Af hverju ekki að þýða AR sem "viðbættur raunveruleiki"?
Í fyrsta lagi, GV bætir ekki endilega neinu við umhverfið okkar. Þegar við notum GV til að upplýsa okkur um fjall þá er ekki um neina viðbót við umhverfið okkar að ræða. Í vissum skilningi mætti segja að tæknin eykur merking fjallsins fyrir okkur. Fjallið sjálft breytist ekki á nokkurn hátt. Raunin er að "viðbætt" er ekki einu sinni rétt þýðing á enska orðinu "augmented" nema í einstökum tilfellum. Enska orðið "augmented" þýðir í raun að eitthvað sé aukið umfram það sem það er venjulega. T.d. þegar við notum Google Maps þá eykst skilningur okkar á umhverfinu umfram það sem skynfærin okkar myndu venjulega færa okkur. Umhverfið er samt algjörlega óbreytt.

Í öðru lagi, tæknin snýst ekki beint um "raunveruleikann" sem slíkan. Minn skilningur á "raunveruleika" er að hann er bara það sem hann er og við bætum ekki neinu við hann né tökum frá honum. "Veruleikinn" er hins vegar sú sýn á raunverukeikanum sem mótast af skynjun okkar á raunveruleikanum og skilgreiningum á því sem í honum er. Við höfum því miklu meira vald yfir "veruleikanum" heldur en raunveruleikanum. Ég gæti farið út í ítarlegar heimspekilegar verufræði pælingar hér en ég held ég láti það vera að sinni. Ég læt nægja að segja að GV tækni hefur þannig áhrif á tilvist hluta í umhverfinu okkar að þeir öðlast dýpri merkingu, meira notagildi eða að þeir eru hreinlega skapaðir úr engu.

Af hverju að þýða AR sem "gagnaukinn veruleiki"?
Það eru tvær ástæður fyrir því að ég kýs að nota forskeytið "gagn" í hugtakinu mínu.
Í fyrsta lagi, GV byggir fyrst og fremst á samspil gagna við umhverfið okkar. Veruleikinn er "aukinn" með notkun tölvugagna sem miðlast með upplýsingatækni. Fyrri tækni hefur ekki boðið upp á þetta nána samspil umhverfis og gagna. Gögn annars vegar og það sem þau lýsa hins vegar hafa ekki haft möguleika á að vinna saman í sama skynjaða rými. Gögn hafa átt sinn stað í tölvum eða á pappírum og yfirfærsla á umhverfið aðeins verið hægt með því að nota ímyndunaraflið til að fylla inn í eyður. Með tilkomu GV eru gögn færð inn í skynjunarrýmið þannig að skynjunin mótast af gögnunum og því sem er skynjað í sama ferlinu.

Í öðru lagi eykst gagnsemi umhverfisins með notkun GV. Þeim mun meira sem við vitum um umhverfið þeim mun betri ákvarðanir getum við tekið varðandi samskipti okkar og þess. Segjum sem svo að ég nota GV til að fræðast um hvað tiltekið fjall er hátt og hversu langan tíma tekur að ganga upp á það. Þá er ég betur stæður til að ákveða hvort aðstæður henta til fjallgöngu á tilteknu fjalli eða ekki.

Þannig að ég legg til að enska hugtakið "augmented reality" verði þýtt sem "gagnaukinn veruleiki" vegna þess að það er þjálla en "viðbættur raunveruleiki" og það lýsir betur notagildi, áhrifum og möguleikum tækninnar sem um ræðir.

Enn ein byltingin í nánd í menntun?!? Ég er ekki svo viss.

Á vísi.is í dag birtist grein eftir Hjálmari Árnasyni, framkvæmdastjóra Keilis, um að "kennsluheimurinn standi á verulegum tímamótum um þessar mundir." Vísar Hjálmar þar til spjaldtölvuvæðingarinnar og telur að hún muni loks umbylta menntun. Því hefur margsinnis verið haldið fram á síðustu áratugum að bylting sé í nánd en aldrei virðast þessar breytingar eiga sér stað. Af hverju ættum við að halda að það gerist nú?

Allt frá því að menn fóru að sjá fyrir sér útbreiðslu tölvutækninnar hafa bjartsýnir lýst undraverðum "kennsluheimi" þar sem nemendur sækja sér sjálfir upplýsingar og stýra eigin lærdómi. Fyrst var það almenningstölvan, svo var það Vefurinn, og svo röð tækniundra - fartölvur, lófatölvur, snjallsímar, félagslegir miðlar, o.s.frv. - sem áttu allar að breyta menntun. Samt er menntun í megindráttum eins í dag og hún var fyrir 2-3 áratugum. Af hverju breytist ekkert?

Hjálmar heldur því fram að lítið hafi breyst vegna þess að "hin aldagamla hefð gegnsýrir allt kerfið." Ég er nú ekki viss um að það sé hárrétt. Margar tilraunir hafa verið gerðar til að breyta "kerfinu" á Íslandi. T.d. má nefna Skólarannsóknadeildina sálugu, sem gott dæmi um það hvernig ákveðin öfl í samfélaginu streitast á móti breytingum og finna sér jafnvel leiðir til að kæfa þær. Annað dæmi sem kemur í hugan varðar skóla einn sem átti að vera "opin skóli" - hugmyndafræði sem var nokkuð vinsæl víða í heimi á þeim tíma. Fljótlega eftir að skólinn tók til starfa ákváðu kennarar að þeir höfðu takmarkaðan áhuga á að starfa skv. þessari nýju hugmyndafræði og byrjuðu að hólfa af sín svæði í beinni andstöðu við kennsluaðferðinni sem átti að fylgja. Í rannsókn sem ég gerði á hópi fjarnema sem stunduðu doktorsnám við Háskólann í Minnesota kom í ljós að ein helsta hindrun fyrir upptöku tækninýjunga í náminu voru nemendurnir sjálfir, sem virtust gera allt sem þeir gátu til að láta námið sitt sem mest líkjast því sem þeir höfðu upplifað áður í sinni skólagöngu. Er þetta "kerfið" (hvað s.s. það er) að verki eða er eitthvað annað eða meira sem vinnur gegn breytingum á menntun?

Menntunarfræðingurinn þekkti Michael Fullan hefur, að ég tel réttilega, haldið því fram að "Educational change is cultural change." Þ.e.a.s. að til þess að ná fram raunverulegum breytingum í menntakerfinu þarf að breyta hugmyndum stjórnenda, stefnumótenda, almennings og nemenda um hvað menntun er og hvers vegna hún er stunduð. Reynslan hefur sýnt að engin tækni ein og sér breytir menntun nema að henni fylgi vilji til að breyta og skilningur á því hvers vegna þurfi að breyta. Ég hef ekki getað séð að spjaldtölvuvæðingin sem nú er að hefjast í íslenskum skólum byggist á vilja til að breyta. Nefni ég sérstaklega ummæli skólastjórnenda í Vogaskóla þegar þar var verið að taka í notkun Kindle spjaldtölvur um að tæknin var valin sérstaklega með það í huga að hún takmarkaði notkunarmöguleika. Ég held því að Hjálmar sé full bjartsýnn í þessum málum. Sjálfur ætla ég að bíða með byltingaryfirlýsingar þangað til ég sé raunveruleg merki um breytingu.

Snjallsímar notaðir til að svindla: Er lausnin að leyfa upplýsingatækni í prófum?

Nokkrir ónefndir háskólanemar rituðu grein sem birtist á Eyjan.is í dag þar sem þeir uppljóstra um það að sumir nemendur nota snjallsíma til að svindla á prófum í HÍ. Greinarhöfundar segja að tilgangur prófa er að "prófa þekkingu nemenda". Því sé þetta háalvarlegt mál þar sem það mismunar nemendum í prófum - þ.e.a.s. að þeir sem hafa snjallsíma og nota þá til að svindla hafa forskot yfir aðra sem gera það ekki. Mögulegar lausnir eru að banna síma í prófum eða þá að hafa munnleg próf í stað skriflegra. Ég set stór spurningamerki við mat höfunda á tilgangi prófa og hvað vandamálið sé og hvort raunverulega er um vandamál að ræða.

E.o. áður segir telja greinarhöfundar að tilgangur prófa sé að kanna þekkingu nemenda. Í heimi þar sem breytingar verða sífellt örari er spurning hversu gagnlegt er að prófa þekkingu með þessu móti. Hvaða gagn er t.d. í því að kanna hvort laganemi geti lært lagabókstaf á minnið til að geta gúlpað því út úr sér á prófi þegar lög breytast sífellt? Ef þetta er raunverulega tilgangur prófa þá þarf að endurskoða prófin. Í breytilegum heimi skiptir ekki máli hvað nemandi getur lagt á minnið, heldur frekar hæfni hans til að afla sér og nýta upplýsingar til lausnar á tilteknum viðfangsefnum. Þetta reynir mjög á getu nemanda til að skipuleggja tímann sem hann hefur til að leysa prófverkefni og þekkingu hans á þeim gögnum sem nýtast við lausn verkefnisins.

Ef tilgangur prófa er e.o. ég hef lýst (sem er gagnlegri að mínu mati) þá held ég að vandamálið sé ekki að tilteknir nemendur noti upplýsingatækni til að svara prófspurningum heldur að flestir nemendur gera það ekki. Lausnin er því einföld - þ.e. einfaldlega að leyfa öllum nemendum að nota upplýsingatækni, hvort sem það er snjallsími eða tölva, í prófum og laga prófin að dýnamísku nútíma þekkingarsamfélagi.

Í raun finnst mér eitt það sorglegasta við þessa grein að þessir háskólanemar skulu vera svo heilaþvegnir af úreltum prófmiðuðum hugsunarhætti að þeim finnist eina lausnin í stöðunni vera að leita leiða til að viðhalda gamaldags aðferðunum. Samfélag nútímans er ört að breytast og það er fyrst og fremst þróun upplýsingatækni sem veldur þessum breytingum. Það virðist vera sterk tilhneiging, sér í lagi þegar kemur að menntamálum, að streitast á móti þessum breytingum. Þessi grein sýnir að það er ekki bara við stjórnendur og kennara að sakast heldur virðast margir nemendur vera fastir í úreltum hugsunarhætti líka. Ef nokkuð er þá staðfestir þetta mál og hvernig greint er frá því fullyrðingar Michael Fullans um að breytingar á menntakerfi krefjast umfangsmikilla samfélagslegra og menningarlegra breytinga til að ná tilætluðum árangri.


Facebook í skólum? Auðvitað!

Vísir.is er með brot úr viðtali við Vilborgu Einarsdóttur í Mentor í dag þar sem hún segir m.a. að Facebook ætti að nýtast í námi. Það ætti ekki að koma þeim á óvart sem kannast við skrif mín að ég er fullkomlega sammála henni. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að afturhaldsemi skólafólks varðandi tækni er að skapa gjá milli þeirra og nemenda sem leiðir til þess að nemendur sjái síður tilgang í formlegri menntun. Áhugaverð grein Ásgríms Hermannssonar, ungs menntskælings, sem birtist nýlega bendir til þess að íslenskt skólafólk má vel fara að huga að þessum málum líka. Að læra er félagsleg athöfn og skólar þurfa því að taka mið af félagslegum veruleika ungs fólks við mótun umhverfis sem er ætlað að hvetja til náms. Norskt skólafólk hefur loks áttað sig á þessu og er að taka sig á í þessum málum. Persónulega finndist mér skynsamlegt að fella það undir hlutverk skóla að hvetja ungt fólk til að nota félagslega miðla á uppbyggilegan hátt til að auka sína þekkingu og meðvitund um persónusköpun á netinu.

En hvernig er best að nota Facebook og svipaða tækni í skólum? Satt að segja veit ég það ekki. En miðað við það sem Ásgrímur segir í fyrrnefndri grein væri kannski ekki vitlaust að byrja á því að spyrja nemendurna sjálfa. Ég efast ekki um að Ásgrímur og hans félagar luma á mörgum góðum hugmyndum.

Hér eru tenglar á ýmsar greinar þar sem kennarar lýsa því hvernig þeir nota félagslega miðla í skólastarfi:

Ten ways schools are using social media effectively

Teens & social networking in school & public libraries [PDF skjal] (komið svolítið til ára sinna en góðar hugmyndir samt - þarf að bara að skipta út "myspace" með "facebook")

How to use social networking technology for learning

Framsýni - hvaða framsýni?

Það er ekki spurning um að "passa [okkur] að dragast ekki aftur úr" heldur hvernig við ætlum að bæta upp fyrir það sem við höfum þegar misst. Ég hef bent á það oft hér á blogginu mínu að Íslendingar hafa stöðugt verið að dragast aftur úr vinaþjóðum síðan við toppuðum aðrar þjóðir í alþjóðlegum samanburðum kringum 2004-5. Í dag eru nettengingar á Íslandi með þeim hægustu og dýrustu meðal OECD þjóða. 100 Mb tengingar eru nú þegar í boði í flestum OECD ríkjum og á töluvert betra verði en gerist á Íslandi. Lönd e.o. Svíþjóð eru komin langt fram úr okkur og þar er hægt að fá allt upp í 1 Gb tengingar. Það væri því áhugavert að fá nánari útlistun á þeirri "framsýni" sem nefnd er í greininni. Að stefna að því að komast upp í það sem þegar er orðið norm í öðrum löndum felur í sér litla framsýni að mínu mati.


downloadspeeds_1118290.pngVið verðum vör við sífellt örari breytingar í heiminum sem langflestar tengjast eða eru afleiðingar þróunar á upplýsingatækni (UT). Á Íslandi virðist algjörlega vanta framsýni í UT málum og við erum að sjá afleiðingarnar í fyrrnefndum alþjóðlegum samanburðum. Mest er þetta áberandi í tengslum við menntamál (eða kannski fylgist ég bara mest með þeim). MMR gaf síðast út stefnuskrá um UT í menntun fyrir 2005-2008. Sú stefna var innihaldslítil og má í raun segja að hún hafi fallið gleymsku áður en hún komst í framkvæmd. Engin stefna hefur komið frá MMR síðan.


mbl.is Haldi í við tæknina þrátt fyrir minna fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innleiðing frjálss hugbúnaðar í framhaldsskólum

Það er mjög ánægjulegt að heyra að skólar landsins eru loksins að auka notkun á frjálsum hugbúnaði. Frjáls hugbúnaður hefur marga kosti fram yfir sérleyfishugbúnað, t.d.:
  • hann er ódýrari - hugbúnaðurinn kostar ekkert og það eru engin leyfisgjöld
  • hann er sveigjanlegri - notendur hafa frjálsan aðgang að tölvukóðanum og geta breytt honum að vild
  • hann er öruggari - frjáls aðgangur að kóða eykur gegnsæi og villur finnast fljótt og eru fyrr lagaðar

Þrátt fyrir að þetta eru jákvæð skref er í raun ótrúlegt hvað það hefur tekið langan tíma fyrir skólafólk að viðurkenna frjálsan hugbúnað sem raunhæfan valmöguleika. Það kemur þó ekki mikið á óvart miðað hvernig umræðunni um notkun frjáls hugbúnaðar í skólum var háttað fyrir 5-10 árum (t.d. að láta aðila sem byggir afkomu sína á sérleyfishugbúnaði að framkvæma "mat" á frjálsum hugbúnaði - á hér sérstaklega við (ó)fræga skýrslu sem Halldór Kristjánsson, framkvæmdastjóri Tölvu- og verkfræðiþjónustunnar, vann fyrir menntamálaráðuneytið fyrir ca. 8 árum).

Það væri áhugavert að vita hvaða hugbúnað er verið að nota í þessum skólum. Nú er svo komið að það er hægt að fá frjálsan hugbúnað til að framkvæma vel flest það sem sérleyfishugbúnaður hefur verið notaður í til þessa. Bendi sérstaklega á vefinn OSALT.COM þar sem auðvelt er að finna frjálsan hugbúnað sem kemur í stað sérleyfishugbúnaðar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband