Snjallsímar notaðir til að svindla: Er lausnin að leyfa upplýsingatækni í prófum?

Nokkrir ónefndir háskólanemar rituðu grein sem birtist á Eyjan.is í dag þar sem þeir uppljóstra um það að sumir nemendur nota snjallsíma til að svindla á prófum í HÍ. Greinarhöfundar segja að tilgangur prófa er að "prófa þekkingu nemenda". Því sé þetta háalvarlegt mál þar sem það mismunar nemendum í prófum - þ.e.a.s. að þeir sem hafa snjallsíma og nota þá til að svindla hafa forskot yfir aðra sem gera það ekki. Mögulegar lausnir eru að banna síma í prófum eða þá að hafa munnleg próf í stað skriflegra. Ég set stór spurningamerki við mat höfunda á tilgangi prófa og hvað vandamálið sé og hvort raunverulega er um vandamál að ræða.

E.o. áður segir telja greinarhöfundar að tilgangur prófa sé að kanna þekkingu nemenda. Í heimi þar sem breytingar verða sífellt örari er spurning hversu gagnlegt er að prófa þekkingu með þessu móti. Hvaða gagn er t.d. í því að kanna hvort laganemi geti lært lagabókstaf á minnið til að geta gúlpað því út úr sér á prófi þegar lög breytast sífellt? Ef þetta er raunverulega tilgangur prófa þá þarf að endurskoða prófin. Í breytilegum heimi skiptir ekki máli hvað nemandi getur lagt á minnið, heldur frekar hæfni hans til að afla sér og nýta upplýsingar til lausnar á tilteknum viðfangsefnum. Þetta reynir mjög á getu nemanda til að skipuleggja tímann sem hann hefur til að leysa prófverkefni og þekkingu hans á þeim gögnum sem nýtast við lausn verkefnisins.

Ef tilgangur prófa er e.o. ég hef lýst (sem er gagnlegri að mínu mati) þá held ég að vandamálið sé ekki að tilteknir nemendur noti upplýsingatækni til að svara prófspurningum heldur að flestir nemendur gera það ekki. Lausnin er því einföld - þ.e. einfaldlega að leyfa öllum nemendum að nota upplýsingatækni, hvort sem það er snjallsími eða tölva, í prófum og laga prófin að dýnamísku nútíma þekkingarsamfélagi.

Í raun finnst mér eitt það sorglegasta við þessa grein að þessir háskólanemar skulu vera svo heilaþvegnir af úreltum prófmiðuðum hugsunarhætti að þeim finnist eina lausnin í stöðunni vera að leita leiða til að viðhalda gamaldags aðferðunum. Samfélag nútímans er ört að breytast og það er fyrst og fremst þróun upplýsingatækni sem veldur þessum breytingum. Það virðist vera sterk tilhneiging, sér í lagi þegar kemur að menntamálum, að streitast á móti þessum breytingum. Þessi grein sýnir að það er ekki bara við stjórnendur og kennara að sakast heldur virðast margir nemendur vera fastir í úreltum hugsunarhætti líka. Ef nokkuð er þá staðfestir þetta mál og hvernig greint er frá því fullyrðingar Michael Fullans um að breytingar á menntakerfi krefjast umfangsmikilla samfélagslegra og menningarlegra breytinga til að ná tilætluðum árangri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það sorglega við þessa færslu er að þú ert að benda á leið sem bent er á í umræddri grein. Málið snýst um jafnræði í prófum, þú ert nú varla á móti því?

Ein af þeim hugmyndum að lausnum sem greinarhöfundar benda á eru gagnapróf sem getur þá m.a. falist í því að hafa aðgang að rafrænum upplýsingum.

Jóhann (IP-tala skráð) 13.11.2011 kl. 23:11

2 Smámynd: Tryggvi Thayer

Ég veit ekki betur en að ég sé einmitt að tala um jafnræðisvinkilinn í þessu. Þessi hugmynd um "gagnapróf" nær ekki langt. Hún kollvarpar s.s. ekki úreltum hugmyndum um próf almennt e.o. greinarhöfundar setja hana fram.

Tryggvi Thayer, 14.11.2011 kl. 03:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband