Kindle tölvur í Vogaskóla: Var tæknin sérstaklega valin til að takmarka aðgengi að tækni?

Í frétt á visi.is í dag er sagt frá því að í Vogaskóla verða Kindle spjaldtölvurnar frá Amazon.com notaðar fyrir rafrænt námsefni á þessari vorönn. Frábært framtak og í raun mesta furða að þetta hafi ekki verið gert áður. Íslensk skólabókaútgáfa er auðvitað ansi erfið vegna mikils kostnaðar og lítils markaðar og ljóst að rafrænar bækur geta breytt ansi miklu þar um.

Það er þó miður hvernig sagt er frá þessu verkefni í frétt vísis.is sem einkennist af skeptískum mýtum og ranghugmyndum um tengsl upplýsingatæknis og lærdóms. Það er engin leið að vita hvort þetta sé frá skólafólki komið eða illa upplýstum blaðamanni. Sagt er í fréttinni að Kindle tölvurnar tölvur voru valdar meðal annars vegna þess að þær "[henta] eingöngu til lestrar, svo nemendur geta ekki laumað sér á Fésbókina eða leikjasíður." Já, þvílík hörmung væri það ef skólinn færi að fjárfesta í nýrri tækni sem ungt fólk mundi síðan bara nota til þess að vafra um á vefsíðum sem það notar til þess að skiptast á upplýsingum og skoðunum með sínum jafnöldrum og þ.a.l. fræðast um efni sem skiptir það máli. Er það raunin að valið á tækni í þessu tilviki miðast m.a. við að takmarka notkunarmöguleika á upplýsingatækni? Það finndist mér merki um mikla skammsýni og skort á kjarki til að innleiða raunverulegar og þarfar breytingar á því hvernig við menntum ungt fólk í dag.

Ein spurning sem vakir fyrir mér í tengslum við þessa frétt er þessi: Ef nemandi við Vogaskóla á þegar tæki sem keyrir Kindle hugbúnað, e.o. snjallsíma, lófatölvu, spjaldtölvu, o.s.frv., getur hann notað sitt eigið tæki eða ætlar skólinn að banna honum það og gefa honum frekar Kindle tölvu (nýlegar rannsóknir sýna að um 95-99% af 15 ára krökkum á norðurlöndum eiga minnst eitt slíkt tæki)? Er það ekki bara peningasóun (og ég tala ekki um glataða tækifærið til að sýna nemendum hvernig hægt er að nota eigin tæki til að auka sína þekkingu á skipulagðan hátt)?

Uppfærsla: Guðmundur Rúnar Árnason tjáði mér á Facebook að skólastjóri Vogaskóla notaði þessa rökfærslu, þ.e.a.s. að tæknin er valin með það í huga að takmarka aðgengi að tækni, í hádegisfréttum í dag. Undarlegur hugsunarháttur að mínu mati.

Ég er greinilega ekki einn um að finnast eitthvað bogið við þessa frétt. Ragnar Þór Pétursson skrifar um sama efni hér.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband