Er brottfall í HÍ bara stúdentum að kenna?

Ólafur Þ. Stephensen blandar sér í umræðuna um að taka upp inntökupróf í einhverjum deildum HÍ í leiðara á visi.is í dag. Það er margt athyglisvert í grein hans, sérstaklega varðandi rökin sem hann telur upp fyrir því að taka upp inntökupróf. Ef þetta eru raunverulega rökin fyrir þessu og ekki bara einhver misskilningur hjá Ólafi þá held ég að það sé eitthvað verulega að þessari umræðu.

Það sem vekur helst athygli í grein Ólafs er að sök vegna brottfalls stúdenta í HÍ er alfarið skellt á stúdentana sjálfa. Möguleikanum að eitthvað sé ábótavant í kennslu í HÍ virðist ekki vera til umræðu. Þó höfum við vísbendingar um að ungt fólk vilji og þurfi nýjar leiðir í náminu sínu sbr. grein ungs stúdents við MS sem vakti mikið umtal á síðasta ári. Kannski er vandinn bara sá að námsfyrirkomulag við HÍ er orðið úrelt og ekki í takti við þarfir og væntingar nútímastúdenta. Ég hef ekki séð, hvorki hjá Ólafi né öðrum sem hafa fjallað um þetta mál, neinar vísbendingar um það að ástæður fyrir miklu brottfalli í HÍ hafi verið rannsakaðar með skipulögðum hætti. Spurning er þá hvort inntökupróf séu til þess ætluð að sporna við miklu brottfalli eða hreinlega að komast hjá því að leggjast í þarfar breytingar til að sníða námi að þörfum nútímastúdenta?

Annað sem mér þykir afar athyglisvert í grein Ólafs er tilvísun hans í markmið HÍ að verða meðal 100 bestu háskóla heims sem rök fyrir því að það þurfi að taka upp inntökupróf! Þarna virðist það markmið núna trompa lagalegar skyldur HÍ um að stuðla að menntun og þróun vísinda á Íslandi.

Það fer ekki milli mála að brottfall er mikið í HÍ og eitthvað þarf að gera. Væri ekki réttast að beita vísindalegum aðferðum til að greina vandamálið og finna viðeigandi lausnir frekar en að skella allri skuldinni á stúdenta og ana útí skyndilausnir sem bitna fyrst og fremst á Íslendingunum sem HÍ er ætlað að þjóna?

*** Eftir að ég birti þessa færslu var mér bent á fyrirhugað málþing í HÍ um þessi mál sem vert er að benda á. ***

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband