Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Upplýsingatækni í menntun - þörf fyrir forsýn og langtíma áætlanagerð

Sjá fjölda greina um upplýsingatækni, forsýn og langtíma áætlanagerð fyrir menntun á enska blogginu mínu.

Sóknaráætlun 20/20 er ætlað að veita stefnumótendum innsýn í væntanlega framtíðarþróun, eða þá æskilega þróun, sem hefur áhrif á langtíma áætlanagerð. Slíkar áætlanir hafa verið kallaðar forsýn (e. foresight), eða tæknileg forsýn (e. technology foresight) þar sem áhersla er á tæknilega þróun. Slík verkefni hafa notið vaxandi vinsælda víða um heim, þó sérstaklega í Evrópu. Á tíunda áratug síðustu aldar var meira um tæknilega forsýn þar sem áhersla var lögð á mótun stefnu varðandi ráðstöfun opinbers fjár fyrir rannsóknir og nýsköpun. Á síðustu 10 árum hefur aðferðin verið notuð í auknu mæli fyrir langtíma áætlanagerð á ýmsum stefnumótunarsviðum, ekki síst í menntun. Vaxandi áhugi á forsýn í Evrópu undanfarið er mest vegna hvatningar ýmissa stofnana ESB og annarra alþjóðlegra stofnana til að auka langtíma áætlangerð. Hjá ESB er sérstaklega að nefna fjölmörg verkefni á vegum Joint Research Centre - Institute for Prospective Technological Studies (JRC-IPTS) sem miða að því að kynna forsýn og auka hæfni stefnumótenda til að beita aðferðum sem stuðla að langtíma áætlanagerð.

Í menntun hefur forsýn fyrst og fremst verið notuð í tengslum við stefnumótun fyrir háskóla vegna tengsla háskóla við rannsóknaumhverfinu sem forsýn er sprottin úr. Notkun forsýnar fyrir almenna mótun menntastefnu hefur þó farið vaxandi undanfarin áratug. Má sérstaklega nefna verkefni OECD "Schooling for Tomorrow", sem fjöldi landa hefur tekið þátt í (því miður er Ísland ekki meðal þeirra).

Undanfarið hef ég skrifað fjölda greina á enska blogginu mínu um tæknilega forsýn og mótun menntastefnu, enda snýst doktorsverkefnið mitt um það. Ég vildi gjarnan skrifa meira hér á þessu bloggi um forsýn en því miður sjaldan haft tíma til þess. En ég hvet þá sem hafa áhuga á forsýn og langtíma áætlanagerð fyrir menntun að kynna sér efnið sem þar er. Ég hef sérstaklega reynt að vera duglegur að setja inn tengla og tilvísanir á gagnlegt lesefni og rannsóknir.


Árleg ráðstefna 3f - framtíðin sem var í gær?

Nú styttist í árlegu ráðstefnu 3f, félags um upplýsingatækni og menntun, sem verður haldinn 11. mars. Ég kemst ekki á ráðstefnuna frekar en fyrri daginn þar sem mér þykir erfitt að réttlæta ferð yfir hálft haf til að komast á eins dags ráðstefnu. Það er leitt að missa af þessu þar sem mér þykir þetta mjög mikilvægur vettvangur fyrir skoðanaskipti milli kennara, tæknifólks og annarra. Ráðstefnur 3f fylla það stóra skarð sem skapaðist þegar UT ráðstefnunar sálugu lögðust af. Ég hef þó eitt og annað að athuga við ráðstefnuhaldið að þessu sinni.

Fyrst er það yfirskriftin, "Framtíðin er núna". Þarna er auðvitað verið að leika sér með orðin en segjum alveg eins og er, ef maður tekur þessu bókstaflega er þetta villandi og, að ég held, ekki rétt skilaboð. Það er afskaplega fátt meðal dagskrárliðana sem hefur eitthvað með framtíðina að gera. Ég hefði frekar kosið eitthvað eins og, "Framtíðin er handan við hornið", "Nú styttist í framtíðina", "Framtíðin mótast núna", eða eitthvað á þá leið - og hafa þá dagsrárliði þar sem fjallað er um framtíðina. Fá sérfræðinga til ræða um t.d. hvaða þróun má gera ráð fyrir í upplýsingatækni á næstu fimmtán árum, og hvernig skólahald breytist með tilkomu slíkrar tækni. Það er engin fjarstæða að hugsa svona langt fram í tímann og má reyndar líta á þetta sem fremur stutt tímabil í samhengi skólahalds. Stefnumótun tekur minnst nokkur ár. Það þarf að undirbúa kennaramenntun sem tekur nú fimm ár. Þau börn sem byrja í 1sta bekk í haust verða nýstiginn út á vinnumarkað eftir 15 ár. 15 ár er ekki langur tími í skólastarfi en 15 ár er framtíð og er ekki núna. Þeim mun örar sem tækni þróast er þeim mun brýnna að beina sjónum okkar að framtíðinni og vinna skipulega að langtíma áætlunum. Ráðstefna e.o. þessi er kjörið tækifæri til að móta sýn okkar á framtíðinni en þá þarf það að gerast á markvissan hátt.

Í öðru lagi sýnist mér tæplega helmingur dagskrárliða vera vörukynningar frá fyrirtækjum. Ég skil það vel að það kostar sitt að skipuleggja svona ráðstefnu og að tekjur félags e.o. 3f nægja varla til að mæta slíkum kostnaði. Það er því óhjákvæmilegt að hleypa styrktaraðilum að, en það er fátt sem fer jafnmikið í taugarnar á mér og að mæta á ráðstefnu sem reynist síðan vera að miklu leyti dulin auglýsing fyrir tiltekna aðila. Þarna hefði mátt gera skýrari greinarmun á vörukynningum og þeim kynningum sem snúa raunverulega að vísindalegri þróun og miðlun þekkingar um upplýsingatækni í skólastarfi.

Merkilegur viðburður í sögu tölvutækni að hefjast í kvöld

Í dag (og reyndar næstu tvo daga) verður einn merkasti viðburður í sögu tölvutækninnar og gervigreindar. Ný ofurtölva IBM, sem hefur fengið heitið "Watson", mun keppa í Bandaríska sjónvarpsspurningaleiknum Jeopardy. Tölvan keppir á móti tveimur sterkustu leikmönnum sem hafa tekið þátt í Jeopardy fyrr eða síðar.

Jeopardy er ekki auðveldur leikur. Spurningarnar geta verið mjög snúnar og fela gjarnan í sér orðaleiki og tvískinnung. Þær reyna því verulega á getu keppenda til að skilja óljósar spurningar og að geta kallað fljótt fram svör úr mjög breiðum þekkingargrunni. Watson hefur auðvitað mjög breiðan þekkingargrunn. Það er búið að mata hann af alls kyns upplýsingum um allan fjandann og hann getur farið mjög fljótt í gegnum þekkingargrunninn sinn til að finna upplýsingarnar sem hann þarf. Vandi tölvusmiðana er, hins vegar, að tölvur eru einstaklega lélegar þegar kemur að því að skilja mennskt mál. Tölvur eiga erfitt með að skilja samhengi í daglegu máli. Þetta háði Watson í byrjun og tölvusmiðir voru að því komnir að gefast upp á verkefninu á köflum út af því. En þeir virðast hafa náð að finna út úr því því Watson hefur gengið ótrúlega vel í æfingaleikjum undanfarna mánuði.

Þættirnir með Watson verða sjónvarpaðir á NBC sjónvarpsstöðum í Bandaríkjunum, þegar kl. er 17.30 á austurströndinni 14-16 febrúar (þ.e.a.s. í dag, á morgun og á miðvikudaginn). Ég veit s.s. ekki hvort íslendingar munu geta fylgst með keppninni. Ef ekki verður hægt að fylgjast með beint á netinu þá efast ég ekki um að leikirnir verða komnir á netið fljótlega þar á eftir.

Hér er vefur IBM um Watson. Þar er að finna áhugaverðar upplýsingar og myndskeið þar sem er m.a. sýnt frá æfingaleikjum Watsons.

Hér er vefur Jeopardy spurningaleiksins.

Tjáningafrelsi, upplýsingaflæði og ný stjórnarskrá

Aðgerðir stjórnvalda í Egyptalandi til að takmarka Internet notkun í landinu meðan óeirðir geysuðu í helstu borgum landsins vekja ýmsar spurningar varðandi fyrirhugað stjórnlagaþing og endurskoðun stjórnarskrár Íslands.

Egypsk yfirvöld beittu mjög óvanalegri aðferð til að loka á netsambandi Egyptalands við umheiminn
. Í stað þess að loka á ákveðin vefsvæði eða netþjónustur, eins og er t.d. gert í Kína og víðar, voru upplýsingar sem stýra umferð um egypsk netsvæði fjarlægðar af netinu (svokallaðar "Internet routing tables" sem eru notaðar fyrir BGP samskipti milli beina). Þetta gerir það að verkum að ef reynt er að komast í samband við egypska netið, hvort sem er með netnafni (domain name) eða IP tölu, eru engar upplýsingar um hvaða leið beiðni um upplýsingar á að fara. Eins og sumir hafa orðað það, þá hreinlega hvarf egypska netsvæðið af netinu.

Spurningin sem vakir fyrir mér er þessi: Myndu ákvæði í núgildandi stjórnarskrá um tjáningafrelsi ná til aðgerðar e.o. þeirrar sem egypsk stjórnvöld beittu? Og, ef ekki ættu þau að gera það?

Ég held að þetta sé ekki einföld spurning. Þetta er ekki bara spurning um tjáningafrelsi, heldur mætti líka spyrja t.d. hver á og/eða ræður yfir upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að tryggja upplýsingaflæði um netið?

Er þetta eitthvað sem ætti heima í nútíma stjórnarskrá?

Ísland enn á niðurleið - staðnandi upplýsingasamfélag

Árin 2004 og 2005 var Ísland í 2. sæti á Network Readiness listanum og hefur verið á nokkuð stöðugri niðurleið síðan (sjá lista fyrri ára hér). Þetta skýrist að einhverju leyti af því að lönd eins og Hong Kong og Taívan hafa verið að færast upp en er líka vegna breytinga á því hvernig vísitalan er reiknuð. Það þarf samt að hafa í huga að á árunum 2004 og 2005 var meðvituð uppbygging upplýsingasamfélags á Íslandi enn í hámarki. Minni áhersla hefur verið lögð á markvissa uppbyggingu á Íslandi síðan. Þetta sést í upplýsingastefnu yfirvalda síðan 2004 sem hefur verið ómarkvissari og skilað minni árangri en á fyrstu árum 21. aldar (sjá t.d. úttekt á framkvæmd stefnu um upplýsingasamfélagið 2004-07 hér). Því miður virðast íslensk stjórnvöld ekki átta sig fyllilega á því hvernig upplýsingasamfélaginu er háttað og hafa þ.a.l. leyft sér að líta svo á að uppbygging þess hafi verið afmarkað tímabundið verkefni. Eftirfylgnin hefur að mestu gleymst og það er farið að sjást glögglega á Network Readiness listanum.
mbl.is Svíar tæknivæddasta hagkerfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunveruleg breyting?

Ég er svolítið skeptískur á þessar niðurstöður, þ.e. að breytingin sé eins mikil og verið er að láta. Skrifaði um þetta hér (á ensku).
mbl.is Bandarískir unglingar draga úr bloggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir grunnskólanemendur í opinberum skólum í Úrúgúæ fá ferðatölvu

Skólayfirvöld í Úrúgúæ hafa lokið afhendingu XO ferðatölva til grunnskólanemenda landsins. Endanlegur fjöldi ferðatölva var samtals 396.727 eintök. Verkefninu er þó ekki lokið því enn á eftir að tengja suma skóla og þjálfun kennara heldur áfram.

Það er áhugavert að heildarkostnaður að meðtöldu ferðatölvum, viðhaldi, netsambandi og þjálfun kennara nemur aðeins 5% af heildarfjárútlátum yfirvalda til menntamála. Samt eru fjárútlát yfirvalda í Úrúgúæ töluvert lægri en í mörgum þróuðum löndum.

Til hamingju skólabörn í Úrúgúæ.

Aðgangur að háhraðaneti lögbundin réttindi í Finnlandi

Samkvæmt nýjum lögum í Finnlandi hafa allir Finnar rétt á aðgangi að breiðbandi. Það hefur verið markmið alþjóðlegra stofnana á borð við Sameinuðu Þjóðanna að aðgangur að samskiptatækni verði skilgreind sem mannréttindi allt frá því að MacBride skýrslan s.k. (titill: Many Voices One World) kom út 1980. Nokkur lönd hafa skilgreind aðgang að samskiptatækni sem mannréttindi, e.o. Frakkland, Eistland o.fl. en Finnar eru þeir fyrstu sem lögbinda þau réttindi. Svo þykir það einnig mjög framsækið að Finnar ganga svo langt að gera aðgang að breiðbandi. 3 húrra fyrir Finna!

OECD vill álit þitt á framtíð netsins

Þetta er nú áhugavert - OECD er að undirbúa ráðherrafund sem verður haldinn í Seoul, S-Kóreu 17-18. júní undir yfirskriftinni "The Future of the Internet: Shaping Policies for Creativity, Confidence and Convergence in the Digital World". Í því tilefni hafa OECD og YouTube efnt til átaks og býður öllum að segja og/eða sýna það sem þeir vilja koma á framfæri um framtíð netsins. Bestu myndskeiðin verða valin og sýnd á fundinum í Seoul og fundargestir hvattir til að bregðast við því sem almenningur hefur sent inn.

Það er ca. vika síðan OECD tilkynnti þetta en nú eru ekki komnar nema 10 athugasemdir inn á YouTube síðuna þeirra (og mikið af því á austurlenskum tungumálum sem ég skil ekki). Verst að skólarnir skulu vera búnir. Þetta hefði verið fyrirtaks verkefni fyrir þá.

Intel Classmates tölvur - bara barnaleikur?

Fyrir nokkru sagði ég frá grein á vef BBC um reynslu 9 ára gamals krakka af XO ($100) ferðatölvu MIT. Nú hefur sami krakkinn fengið að prófa og meta Intel Classmate tölvuna sem hefur keppt við XO. Athyglisverðar niðurstöður.

Tölvurnar tvær eru í harðri samkeppni um nýja markaði í þróunarlöndum en byggjast á gerólíkri hugmyndafræði. MIT vill setja tæknina í hendur barna og leyfa þeim að fikra sig áfram. Intel vill mennta kennara til að nota tæknina í kennslustofunni með nemendum. Ef haft er í huga að markmið beggja aðila er að stuðla að menntun barna virðist XO hafa betur, eða hvað?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband