Færsluflokkur: Menning og listir

Listamannalaun og gildi óheftrar sköpunar

seurat_childÞessi umræða um listamannalaun sem sprettur nú upp á hverju ári veldur mér miklum áhyggjum. Aðallega er það vegna þess að margir þeir sem tjá sig um þau (jafnvel listamenn sjálfir og þeir sem hafa ákvörðunarvald á þessu sviði) virðast misskilja tilgang þeirra, eða vilja ala á misskilningi meðal almennings. Misskilningurinn felst fyrst og fremst í því að líta á (eða skilgreina) alla framleiðslu listamanna sem markaðsvöru og að gildi framleiðslunnar er að öllu leyti háð móttöku markaðarins. Ef þetta er raunin þá meikar alveg sens að velta fyrir sér hvort rétt sé að halda einhverjum uppi meðan hann framleiðir eitthvað sem fær kannski ekki góðar móttökur á opnum markaði. En ég held að þetta sé ekki rétt. Hlutverk listamannalauna, eins og hlutverk margra styrkja til vísindalegra rannsókna, er einmitt að gera listamönnum kleift að stunda sína sköpun óháð þrýstingi frá markaðsöflum hverju sinni. Rökin fyrir því að samfélagið skuli kosta svona vinnu er að slíkt getur (og gerir oft) leitt til jákvæðra breytinga og nýsköpun yfir lengri tíma.

Ég þekki ágætlega til í heimi listsköpunar þar sem allir í minni fjölskyldu (fyrir utan mig) eru menntaðir í og starfa við listsköpun. Hins vegar þekki ég betur til í heimi rannsókna og fræðimennsku, þar sem ég starfa. Þannig að þó svo að umræðan snúist um listsköpun ætla ég að leyfa mér að útskýra mitt sjónarhorn á þessum málum út frá rannsóknum og fræðistörfum með smá listaívafi. Að mínu mati er ekki langt á milli þessara tveggja heima (sjá meira um það hér). Bæði listamenn og fræðimenn hafa það að markmiði að skapa nýja merkingu og þekkingu til að lýsa umhverfina sem við upplifum dags daglega. Þeir gera það bara hver á sinn hátt. Það sem á eftir kemur byggir að miklu leyti á rannsóknum Martin & Irvine (1984), sem mér finnst vera ein besta og hlutlausasta framsetning og greining á málinu.

Spurningin sem um ræðir er þessi: Hvort gagnast samfélaginu mest, að setja opinbert fé í grunnrannsóknir („pure research”) eða hagnýtar rannsóknir („applied research”)? Grunnrannsóknir eru þær sem eru unnar fyrst og fremst til að svala forvitni og þekkingarþörf fræðimanna. Grunnrannsóknir snúast gjarnan um það að skapa eða styrkja fræðilegar kenningar án sérstaks tillits til þess hvort þær leiði til afurða eða þjónustu sem nýtist almenningi. Hagnýtar rannsóknir snúast hins vegar um það að skapa afurðir eða þjónustu á grundvelli fræðilegrar þekkingar sem nýtist samfélaginu og taka því tillit til markaðsafla. Sem dæmi um þetta tvennt:

  • Grunnrannsóknir: Klassíska dæmið um grunnrannsóknir er afstæðiskenning Einsteins. Á sínum tíma hafði afstæðiskenningin vissulega mikil áhrif á heimsmyndina en hafði lítið sem ekkert auðsjáanlegt notagildi með tilliti til daglegs lífs almennings.
  • Hagnýtar rannsóknir: Eitt skýrasta dæmið um hagnýtar rannsóknir eru lyfjaprófanir. Þar er markmiðið að nota vísindi til að skapa vöru sem nýtist almenningi á mjög áþreifanlegan hátt.

Það er ekki algengt, held ég, að listamenn eða aðrir skilgreini listsköpun með sömu hugtökum og ég nota hér fyrir ofan en ég held að eðli sköpunarinnar er samt nógu lík til að láta samlíkinguna ganga upp.

Listamenn taka þátt í orðræðu sín á milli sem snýst um að kanna hvernig er hægt að nota hina ýmsu listrænu miðla (t.d. tungumálið, tónmál, litir, línur, rými, o.s.frv.) til að tjá sína sýn. Þessi þáttur í listsköpuninni líkist grunnrannsóknum. Góður rithöfundur hefur t.d. líklega gert margar tilraunir til að lýsa sögupersónu á sannfærandi hátt og nýtt til þess fyrirmyndir úr listasögunni. Fæstar tilraunirnar enda í bókum viðkomandi en eru samt sem áður nauðsynleg forsenda þess að eitthvað prenthæft verði til. Þennan hluta listasköpunarinnar er ekki hægt að meta út frá arðsemissjónarmiðum nema yfir lengri tíma. Útkomur tilraunanna sem listamaðurinn gerir skila sér kannski ekki í næsta verki, og jafnvel ekki í þarnæsta, og kannski aldrei. En þær hafa samt sem áður sitt gildi vegna þess að þær eiga erindi í orðræðu listamanna og auka þar almenna þekkingu í nærsamfélaginu og jafnvel víðar.

Þegar rithöfundur skrifar bók sem á að fara í sölu notar hann þá þekkingu sem hefur skapast með ótal tilraunum til að búa til verk sem líklegt er til að seljast - eins og þegar fræðimenn framkvæma hagnýtar rannsóknir. Þá skipta markaðsöflin máli. Rithöfundurinn (eins og aðrir listamenn) þarf að geta sett þá þekkingu sem er til staðar varðandi sköpunina í samhengi sem henntar almenningi. Annars skapar verkið ekki tekjur og kostnaðurinn fellur á listamanninn eða aðra.

Í vísindum hefur verið deilt um það hvort sé mikilvægara með tilliti til nýsköpunar, grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir. Á sama hátt getum við spurt hvort sé mikilvægara fyrir nýsköpun í listum, skapandi vinnan eða framleiðsla listavara? Pólana tvo skilgreina Martin & Irvine, sem ég nefndi áður, þannig (meira um þetta hér):

  • „Science-push”: Vísindaleg þekking skapar eftirspurn eftir nýjungum sem hægt er að setja á markað.
  • „Market-pull”: Markaðurinn skapar eftirspurn eftir nýjungum sem krefjast nýrrar vísindalegrar þekkingar.

Ef „science-push” módelið er líklegra til að leiða til nýjunga fyrir markað, er rökrétt að styrkja grunnrannsóknir sem auka vísindaleg þekkingu óháð vilja markaðarins hverju sinni. Ef „market-pull” módelið er líklegra til að leiða til nýjunga þá er rökréttara að styrkja hagnýtar rannsóknir sem taka mið af markaðsöflum hverju sinni.

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar til að kanna hvort nýsköpun ræðst frekar af „science-push” eða „market-pull”. Martin & Irvine fóru yfir þrjár helstu rannsóknirnar (sem eru Project Hindsight, TRACES og Battelle rannsóknin) sem þeim var kunnugt um. Þessar rannsóknir þóttu sýna að nýsköpun er verulega háð grunnrannsóknum en að það þarf að rekja sögu nýjunga nokkuð langt aftur í tímann til að sýna fram á tengslin. Sem dæmi má nefna ljósleiðaratækni en þekkingarsögu hennar má rekja aftur til rannsókna á hegðun ljóss í upphafi 20. aldar. Á þeim tíma hafði þekkingin lítið notagildi (nema þá til að skemmta fólki eins og var gert á Heimssýningunni í París 1889). Martin & Irvine voru hins vegar mjög dipló og ályktuðu að bæði „science-push” og „market-pull” hefðu áhrif á nýsköpun, og þá sérstaklega samvirknin milli þessara tveggja póla.

Ef við snúum þessu svo upp á listir má finna mýmörg dæmi um það að listsköpun hefur ekki fundið farveg á markaði fyrr en löngu eftir að sköpunin hafi átt sér stað. Ég hef mikið dálæti á tónlist þannig að lítum á nokkur dæmi:

  • Vorblót Stravinsky: Þetta þekkta dans- og tónlistaverk þykir í dag með merkilegustu og áhrifamestu tónverkum 20. aldar. Þegar það var frumsýnt í París 1913 brutust út óeirðir meðal áhorfenda sem móðguðust þar sem þeim fannst Stravinsky vera að gera grín að sér. Tónskáldið Puccini sagði verkið augljóslega vera afrakstur geðveiks manns. Það var ekki fyrr en nokkrum áratugum síðar, og þá í Bandaríkjunum, sem tónlistarunnendur byrjuðu að taka verkið í sátt.
  • Fyrsta plata David Bowie (kom fyrst út 1969): Platan vakti litla sem enga athygli fyrr en hún var gefin út öðru sinni árið 1972 og þá eftir að Bowie var búinn að geta sér gott orð með tveimur öðrum plötum. Hún hefur s.s. aldrei verið talin með merkilegustu plötum Bowie en hún náði þó töluverðum vinsældum 1972 og komst fljótlega í topp 10 á vinsældalistum beggja vegna Atlantshafs.
  • Velvet Underground & Nico (oft kölluð „Bananaplatan”): Plata þessi er án efa ein sú áhrifamesta rokksögunnar. Hún seldist nánast ekkert þegar hún kom fyrst út 1967. Brian Eno á að hafa sagt um hana að hún seldist í aðeins 30.000 eintökum fyrstu áratugana eftir að hún kom út, en allir þessir 30.000 stofnuðu hljómsveit. Það var ekki fyrr en eftir 10 ár að hún fór að vekja athygli og þá aðallega meðal ungra pönkara og nýbylgjusinna í leit að einhverju „fersku”. Á 9. og 10. áratugnum voru fáir rokktónlistamenn sem ekki listuðu plötuna meðal helstu áhrifavalda.
  • Bitches Brew - Miles Davis: Þetta tímamótaverk hefur haft gífurleg áhrif ekki bara á djasstónlist heldur líka rokk og s.k. „klassík”. Þegar verkið kom fyrst út 1970 voru margir innan djass-heimsins sem höfnuðu verkinu og töldu þetta vera svanasöng Davis. Raunin varð önnur. Hjá Davis hófst tímabil sem einkenndist af mikilli tilraunastarfsemi og þeir ungu tónlistarmenn sem hann fékk til liðs við sig áttu eftir að móta framtíð djass, popp, og rokk tónlistar: t.d. John McLaughlin, Chick Corea, Wayne Shorter, Herbie Hancock og margir fleiri.

Í öllum þessum tilvikum höfðu listamennirnir fengið tækifæri til að vinna að sinni listsköpun án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því hvernig markaðurinn myndi taka á móti afurðinni. Þeim var öllum hafnað í fyrstu en með tímanum náðu þeir eyru annarra listamanna og skapaðist ný merking, nýtt tónrænt tungumál, sem skapaði farveg fyrir mikla nýsköpun. Það er einmitt þetta sem listamannalaunum er ætlað að gera - að gefa listamönnum tækifæri til að vinna að sinni sköpun óháð þrýstingi markaðsafla. Slíkt gefur kannski lítið af sér þegar til skamms tíma er litið en með tímanum getur það leitt til byltinga. Og kannski það sem mikilvægast er, að fáar byltingar gerast án slíks undanfara. Það má segja að markaðurinn er kannski góður í að fylla upp í göt, en það er óheft listsköpun og grunnrannsóknir sem búa til götin.

Listamannalaun, eins og styrkir til grunnrannsókna, eru ætluð að gera listamönnum kleift að stunda sína sköpun án markaðsþrýstings. Hins vegar hefur gagnrýni beinst gegn því að tiltekinn hópur fái opinbert fé fyrir að gera það sem ætlast er til af þeim. En, það er eins og ég sagði áður, listamannalaun eru einmitt ætluð að veita listamönnum tækifæri til að gera annað en það sem vanalega er ætlast af þeim. Þessi gagnrýni er því á röngum forsendum. Tónlistarmaðurinn Ingó veðurguð komst kannski næst því sem málið ætti raunverulega að snúast um þegar hann spurði af hverju skattfé hans ætti að fara í að kosta listsköpun sem aðeins 30 manns myndu njóta? Þarna er eins og með Velvet Underground á sínum tíma, ef þetta eru réttu 30 manns þá gæti það breytt heiminum til hins betra.

En það eru ekki bara þeir sem gagnrýna listamannalaun sem hafa farið á mis við kjarna málsins. Agnar Kr. Þorsteinsson, blaðamaður á Stundinni, gagnrýndi töframanninn Einar Mikael Sverrisson fyrir að vera mótfallinn listamannalaunum þegar Einar Mikael þáði sjálfur atvinnusköpunarstyrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Listamannalaun og atvinnusköpunarstyrkir eru gjörólíkir og má segja að þeim er ætlað hvor um sig að styðja við þessa andstæðu póla nýsköpunarferlisins, sem ég nefndi áður. Meðan listamannalaun eru ætluð að styðja við óhefta listsköpun eru atvinnusköpunarstyrkir ætlaðir að styrkja markaðsvæðingu góðra hugmynda, sem geta átt rætur í listsköpun eða grunnrannsóknum. Ef við göngum út frá því að tilgangur listamannalauna sé eins og ég hef sagt, þá er engin mótsögn í því að vera á móti listamannalaunum en þiggja atvinnusköpunarstyrk. Blaðamaður Stundarinnar virðist ekki átta sig á þessu.

Þetta er furðuleg staða þegar hvorki þeir sem eru með né þeir sem eru á móti listamannalaunum átta sig á hlutverki þeirra. Öll gagnrýnin umræða, bæði með og á móti, virðist orðin svolítið marklaus.

 


Hvaðan kemur orðið "hönnun"?

Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar

frumhonnudirOrðið hönnun er tiltölulega nýtt í íslenskri tungu, sem kemur á óvart því það er eitthvað svo íslenskt við það. Ég er búinn að vera að kanna uppruna þess undanfarið í tengslum við undirbúning erindis sem ég verð með í Minneapolis í næstu viku á þingi íslendingafélaga Norður Ameríku. Ég leitaði víða og hafði samband við ýmsa aðila sem eru fróðari en ég bæði um hönnun og íslenska tungu en fékk frekar óljós svör um óstaðfestar tilvísanir í fornrit, dvergasögur og fleira. Nú í morgun höfum við hjónin (Hlín er safnafræðingur þannig að hún hefur ekki síður áhuga á þessu) verið að skoða þetta og teljum okkur vera nokkurn veginn búin að rekja þessa áhugaverða sögu um tilurð orðsins hönnun.

Fyrsta dæmið um orðið hönnun sem ég finn á prenti er í Þjóðviljanum 23. október, 1957 þar sem sagt er frá nýútkomnu 4. tbl. Iðnaðarmáls.* Meðal greina er ein sem ber titilinn Vöruval og hönnun (af enska orðinu design).** Það að tekið er fram að orðið sé þýðing á enska orðinu design gefur til kynna að hér sé um nýyrði að ræða. Seinna er orðið hönnun notað víða í alfræðibókum AB útgáfunnar sem komu út snemma og um miðjan 7da áratuginn. Á 8da áratugnum er orðið komið í almenna notkun og í þeirri merkingu sem það hefur í dag.

Þetta er allt mjög fróðlegt en segir mér ekkert um orðsifjarnar sem ég var sérstaklega forvitinn um. Ég spurði móður mína út í orðið (hún er fædd 1939). Hún sagði, „Þegar við töluðum um hönnun þá vorum við alltaf að tala um eitthvað danskt.” En íslenska orðið hönnun á ekkert skylt við dönsku orðin design eða formgivning, sem Snara.is segir mér að sé rétt þýðing á orðinu. Þetta sagði mér því ekki neitt.

Ég hafði samband við Íslenska málstöð. Þau gátu ekki sagt mér meira en ég vissi þegar um hvenær orðið birtist fyrst á prenti.

Fólk á Hönnunarsafninu hélt því fram að orðið væri skylt hannarr sem hafði birst í einhverju íslensku fornriti, en hafði annars ekki miklu við að bæta.

Ég fór þá að kanna þessa tengingu við fornritin og leitaði hátt og látt að orðinu hannarr. Hér er það sem ég fann.

Vestur-Íslendingurinn Páll Bjarnason skrifaði grein í Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 1929 þar sem hann gagnrýnir ýmsar rangfærslur í orðakveri sem Finnur Jónsson, prófessor, hafði ritað (sjá áhugaverða umfjöllun um Pál hér). Þar leiðréttir hann m.a. eftirfarandi fullyrðingu Finns um orðið hannyrðir (sjá bls. 92):
„hannyrðir, líklegt er að hann sé stofn orðsins hannarr um menn, er voru listamenn (-konur) til vinnu”
Páll bendir á að orðið hannarr er lýsingarorð en ekki nafnorð eins og Finnur heldur fram. Af lýsingarorðinu er myndað nafnorðið hannerð. Þetta ummyndast svo í orðið sem við þekkjum í dag, hannyrð.

Í fylgiriti með Árbók Háskóla Íslands 1922-23 er texti Völuspár birtur eins og hann er í Konungsbók. Með fylgja skýringar og segir um 11. vísu:
„Hanarr = hannarr, hagur (smbr. sjónhannarr, hannerð, hannyrð), bendir til smíðaíþróttar dverga”

Í Heimskringu segir m.a. um Ólaf Haraldsson Noregskonung:
„Ólafur var … hagur og sjónhannarr um smíðir allar, hvort sem hann gerði eða aðrir menn.”

Og þetta virðist vera elsta íslenska heimildin í þessari sögu um tilurð orðsins hönnun ef frá eru taldar sögur um dverga, dvergleikni, og dverganöfn sem orðið er endanlega rakið til (sbr. dverganafnið Hanarr).

Þarna er þetta þá komið. Orðið hönnun kemur af lýsingarorðinu hannar(r), sem merkir sá sem er duglegur eða listfengur. Þetta er nokkuð áhugavert því þarna virðist vera að áður en orðið hönnun verður til er ekkert orð á íslensku yfir þetta ferli sem hönnun er skv. okkar skilningi í dag. Góð hönnun var því ekki ferli sem við gátum lýst en þú þekktir hana þegar þú sást hana, þ.e. ef þú varst nægilega sjónhannarr.

*(viðbætt: 11.05.2015) Hilmar Þór Björnsson, arkitekt fékk leyfi til að endurbirta þessa grein á vefnum Arkitektúr, skipulag og staðarprýði. Í umræðum þar bendir Sigurður St. Arnalds á grein sem birtist í DV 24. september, 1994, á bls. 16 undir yfirskriftinni Sögur af nýyrðum: Að hanna. Þar er staðfest að fyrirmynd að orðinu "hönnun" megi rekja til rótar orðsins "hannarr" en nefnt annað samróta sem ég hef ekki rekist á, "hanþón", sem ég kíki kannski betur á við tækifæri.

**(viðbætt: 11.05.2015) Ég hef nú lesið umrædda grein. Þar er mjög augljóst að verið er að kynna nýyrði til sögunnar - gerð ítarlega grein fyrir merkingu hugtaksins og hliðstæðu í ensku. Hins vegar er ekkert sagt um hvernig hugtakið hefur verið búið til. Líklega er eins og Anna Rögnvaldsdóttir segir í ummælum fyrir neðan að orðið hafi verið búið til af íðorða- eða nýyrðanefnd.


Evrópuþing felldi ACTA: Löngu tímabært að endurhugsa höfundarétt.

Í dag felldi Evrópuþingið alþjóðlega samkomulaginu um höfundarétt, ACTA (Anti-Counterfeiting Trade Agreement) með miklum meirihluta atkvæða, eða 478 á móti 39. Áður hafði Framkvæmdastjórn ESB samþykkt samkomulagið. Það er ýmislegt merkilegt sem felst í þessari niðurstöðu.

Í fyrsta lagi, má segja að Evrópuþingið hafi fellt ACTA á heimsvísu. Samkomulagið hefði m.a. hert mjög lög um höfundarétt og refsingar fyrir brot á höfundaréttarlögum. Samkomulagið er stutt af samtökum rétthafa e.o. samtaka rétthafa kvikmynda, tónlistar, hugbúnaðar, lyfja o.fl. Ýmis samtök sem berjast fyrir réttindum almennings til að nota réttindavarið efni hafa barist gegn samkomulaginu, t.d. Læknar án landamæra, sem segja að samkomulagið muni hefta mjög aðgang að nauðsynlegum lyfjum í þróunarlöndum. Áður höfðu 8 lönd samþykkt samkomulagið en áttu eftir að staðfesta samþykkið. Án þátttöku ESB er ljóst að samkomulagið er orðið að engu. Þó svo að hin löndin myndu staðfesta samkomulagið eru ESB löndin það stór hluti af markaðssvæðinu sem það er ætlað að taka til að það myndi aldrei vera hægt að framfylgja reglunum sem því fylgja.

Í öðru lagi hefur Evrópuþingið sýnt það og sannað að lýðræði er til staðar í ESB. Framkvæmdastjórn ESB hefur sagst ætla að leggja samkomulagið aftur fyrir þingið en það er ljóst að það mun ekki skila árangri. Í raun hefur Evrópuþingið málsstað netnotenda um allan heim, en ekki bara í ESB og hefur þannig sýnt að lýðræðisleg stofnun svo stórs markaðssvæðis getur haft töluverð áhrif á þróun heimsmála.

Mér þótti undarlegt að ekkert heyrðist um þessa merkilegu kosningu frá ESB andstæðingum á Íslandi, sem þreytast ekki á því að lýsa ESB sem miðstýrðu peði almáttugs Framkvæmdastjórnar. En svo áttaði ég mig á því að mbl.is hefur ekki séð ástæðu til að segja frá þessari merkilegu frétt. Ætli andstæðingarnir viti nokkuð af þessu þá?

Segja má að höfundarréttur sé einn hornsteinn kapitalísmans. Ég hélt að kapitalístar hlustuðu á markaðinn. Mér heyrist markaðurinn vera að tala. Eru kapitalístarnir að hlusta? Það er löngu orðið ljóst að rétthafar þurfa að endurhugsa sín mál.

Britney eða Lindsay "manneskja ársins" hjá Time?

Það var skemmtilegt viðtal við Stephen King á vef Time um daginn. Þar leggur hann til að annaðhvort Britney Spears eða Lindsay Lohan verði "manneskja ársins" í ár í ljósi þess hve fyrirferðamiklar þær eru í fjölmiðlum.

Þetta er ekki svo galið þegar maður hugsar út í það. Flestir muna sennilega eftir því að Time kom öllum á óvart í fyrra þegar þeir völdu "þig" manneskju ársins. Með þessu vildu þeir vekja athygli á aukna þátttöku almennings í að búa til efni á netinu. Það væri áhugavert að framkvæma mælingu á því hvaða fólk kemur mest við sögu hjá "ykkur" á netinu og kjósa það manneskju ársins í ár. S.s. ekki ósennilegt að Britney eða Lindsay yrðu þá fyrir valinu, eða hvað?

Tekist á um hnattvæðingu á Kistunni

Eiríkur Bergmann Einarsson birti fyrr í sumar pistil á Kistunni undir yfirskriftinni "Draumalandið Litháen" þar sem hann m.a. ber saman hvernig Íslendingar og Litháar takast á við nýlega fengið frelsi í hnattvæddum heimi. Fyrir nokkrum vikum birti svo Stefán Snævarr pistil á sama vef þar sem hann sakar Eirík Bergmann um að vera,

"... sýktur af alþjóðarembu og glóbaltítis, sjúkdómum sem lýsa sér sem trúarleg sannfæring um að hnattvæðingin sé stórkostlegt framfaraspor og alþjóðleg samskipti séu ávísanir á fullsælu."

Stefán setur mest út á eldri fullyrðingar Eiríks Bergmanns um að hnattvæðingin verði ekki stöðvuð. Stefán telur upp ýmsar aðstæður sem hann telur að geti orðið til þess að stöðva hnattvæðinguna. M.a. heldur hann því fram að alvarlega skaðræð hryðjuverkaárás á vesturlöndum gæti stoppað hnattvæðinguna í sporunum. En ég held að þetta sé misskilningur hjá Stefáni. Slík árás, og annað sem hann telur upp, gæti orðið til þess að breyta hnattvæðingunni, en hún verður ekki stöðvuð. Reyndar má benda á ýmislegt sem er eða á eftir að gjörbreyta hnattvæðingunni, t.d. aukin þátttaka ríkja eins og Kína og Indland. Það eina sem myndi hugsanlega stöðvast við þessar breytingar er "vesturvæðingin". En hún er ekki hnattvæðing.

Ég held nefnilega að Stefán sé að tala um eitthvað allt annað en hnattvæðingu. En það er ekki bara við Stefán að amast því það er víða tilhneiging til að slá saman hugtökunum vesturvæðingu (westernisation), alþjóðavæðingu (internationalisation), menningarsamruna (universalisation) og hnattvæðingu (globalisation). M.a.s. rakst ég á skýrslu nefndar á vegum Utanríkisráðuneytisins um hnattvæðingu sem ber yfirskriftina "Alþjóðavæðing" og tekur fram að um er að ræða þýðingu á enska orðinu "globalisation".

Ég ætla ekki að fara út í það að skýra greinarmuninn á þessum hugtökum hér. Læt frekar lesendur um að afla sér upplýsinga en vísa sérstaklega á fræðinga eins og Jan Aart Scholte og Jens Bartelson sem hafa gert þessu mun betri skil en ég gæti nokkurn tíma gert hér (ég hef reyndar skrifað stutta samantekt á ensku hér). Hins vegar langar mig að fjalla um skilning Sameinuðu Þjóðanna á hnattvæðingunni. Þar, eins og hjá flestum alþjóðlegum stofnunum, er almennt viðurkennt að hnattvæðingin er raunveruleg, óstöðvandi og síðast en ekki síst, í stöðugri mótun. Í Þúsaldaryfirlýsingunni gr. 5 segir að "megin viðfangsefni okkar í dag er að tryggja að hnattvæðing verði jákvætt afl fyrir alla íbúa jarðar." (lausleg þýðing mín). Hugtakið er ekki skilgreint nákvæmlega, frekar en venja er í yfirlýsingu sem þessari, heldur er það látið liggja milli hluta og okkur í sjálfvald sett að móta hugtakið í samræmi við þau gildi og markmið sem sett eru fram. Í þessu tilviki, þegar yfirlýsingin er skoðuð sem heild, er greinilega verið að hvetja til húmanískrar hugsunar um aukin alþjóðleg tengsl í heiminum og okkur afhent það verkefni að gera það að veruleika. Stefán segir að "engin er rós án þyrna", og það er sennilega hárrétt hjá honum. Það kann að vera óraunhæft markmið að sækjast eftir fullkomlega jafnréttri og farsælli hnattvæðingu en það er samt það sem stefnt er að. Vissulega er þetta eins konar evdimónía. En það að skella skuldinni fyrir allt sem er neikvætt á hnattvæðinguna er einfaldlega ekki gagnlegt fyrir samræðuna (eins og Scholte orðar það). Það er ekki hnattvæðingin sem byggir McDonalds á næsta horni, eða veldur umhverfisslysi, eða kveikir á sjónvarpinu þegar Idol er. Það eru ákvarðanir og óskir einstaklinga sem ráða því. En fyrir þá sem vilja er mikilvægt að hafa þetta val og það er það sem hnattvæðingin færir okkur - aukið val og aukið frelsi til að haga okkar málum eins og okkur finnst best. En þá er það líka okkar skylda að það sem okkur finnst best verði ekki til þess að auka vanlíðan annarra. Því ef okkar hnattvæðing er látin bitna á öðrum þá er það ekki hnattvæðing - það er bara eigingirni. Ég veit s.s. ekki hver besta leiðin er til að tryggja að okkar hagsæld bitni ekki á öðrum en að auka samgöngur og samskipti milli þjóða virðist mjög góð byrjun.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband