Færsluflokkur: Mannréttindi
29.3.2015 | 09:39
Geta geirvörtur breytt heiminum?
Um fátt annað hefur verið rætt eins mikið síðustu daga en brjóst og geirvörtur. Margir furða sig á þessu nýjasta uppátæki íslenskra ungmenna sem tóku sig til og flössuðu geirvörtum sínum fyrir hverjum sem vildu sjá, sem og þeim sem ekki vildu. Ég bara skil þetta ekki!, segja sumir. Biggi lögga heldur því fram að þátttakendur munu sjá eftir því síðar meir. Sumir ganga svo langt að kalla þátttakendur plebba". Sérfræðingur í kynjafræðum velti fyrir sér í fréttum RÚV hvort átakið tali inn í það samhengi sem skapast hefur í kringum ríkjandi orðræðu um jöfnuð og réttindi kynja. En þá spyr ég: af hverju ætti unga fólkið að vera að tala inn í það samhengi? Sú orðræða hefur augljóslega ekki skilað því sem það vill. Skilaboð unga fólksins eru skýr fyrir mér: nú skal hafna gömlu gagnslausu orðræðunni og taka upp nýja, sem verður á forsendum nýrrar kynslóðar. Það er því ekki að furða að aðgerðirnar tala ekki inn í gamla samhengið. Það er þveröfugt við markmiðið. Þeir sem ætla að taka þátt í nýju orðræðunni verða að tala inn í hana - aðrir munu aldrei heyra né skilja það sem unga fólkið er að segja.
Það sem unga fólkið er að gera nú minnir um margt á það sem Miles Davis gerði í djasstónlistinni á 7da áratug síðustu aldar. Mörgum fannst djassinn þá vera orðinn einsleitur og þreyttur - búinn að hjakka í sama farinu í áratugi. Þegar Miles Davis gaf svo út plötuna Bitches Brew voru margir sem höfnuðu henni og sögðu Davis vera algjörlega genginn af göflunum að vera senda frá sér þvílíkan hávaða og kalla djass. Í dag er Bitches Brew auðvitað talin eitt mesta meistaraverk tónlistarsögu 20. aldar. Hún markaði upphaf byltingar í tónlist, sem breytti ekki aðeins hvernig tónlist er samin og spiluð heldur líka hvernig við hlustum á og heyrum tónlist. Davis tók sér það bessaleyfi að gjörbreyta tónlistarorðræðunni og hann gerði það ekki með því að tala inn í það sem samhengi sem var til staðar. Hann bauð tónlistarmönnum og unnendum að taka þátt í að móta nýja orðræðu, sem þeir og gerðu. Hvort sem hlustað er í dag á djass, rock, R&B, klassík eða hvað annað, er öruggt að greina má áhrif Bitches Brew í einhverju formi.
Þeir vita það vel sem hafa fengist við nýsköpun og/eða breytingastjórnun að oft er besta, og jafnvel eina leiðin til að ná árangri að skapa nýja orðræðu. Ef sú gamla er orðin svo rótgróin að engin man t.d. hver ákvað að konur mega ekki sýna geirvörtur sínar né hvers vegna, en samt er staðið fast á því að það megi alls ekki, þá er líklega kominn tími til að taka málið upp á nýjum forsendum. Það er það sem unga fólkið er að gera nú og ég fagna því. Ég er kannski ekki alveg tilbúinn að hella mér í þá umræðu en ég ætla að leggja mig fram við að hlusta á það sem unga fólkið er að segja og reyna að skilja þeirra mál svo ég geti talað inn í þeirra samhengi - þeirra sem munu líta skammarlaust til baka þegar þau benda á myndir sem þau póstuðu og segja Þetta er þegar ég byrjaði að breyta heiminum.
Mannréttindi | Breytt 12.6.2015 kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2013 | 20:07
Samkynhneigðir eru stjörnur!
Mannréttindi | Breytt 9.4.2018 kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)