22.11.2010 | 21:41
PISA mælir ekki gæði skóla - um skýrslu Námsmatsstofnunar um PISA
Ég er rétt byrjaður að skima skýrslu Námsmatsstofnunar um PISA 2006 niðurstöður íslenskra nemenda og hef svo sem lítið um hana að segja á þessu stigi. Þó er eitt sem sló mig þegar ég renndi í gegnum hana. Í nokkrum köflum skýrslunnar er notað undarlegt orðalag þar sem talað er um "verri" og jafnvel "verstu" skólana í tengslum við ýmis PISA gögn. Fyrir það fyrsta hljómar þetta ruddalega og er ófagmannlegt. Ennfremur er þetta merkingasnautt þar sem aldrei er útskýrt hvað "verri" eða "verstur" merkir í þessu samhengi, né hvað "betri" eða "bestur" myndi merkja. Í öðru lagi má deila um það hvort PISA mæli gæði skóla yfirleitt. PISA, eins og nafnið bendir til (Programme for International Student Assessment) og eins og skýrt er frá í skýrslunni, er ætlað að mæla frammistöðu nemenda á ákveðnum námssviðum. Þannig eru útkomur á PISA ætlað að auðvelda samanburð á frammistöðu nemendenda frá mismunandi svæðum og löndum. Að meta út frá PISA gögnum hvort einn skóli er betri en annar er mjög hæpið því frammistaða ræðst af mörgu öðru en gæðum skóla, hvernig svo sem við mælum það. Réttast væri þá að segja að nemendur frá vissum svæðum sýni slakari frammistöðu en nemendur frá öðrum svæðum. Að meta áhrif skóla á þessa frammistöðu krefst allt annarar rannsóknar.
Þar að auki er ekki víst að PISA gögn séu marktæk þegar greint er niður á einstaka skóla. PISA könnunin hefur verið þróuð til þess að meta menntakerfi en ekki einstaka skóla og aðferðafræðin er mótuð út frá því. Ef nota ætti PISA til að meta einstaka skóla þyrfti líklega að breyta könnuninni og framkvæmd hennar.
Flokkur: Menntun og skóli | Breytt 29.9.2019 kl. 20:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.