Rafrænar námsbækur í Vogaskóla: Yfirlýsingar fulltrúa Skólavefsins eru út í hött!!!

Á vef vísis.is er ný grein um Kindle-væðinguna í Vogaskóla. Rætt var við Jökul Sigurðsson og Ingólf Kristjánsson hjá Skólavefnum, sem er einkafyrirtæki sem kemur að verkefninu. Það vantar ekki yfirlýsingarnar frá þessum fulltrúum Skólavefsins! Þeir fullyrða að auk sparnaðar munu rafbækur "[auka] námsárangur", "[hvetja] til lesturs og jafnvel [hjálpa] börnum með námsörðugleika"! Það væri áhugavert að fá að sjá rannsóknirnar sem styðja þessar fullyrðingar. Að þetta litla tæki -eitt og sér- skuli gætt þeim töfrum að geta umturnað menntun með slíkum árangri er kraftaverki líkast. Ég held að yfirlýsingagleði fulltrúa Skólavefsins sé farin að reyna um of á þolmörk sannleikans. Það er allavega niðurstaða tilraunaverkefnis með Kindle spjaldtölvur sem náði til fjölda bandarískra háskóla.

Ég fylgist ansi vel með rannsóknum á notkun upplýsingatækni í skólastarfi og á eftir að sjá eina einustu áreiðanlega rannsókn sem gæti stutt yfirlýsingar fulltrúa Skólavefsins. Það sem rannsóknir hafa sýnt okkur er að innleiðing tækni í skólastarf er flókið ferli sem þarf að fylgja kerfislægum breytingum ef hún á að hafa áhrif í líkingu við fullyrðingar fulltrúa Skólavefsins. Ótal verkefni hafa farið út um þúfur vegna þess að allt of miklar vonir voru um að tæknin sjálf væri breytingarafl og endað með því að gífurlegar fjárhæðir hafa farið í vitleysu. Larry Cuban lýsir þessu mjög vel í frægri bók sinni Oversold and Underused: Computers in the Classroom og nógu margir lýst svipaðri reynslu til að það þykir nú almenn vitneskja að svona gerir fólk ekki!

Fyrir nokkrum árum var gerð tilraun í bandarískum háskólum með Kindle spjaldtölvur, nánar tiltekið Kindle DX útgáfuna sem var sérstaklega þróuð með þarfir námsfólks í huga. Tilraunin náði til eftirfarandi háskóla:
  • University of Washington
  • Princeton University
  • Case Western Reserve University
  • Reed College
  • Arizona State University
  • Pace University
  • og University of Virginia
Sumar niðurstöður koma varla á óvart; nemendur notuðu miklu minni pappír en áður, það þótti mikill kostur að hafa alltaf aðgang að öllu lesefni námskeiða og nemendum fannst almennt gott að lesa af Kindle tölvunum. En eitt þykir sérlega áthyglisvert; sumir kennarar sem tóku þátt í tilrauninni fullyrða að nemendur sem notuðu Kindle tölvurnar náðu ekki jafngóðum tökum á námsefninu og nemendur sem notuðu hefðbundnar bækur! Líklegasta skýringin er að Kindle tölvurnar leyfa nemendum ekki að merkja og glósa ofan í bækurnar á sama hátt og hefðbundnar bækur. Sumum þátttakendum í tilrauninni þótti þetta það mikill galli að þeir hættu að nota Kindle tölvurnar.

Svona órökstudd yfirlýsingagleði, eins og hjá fulltrúum Skólavefsins, er síst gagnleg fyrir okkur sem erum að reyna að breyta og bæta nám með vandlega íhugaðri notkun upplýsingatækni. Við vitum að upplýsingatækni getur haft mjög jákvæð áhrif í skólastarfi þegar vandað er til verks og byggt á þeirri miklu þekkingu og reynslu sem hefur skapast á undanförnum áratugum. Í Vogaskóla er greinilega vilji til að gera eitthvað nýtt - eitthvað sem gæti m-gulega skipt sköpum fyrir skólahald þar á bæ, og það er mjög jákvætt. Hins vegar, miðað við það (að vísu litla) sem ég hef lesið um verkefnið virðast þeir komnir á mjög hálann ís. Ástæðurnar eru rangar (sjá fyrri grein mína um "tækni valið til að takmarka aðgengi að tækni"), væntingarnar eru óraunhæfar og aðferðirnar vanhugsaðar. Ég er hræddur um að hér sé að verða til efni í nýjan kafla fyrir næstu útgáfu hjá Larry Cuban.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Áhugaverð skýrsla, gaman að kíkja á hana. Mér sýnist reyndar bara að einn kennari hafi verið á því að stúdentar með Kindle hafi átt erfiðara með að ná tökum á námsefninu.

Varðandi það að merkja inn texta þá er það allavega í mínum Kindle lesara þannig að þegar ég slæ inn texta eða "highlighta" texta í bók þá fer sá texti í textaskjal sem ég get annað hvort opnað í tölvu eða sjálfu tækinu. Það að geta fengið textann beint í tölvuna er stórkostlegt og ég hefði viljað hafa þann möguleika allt mitt háskólanám því þetta auðveldar ritgerðarskrif til muna.

Sá Kindle lesari sem krakkarnir fengu var annars þannig (ef mér missýndist ekki) að það er ekkert lyklaborð sem gerir það ákaflega flókið að slá inn texta (en þó eru þar íslenskir stafir). Allavega er hann þannig að "highlightaður" texti fer í sér textaskrá.

En mér þótti yfirlýsingagleði Skólavefsmanna frekar mikil. Hún byggðist frekar á björtustu vonum frekar en raunhæfum væntingum. Ég sá líka ekki neitt um það hvernig tilraunin yrði metin eða hver myndi meta hana. Maður hefði vonað að svona tilraunir væru gerðar með aðkomu óháðra fræðimanna úr menntavísindum en ekki einkafyrirtækja. Mér finnst líka örlítið skrýtið að gera svona tilraun á grunnskólanemum. Mér hefði þótt líklegra að þetta kæmi að gagni í framhaldsskólum þar sem áherslan á texta er meiri.

Annars er ég að vinna að vef með rafbókum sem heitir því frumlega nafni <a href="http://rafbokavefur.is">Rafbókavefurinn</a>.

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 08:47

2 identicon

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 9.1.2012 kl. 09:38

3 Smámynd: Tryggvi Thayer

Óli Gneisti - ég tengdi bara við eina lokaskýrslu þar sem sagt er frá efasemdum sumra kennara. Það var svipuð reynsla í öðrum skólum sem tóku þátt í tilrauninni. Sumar lokaskýrslurnar er hægt að finna á síðum hvers skóla sem eru tenglar á á yfirlitssíðunni um verkefnið í heild sem ég tengi á hér fyrir ofan.

Tryggvi Thayer, 9.1.2012 kl. 13:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband