Er erfitt að nota Linux eða bara öðruvísi?

Ég er ekki fyrr búinn að vera að hæla opnum hugbúnaði og halda því fram að hann sé ekkert verri en annar hugbúnaður þegar þessi umræða poppar upp, sem hún gerir alltaf með vissu millibili.

Spurningin er alltaf sett fram á ca. þennan hátt - Geta Windows notendur skipt yfir í Linux (eða annan opin hugbúnað) án þess að læra allt upp á nýtt? Og ég svara með spurningunni - Af hverju í ósköpunum ættu þeir að geta það?

Málið er það að við hættum að kenna fólki á tölvur fyrir löngu og fórum að kenna á hugbúnað í staðinn. Þegar ég fékk fyrst kennslu á tölvu (fyrir mörgum en samt ekki svo mörgum árum) var mér kennt á tölvu, ekki hugbúnað. Mér var kennt hvernig tölvur virka og hvernig á að gera hluti með tölvu. Alla tíð síðan hef ég reynt að átta mig á því hvernig hlutirnir virka í tölvum frekar en hvernig "eigi að gera hluti" í tilteknu umhverfi. Og ég hef aldrei verið í vandræðum með að skipta um umhverfi, hugbúnað eða annað. Nú til dags er fólki kennt á tiltekinn hugbúnað og lítill tími sem fer í að útskýra hvað er verið að gera og hvers vegna. Af ýmsum ástæðum miðast kennslan oftar en ekki við Windows og MS hugbúnað. En það hefur ekkert með gæði eða einfaldleika hans að gera.

Tölvukennsla í dag virðist gera ráð fyrir að engar róttækar breytingar verði í upplýsingatækni í náinni framtíð. Windows er notað mest, það verður alltaf notað mest og því er best að kenna á það og engin ástæða að ætla að fólk þurfi að vera tilbúið að læra á eitthvað annað. En, svo ég taki nú annað dæmi úr eigin reynsluheimi, þegar ég var fyst að vinna með tölvur með grafísku viðmóti í textavinnslu og uppsettningu ("desktop publishing" var það kallað í þá daga), var Aldus Pagemaker helsta verkfærið í bransanum. Í kringum 1991-2 kom svo nýr hugbúnaður á markaðinn, Quark, sem á endanum gerði algjörlega út af við Pagemaker á mjög skömmum tíma. Margt var öðruvísi í Quark, en það sem gerði yfirfærsluna auðvelda var að notendur Pagemaker höfðu margir einhverja þekkingu úr prentgeiranum og þekktu því hugtökin og starfsaðferðir sem tengdust vinnslunni. Þeir þurftu því ekki að læra á nýtt forrit, bara hvar gömlu skipanirnar voru.

Hlutirnir breytast og þeir geta breyst hratt. Þeir sem læra á tölvur í dag eiga margir erfitt með að yfirfæra sína þekkingu vegna þess að þeim var aldrei kennt að "gera hluti" með tölvu. Þeim var bara kennt á tiltekin forrit. Ekki endilega bestu forritin, bara þau sem voru útbreiddust þá stundina. Nú er ýmislegt sem bendir til þess að algeng forrit eiga eftir að færast á netið. Þetta er mikil breyting og engin leið þessa stundina að vita hver sigrar í þeirri baráttu sem er í nánd. Það er allt eins líklegt að MS missi sína yfirburði með þessarri þróun og hvað gera þeir þá sem eru seinir að skipta yfir?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristinsson

Ég er sammála þér varðandi heimsku þess að kenna á tiltekin forrit í stað þess að reyna að miðla almennari tölvuþekkingu. Eins og þú bendir á gerast breytingar hratt í upplýsingatækni. Hins vegar virðist mér grein Bialiks þessa ótengd því málefni í sjálfu sér. Þröskuldurinn sem hann rakst á var ekki það að hann ætti erfitt með að læra á nýtt kerfi heldur að hann neyddist til að nota Microsoft Office á tölvunni sinni í vinnunni og að það torveldaði skráaskipti milli heimatölvunnar hans og vinnutölvunnar. (Skil nú reyndar ekki hvers vegna það sé nógu merkilegt til að skrifa grein um það, en látum það liggja milli hluta).

Svo spurningu þinni í fyrirsögninni sé svarað þá held ég svarið fari eftir því til hvers maður er að nota viðkomandi tölvu. Mín tölvunotkun er t.d. af því tagi að margfalt auðveldara er að nota Linux en Windows - en fyrir flesta aðra er þessu enn sem komið er öfugt farið...

Baldur Kristinsson, 15.5.2006 kl. 15:33

2 Smámynd: Tryggvi Thayer

Reyndar var ég bara að vísa í umræðuna á Slashdot. Ég las ekki einu sinni grein Bialiks. Málið sem ég er að benda á er að tölvukennsla virðist gera ráð fyrir stöðugleika sem er alls ekki sjálfgefinn. Ef við ætlum að búa fólk undir það að geta funkerað í upplýsingasamfélagi þarf að hafa miklu meiri sveigjanleika en nú er.

Tryggvi Thayer, 15.5.2006 kl. 19:44

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég skil að meðaljóninn nenni ekki að standa í driver og distri veseni. Linux mun ekki komast í almenna notkun fyrr en það er jafn auðvelt í uppsetningu og Windows og jafn margir leikir eru til. Það er hægt að redda Office-samhæfi en fólk kaupir tölvur meðal annars til að leika sér. Fyrirtæki eru skondin þar sem þau nota svo til eingöngu Windows af því að allir hinir gera það en eru svo að eyða stórum fjárhæðum í að verja það gegn alls konar vírusum og ógleði (sem virkar bara á Windows).

Ég er kominn á þá skoðun að tvennt geti skákað Microsoft af einhverri alvöru. Google Office eins og bent er á að ofan og Apple tölvur. OSX er betra stýrikerfi en Windows, það er einfaldara í notkun of lítur betur út. Vandinn með Apple var að sum forrit keyra eingöngu á Windows en nýju Intel Mac tölvurnar geta dual-búttað, þ.e. keyrt OSX og Windows. Einnig eru framtakssamir forritarar (t.d. OSX86 Project) að búa til OSX útgáfur sem keyra á hvaða PC tölvu sem er. Seeing is believeing, fólk sem prófar OSX fellur undantekingalítið fyrir því. Ég geri ekki ráð fyrir að Microsoft muni tapa miklu, en spurningin er hvort einokunarstaðan sé í hættu.

Villi Asgeirsson, 16.5.2006 kl. 07:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband