Björt framtíð fyrir WiMAX

Juniper Research hefur gefið út framtíðarspár sínar um upptöku WiMAX, sem er nýr staðall fyrir þráðlaust net. Helsti kostur WiMAX er að sendibúnaðurinn drífur margfalt lengra en það sem nú er í notkun eða nokkra kílómetra frekar en nokkra tugi metra. Juniper telur að útbreiðsla nýja staðalsins verði nokkuð ör og að það verði jafnvel á kostnað 3. kynslóðar GSM staðla.

WiMAX, ásamt farsímatækni, hefur gífurlega mikla þýðingu fyrir þróunarlönd þar sem þetta tvennt krefst ekki landlínu sem er dýr fjárfesting og á mörgum stöðum ekki til staðar. Í tengslum við farsíma er oft talað um svokallaða "stökkþróun" (e. leapfrogging development - N.B. ekki í sama skilningi og hugtakið er oft notað í tengslum við borgarskipulag), þ.e. að þróunarlönd geta komist hjá því að fara sömu leið og þróuð lönd í upptöku samskiptatækni þar sem ekki er þörf fyrir dýrar landlínur og tengdan búnað. Bjartsýnustu menn halda því jafnvel fram að ódýrari og aðgengilegri tækni jafnar leikvöllinn milli þróaðra landa og þróunarlanda. WiMAX gerir stökkþróun enn meira heillandi vegna þess að þá er líka hægt að auka netaðgang með tiltölulega litlum kostnaði.

En tæknin er ekki allt sem þarf. Fólk þarf líka að kunna að nota hana og vita til hvers á að nota hana. Þróunarstarf hefur breyst gífurlega mikið á síðustu áratugum og er miklu meiri áhersla lögð nú á sjálfsstyrkingu, sjálfbæra þróun og að rækta séreinkenni þjóða. Allt er þetta í réttu áttina, en upplýsingatæknin og upplýsingasamfélagið krefjast enn nýrrar hugsunar. Við erum að sjá betur að stökkþróun þarf að ná til þekkingarsköpunar og þekkingarmiðlunar líka, sem breytir ýmsu en er ekki ógerlegt svo lengi sem við vitum af því. Það er kannski ekki fráleitt markmið að "jafna leikvöllinn" og reyndar telur Thomas L. Friedman upp fjölmörg dæmi um slíkt í bókinni The World is Flat. Þetta eru áhugaverðir tímar.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband