Eru tæknibönn bara til að takast ekki á við raunveruleikann?

cell-phone-ban
Í Fréttablaðinu í dag, 13. febrúar, er stutt frétt um notkun nemenda á farsímum í skólum. Þar segir Svanhildur María Ólafsdóttir, formaður Skólastjórafélags Íslands, m.a. að það þurfi að kenna börnum að nota þessi tæki, eins og önnur, í samræmi við almennar samskiptareglur. Eins og Svanhildur bendir á þá eru þetta auðvitað mjög öflug tæki sem nýtast á ýmsan hátt, s.s. upplýsingaleit, samskipti, samstarf, sköpun og margt fleira. En raunin er, að sárafáir skólar leyfa notkun þessara tækja. Líklega eru ýmsar ástæður gefnar fyrir farsímabönnum, en ég held að helsta ástæðan komi fram í því sem haft er eftir Óskari S. Einarssyni, skólastjóra Fossvogsskóla, að “verið [er] að reyna að finna leiðir til þess að geta nýtt farsíma”. Þá spyr ég, af hverju, þegar farsímar hafa verið áberandi í samfélaginu eins lengi og raunin er og þykja nú nauðsynlegir í flestum störfum og annarri iðju utan skóla, er verið að “reyna að finna leiðir” núna? Af hverju er ekki löngu búið að því? Það er fátt sem hefur gerst í tengslum við þróun farsíma og snjallsíma síðustu 10 árin sem hefur komið á óvart. Það hefði verið hægt að hugsa út í þetta fyrir löngu.

Vandinn með bann-hneigðina, sem einkennir oft afstöðu skólafólks gagnvart upplýsingatækni, er að hún leiðir til sýndaraðgerða. Þegar skóli bannar farsíma, Facebook, eða hvaða tækni sem er, þá gefur hann sig út fyrir að vera að taka afstöðu og fylgja henni eftir með aðgerðum. Raunin er, hins vegar, að það að banna tækni sem fellur vel að öllum helstu markmiðum menntunar og þykir þarfasta tól í daglegu lífi utan skóla er ekkert annað en frestun, og þar með aðgerðaleysi. Bann á slíkri tækni felur í sér viðurkenningu að tæknin er til staðar og hún hefur áhrif, en viðkomandi stofnun ætlar bara ekki að díla við hana á þessari stundu.

Fartæknin, þ.e. snjallsímar og spjaldtölvur, hefur breiðst út hraðar en nokkur upplýsingatækni sem á undan hefur komið. Nú eru tæplega 6 ár síðan snjallsímavæðingin hófst fyrir alvöru (miðað við fyrsta iPhone síma Apple) og fæstir skólar hafa enn mótað raunverulega stefnu um hvernig skuli nýta þessa tækni í þágu menntunar. Ef þetta er raunin í dag, hver verður staðan eftir næstu 6 ár? Hvað ætla skólar að gera þegar fartæknin verður orðin nánast ósýnileg á næstu árum? Verða skólar tilbúnir þegar nemendur mæta í kennslustofu og kennarinn hefur enga leið til að vita hvort þeir eru að hlusta á sig eða að kaupa nýtt geimskip af Eve Online spilara í Timbúktú? Ætla skólar þá ennþá að vera að “reyna að finna leiðir” til að nýta 6 ára gamla tækni?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Tryggvi og þakkir fyrir þarfa hugleiðingu. Ég vil vinsamlegast biðja þig að dæma ekki skólastjórnendur og starfsmenn íslenskra grunnskóla of hart.

Staðreyndin er nefnilega sú að þetta ágæta starfsfólk hefur ekki fengið neina kennslu í upplýsingatækni í kennara-/skólastjórnunarnámi sínu.

Menntavísindasvið HÍ hefur um langan aldur boðið nemendum upp á þriggja eininga þykjustunámskeið í upplýsingatækni til að undirbúa þá fyrir "upplýsingaöldina" úti í grunnskólum landsins.

Þessir ágætu starfsmenn hafa því enga þekkingu á tölvum og snjallsímum og þora því ekki, kunna ekki og vilja ekki "reyna að finna leiðir".

Svo er internetið líka svo skelfilegur áhrifavaldur fyrir óhörnuð ungmenni...

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 13.2.2014 kl. 14:46

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Varast ber að ganga of langt í fullyrðingum um "tæknilæsi" kennara og skólastjórnenda, í báðar áttir.

Í þessum stóra hópi finnast einstaklingar sem taka öllum nýjungum með varfærni, hvort sem þær heita "skóli án aðgreiningar" eða "upplýsingatækni í skólastarfi".

Í sama, fjölmenna hópnum finnum við svo fjöldann allan af kennurum sem eru vaknir og sofnir í því að leita nýrra leiða í kennslunni. Og það eru ekki bara þeir yngstu!

Ég óttast að ef kennarar og skólastjórnendur bíða eftir því að einhver annar láti þá tileinka sér nýjungar í kennsluháttum, þá verði nokkur bið á því að þær komist í brúk! Við þurfum að líta inn á við líka og gá hvort hindrunin sé ekki bara í okkur sjálfum

Flosi Kristjánsson, 13.2.2014 kl. 15:24

3 Smámynd: Tryggvi Thayer

Hilmar: ég er ekki sérstaklega að gagnrýna skólastjórnendur heldur meira að horfa á kerfið allt sem slíkt. Það eru margir kennarar sem mega taka þetta til sín líka.

Það má gagnrýna Menntavísindasvið fyrir ýmislegt og vissulega hefur vantað upp á tæknilega sé vel kynntur fyrir þeim sem eru ekki á sérstakri námsleið sem hefur með upplýsingatækni að gera. Hins vegar má líka deila um það hvort það sé hlutverk stofnunnar e.o. MVS að kenna skólafólki um hvert eitt og einasta atriði sem viðkemur skólastarfi í ófyrirsjáanlegri framtíð. Háskólanám er ekki bara til að koma staðreyndarkornum inn í hausana á fólki, heldur að kenna fólki að meta eigin þekkingarþörf og mennta sig sjálft um það sem þarf hverju sinni.

Þú segir að starfsmenn skóla hafi enga þekkingu á tölvum og snjallsímum, eiga þeir ekki flestir slík tæki? Og nota daglega? Það er eins og ég segi, við erum ekki að tala um einhverja splunkunýja og framandi tækni.

Flosi: Auðvitað er fólk mjög misjafn hvað varðar viðhorf til tækni í skólum og vissulega margir að gera mjög skemmtilega hluti. Gallinn er að þessir framsæknu ná ekki að miðla til annarra. Ég er ekki að segja að það sé þeim að kenna og ekki heldur að gefa í skyn að ég hafi nokkra lausn, en við erum að reyna að vinna í þessu á MenntaMiðju og torgunum. Það þarf líklega meira samt.

Tryggvi Thayer, 14.2.2014 kl. 07:06

4 identicon

Sæll aftur Flosi og þakkir fyrir athugasemdina. Vinsamlegast athugaðu að það er eitt að eiga tæki og annað að kunna á þau. Í þessu tilfelli á ég auðvitað við átakanlegan skort á þekkingu/frumkvæði skólamanna (karla og kvenna) að hagnýta sér tæknina í skólastarfi (les: kennslu barna og unglinga).

Þetta vil ég rekja til a) Vanhæfni MVS að flétta tölvutæknina inn á kennslufræðina b) Þekkingarleysis og þvergirðingsháttar yfirmanna/stjórnenda/starfsmanna grunnskóla.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 14.2.2014 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband