Ný gjaldskrá Símans = aukinn kostnaður fyrir kennara og nemendur

too-damn-high
Eins og flestir vita hefur Síminn kynnt nýja gjaldskrá fyrir nettengingar. Helsta breytingin er að nú verður rukkað jafnt fyrir bæði innlendun og erlendan gagnaflutning. Það er ýmislegt sem hægt er að segja um þessa breytingu en mig langar sérstaklega að vekja athygli á kostnaðaraukningu sem þetta hefur í för með sér fyrir notkun upplýsingatækni í skólastarfi.

Í nýjum námskrám er gert ráð fyrir að netið nýtist í námi og kennslu bæði til upplýsingaöflunnar og miðlun kennsluefnis. Sérstaklega er lögð áhersla á notkun fjölbreyttra miðla, s.s. myndrænt- og hljóðrænt efni. Það er allt gott og vel og margir kennarar að gera góða hluti með þau markmið. Hins vegar, hefur skortur á aðgengilegri hýsingu innanlands fyrir slíkt námsefni verið nefnt sem hindrun. Vandinn er að notkun hýsingarmöguleika erlendis, s.s. YouTube o.fl., fylgir aukinn kostnaður fyrir kennara og nemendur vegna gjaldtöku samskiptafyrirtækja fyrir erlent niðurhal. Þannig verður nemendum og kennurum mögulega mismunað þar sem aðgengi þeirra að kennsluefni sem er þannig hýst ræðst að einhverju leyti af getu þeirra til að greiða fyrir niðurhalið. Sérstaklega á þetta við um margmiðlunarefni sem getur verið þungt og kostað heilmikið niðurhal.

Síðustu ár hefur verið töluverð umræða um þörf fyrir aðgengilega og hagkvæma hýsingarkosti hér á landi til að gera námsefni aðgengilegt á netinu án þess að það feli í sér aukinn kostnað fyrir þá sem þurfa að nota það. Eitthvað hefur miðast í þessum málum, t.d. með tilkomu vefsins Vendikennsla.is þar sem kennarar geta gert margmiðlunarefni aðgengilegt fyrir nemendur. Vistun efnis er ókeypis fyrir kennara og allt efni er hýst á innlendum þjónum þannig að niðurhal hefur verið ókeypis fyrir nemendur.

Ný gjaldskrá Símans gerir þessar framfarir að engu. Viðskiptavinir þurfa að greiða fyrir niðurhal á efni frá innlendum hýsingaraðilum eins og Vendikennsla.is sem þeir gerðu ekki áður. Ennfremur get ég ekki séð að það séu neinir möguleikar til að koma til móts við þá sem eru efnaminni eins og nýja gjaldskráin er sett upp. Ný gjaldskrá Símans gerir það að verkum að aukin notkun stafrænna miðla í námi og kennslu -eins og hvatt er til í nýjum námskrám- mun fela í sér aukinn kostnað fyrir bæði kennara og nemendur.

mbl.is Síminn hyggst rukka fyrir alla notkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er hægt að skipta um fjarskiptafyrirtæki!

DoctorE (IP-tala skráð) 5.6.2014 kl. 14:19

2 Smámynd: Tryggvi Thayer

Ætli það sé ekki akkúrat það sem forstjórar Símans voru að hugsa þegar þeir kokkuðu þetta upp.

Tryggvi Thayer, 5.6.2014 kl. 14:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband