7.11.2014 | 13:47
Hvað hefur fræðasamfélagið um málefni framhaldsskóla að segja?
Á vef MenntaMiðju birtist í dag brot úr umræðu fræðimanna um Hvítbók um umbætur í menntun og málefni framhaldsskóla sem hefur farið fram innan Menntavísindasviðs HÍ síðustu vikur. Þetta er mjög áhugavert og þarft innlegg í þessa umræðu. Meðal þess sem þar kemur fram:
Gestur Guðmundsson: "Á bak við stefnumiðið um 'fleiri námslok á tilsettum tíma' búa vissulega réttmætar áhyggjur af þeim fjölmörgu íslensku framhaldsskólanemum sem 'finna sig ekki' í náminu, og hvítbókin tekur réttilega undir ábendingar um aðgerðir sem greina slíkan vanda snemma og taka á honum. En oft eru réttustu aðgerðirnar að nemendur taki sér hlé frá námi og endurheimti áhuga og námshvata við annað en venjulegt framhaldsskólanám."
Helgi Skúli Kjartansson: "Úr því svona margir ljúka stúdentsprófi, þá er minni sérhæfing fólgin í þess háttar námi, minna val eða ákvörðun að leggja út í það og markmið þess óhjákvæmilega almennari. Þess vegna er eðlilegt að stytta námið svo að nemendur fái á eðlilegum aldri að taka raunverulegar ákvarðanir um markmið sín í námi og framtíðarstarfi."
Atli Harðarson: "Gestur bendir réttilega á (í grein á bls. 23 í Fréttablaðinu 3. júlí 2014) að munurinn á skólagöngu ungmenna hér á landi og í Danmörku er mun minni en ætla mætti af yfirlýsingum þeirra sem hafa stór orð uppi um brottfallið hér á landi. Veruleikinn er sá (skv. Education at a Glance 2014, bls. 313) að hér á landi var fremur hátt hlutfall fólks á aldrinum 15 til 19 ára í skóla árið 2012 eða 88%. Á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 86% til 87% og meðaltalið fyrir OECD var 84%. Þessar nýjustu samanburðartölur um skólasókn benda því ekki til að íslensk ungmenni flýji framhaldsskólana í meira mæli en gerist og gengur í öðrum OECD löndum.
Ekki er nóg með að skólasókn hér sé með meira móti heldur var útskriftarhlutfall líka hátt árið 2012 eða 95% (Education at a Glance 2014, bls. 67). Á hinum Norðurlöndunum var það á bilinu 77% til 93% og meðaltalið fyrir OECD var 84%."
17 ára með ráðstefnu í Hörpu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.