Hlutleysi á netinu í USA - kemur þetta okkur við?

Ég minntist á þetta mál fyrir nokkrum vikum. Málið er að sumir netþjónustuaðilar í Bandaríkjunum vilja fá að rukka upplýsingaveitur fyrir forgang í netþjónustu sinni. Þessu hefur verið harðlega mótmælt af aðilum eins og Google og Amazon (og reyndar mörgum lögfræðingum og fræðimönnum) sem vilja fá hlutleysi netsins (network neutrality) staðfest með lögum. Reyndar var hlutleysi staðfest með lögum þar til fyrir skömmu þegar nettengingar, sem áður höfðu verið skilgreindar sem samskiptatækni, voru endurskilgreindar sem upplýsingaþjónusta. Í lok síðustu viku voru þingmenn þar vestra að samþykkja lög (COPE Act) um samskiptatækni og höfnuðu þeir kröfur um klausu í lögunum sem myndi tryggja hlutleysið.

Og þá býst ég við að sumir segja, uuuu... ha? Bandarísk lög tryggja nefnilega hlutleysi í samskiptatækni eins og t.d. síma. Þeir sem bjóða upp á símaþjónustu mega ekki takmarka aðgang að þjónustu annarra aðila. Þ.e.a.s. símafyrirtæki sem býður upp á upphringisímaskrá má ekki láta viðskiptavini sína borga meira fyrir að nota upphringisímaskrá annars aðila (þeir mega láta borga minna fyrir sína þjónustu en engin aukagjöld fyrir aðgang að þjónust annarra). En þetta gildir ekki um upplýsingaþjónustur. Reyndar var þetta allt saman orðið svolítið flókið þegar farið var að bjóða upp á netþjónustu eftir leiðum öðrum en gömlu símaleiðunum. Bandaríkjamenn byrjuðu t.d. snemma að bjóða upp á nettengingar í gegnum kapalkerfi. Kapalkerfið og allur sá iðnaður var flokkaður sem upplýsingaþjónusta en ekki samskiptatækni. Þannig að það voru mismunandi reglur eftir því hvort þú varst með ADSL eða kapal tengingu. Þvílík flækja!

Sumir hugsa kannski, og hvað með það? Þetta er nefnilega svolítið meira mál en virðist vera. Þetta er ekki bara spurning um að hafa jafn greiðan aðgang að bæði Google og Yahoo. Ef hlutleysi er ekki tryggt geta netþjónustuaðilar farið að ákveða hvernig samskipti fara fram og það eru reyndar dæmi um þetta. Þegar almenningi var farið að bjóðast þráðlaust net á heimilum voru netþjónustuaðilar ekki par ánægðir. Þeir ætluðu nefnilega að stórgræða á háhraðanettengingum í heimahús með því að skylda kúnna til að kaupa sértengingu fyrir hverja tölvu á heimilinu! En þráðlausi búnaðurinn gerði nánast hverjum sem var kleift að setja upp samnýtta tengingu á heimilinu. Sumir netþjónustuaðilar reyndu að halda því fram að þetta væri stuldur (sumir voru búnir að lauma klausu þess varðandi inn í þjónustusamninga sína, sem engin les) og hótuðu málsókn gegn þeim sem þetta gerðu. Svo voru "Vitual Private Network" (VPN) tengingarnar næsti höfuðverkurinn. Með VPN tengingum geta fyrirtæki leyft starfsfólki að tengjast neti fyrirtækisins hvaðan sem er úr heimi þannig að það virkar eins og þeir séu fyrir framan tölvu í vinnunni með aðgang að allri netþjónustu sem því fylgir. Einn netþjónustuaðili var svo ósáttur við þetta að hann lokaði fyrir öllum VPN samskiptum á sínu neti. Eiga netþjónustuaðilar að fá að stjórna þróun upplýsinga- og samskiptatækninnar með þessum hætti?

Í Evrópu er almennt litið svo á að tryggja eigi hlutleysi á netinu. Þetta var sett mjög skýrt fram í Bangemann skýrslunni um upplýsingasamfélagið í Evrópu sem var birt 1993. Mörg Evrópulönd hafa síðan staðfest þetta með lögum. Svo er spurningin hvernig þessu er háttað hér á Íslandi. Ég er búinn að renna í gegnum fjarskiptalögin en þessi "lagíska" er ansi snúinn. En mér sýnist þetta vera nokkuð skýrt í 28. og 30. mgr.

Er þá nokkuð sem við þurfum að hafa áhyggjur af? Vissulega. Það verður að viðurkennast að Bandaríkin eru mikilvægur markaður fyrir upplýsingatækni. Útbreiðsla nýrrar tækni og þjónustu getur ráðist af því hvernig gengur að innleiða nýjungarnar þar. En getum við nokkuð gert? Ósköp fátt held ég.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband