Android snjallúrið mitt er æði! En ég get ekki mælt með því fyrir aðra.

androidwearÉg á snjallúr. Mjög fínt Android Wear LG G Watch R, sem ég nota mikið og hefur haft töluverð áhrif á hvernig ég nýti mér upplýsingatækni almennt. Ég er oft spurður „Á ég að fá mér svona?” Því miður er svarið mitt í flestum tilvikum nei. Ástæðan er fyrst og fremst sú að ef viðkomandi veit ekki hvað það er að „róta” (e. root) símann sinn (og þar með ógilda ábyrgðina) og er smeykt við að krukka í kerfisskjölum þá er það að fá meingallaða vöru. Það er eiginlega eins og að kaupa íbúð á fullu verði en fá ekki lyklana að dyrunum - þú getur kíkt inn um gluggan en þú getur ekki gert neitt. Google (sem n.b. rekur fyrirtæki hér á landi) hefur nefnilega kosið að gera Google Now, sem er sú eining Android fartæknikerfisins sem framtíðarþróun þess byggist á, óvirkt á Íslandi. Án Google Now eru Android úrin lítið meira en dýrt skraut. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá að vita af hverju þetta er hef ég ekki fengið nein svör. Þar með talið eru m.a.s. samskipti sem ég átti við verkefnisstjóra Google Now hjá Google. Ég held að hún hafi ekki einu sinni áttað sig á því að Google Now væri óvirkt í sumum löndum.

googlenownotavailEn hvað er Google Now? Líklega eru margir Íslendingar sem þekkja þetta aðeins sem óvirkan valmöguleika í snjalltækjum sínum sem er „Not available in your country”. Google Now er gervigreindarbúnaðurinn í Android tækjum og af mörgum talinn töluvert betri en Siri, gervigreindin í snjalltækjum Apple. Google Now getur fylgst með staðsetningu notandans, hvað hann er að gera, hver áhugamál hans eru og fleira og fært honum upplýsingar eftir því. Til dæmis:

  • Google Now veit að ég fylgist með ákveðnum vefsvæðum þar sem fjallað er um framtíðarfræði og menntamál og lætur mig vita þegar nýtt efni birtist þar.
  • Google Now notar skynjara í snjalltækjum mínum til að átta sig á þegar ég er að ganga, hjóla eða stunda aðra hreyfingu og tekur upplýsingarnar saman til að ég viti hversu latur eða duglegur ég er búinn að vera.
  • Google Now veit hvar ég á heima og notar staðsetningu mína til að láta vita hversu löng heimferðin verður og hver sé besta leiðin eftir því hvaða ferðamáta ég nota.
  • Google Now les dagatalið mitt og veit hvenær og hvar ég þarf að vera mættur á fund og lætur mig vita í tæka tíð svo ég hafi tíma til að koma mér á staðinn.
  • Google Now veit af bókuðum flugferðum o.þ.h. og passar að ég sé vel undirbúinn þegar þar að kemur.

Þetta allt gerir Google Now án þess að ég gefi nokkrar skipanir þar um. Ég hef sett upp mínar upplýsingaþjónustur þannig að Google Now hefur aðgang að þeim og gervigreindarbúnaðurinn sér um afganginn. En Google Now býður líka upp á margt fleira. Til dæmis eru fjölmargar raddskipanir í Android kerfinu tengd Google Now. Íslendingar þekkja það vel að hægt er að framkvæma leit með raddskipunum og er það íslenska talhermi Google að þakka, sem er sagður vera fullkomnasti íslenski talhermir sem til er í dag. Með Google Now verða ýmsar raddskipanir virkar sem eru það ekki annars. Þá get ég til dæmis með röddinni einni:

  • Beðið snjalltækið um að minna mig á að gera eitthvað þegar ég er kominn á tiltekinn stað - t.d. að kaupa mjólk næst þegar ég er í matvörubúð eða að setja í þvottavél þegar ég kem heim.
  • Ræst tiltekið smáforrit í snjalltækinu.
  • Samið og sent smáskilaboð eða tölvupóst.
  • Hringt í einhvern úr símaskránni.
  • Fengið eða látið þýða einstaka orð eða frasa á ótal tungumál.
  • Fengið lausn á stærðfræði dæmi.
  • Látið spila tónlist sem ég vil úr eigin safni eða smáforriti eins og Spotify.
  • … og margt fleira.

En ef Google Now er ekki virkt þá er flest af þessu ekki í boði.

Snjallúrið er sítengt símanum og með hljóðinntak til að taka á móti raddskipunum og skjá til að birta upplýsingar (og klukku auðvitað). Þannig get ég beðið úrið um að segja mér hvernig ég segi „ég hjólaði út í búð” á dönsku eða hvað (55*372)/3 er (svarið er 6820) án þess að þurfa að taka upp símann. En allt þetta get ég bara út af því að ég er hæfilega mikill nörd að ég treysti mér til að hakka símann minn. Hefði ég ekki verið búinn að ganga úr skugga um að ég gæti hakkað símann til að virkja Google Now hefði ég aldrei keypt mér Android snjallúr. Það skal viðurkennast að Google Now þegar það er virkt hér á Íslandi gerir ekki nærri jafn margt og það gerir í Bandaríkjunum en nóg að mínu mati til að réttlæta vesenið sem það kostar.


uridnavMér finnst ægilega gaman að sýna kennurum hvað ég get gert með úrinu mínu - spyrja það spurninga, gefa því skipanir, láta það þýða fyrir mig og svo framvegis. Flestir verða mjög hissa því þeir hafa ekki áttað sig á þessum möguleikum snjallúranna og gera sér því litla grein fyrir því hvað það hefur að segja að nemendur allt niður í grunnskóla eru byrjuð að mæta með slík tæki í skóla (ég hef heyrt um fjölmörg dæmi þess). En því miður þá er þessi tækni enn óaðgengileg fyrir flesta íslenska notendur. Og það sem er verst er að margir átta sig ekki á þessu fyrr en þeir eru búnir að spreða á tækjakaupin. Google er nefnilega ekki að láta vita að notkun þessarar tækni er mjög takmörkuð í löndum eins og Ísland þar sem lokað er á Google Now. Það er meira að segja þannig að notendur Android hér á landi (alla vega þeir sem eru með Lollipop stýrikerfið 5.*) eru sífellt hvattir til að virkja Google Now til að fá alla frábæru fítusana. Þegar þeir reyna að gera það kemur í ljós að það er ekki hægt - en þeir fá samt áfram ábendingarnar um hversu mikilvægt er að virkja það.

Að lokum skora ég á þá aðila hér á landi sem selja Android vörur að upplýsa okkur neytendur um það af hverju einn helsti kerfishluti Androids er gerður óvirkur og hvenær megi vænta þess að það breytist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband