15.9.2016 | 11:49
Helvítis snjalltækin að gera út af við íslenskuna!
Á forsíðu Fréttablaðsins í dag birtist stórfrétt undir yfirskriftinni "Snjalltækjabörn líklega seinni til máls".
OMG! Beint inn í Faraday búr með þessi litlu grey!
Eða hvað Það er margt undarlegt í þessari umræðu þegar nánar er skoðað.
Fyrst er það þessi furðufyrirsögn á forsíðu blaðsins. Það er ekkert í grein Fréttablaðsins né öðru sem er vísað í sem styður þessa fullyrðingu sem þar birtist. Haft er eftir Eiríki Rögnvaldssyni að það sé tilfinning margra:
"að áhrif snjalltækja og tækni séu mikil á máltökuna en engar rannsóknir séu til um það."
Með öðrum orðum, mörgum finnst eins og það sé orsakasamband þarna á milli en við vitum ekkert með vissu, hvað þá að við vitum nokkuð um líkurnar að svo sé.
Svo segir á bls. 10 í blaðinu og í netútgáfu greinarinnar:
"Aukin notkun snjalltækja hefur hættur í för með sér fyrir íslenskuna. Annars vegar er hætta á að snjalltækjavæðingin dragi úr mállegum samskiptum barna og fullorðinna
Svona hefst grein Sigríðar Sigurjónsdóttur, prófessors í íslensku, um snjalltækjavæðingu og máltöku íslenskra barna sem birtist í vefritinu Hugrás."
Svona hefst grein Sigríðar reyndar ekki, heldur hefst hún svona:
"Aukin notkun snjalltækja er að ýmsu leyti jákvæð en hún hefur einnig hættur í för með sér fyrir íslenskuna."
Best að taka allt jákvætt út. Hér á greinilega að gera snjalltækin að óvini #1.
Það er ekki bara þessi grein í Fréttablaðinu sem er athugaverð heldur er líka margt einkennilegt í grein Sigríðar sem er vísað í. í raun er svo margt að ég veit ekki alveg hvar skal byrja:
- Er Sigríður að tala um snjalltæki eða netnotkun? Þetta er mjög óljóst á köflum.
- Er vandamálið að notendur sækja í efni á ensku eða að þeir hafa ekki kost á að fá efnið á íslensku?
- Eru snjalltæki eina ógnin eða ættum við að hafa erlent sjónvarp, aukna ferðamennsku, samfélagsbreytingar og annað sem hefur áhrif á málaumhverfi íslenskra barna í dag með í þessari umræðu?
- Skiptir máli til hvers er verið að nota snjalltæki/net eða fer þetta bara allt undir einn hatt?
Svo er það þessi stórkostlega mynd sem fylgir greininni hennar Sigríðar sem hún lýsir svo:
"Myndin hér að neðan segir meira en mörg orð. Foreldrarnir eru báðir með hugann við spjaldtölvuna og barnið liggur afskiptalaust á milli þeirra. Við þessar aðstæður fara engin málleg samskipti fram."
Þessi uppstillta mynd segir mér hins vegar ekkert - ekki einu sinni eitt orð, hvað þá mörg.
Fyrir það fyrsta spyr ég, væri betra ef þessir foreldrar væru með bækur í höndunum frekar en spjaldtölvur? Hitt er að við vitum ekkert hvað þessir foreldrar eru að gera. Kannski eru þau að lesa leikrit fyrir barnið og skipta með sér hlutverkum. Kannski eru þau að lesa um gagnlegar hreyfingaæfingar fyrir barnið. Kannski eru þau að lesa nýju ritreglurnar til að tryggja að þau kenni barninu rétt þegar þar að kemur.
Það er hægt að gera ótal margt með snjalltækjum sumt gott, sumt slæmt, sumt líklega á gráu svæði þar á milli. Það er óþarfi að gera þau að sökudólgi í þessari umræðu þegar er af nógu öðru að taka.
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkar: Tölvur og tækni, Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Tryggvi. Og sumir eru sagðir vera að íhuga formanninn? Ég myndi frekar fara í Jóga-íhugun, heldur en að íhuga aðra manneskju.
Sumir eru væntanlega að íhuga formanns-framboð og formanns-stöðu, en ekki að íhuga formanninn?
Er nema von að sumir ruglist í frétta-ríminu?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 15.9.2016 kl. 17:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.