Samfélagsmiðlar og kvíði: orsakasamband eða fylgni?

The-Joy-of-Social-MediaÁ vef visir.is í dag blasir við þessi fyrirsögn í stóru letri: Mikil notkun samfélagsmiðla gerir ungar stúlkur þunglyndar. Það væri óskandi að við myndum geta neglt niður hvað það er sem veldur þunglyndi stúlkna en það er ekkert um þessa rannsókn sem bendir til þess að það hafi verið gert. Hér virðist blaðamaður búa til orsakasamband, það er að eitt leiði til annars, úr fylgni, það er að tvennt á sér stað við svipaðar aðstæður. Um leið afskræmir blaðamaður vísindalegar niðurstöður þessarar gagnlegu rannsóknar.

Í greininni kemur fram að það mælist fylgni milli kvíða stúlkna og notkun þeirra á samfélagsmiðlum. Fylgni er ekki það sama og orsakasamband og það er langt stökk þarna á milli. Það er mjög erfitt að sýna fram á orsakatengsl í félagsvísindum. Til þess að sýna örugglega fram á orsakasamband þarf að útiloka allar breytur sem gætu mögulega haft villandi áhrif á niðurstöður. Í félagsvísindum erum við að díla við fólk í margþættu og flóknu félagslegu samhengi. Það er nánast útilokað að við getum einangrað tilteknar breytur til að sýna fram á orsakasamband.

Þar sem niðurstöður þessarar rannsóknar virðast sýna fylgni en ekki orsakasamband þá getum við ekki verið viss hvort tilfellið sé að mikil notkun samfélagsmiðla sé orsök eða afleiðing kvíða ungra stúlkna. Það gæti jafnvel verið að eitthvað annað sem ekki hefur greinst í rannsókninni hafi þarna áhrif.

Það verður að teljast mjög óábyrgt af fjölmiðli að birta frétt sem afskræmir staðreyndirnar svona svakalega. Samfélagsmiðlar eru að mörgu leyti mjög gagnlegir í persónulegu lífi fólks, starfsþróun og námi og mikilvægi þeirra á öllum þessum sviðum eykst stöðugt. Svona villandi fréttamennska getur orðið til þess að við fórnum öllu þessu góða og gagnlega á röngum forsendum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband