19.9.2017 | 15:01
Erum við að nota tækni í skólum til að "stækka sjálfið"?
RÚV birti nýlega áhugaverðan pistil Karls Ólafs Hallbjörnssonar um tækni og hvað tækni segir um okkur mennina undir yfirskriftinni Endalok tækninnar og eilíft líf. Ég veit ekki um þetta með endalok tækninnar eða eilíft líf, sem mér finnst Karl Ólafur ekki koma mikið inn á, en pistillinn vakti mig samt til umhugsunar. Sérstaklega finnst mér áhugaverður parturinn þar sem Karl Ólafur fjallar um tækni og stækkun sjálfsins. Þetta minnir mig á orð ekki minni manns en sjálfan Martin Luther King Jr., sem sagði eitt sinn (mín þýðing);
Öll verk sem efla mannkynið hafa sæmd og eru mikilvæg og ættu að vera framkvæmd af vandvirkni.
Ég lít á tækni sem eitt verk okkar mannana og les út úr orðum Kings tvennt. Annars vegar að okkur ber að fara varlega í tækniþróun og gæta þess að hún sé til þess gerð að þjóna þörfum manna. En líka, og það er hér sem ég tel mig sjá samsvörun við pistil Karls Ólafs, að velheppnuð tækni er góð því hún gerir okkur að betri og meiri mönnum. Hún eflir okkur með því að gera okkur kleift að gera meira og gera betur.
Ég hef fylgst með því í ekki minna en tvo áratugi hvernig tækni er notuð í skólastarfi og áhrifunum sem hún hefur þar á. Á þessum tíma hefur orðið til tækni sem gerir okkur kleift að vinna verk sem hefðu talist nánast óhugsandi áður fyrr. En áhrif þessara tækninýjunga á skólastarf hefur ekki verið í takt við breytingarnar sem hafa orðið. Ég velti fyrir mér núna hvort þetta sé vegna þess að við nýtum ekki tæknina til að stækka sjálfið, svo ég noti orð Karls Ólafs. Heldur er hún notuð til að styðja við þá kennsluhætti og skólastarf sem er fyrir. Með öðrum orðum, lögum við tæknina að skólastarfinu eða lögum við skólastarfið að tækninni? Og hvort ætti frekar að gera?
Ef það er rétt sem Karl Ólafur og Martin Luther King Jr. segja, þá ættum við í dag að gera mun meiri kröfur til nemenda en áður hefur verið gert vegna tækniþróunnarinna sem hefur átt sér stað. Tæknin einfaldlega gerir okkur kleift að gera svo mikið meira en við gátum áður. Við getum t.d. notið góðrar bókar án þess að kunna að lesa, við getum gert flókna útreikninga án þess að kunna stærðfræðina á bak við þær, við getum lesið franska miðla án þess að kunna stakt orð í frönsku. Það er sennilega ekkert því til fyrirstöðu að nemandi í þriðja bekk geti reiknað virðisaukaskatt útfrá uppgefnu verði án skattsins með hugbúnaði eins og Excel. Nemandinn veit kannski ekki alveg hvað hugbúnaðurinn er að gera á bak við tjöldin, en hann er að framkvæma mjög praktíska aðgerð sem má auðveldlega tengja við hans raunheim og sem sýnir hlutverk stærðfræðinnar í daglegu lífi.
Erum við að gera svona í skólum?
Eigum við að gera svona í skólum?
Erum við að skapa næg tækifæri fyrir nemendur okkar til að stækka sjálfið sitt?
Meginflokkur: Menntun og skóli | Aukaflokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 19:36 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.