Eins og flís við rass: um snjalltæki, samfélagsmiðla og skóla

samfo_i_skola... ungt fólk finnur það sjálft að samskiptatækni þeirra passar við nám eins og flís við rass.

Nýlega birti Sigurður Ólafsson, formaður fræðslunefndar Fjarðabyggðar, grein á Austurfrett.is um ákvörðun Fjarðarbyggðar "að banna börnum að nota sín eigin snjalltæki á skólatíma." Greinin rataði inn á Facebook hóp kennara og annarra sem koma að menntun og fræðslumálum og hefur vakið töluverða umræðu og margt áhugavert í henni.

Fyrir mitt leyti er sérstaklega tvennt sem er athugavert við þessa ákvörðun fræðslunefnarinnar. Í fyrsta lagi, ef fyrrnefnd grein lýsir rétt þá leið sem var farin til að taka þessa ákvörðun, þá virðist hún byggð að miklu leyti á alhæfingum og mýtum um tæknilegan veruleika ungs fólks í dag. Birtur er langur listi af veilum sem eiga að herja á ungu fólki og allri sök skellt á snjalltækin. Lítið virðist hafa verið gert til að komast að því hvað valdi öllum þessum kvillum, heldur hafa viðkomandi gefið sér að snjalltækin bera þar mestu sök - á öllu. Í öðru lagi, og nátengt því fyrra, er að það lítur út fyrir að gengið hafi verið út frá því að banna ætti snjalltæki og rökum safnað til að styðja þá ákvörðun frekar en að safna fyrst gögnum og taka upplýsta ákvörðun á grundvelli þeirra. Sigurður birtir langan lista af rökum sem mæla gegn notkun nemenda á eigin snjalltækjum í skólum en engin rök sem mæla með þeim. Og það er ekki að sjá í greininni að það hafi verið kafað djúpt eftir rökum sem mæla með notkun snjalltækja nemenda í skólum.

Sökin er ekki alfarið fræðslunefndar Fjarðabyggðar. Vandinn er að við höfum afskaplega lítið kannað snjalltækjanotkun íslenskra ungmenna og áhrif hennar á daglegt líf þeirra. Jú, við höfum einhverja yfirborðskennda tölfræði um, t.d. skjátíma (en ekki hvað skjátímanum er varið í), hvaða samfélagsmiðla er verið að nota (en ekki til hvers er verið að nota þá), hversu mikinn tíma það eyðir "á netinu" (er með tilkomu snjalltækni hægt að segja að við séum einhverntíma ekki á netinu?), og fleira. Þetta segir okkur ýmislegt um hvaða tækni ungt fólk notar en lítið sem ekkert um til hvers það notar hana og hvernig notkunin mótar félagslegan veruleika þess.

En sem betur fer erum við Íslendingar ekki einir í heiminum og ungt fólk okkar er ekki ósvipað ungu fólki annarsstaðar og því hægt að nota gögn annarsstaðar frá til viðmiðunar (sem ætti þó ekki að koma í veg fyrir að við rannsökum eigið umhverfi - en við notum það sem við höfum í bili). Í Bandaríkjunum hefur verið fylgst kerfisbundið með notkun fólks á upplýsingatækni, þar með talið ungt fólk, í næstum 20 ár í "Internet & American Life" verkefninu sem leitt er af Pew Research Center. Eitt sem kom mjög snemma á óvart í gögnum Pew var hvað ungt fólk notar tækni mikið til að sinna skólavinnu, afla sér nýrrar þekkingar og hæfni og vinna úr misflóknum upplýsingum. Til þess nota þau þá miðla sem eru mest áberandi í þeirra tæknilega veruleika hverju sinni, t.d. YouTube, Instagram og ýmis samskiptaforrit á borð við Whatsapp. Raunin virðist vera að ungt fólk finnur það sjálft að tækni þeirra passar við nám eins og flís við rass. Ef aðeins er horft til hvaða tækni er verið að nota en ekki hvernig það notar hana þá getur þessi staðreynd auðveldlega farið framhjá fólki.

Þar sem mér finnst vanta ýmislegt í rökin sem Sigurður listar upp í grein sinni ætla ég að fara í gegnum um þau og setja aðeins betur í samhengi eins og ég sé það:

1. "Samfélagsmiðlar eru ótrúlegustu auglýsinga- og áróðursmaskínur sem mannkynið hefur fundið upp. Barn sem opnar símann sinn í hverjum frímínútum sér sennilega hundruð eða jafnvel þúsundir sérsniðinna auglýsinga á degi hverjum.í [sic] hvert skipti sem barnið notar samfélagsmiðla fá svokölluð algrím (algorythm) [sic] nýjar upplýsingar sem svo sérsníða skilaboð til viðkomandi enn nákvæmar til að auka líkur á breyttri hugsun og hegðun. Við vitum ekkert hverjir borga samfélagsmiðlunum fyrir að hafa áhrif á börnin okkar, en ljóst er að þetta er afar öflug leið til að selja bæði hugmyndir og vörur."

Þetta er sennilega rétt en þá bara vegna þess að viðkomandi kann ekki að stjórna því hvaða upplýsingum er miðlað til auglýsenda eða hvernig á að koma í veg fyrir birtingu auglýsinga. Rétt er að allar okkar ferðir um netheima skilja eftir einhver fótspor. Hins vegar hefur aukin umræða um persónuupplýsingar leitt af sér leiðir, tæki og tól til að stjórna því hversu stórt fótsporið er og hvað er hægt að lesa út úr því. Því minna sem auglýsendur vita um netverja, þeim mun færri eru möguleikarnir til að sérsníða auglýsingar. Það eru líka leiðir til að koma í veg fyrir birtingu auglýsinga. T.d. eru til viðbætur fyrir vefrápara sem koma í veg fyrir birtingu auglýsinga, en það er líka hægt að stoppa þær í samskiptarásinni, nánar tiltekið með stillingum á netbeinum (ef þú getur komið í veg fyrir að nemendur komist á samfélagsmiðla á skólaneti (eins og Sigurður nefnir í greininni) þá geturðu komið í veg fyrir að auglýsingar fari um skólanetið). Til þess að geta betur stjórnað því hvaða efni er miðlað til notenda og hvaða gögnum er safnað um þá þarf fólk að læra að umgangast tæknina. Er skólinn ekki tilvalinn staður til að kenna það?

2. "Samfélagsmiðlar eru hannaðir til að vera ávanabindandi í því skyni að hámarka tímann sem fólk eyðir í notkun þeirra."

Hér er aftur, eins og í #1, talað um netnotendur eins og þau séu stjórnlaus tuskudýr í höndum stjórnenda samfélagsmiðla. Í fyrsta lagi, vissulega er hægt að koma í veg fyrir að fólk ánetjist einhvers með því að takmarka aðgengi að skaðvaldanum, en ef aðgengi er samt til staðar, eins og er raunin hvort sem snjalltæki eru bönnuð í skólum eða ekki (t.d. með földum tækjum eða utan skóla), þá kemur það ekki í veg fyrir að þeir sem eru í hættu falli í gildruna. Í öðru lagi, hugsunin sem liggur að baki hér virðist ekki taka tillit til þess að, af einhverjum ástæðum, verða sumir háðir en aðrir ekki - jafnvel þeir sem eru með sömu tæki og sama aðgengi að samfélagsmiðlum. Það er því alls ekki gefið (og í raun hæpið) að vandinn sé bundinn við tækni heldur er eitthvað annað sem ýtir undir að sumir ánetjast samfélagsmiðla meðan aðrir gera það ekki.

#2 myndi ég flokka undir "teachable moments", það er tækifæri til náms, og mætti því alveg nota til að færa rök með notkun eigin tækja nemenda í skólum - það er að þeir læri að umgangast samfélagsmiðla og tækni á ábyrgan hátt í gegnum skólastarfið. Það er margt sem mælir með þessari leið ekki síst að það verður ætlast til þess af þeim sem eru í skólum okkar í dag að þeir tileinki sér þessa miðla og tækni í störfum og borgaralegu lífi í framtíðinni.

3. "Samfélagsmiðlar bjóða upp á endalausan og óraunhæfan samanburð við aðra."

Það að fólk er ólíkt býður upp á samanburð við aðra - samfélagsmiðlar auðvelda bara aðgang að öðru fólki. Samfélagsmiðlar eru svolítið sér á báti í þessu samhengi út af því að við getum skapað það ídentitet sem við kjósum á samfélagsmiðlum, sem þarf ekki að vera í samræmi við raunveruleikann. Það er þetta sem getur leitt til þess að samanburðurinn verður óraunhæfur. En þetta er ekki nýr vandi. Við höfum séð miðla notaða til að skapa óraunhæfa mynd af fólki eins lengi og þeir hafa verið til. T.d. þekkjum við öll Gunnar á Hlíðarenda sem "hljóp meir en hæð sína með öllum herklæðum og eigi skemmra aftur en fram fyrir sig." Það er ekki lítið lagt á þá sem vilja sanna karlmennsku sína...

Ungt fólk er, eins og hefur alltaf verið, upptekið af því að uppgötva sig sjálft og skilgreina sig sjálft innan félagslegs veruleika þess. Í dag eru samfélagsmiðlar stór partur af þessum félagslega veruleika og því mikilvægur vettvangur sem tengist þessu ferli.

Eins og með #2 sé ég í þessu annað "teachable moment". Það hafa verið gerðar mjög áhugaverðar rannsóknir á tengslum milli mótunnar sjálfsmyndar og samskipta á samfélagsmiðlum sem mætti nýta í kennslu og víðar til að takast á við þetta.

4. "Samfélagsmiðlar gefa nýja möguleika á einelti, áreitni og andlegu ofbeldi sem getur verið mun auðveldara að dylja en annað einelti."

Ef ætlunin er að leggja einhvern í einelti verða allar tiltækar aðferðir notaðar til að reyna að dylja það. Eigum við að hjálpa gerendum með því að gera félagslegan vettvang þeirra ósýnilegan í skólaumhverfinu? Ég næ ekki hugsuninni sem liggur hér að baki. Þetta er eins og að byggja vegg á skólalóðinni til að gera einelti ósýnilegt. Vandinn er eineltið ekki hvar eða hvernig það fer fram.

5. "Sum börn eiga foreldra sem hafa efni á að kaupa handa þeim nýjustu og flottustu snjallsímana á 170.000 kr. Önnur börn eiga foreldra sem hafa kannski bara efni á gömlum og lélegum síma. Símar eru stöðutákn og undirstrika með mjög augljósum hætti misskiptingu og ólíka félagslega stöðu."

Þessi rök heyrast oft. Það eru til rannsóknir sem þykja sýna að ungt fólk er ekki eins upptekið af þessu og sumir vilja meina. Þó eru væntanlega sumir, sérstaklega á unglingastigi og ofar, sem eru meira "brand conscious" en aðrir. Ef þetta er virkilega vandamál má leita leiða til að koma til móts við þá sem hafa ekki aðgang að nægilega góðri tækni. T.d. að biðja foreldra eða aðra í samfélaginu að gefa síma sem þeir eru að skipta út til skólanna. "Where there's a will, there's a way."

6. "Snjallsímarnir veita óheftan aðgang að endalausu magni kláms og annars óþverra, hvar og hvenær sem er. Maður þarf að vera ansi bláeygur til að ímynda sér að allir nemendur hafi sjálfsstjórn og þroska til að láta slíkt eiga sig á skólatíma."

Hér virðast rökin byggja á hugsuninni að ef ég sé það ekki þá er það ekki að gerast. Snjallsímabann í skólum tekur ekki á þessum vanda með nokkrum hætti. Það bara útilokar hann úr skólaumhverfinu (svo lengi sem þú gefur þér að nemendurnir eru ekki með tæki sem þú veist ekki af). Hér er líklega enn eitt "teachable moment" fyrir þá sem þora...

7. "Andlegri heilsu barna og ungmenna virðist hraka ógnvænlega. [...] Langstærsta breytingin á daglegu lífi barna og unglinga síðustu árin er þessi sítenging við netið og samfélagsmiðla og það verður að teljast líklegt að þarna sé um orsakasamhengi að ræða, þótt erfitt sé að fullyrða um slíkt."

"Langstærsta breytingin á daglegu lífi barna og unglinga" er samt ekki eina eða endilega stærsta breytingin í umhverfi þeirra. T.d. hefur það aukist töluvert að ungt fólk sé yfirleitt greint. Samfélagsbreytingar spila eflaust inn í málið að einhverju leyti - örari breytingar (sem hafa margar ekkert með tækni að gera) geta verið streituvaldar. Það er meiri streita í skólaumhverfinu - próf og fleira. Ójafnar breytingar valda togstreitu - t.d. þegar skólar breytast ekki í takt við breytingar í félagslega umhverfinu. Svo mætti lengi telja. Að skella allri skuldinni á snjalltæki ungs fólks er bara leit að skyndilausn sem nægir til að sýna aðgerðir en er ólíklegt til að taka á vandanum.

Stefnumótun og breytingar
Til að setja það sem hér um ræðir í fræðilegt samhengi þá held ég að þetta sé gott dæmi um það sem Donald Schön kallaði kvika afturhaldssemi (dynamic conservatism). Með þessu hugtaki vildi Schön vekja athygli á það að afturhaldssemi felur sjaldnast í sér aðgerðarleysi, heldur fara stofnanir í aðgerðir, stundum allmiklar, sem eru til þess gerðar að viðhalda ríkjandi ástand. Schön þróaði þessa pælingu frekar í samstarfi við Chris Argyris og varð hún að kenningunni, sem er nokkuð vel þekkt, um einslykkju lærdóm (single-loop learning) og tvílykkja lærdóm (double-loop learning) innan stofnana. Stofnun sem nærist á einslykkju lærdómi leitar gjarnan skýringa á áskorunum utan stofnunarinnar, þ.e. að til að takast á við áskorunina þarf að leysa einhvern vanda utan stofnunarinnar frekar en að breyta stofnuninni. Tvílykkju lærdómur felur í sér að stofnunin leitar leiða til að gera breytingar hjá sér til að takast á við áskoranir hvaðan sem þær koma.

Snjalltæki og tækniþróun öll hefur áhrif á nám, menntakerfi og samfélög, og sífellt örari breytingum, sem tengjast tækniþróun, fylgir töluverðar áskoranir fyrir skóla og aðrar samfélagslegar stofnanir. Í aðgerðum eins og þeim sem fræðslunefnd Fjarðabyggðar er að ráðast í má greina ákveðna þreytu - að áskoranirnar (ekki bara tæknilegar) virðast það íþengjandi að stefnumótendur og stjórnendur leita leiða til að takast á við þær á sem einfaldasta hátt. Snjalltæki nemenda eru auðveld skotmörk - þau hafa verið mikið til umræðu, þau eru mjög sýnileg og þau eru vandamál sem kemur að utan sem er hægt að leysa með einu pennastriki (eða allavega láta líta þannig út). Ennfremur, og kannski það sem mestu skiptir, erum við látin halda að verið sé að taka á krítískum málum, ekki bara varðandi snjalltækin, heldur líka einelti, andlega vanlíðan, samfélagsmiðlafíkn, klám og fleira sem Sigurður telur upp í rökum sínum. En raunin er að það er ekki verið að taka á neinu af þessu með þessum aðgerðum.

Skólar þurfa að taka tillit til þess, og byggja á því, að snjalltæki og samfélagsmiðlar eru núþegar stór partur af félagslegum veruleika ungs fólks (eins og annarra). Að láta eins og þessi veruleiki sé ekki til og miðla ekki inn í hann eykur líkur á því að námsumhverfið fjarlægist félagslega umhverfinu og tilfærsluleiðir upplýsinga og gagnlegrar þekkingar þar á milli rofna. Í huga nemenda getur námið þá virst tilgangslaust þar sem það vísar ekki til raunveruleika þeirra eins og þeir upplifa hann. Þetta höfum við fengið að heyra frá sjálfu unga fólkinu eins og í grein Ásgríms Hermannssonar fyrir mörgum árum, sem þá var ármaður skólafélags MS (ég finn ekki þessa merku grein á netinu lengur en ég varðveitti allavega skjáskot af henni í þessum glærum). Þar segir Ásgrímur nákvæmlega þetta, að hann upplifði skólann sem félagslegan veruleika sem var utan við og óskyldur veruleikanum eins og hann upplifði hann og þess vegna fannst honum að skólinn hafi "drepið metnað sinn". Ætlum við að skila unga fólki nútímans út í samfélagið með sömu reynslusögu?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband