14.8.2006 | 18:46
Fáránleg einkaleyfi í hugbúnaðargeiranum
Það er búið að vera afar rólegt hér á tækinu allt of lengi. En svo gerist alltaf eitthvað sem böggar mann til að blogga. Nú eru það einkaréttamálin, en þau hafa verið mikið rædd í tengslum við netið og hugbúnað í langan tíma. Nægir að nefna dæmi eins og SCO vs. Linux, tilraunir British Telecom til að rukka vegna einkaleyfis á veftenglum og tilraunir Eolas til að eigna sér réttinn á hvers kyns viðbótum við vefrápara. Nú hefur enn eitt fáránlega einkaréttamálið bæst við því Blackboard sem framleiðir og selur hugbúnað til menntastofnana, t.d. WebCT og Blackboard, hafa fengið einkaleyfi út á ýmsar "uppfinningar" varðandi hugbúnað til notkunnar í menntastarfi. En málið er að hugbúnaðurinn sem Blackboard selur er bara samansafn af hugbúnaði og aðferðum sem hafa verið til lengi og notuð í menntastarfi og ýmsu öðru starfi. Á vefnum -No Education Patents- er að finna upplýsingar um þetta mál, m.a. þýðingu á einkaleyfinu á hvers-dags ensku. En stóra spurningin í þessum málum er, við hvern er að sakast - eru það fyrirtækin sem sækja um og fá þessi innihaldslausu og staðhæfulausu einkaleyfi (auðvitað eiga þeir einhverja sök), eða eru það einkaleyfastofurnar sem samþykkja þennan hálfvitaskap? Það er ljóst að það þarf að fara að endurskoða einkaleyfamálin í ljósi breyttra aðstæðna, en þó það verði gert (og það er víða verið að gera það), hvað verður um þessi gömlu leyfi? Á bara að ógilda fjölda einkaleyfa á einu bretti? Og ef þessir aðilar sem sjá um að gefa út einkaleyfi hafa ekki tíma til að ganga úr skugga um að einkaleyfi eigi rétt á sér, hafa þeir þá tíma til að fara oní saumanna á þessum geigvænlega fjölda einkaleyfa sem hafa verið gefinn út á undanförnum áratugum?
Flokkur: Tölvur og tækni | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.