Alþjóðavæðing háskólastigsins á Íslandi

Ég var á Málþingi Menntamálaráðuneytisins "Háskólastig á tímamótum" á föstudaginn, 8. sept. Þar voru helstu umræðuefni nýútkomin skýrsla OECD um háskólastigið á Íslandi og nýju háskólalögin. Skýrsla OECD er í megindráttum jákvæð. Auðvitað má alltaf eitthvað laga og bæta og voru það helst gæðamálin og samræming og formfesting ýmissa þátta í samskiptum yfirvalda og háskóla sem höfundar vöktu athygli á.

Í opnunarræðu Þorgerðar Katrínar, Menntamálaráðherra, talaði hún um eflingu háskólastigsins á Íslandi á undanförnum árum sem viðbrögð við aukna hnattvæðingu í heiminum. Því fannst mér undarlegt að hlaupið skyldi yfir alþjóðavæðingu háskólastigsins í kynningu á OECD skýrslunni þó svo að einn kafli fjalli sérstaklega um þetta efni. Í raun var nánast ekkert minnst á alþjóðavæðingu háskólastigsins fyrr en Kristín Ingólfsdóttir tók til máls í upphafi pallborðsumræðu að lokinni kynningu á OECD skýrslunni og nýju háskólalögunum.

Í skýrslunni fara höfundar mjög lofsamlegum orðum um alþjóðavæðingu háskólastigsins á Íslandi. Þeir nefna sérstaklega hátt hlutfall stúdenta sem fara erlendis í nám, og að margir þeirra skuli skila sér aftur til landsins. Þeir hrífast líka mikið af Lánasjóði Íslenskra Námsmanna og hlutverki hans í að auðvelda nemendur að sækja nám erlendis. Af einhverjum ástæðum virðast skýrsluhöfundar ekki sjá ástæðu til að gera mikið úr þeirri staðreynd að þetta á frekar við um stúdenta í framhaldsnámi en í grunnnámi þar sem möguleikar til láns vegna náms erlendis eru mjög takmarkaðir.

Það sem mig langar sérstaklega til að tala um er þetta hvernig við metum hversu alþjóðavætt háskólastigið á Íslandi er orðið. Í flestum greinargerðum um alþjóðavæðingu háskólastigsins, og á þetta við um OECD skýrsluna líka, er gert mikið úr ferðum stúdenta og háskólakennara erlendis og birtingu kennara í erlendum tímaritum. En er þetta marktækur mælikvarði á alþjóðavæðingu?

Árið 1999 birti Bengt Nilsson grein þar sem hann fjallaði um "alþjóðavæðingu heima fyrir" (e. internationalisation at home). Í greininni sagði hann frá verkefni sem hann stóð fyrir í Háskólanum í Malmö sem hafði það að markmiði að auka þátttöku innflytjenda í Malmö í háskólanum, sem þá voru um 60% íbúa í borginni, og um leið að skapa alþjóðlegt umhverfi fyrir alla stúdenta í háskólanum. Rökin voru þau að þótt 10% af stúdentum í skólanum fóru einhvern tíma í nám erlendis þýddi það að enn voru um 90% sem ekki gerðu það. Hugmynd Bengts var þá að það væri hægt að nýta bæði fjölþjóðlegt umhverfið í borginni og reynslu þeirra stúdenta og kennara sem tóku þátt í stúdenta- og kennaraskiptum til að skapa alþjóðlegt háskólasamfélag. Greinin vakti gífurlega athygli og er "alþjóðavæðing heima fyrir" líklega eitt umræddasta hugtak á ráðstefnum og í fræðiritum um alþjóðavæðingu menntunar víða um heim um þessar mundir.

Í dag er almennt litið svo á að alþjóðavæðing feli í sér tvennt. Annars vegar er "menntun yfir landamæri" (e. education across borders/cross-border education), t.d. nemenda- og kennaraskipti, flutningur þekkingar fram og tilbaka milli landa, o.s.frv., og hins vegar er "alþjóðavæðing heimafyrir". Í fréttabréfi OECD verkefnisins "Institutional Management in Higher Education" frá Mars 2004 er þetta sett nákvæmlega svona fram. Þessi tvíþætta skilgreining á alþjóðavæðingu menntunar er líka nokkuð útbreidd, innan OECD sem og annarsstaðar, ef miðað er við fjölda þeirra titla sem hafa verið gefnir út á undanförnum árum sem nefna sérstaklega annan hvorn eða báða þessa þætti. En í skýrslu OECD um háskólastigið á Íslandi er hugtakið "alþjóðavæðing háskólastigsins" ekki sérstaklega skilgreint og snýst umfjöllunin um alþjóðavæðingu nær eingöngu um "menntun yfir landamæri", sem er í algjörri andstöðu við umræðuna um alþjóðavæðingu í dag. Sem slík, er umfjöllunin mjög jákvæð og vissulega getum við íslendingar verið hreykin af okkar háskólasamfélagi fyrir það hversu vel meðvituð við erum um það sem er að gerast á alþjóðlegum vettvangi. Einnig hefur það mikið að segja að frá Íslandi fara hlutfallslega margir stúdentar í nám erlendis og að háskólakennarar eru langflestir menntaðir erlendis. Þetta skilar sér í margvíslegum tengslum við alþjóðlegt samfélag og tilfærslu þekkingar til og frá Íslandi. Hins vegar er það staðreyndin að langflestir íslenskir stúdentar, sérstaklega ef taldir eru með þeir sem eru í grunnnámi og þeir sem eru í framhaldsnámi, fara ekki í nám erlendis. Ennfremur, er hæpið að líta svo á að það að íslenskir stúdentar skuli læra af kennurum sem hafa hlotið sína menntun erlendis komi í staðinn fyrir samneiti við erlenda kennara og skólafélaga í akademísku umhverfi. Því þó svo að kennarar hljóti sína menntun erlendis og komi heim til að kenna eru þeir samt sem áður íslendingar að miðla þekkingu til íslenskra stúdenta í íslensku samfélagi. Stúdentarnir þurfa að mjög takmörkuðu leiti að vinna sjálfir úr menningarlegum hindrunum.

Meginmarkmiðið með "alþjóðavæðingu heima fyrir" er að auka fjölmenningarlega hæfni stúdenta. Er þá átt við hæfni til að geta tekið þátt í uppbyggilegum samskiptum við fólk af ólíkum menningarlegum toga. í þessu felst ekki bara tungumálakunnátta heldur líka að einstaklingar beri virðingu fyrir ólíkri menningu og hafi hæfni til að taka á móti, miðla og skapa þekkingu í fjölmenningarlegu umhverfi. Þetta er mikilvægur þáttur í alþjóðavæðingu því þótt við leyfum okkur að tala um "tilfærslu þekkingar", einfaldar hugtakið mjög það ferli sem felst í slíkri tilfærslu. Þekking er ekki eitthvað sem við tökum upp úr vasanum og sýnum öðrum. Hún er bundinn við flókið menningarlegt samhengi sem mótast af þjóðarmenningu, svæðismenningu og jafnvel einstaklingsmenningu. Tilfærsla þekkingar er í raun ekkert annað en miðlun upplýsinga og það fellur í hlut þeirra sem taka á móti upplýsingunum að skapa úr þeim þekkingu. Þegar þessi miðlun á sér stað á milli ólíkra menningarheima verður fjölmenningarleg hæfni mjög mikilvæg. Gregory Bateson skilgreind upplýsingar sem "a difference that makes a difference" og það er fjölmenningarleg hæfni okkar sem gerir okkur kleift að greina það sem skiptir máli í fjölmenningarlegum samskiptum.

Ferðir tiltekins hóps stúdenta og kennara erlendis er mjög takmarkaður mælikvarði á alþjóðavæðingu. Slíkar tölur sýna einfaldlega ekki hversu vel undirbúnir stúdentar okkar eru til að takast á við þau verkefni sem bíða þeirra í hnattvæddu þekkingarsamfélagi. Nær væri að skoða hversu oft stúdentar hafa bein samskipti við erlenda stúdenta og kennara. T.d. hve stór hluti íslenskra stúdenta tekur að minnsta kosti eitt námskeið sem kennt er af erlendum kennara, hversu marga erlenda stúdenta íslenskur stúdent situr námskeið með, hversu oft íslenskir stúdentar þurfa að leysa verkefni með erlendum stúdentum, o.s.frv..

Ég held að íslenskir háskólar séu svolítið á eftir háskólum í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við í þessum efnum. T.d. í stefnu margra háskóla á norðurlöndum í dag eru að finna sérstök ákvæði um "alþjóðavæðingu heima fyrir". Ennfremur eru háskólar þar byrjaðir að skilgreina fjölmenningarlega hæfni sem ein af grundvallar hæfniskröfum sem gerðar verða til stúdenta sem hyggjast útskrifast úr skólunum. Það getur vel verið að hægt sé að benda á ýmis dæmi hér á landi um að háskólar séu að þróast í þessa átt. En við bara hreinlega vitum það ekki því gögnum um þessa hlið alþjóðavæðingar er ekki safnað. Það sem vantar nú er að báðar hliðar alþjóðavæðingar verði formfest í stefnu yfirvalda og háskóla og að nýstúdentar geri sér fyllilega grein fyrir kröfum um fjölmenningarlega hæfni og átti sig á hvers vegna þetta er mikilvægt (þetta er spurning um "glocalization" - leyfi mér bara að vísa í almenna skilgreiningu á því hér - kannski meira um það seinna). Þetta er auðvitað draumastaða og eflaust einhverjir sem myndu halda því fram að þetta sé óraunhæf krafa. En það er spurning hvort smæð okkar sé ekki styrkur í þessu sambandi?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband