Möguleikar tölvutækninnar í framtíðinni

Í síðustu færslu sagði ég frá því að Lögmál Moores geti hindrað þróun tölvutækninnar. En hvernig sem það er virðist samt margt áhugavert vera í gangi. BBC News (ótrúlegt hvað þeir eru oft með góðar greinar um tölvur og tækni!) er með grein um framtíð tölvutækninnar. Þar segir frá 6 mismunandi tegundum af tölvutækni sem verið er að rannsaka og/eða þróa í dag.

1. Skammtatölvur - Byggja á lögmálum skammtafræðinnar. Athyglisverðast við þessar er að þær eru ekki bundnar við hefðbundna tvígildisrökfræði sem tölvur nota í dag. Gildi í tölvum í dag er annaðhvort 0 eða 1 (bits) - ekkert þar á milli. Í skammtatölvum getur þetta gildi verið 0, 1 eða bæði í einu (qubits). Það eru engar tölvur til í dag sem byggja sannanlega á skammtafræði (Kanadískt fyrirtæki D-Wave hefur haldið því fram að þeir væru komnir með skammtatölvu en ekki hefur verið hægt að staðfesta það).

2. Ljóstölvur - Þetta eru tölvur sem nota ljósleiðara í rásir frekar en rafboð sem eru notuð í dag. Þessi aðferð notar töluvert minni orku en nútíma tölvur. Tæknin er enn of dýr til að vera raunhæf.

3. Snúningstölvur - Gáttir nota snúning einda til að varðveita gildi frekar en rafboð um gildi 0 eða 1. Eindir geta snúist upp eða niður. Snúningur þessi getur verið látinn samsvara gildunum sem notuð eru í dag, 0 eða 1. Aðferðin er mun orkuvænni en nútíma aðferðir. Hægt væri að láta tölvurnar vinna mun hraðar en nútíma tölvur (ein helsta hindrun við nútíma tölvur er hvað þær þurfa mikla orku og þ.a.l. framleiða mikinn hita). Ýmsir hafa sýnt tækni sem byggir á snúningi einda og þykir þessi tækni geta orðið næsta stóra þróunarstökk í framleiðslu tölva.

4. Efnafræðilegar tölvur - Nota efnahvörf í stað rafrása. Helsti kosturinn við þessa tækni er að tölvur geta haft sveigjanlega lögun og að jafnvel verði hægt að skipta einni tölvu í tvennt þannig að til verði tvær fullvirkar tölvur. Reyndu bara að saga nútíma ferðatölvuna þína í tvennt og sjáðu hvað gerist...

5. Genatölvur - Þetta er svakalega áhugavert. Þetta eru tölvur sem nota gen í stað kísilflaga og rafrása. Þær þykja ekki líklegar til að koma í staðinn fyrir nútíma tölvur, en þær bjóða upp á mjög skemmtilega möguleika sem sérhæfðar örtölvur. Tölvurnar geta orðið agnarsmáar þannig að hægt væri að koma fyrir triljón eintök í einum míkrólítra af vökva. Til að sýna möguleika slíkra tölva sýndu vísindamenn eina slíka sem hægt var að senda inn í mannslíkama þar sem hún gat greint krabbamein og losað sérhæfð lyf við því.

6. Plasttölvur - Nútíma tölvur nota kísilflögur og ansi mikið af þeim. Gallinn við þetta er að kísilflögur eru dýrar og framleiðsla sem notar þær krefst mikillar nákvæmni (sumir vilja meina að helsti sparnaður sem felst í smækkun örgjörva er að rándýru kísilflögurnar nýtast betur - þróun og framleiðsla smærri rása er í raun dýrari). Plasttölvur eru margfalt ódýrari og auðveldari í framleiðslu - hægt er einfaldlega að prenta þær. En plasttölvur eru mun hægvirkari en kísiltölvur og því er búist við að þær nýtast bara í afmörkuð sérhæfð tilfelli.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband