Harvard styður opið aðgengi að vísindalegri þekkingu

Það virðist vera eiga sér stað nokkuð áhugaverð þróun í vísindalegum útgáfumálum í þá átt að auðvelda aðgengi og dreifingu niðurstaðna vísinda. Útgáfa vísindalegra greina er mjög stór iðnaður og nokkuð arðbær fyrir útgefendur. Mörgum finnst svo komið að hátt verð og stífar reglur um höfundarétt hefti aðgengi að vísindalegum upplýsingum og útbreiðslu vísindalegrar þekkingar. Örfáir aðilar sem kosta vísindalegar rannsóknir hafa sett reglur um að niðurstöður styrktra verkefna skuli vera aðgengilegar öllum þeim að kostnaðarlausu. Má t.d. nefna PubMed gagnagrunn Heilbrigðisvísindastofnunnar Bandaríkjanna og aðgerðir Vísindanefndar Evrópu. Nú er Harvard háskólinn í Bandaríkjunum að bætast í þennan vaxandi hóp vísindastofnanna sem styðja opið aðgengi að vísindalegum upplýsingum.

Þetta er mjög áhugaverð þróun og sérstaklega áhugaverð umræða sem er að skapast í kringum hana. Þetta er nefnilega ekki eins einfalt og það virðist við fyrstu sýn. Það sem skiptir mestu máli fyrir vísindaleg skrif, sem útgefendur tímarita hafa sinnt, er jafningjarýni þar sem jafningjar greinarhöfunda leggja mat á vísindalegt gildi og vægi greina. Sumir telja að hætt sé að útgefendur einfaldlega hafni greinum sem fylgja kvaðir um opið aðgengi og þar með missa höfundar af ritrýninni. Svo er líka deilt um það hvort veita eigi opið aðgengi að greinum sem hafa verið ritrýndar en ekki endanlega prófarkalesnar, s.k. pre-press greinar. En þá fylgja spurningar um hvernig eigi að vísa í slíkar greinar. En það er ljóst að margir vísindamenn og stofnanir hafa fengið nóg af útgefendunum og ætla sér að endurheimta eignarhald á sínum þekkingarafurðum. Það hlýtur að vera nokkuð veglegur liðsauki í því að fá jafn virtan og sterkan bakhjarl sem Harvard í þessa baráttu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband