Ekki gleyma þróunarmarkmiðum

Það er ánægjulegt að sjá að verið er að hvetja íslenskt atvinnulíf til aukinnar þátttöku í þróunarsamstarfi um leið og tekið er upp samstarf við fleiri lönd. En ég hef enn áhyggjur af því hvernig þetta er framkvæmt e.o. ég lýsti hér og hér. Það eru ýmsar spurningar sem vakna þegar farin er þessi leið í þróunarsamstarfi. T.d.:

  • Hvernig skilgreina menn "sjálfbærni" í þessu samhengi?
  • Hver eru markmiðin?
  • Hvernig á að meta árangur og hver ætlar að gera það?

"Sjálfbær þróun" er orðið flókið hugtak sem nær til margra ólíkra félagslegra og umhverfislegra þátta. Hugtakinu er oft fleygt um mjög hátíðlega og af mikilli sannfæringu en oft má greina að verið er að nota það í afmörkuðum skilningi, sem nær ekki til allra þessara þátta. T.d. er mjög þægilegt fyrir okkur íslendinga að nota þekkingu okkar í orkumálum í þróunarsamstarfi vegna þess að þá er alltaf hægt að beita "sjálfbærnis-" hugtakinu þar sem þau svið sem við höfum sérhæft okkur í eru í eðli sínu umhverfislega sjálfbær. En það er ekki þar með sagt að verkefni á þessu sviði nái til allra þátta sjálfbærs þróunar. Fyrir mér merkir "sjálfbær þróun" fyrst og fremst að verkefni stuðlar að því að þiggjendur aðstoðs öðlist færni og hæfni til að stuðla að bættum högum fólks á sínu svæði til framtíðar. Þ.a.l. eru félagslegir þættir, og sérstaklega sem tengjast menntun, í raun ofar öðrum þáttum. Besta leiðin til að móta framtíðina er með menntun og fræðslu. Þar að auki er spurning hvort þetta geti ekki jafnvel verið betri nýting á fjármagni eftir því hvernig farið er að.

Þá komum við að markmiðunum. Hver eru markmið einkafyrirtækja í þróunarlöndum? Eru þau tilbúin að taka tillit til allra þátta sjálfbærar þróunar sem ég nefni fyrir ofan? Það er ekki að sjá að allir þessir þættir hafi verið efstir í huga OR (nú REI) þegar þeir tryggðu sér verkefni í Djíbútí, sem upphaflega var kynnt sem þróunarverkefni. Það er hætt við að útrásarmarkmið skyggi á þróunarmarkmið.

Að lokum er það matið. Ef við ætlum að fara að telja fram útrás íslenskra fyrirtækja til framlags til þróunar verður að meta árangur þessara verkefna. Þetta er ekki bara formsatriði en er nauðsynlegt til að stuðla að því að verkefni eru í samræmi við stefnu yfirvalda og að þekking sem skapast nýtist annarsstaðar. Er öruggt að hægt verði að framkvæma hlutlaust mat á þessum verkefnum? Hver á þá að meta þau? Og hvaða þætti á að meta og hvernig? T.d. segjum svo að íslenskt orkufyrirtæki fær það verkefni að virkja svæði og byggja orkuveitu í þróunarlandi. Markmið fyrirtækisins er þá einfaldlega að sjá til þess að orka verði aðgengileg heimafólki. En orka er ekki þróunarmarkmið út af fyrir sig. Þróunarmarkmiðið er að bæta hag heimafólks. Það er hægt að ímynda sér ýmsar aðstæður þar sem markmið orkufyrirtækisins nást en ekki þróunarmarkmið, t.d. ef orkan er of dýr eða dreifingarkerfi ábótavant þá gagnast hún aðeins tilteknum hluta þjóðar og þá má draga í efa að þróunarmarkmið hafi náðst.

Það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga og ástæða til að fara ekki of geyst í þessum málum.


mbl.is Alþjóðleg samvinna á sviði sjálfbærrar þróunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Morten Lange

Mjög þarft að velta þessu upp.

Hver verður tenging UNIFEM við atvinnuvegi og fyrirtæki á sviðum "þar sem staða Íslands er sterk, svo sem í sjávarútvegs- og orkumálum" ( tilvitnun í mbl-greinina )  ?

Morten Lange, 27.3.2008 kl. 18:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband