Evrópuþingið - Netaðgangur grundvallar mannréttindi?

BBC segir frá áhugaverðum viðbrögðum Evrópuþingsins við nýútgefinni skýrslu um aðgerðir vegna brota á höfundarréttarlögum. M.a. er fjallað í skýrslunni um þann möguleika, sem hefur verið til umræðu undanfarið, að þeir sem miðla, eða stuðla að miðlun, höfundarréttarvarins efnis á netinu verði sviptir aðgengi að því. Evrópuþingið gerði athugasemd við þetta og lét bæta við skýrsluna að aðildarríki,
... avoid adopting measures conflicting with civil liberties and human rights and with the principles of proportionality, effectiveness and dissuasiveness, such as the interruption of internet access.
Það má skilja orð Evrópuþingsins svo að aðgengi að netinu þyki sjálfsögð grundvallar mannréttindi sem ekki megi takmarka. Þ.e.a.s. að allir eiga að hafa óheftann aðgang að netinu en ekki að upplýsingatækni er mikilvægur miðill í tengslum við önnur mannréttindi, sem er oftar fjallað um (sjá t.d. hér) - mikilvægt að rugla þessu ekki saman. Það er kannski rétt að undirstrika að þessi orð Evrópuþingsins hafa ekkert lagalegt gildi en þau eru áhugaverð samt, sérstaklega í ljósi umræðu um að takmarka aðgengi brotamanna að netinu í Bretlandi og Frakklandi.

Þessi hugmynd, að aðgengi að upplýsingatækni verði skilgreind sem sjálfsögð mannréttindi, er ekki ný og nokkur lönd hafa þegar gert þetta, t.d. Eistland og Grikkland (sjá Google þýðingu hér). Það er þó greinilegt að grísku lögin myndu heimila aðgerðir sem gætu takmarkað aðgengi að netinu ef aðilar brjóta gegn höfundarréttarlögum - ég finn ekki núna eistnesku lögin.

Svipaðar pælingar voru líka settar fram í frægri skýrslu sem UNESCO gaf út 1980 titluð "Many voices, one world", oft kölluð "The Macbride Report". Sum aðildarlöndin voru mjög ósátt við þessa skýrslu og höfnuðu sérstaklega þeirri hugmynd að aðgengi að upplýsingatækni ætti að vera skilgreind sem mannréttindi og þ.a.l. ætti að tryggja aðgengi sem flestra - s.s. að alþjóðlegt samfélag og stofnanir e.o. UNESCO hefðu ábyrgð gagnvart þjóðum heims að stuðla að útbreiðslu upplýsingatækni. Bandaríkin voru í forsvari fyrir þennan hóp sem sagði þetta vera ósamræmanlegt við þeirra skoðun um að útbreiðsla upplýsingatækni ætti að vera í höndum markaðsafla. Þetta endaði allt í háa lofti með úrsögn Bandaríkjanna, Bretlands og nokkurra smærri ríkja úr UNESCO (flest ef ekki öll hafa gengið aftur í UNESCO síðan en fyrir Bandaríkin tók það ca. 20 ár). Síðari stjórnir UNESCO höfnuðu líka hugmyndirnar sem settar voru fram í skýrslunni og var hún því ófáanleg í langan tíma. Hún hefur hins vegar fengið þó nokkra athygli á síðustu árum með breyttu hugarfari um aðgengi að upplýsingum og upplýsingatækni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband